Að komast í gang


Skuggahverfið reynir að fela sig í þokunni. Canon EOS 5D Mark II, EF 35mm f/1.4L

Það er ekkert spaug að komast í gang eftir gott jólafrí. Og hvað þá eftir jólafrí sem kemur í kjölfarið á svona hausti. Samt gerðist eiginlega ekkert. Það urðu engar náttúruhamfarir, kjarnorkuslys eða heimstyrjaldir.

Fólkið sem stýrir fjármagni heimsins missti trúna. Hætti að kaupa blekkinguna sem það skapaði að mestu leyti sjálft. Það var allt og sumt.

En nóg um það. Ég var búinn að lofa sjálfum mér að skrifa ekki um ástandið og kreppuna. Fjandakornið nóg af því annars staðar!

Ég hef verið frekar latur undanfarin misseri við að uppfæra hér. Og þegar ég lít um öxl sé ég að ég hef verið enn latari við að pósta nördapóstum, svona dóta- og hugbúnaðarpóstum. Það stendur sem sagt til að bæta úr því á næstunni.

Ég er að undirbúa ný námskeið sem ættu að rúlla af stað í febrúar. Byrjendanámskeið fyrir alla þá sem hafa keypt sér vél “sem tekur svo góðar myndir” – en hafa kannski komist að því að góð myndavél er aðeins fyrsta skrefið. Svo verður líka uppfært Adobe Photoshop Lightroom námskeið fyrir þá sem eru komnir lengra og vilja ná tökum á myndvinnslunni og umsýslun stafrænna mynda. Það er stefnan að setja fyrir ljósmyndaverkefni í tengslum við námskeiðin og leyfa þátttakendum að prófa búnað (vélar, linsur og prentara) sem þeir hafa áhuga á að skoða nánar.


Ari Carl klár í slaginn eftir jólaklippinguna hjá Stjúra. Canon EOS 5D Mark II, EF 35mm f/1.4L

Það er annars mikið búið að gerast í hinum stafræna ljósmyndaheimi undanfarið. Risarnir Canon og Nikon hafa kynnt til leiks mjög spennandi vélar og nýja Sony Alpha 900 kemur mjög sterk inn, enda á góðu verði. Það hafa ennfremur komið uppfærslur á lykilhugbúnaði eins og Adobe Photoshop CS4.

Ég er mjög sáttur við nýju fimmuna og hef notað hana nánast eingöngu síðan ég fékk hana í byrjun des. Það tók mig hins vegar lengri tíma að taka nýju sjoppuna í sátt. Fyrst þegar ég byrjaði að nota CS4 í haust var ég ekki sáttur. Það er í fyrsta skipti sem uppfærsla á Photoshop pirrar mig frekar en að gleðja. Shit… er maður kannski bara orðinn gamall og þröngsýnn? Nei, þegar menn fokka í flýtilyklum sem hafa verið eins frá upphafi verður maður nett pirraður. Adobe segir þetta gert til þess að samstilla Creative Suite pakkann enn betur og svo spilar arfleifð Macromedia eitthvað inn í. Gott og vel. Þetta lagast með tímanum. Ég farinn að nota CS4 meira og meira, en sökum vandræða með prentrekla og fleira held ég CS3 inni líka. Canon er ekki að standa sig alveg nógu vel í gerð prentrekla fyrir Mac. Ég hélt nú að Epson væru slæmir, en maður lifandi! Þeir eru eins og dýrðlingar við hlið Canon. En það er nú efni í annan póst…

2 thoughts

  1. Þú mátt senda á mig pósti þegar námskeið í lightroom byrjar hjá þér. Búinn að bíða lengi eftir því.

    Og gleðilegt nýtt ár gamli

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *