Leitin að fullkomnu töskunni


Ég veit ekki hvað ég hef átt margar ljósmyndatöskur. Þær skipta tugum. Litlar og stórar, axlartöskur, bakpokar, axlartöskur með fartölvuhólfi, bakpokar með fartölvuhólfi – nefndu hana og ég hef líkast til keypt hana! Og það fyndna er að oftast dett ég aftur niður á að nota gömlu Billingham töskuna sem ég keypti í Beco fyrir meira en 15 árum.

Fyrir nokkrum dögum tók ég aðeins til í hrúgunni hér á vinnstofunni og ákvað að selja þær töskur sem væri öruggt að ég notaði ekki meira. Þar á meðal voru tvær stórar: LowePro Stealth Reporter D650AW og Tamrac Cyperpack 8. Báðar töskurnar taka mikið af dóti, tvö hús, slatta af linsum, flass og fartölvu. Hljómar vel í fyrstu, en er eiginlega ávísun á vandræði. Taskan verður allt of þung. Svo þegar svona snillingar eins og ég ákveða að fara úr 15″ MacBook í 17″ MacBook (stútaði 15″ vélinni rétt fyrir jól – efni í annan póst) þá erum við að tala um aaaaaallt of þung!

Í kjölfarið á brunaútsölunni keypti ég svo enn einn pokann um daginn, LowePro Vertex 200AW. Ég var að leita að poka sem tæki tvö hús – ás og fimmu, stóra 70-200mm linsu 3-4 aðrar linsur, flass, pocketwizard’s, ljósmæli og allt smádótið. Pokinn er mjög solid og böndin traust, sérstaklega mittisstrap-ið (eiginlega of massað – tekur fáranlega mikið pláss). Hann getur tekið 15″ fartölvu, get meira að segja troðið 17″ vélinni í hann ef mér er illa við hana. Þessi poki er hugsaður í þeim tilfellum sem ég þarf að vera með mikið með mér og þarf að bera í lengri tíma. Þá er nauðsynlegt að vera með bakpoka til að hlífa bakinu. En hann er ekki eins þægilegur dags daglega og ég hafði vonað. Flottur í ferðalögin hins vegar.

Ég á annan poka sem er mun betri til daglegs brúks. Áður en ég fargaði 15″ MacBook vélinni var ég að nota LowePro FastPack 250 sem er að mörgu leyti frábær poki. Tekur ás eða fimmu með linsu á (svolítið þröngt um ásinn með RRS L-plötu, en sleppur), 2-3 gler í viðbót (þó ekkert lengra en 135mm), fartölvu upp við bakið og svo er sér hólf fyrir ofan myndavélahólfið fyrir hvað sem er. Það er hægt að troða 17″ MacBook vél í fartölvuhólfið en það þarf svolitla lagni til að ná henni út aftur. Þessi poki hentar betur með 15″ MacBook og mjög fínn ef maður vill vera með lágmarks kit með sér + fartölvuna (af hverju í ósköpunum var ég að flækja lífið?).

Ástæðan fyrir því að ég fór í 17″ MacBook er sú hún hefur sama afl og nýju 15″ vélarnar. Ég fékk hana á mun betra verði, enda nýja 17 tomman rétt ókomin. Ég setti 4GB vinnsluminni í hana og örgjörvinn er sá sami og í nýju 15″ vélunum. Skjárinn er mattur, stærri og með betri upplausn, Nýja 17″ vélin er náttúrulega flottust af þessu öllu. En það hefði þýtt a.m.k. 200 þúsund kall í viðbót sem mér finnst orðið fáranlegur prís fyrir fartölvu!

En nú er ég sem sagt kominn hringinn. Setti í Billingham-inn áðan: 1Ds Mark III með 50mm linsu, 5D Mark II hús án linsu, 35mm f/1.4L, 16-35mm f/2.8 L II, 85mm f/1.2L II, 70-200mm f/2.8 IS L, 580 EX flass, sekonic ljósmæli, pocketwizard’s, 2 minniskortaveski, linsupappír- og bursta, lítið maglite ljós, 5/32 hexkey og auðvitað auka rafhlöður. Taskan tekur ekki fartölvu (enda voru þær á stærð við einbýlishús þegar þessi taska var keypt) en ég er líka kominn á það að ef ég vill vera með tvö hús og 3-4 gler með mér þá verður taska með því + fartölvu of þung til að bera með sér alla daga.

Ég er Imelda Marcos ljósmyndataskanna.

12 thoughts

 1. Sæll félagi,
  Ég held að allir ljósmyndarar séu í þessum töskupælingum. Ekki ætla ég að telja upp allar mínar en ég er sammála með Billingham. Keypti eina fyrir um 15 árum og hún stendur ennþá fyrir sínu.
  Hins vegar er ég líka með:
  Lowepro Slingshot 300 (og reyndar 200 líka)
  http://products.lowepro.com/product/SlingShot-300-AW,2036,4.htm
  Lowepro Computrekker plus AW (sem ég fékk þegar ég var að ferðast sem mest fyrir bankann)
  http://products.lowepro.com/product/Rolling-CompuTrekker-Plus-AW,2023,17.htm
  Og svo nokkrar til.
  En ég vil mæla með einni sem ég nota einna mest. Hún heitir Think Tank Photo Urban Disguise 60
  http://products.lowepro.com/product/Rolling-CompuTrekker-Plus-AW,2023,17.htm
  Þessi er meiriháttar. Kemst 17″ Macbook pro í hana og fullt af vélum og linsum. Keypti hana frá USA. Kostar sitt en er hverra dollara virði.

  En ég þekki pælinguna að þurfa að kaupa tösku á mánaðarfresti. Þetta er eins og með skóna hjá konunum. Maður stundum bara verður að kaupa, og setja svo í geymsluna 🙂

 2. Vil bæta við að það er hægt að kaupa ól til að hafa á baki og fleira fyrir Tank Photo Urban Disguise 60.

  Um að gera að skoða bara.

 3. Ég var einmitt að skoða Think Tank um daginn eftir að hafa lesið review um nýja línu hjá þeim. Það er hins vegar hægara sagt en gert að versla af þeim. Merkilegt að BHPhoto skuli ekki selja fyrir þá. Hefði gaman af því að sjá þessa tösku hjá þér við tækifæri.

 4. Gaman að fá að fylgjast með pælingunum ykkar. Eigum við ekki að slá saman í töskusafn – með skemtilegum smásögum um hvað “töskurnar hafa upplífað um dagana”. Ég get svo sannarlega beitt í pukkið. Svo ef einhver vill gera gömlu töskurnar minar “hátt undir höfði” þá hafið endilega samband.

 5. Billi klikkar aldrei, fékk mér computrekker plus aw þegar ég fór út í haust og hef verið nokkuð sáttur, en hentar engan vegin í gönguferðir

  góður ljósmyndir (og karlmaður) á aldrei of mikið af töskum;)

  bestu kveðjur,

  Benni

 6. Ég keypti Think Tank frá ljósmyndaverslun í Svíþjóð. Lítið mál.
  Eins og áður sagði mæli ég eindregið með þeim. Sérstaklega að taka bakólina með, þá er þetta 5 stjörnu-taska.

 7. Chris, lítið mál að skoða hana. Hringdu í kallinn og við hittumst. Gsm: 896 9696.

 8. Gaman að svona töskusögum, er líka búinn að eiga nokkrar. En aldrei átt Billa, finnst að maður þurfi að vera enskur Lávarður eða eitthvað til að sóma sér með slíkan grip.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *