Fókusinn í lagi?


Ari Carl í Paradís. Canon EOS 5D Mark II, EF 35mm f/1.4L

Sumir vilja meina að fókusvandamál D-SLR myndavéla hafi verið að aukast. Ég held reyndar ekki að um aukningu sé að ræða. Það gefur auga leið að með hærri upplausn sjáum við myndirnar í meiri smáatriðum og því sjást bara allir gallar betur.

Sjálfvirkur fókus er samspil myndavélar og linsu. Sérhver framleiðandi hefur sína staðla varðandi frávik í nákvæmni tækjanna. Það er vel hugsanlegt að fá í hendurnar myndavél eða linsu sem hefur rétt sloppið í gegn, miðað við þessi frávik. Ef bæði vélin og linsan hafa verið á sitt hvorum pólnum, má vera að fókusplanið sé aðeins framar eða aftar en það á að vera.

Hér áður fyrr var lítið að hægt gera en að fara með dótið í viðgerð. Þá setti þjónustuaðilinn vél og linsu í sérhannað mælitæki til að kvarða fókusinn að nýju.

En nú hafa framleiðendur myndavélanna byrjað að setja fókus fínstillingar inn í hugbúnað myndvélanna þannig að notendurnir geta stillt hugsanlegt frávik sjálfir. Vélarnar sem ég þekki til að hafi slíkar stillingar eru: Canon 1D Mk III, 1Ds Mk III, 5D Mk II, 50D, Nikon D3, D3x, D300, D700, Sony A900 og Pentax K20.


Custom Functions til að fínstilla fókus í Canon EOS 1Ds Mark III.

En hvernig fer maður að því að kanna nákvæmni sjálfvirka fókusins?
Og ef við sjáum frávik, hvernig leiðréttum við það?

Það er orðinn til stór hliðarmarkaður fyrir stafrænar myndavélar með alls kyns hjálparbúnað. Það tók því ekki langan tíma fyrir markaðinn að koma með búnað sem er eingöngu ætlaður í það að ákvarða hvort sjálfvirki fókusinn sé réttur og aðstoða við leiðréttingar. LensAlign er örugglega fín græja, en mér finnst verðið nokkuð hátt.

Hér er önnur leið sem ég fann á Netinu um daginn.

Við byrjum á því að sækja þessa skrá og opnum hana svo á skjánum í 100% stækkun. Því næst setjum við myndavélina á þrífót og sjáum til þess að hún vísi alveg beint á skjáinn úr sömu hæð. Það er mjög mikilvægt að það sé engin skekkja. Fjarlægðin frá skjánum þarf að vera a.m.k. 50x lengri en brennivídd linsunnar sem við erum að prófa. Dæmi: 35mm linsa þarf að vera 35mm x 50 = 1750mm frá eða 1.75m. Ef við erum að prófa zoomlinsu notum við lengstu brennivíddina. Við veljum miðpunktinn á fókus sérstaklega og stillum á one-shot fókus (ekki eltifókus). Síðan stillum við linsuna handvirkt á óendanlegt og látum svo vélina um að stilla skarpt (setjum linsuna á óendanlegt og ræsum svo fókusinn þaðan). Því næst kveikjum við á Live view.


Greinilegur móri = nákvæmur fókus.

Ef fókusinn er í lagi á myndin að sýna mjög greinilegt móra mynstur líkt og við sjáum á myndinni hér að ofan. Prófaðu næst að sjá hvort þú getur fengið það enn sterkara fram, með því að stilla fókusinn handvirkt fram eða aftur. Ef það gerist er fókusinn ekki 100% nákvæmur. Ef hann er nokkuð langt frá birtist myndin svona í Live view.


Enginn móri = ónákvæmur fókus.

Það borgar sig að framkvæma þetta próf nokkrum sinnum. Ef nákvæmnin er ekki í lagi þarftu að finna út hvort vélin sé að fókusera fyrir framan eða fyrir aftan rétt fókusplan (front- eða backfocus). Þú snýrð fókushringnum til að fá örlítið styttri vegalengd – verður mynstrið greinilegra? Ef svo er þá eru um bakfókus að ræða. Ef mynstrið er minna sýnilegt er um framfókus að ræða.

Svo er bara að prófa sig áfram með að setja inn gildi í Custom Functions og endurtaka prófið til að sjá hvort úkoman sé betri.

Ég gerði þetta próf á Canon EOS 1Ds Mark III og 5D Mark II á öllum helstu linsunum mínum. Mér til ánægju var fókusinn í góðu lagi. Það kom mér svo sem ekki á óvart, því ég hafði ekki orðið var við fókusvandamál. Vissulega hef ég tekið myndir þar sem fókusinn er ekki á réttum stað! En ég var nokkuð viss um að orsökina væri að finna hjá trommuheilanum, sjálfum mér.

8 thoughts

  1. Það er í sjálfu sér hægt að athuga fókusnákvæmnina þó að vélin hafi ekki Live View eða þessar fínstillingar innbyggðar í hugbúnaðinn. Þá tekur þú bara mynd í stað þess að nota Live View.

  2. Sniðugt þetta! Vesalings internetið er orðið hokið af spjallborðaröfli um þessi mál, ágætt að geta skverað þetta DIY

  3. Flott grein hjá þér!
    Þetta er aðeins ódýrari aðferð en að fara með græjurnar til þjónustuaðila 😉
    Takk fyrir upplýsingarnar!

  4. …Bíddu, varst það ekki þú Chris sem messaðir yfir mér svo dögum skipti um það hversu mikið fókus er ofmetinn? 😉

  5. Ég er að spá í að vera með og prófa þetta á litla G9 krúttið mitt, veit reyndar ekki hvort ég geti leiðrétt eins og hægt er að gera í þessum tilteknu tryllitækjum…en get þó séð hversu nákvæm hún er. Þessi vél er annars sniðugasta leikfang/atvinnutæki sem ég hef átt…fyrir utan makkan minn auðvitað 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *