Rakadrægur og skuldlaus


Ekkert helv… myntkörfulán. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 50mm f/1.2L

Alltaf hressandi þegar maður þarf að skafa bílrúðuna að innan… Annars er ég alveg skíðahress eftir vel heppnaða Akureyrarferð. Við náðum fimm dögum á skíðum. Hlíðarfjallið sveik ekki, frábært skíðasvæði fyrir fjölskyldufólk.

Ari Carl náði mun betri tökum á sportinu, enda er þarna forláta töfrateppislyfta fyrir púka eins og hann. Að vísu finnst honum skíðaiðkunin bara mátulega spennandi. Sonur minn er meira svona innitýpa. En hann kemst ekki upp með neitt múður.


Ari Carl skíðakappi. Canon EOS 5D Mark II, EF 24-70mm f/2.8L

Þrátt fyrir töluverðan fjölda í fjallinu (sérstaklega um helgina) þá var aldrei mikil biðröð í lyfturnar. Fólk dreifist vel um svæðið svo það er ekki stappað í brekkunum heldur. Það er til fyrirmyndar hversu mikið af starfsfólki er til aðstoðar við lyfturnar og góð upplýsingagjöf um kallkerfi. Akureyringar kunna greinilega að reka skíðasvæði. Ég held að ÍTR gæti lært svolítið af þeim í Hlíðarfjalli.

Verst finnst mér hversu lítið eftirlit er í brekkunum í Bláfjöllum. Svæðið þar er takmarkaðra og því oft ansi þröngt í brekkunum. Það skapast hætta þegar bæði skíða- og brettafólk rennir sér allt of hratt miðað við aðstæður. Ég hef nokkrum sinnum lent í því með börnin mín.

Ég skrifaði þeim í Bláfjöllum tölvupóst varðandi þetta og fékk svar um að þeir ætluðu að skoða málið. Ég hef þó ekki orðið var við eftirlit í sjálfum brekkunum, hvorki fyrr né síðar. Erlendis er fólki umsvifalaust vikið af svæðinu ef það sýnir dómgreindarleysi í brekkunum.

En hættum nú í nöldurhorninu. Það viðrar vel í dag.. og því líklegt að maður skelli sér í aftur í fjöllin!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *