Myndir ársins og nýjar TS-E frá Canon

Myndir ársins 2008 opnar í­ Gerðarsafni í­ dag kl. 15.00. Vert er að taka það fram að frítt er á sýninguna eins og áður. Hún er alltaf vel sótt, Golli sagði mér í gær að hún væri árlega mest sótta sýning Gerðarsafns. Það kemur ekki á óvart. Þessi ljósmyndasýning er baksýnisspegill þjóðarinnar.

Um að gera að skella sér og mingla við kollegana. Reyndar er frekar vonlaust að skoða sýninguna vel í dag út af mannfjöldanum. Fyrir mitt leyti kemur það ekki að sök. Ég prentaði sýninguna og er því líkast til búinn að skoða hana manna best.


Háskólatorg. Canon EOS 1Ds Mark III, TS-E 24mm f/3.5L

Ég er farinn að verða spenntur fyrir komu nýju Tilt/shift linsanna fá Canon. Sjálfur á ég 24mm og 90mm TS-E sem ég nota mikið. 90mm linsan er skörp og fín, en 24mm linsan mætti vera skarpari, sérstaklega út í hornin. Ég var búinn að spá því að Canon myndi uppfæra víðustu TS-E linsuna, en átti ekki von á því að þeir kæmu með nýja enn víðari.


Sléttuvegur. Canon EOS 1Ds Mark III, TS-E 24mm f/3.5L

Ég reikna fastlega með að uppfæra 24mm TS-E linsuna mína, en er ekki viss um að ég tími að splæsa í þessa 17mm. Það er ekki bara óhagstætt gengi sem spilar inn í þá ákvörðun.

Persónulega finnst mér þessar ultra-víðu linsur ekki eins skemmtilegar. Ég á 16-35mm f/2.8L II sem ég nota m.a. í interior arkitektúr. Mér leiðist hins vegar þegar ég þarf að nota hana mikið á víðasta endanum. Bjögunin er svo svakaleg að ég upplifi mig sem argasta lygalaup þegar myndir af 20fm rými eru farnar líta út eins og 100fm salakynni! Hins vegar veit ég svo sem um hús sem hægt væri að gera mjög skemmtilega hluti með svona 17mm TS-E. Þannig að maður á aldrei að segja aldrei.

Annars ég bara góður. Bísnessinn er nokkuð þéttur, þrátt fyrir allt. Maður kvartar ekki á meðan.

5 thoughts

  1. Skemmtilegar myndaseríur, hvernig er það samt… nærðu svona lítilli bjögun með TS linsunum eða krefjast myndirnar leiðréttingar eftirá? Ég hef mikinn áhuga á arkítektúr en lendi oft í því að bjögunin er að trufla mig, og með víðustu myndirnar er alveg ótrúlega erfitt að stilla þær af þannig að maður verði sáttur.

  2. Takk fyrir hólið Daníel. Ég skoðaði Flickr síðuna þína og hrósa þér sömuleiðis fyrir margar fínar myndir…

    Með því að nota shift get ég haldið lóðréttum línum réttum og losna við að hús fari að ‘detta aftur fyrir sig’ ef svo má að orði komast. Hins vegar er líka tunnubjögun bæði í 24mm TS-E og nóg af henni í 16-35mm sem ég leiðrétti líka eftir á.

  3. Já, 17mm er ansi vítt. En getur komið sér vel í interior, minna í exterior. Ég er mjög mikill 24mm maður… En hvað segir Benni? Ertu kominn heim frá tökunum í Skandinavíu?

  4. já gekk ljómandi vel. Alltaf gaman að breyta um umhverfi. Verð á hverfisgötunni á morgun og droppa við með flassið

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *