Fyrsta útilega sumarsins

Tjaldað í Skorradal. ©2009 Christopher Lund.
Tjaldað í Skorradal. ©2009 Christopher Lund.

Eins og til stóð byrjuðum við á því að fara í Skorradalinn. Ég kom fyrst við að Indriðastöðum. Mér leist nú ekki of vel á það tjaldstæði, frekar berangurslegt. Það er frítt fyrir handhafa útilegukortsins, en þar sem ég hafði ekki fjárfest í því ákvaðum við að skoða frekar tjaldstæðið við Selsskóga, eftir ábendingu þeirra á Indriðastöðum.

Það var allt annað, kjarri vaxið og huggulegt. Þar var enginn þegar við komum um eitt leytið á miðvikudeginum. Við veltum því fyrir okkur hvort tjaldstæðið væri hreinlega lokað, en svo reyndist nú ekki vera. Aðstaðan er fín þarna, óvenju glæsileg snyrting og sturta, allt flísalagt í hólf og gólf!

Eftir að hafa grillað fínan lax í kvöldmat fórum við svo í kvöldgöngu í yndilslegu veðri. Þar smellti ég vélinni á þrífót og tók þessa fínu mynd af mér með krakkana.

Stolltur pabbi með púkana sína. ©2009 Christopher Lund.
Stolltur pabbi með púkana sína. ©2009 Christopher Lund.

Á fimmtudeginum fórum við til Borgarnes í sund og á Landnámssetrið á eftir. Splæstum þar í hádegismat og skoðuðum Egilssýninguna. Það er óhætt að mæla með Landnámssetrinu. Sýningarnar eru skemmtilega uppsettar með iPod-hljóðleiðsögn sem leiðir gestina áfram. Það er gert ráð fyrir því að börn skoði sýningarnar og við Ari hlustuðum því saman á barnaútgáfuna á meðan systurnar fengu almenna leiðsögn í sín heyrartól. Veitingarstaðurinn við setrið er líka mjög góður, þar er hægt að fá almennilegan mat í staðinn fyrir brasaða draslið í vegasjoppunni. Kostar ekki svo mikið meira og krakkarnir voru ánægð með matinn.

Skógarbörn í Skorrdal. ©2009 Christopher Lund.
Skógarbörn í Skorrdal. ©2009 Christopher Lund.

Við fórum svo í bíltúr meðfram Skorradalsvatni norðan megin og gönguferð um skógræktarsvæðið. Það er frábært að komast í alvöru skóg, finna ilminn af náttúrunni og skjólið frá trjánum. Ari Carl skoppaði um og las fyrir okkur heiti trjánna af skiltum sem Skógræktin hefur sett upp víða.

Með kveldnu fór að rigna og þá tóku púkarnir í spil. Ari Carl er gríðarlegur keppnismaður í Ólsen og kann illa við að fá engar áttur. Samsæriskenningarnar eru fljótar að koma ef svo illa vill til að hann fær enga áttu strax í upphafi leiks. Þegar hann nælir í slík gersemi finnst honum afar skemmtilegt að breyta eins og sést á þessari mynd.

Ólsen í fortjaldinu. ©2009 Christopher Lund.
Ólsen í fortjaldinu. ©2009 Christopher Lund.

Á föstudeginum héldum við okkar áætlun og tókum niður tjaldvagninn til að halda vestur í Hítardal. Það er skottúr frá Skorradalnum krökkunum til mikillar gleði. Við smelltum vagninum upp við ána á fallegri flöt.

Tjaldað í Hítardal. ©2009 Christopher Lund.
Tjaldað í Hítardal. ©2009 Christopher Lund.

Þarna er ekki rekið eiginlegt tjaldstæði og frekar frumleg salernisaðstaða við hesthús. Hægt er að tjalda á nokkuð stóru svæði og fyrir voru þrjú fellihýsi á flöt upp við hlíð. Við fórum svo upp að vatninu til að veiða, en afi Mats hafði gefið krökkunum litla veiðistöng sem mikil spenna var að prófa.

Bjargey við Hítarvatn. ©2009 Christopher Lund.
Bjargey við Hítarvatn. ©2009 Christopher Lund.

Veiðiferðin varð hins vegar frekar stutt. Í fyrsta kasti festi ég spúninn í grjóti í botninum og ekki nokkur lífsins leið að losa helvítið. Endaði með því að girnið slitnaði. Við vorum ekki með maðk og þrátt fyrir að grafa í jarðveginn fyrir ofan vatnið fannst enginn ormur. Við fórum því fljótlega tilbaka að ánni og krakkarnir æfðu sig að kasta með flotholti í staðinn.

Ari kastar við Hítará. ©2009 Christopher Lund.
Ari kastar við Hítará. ©2009 Christopher Lund.

Þegar líða tók á daginn fjölgaði nokkuð í dalnum og um það leyti sem ég var að koma krökkunum í svefnpokana komu hóparnir af felli- og hjólhýsum og umkringdu okkur á fína grasbalanum “okkar”. Morguninn eftir var töluvert þrengra á þingi, en það kom svo sem ekki að sök. Krakkarnir voru reyndar svolítið hneyksluð á manninum sem lagði bílnum þétt upp við hliðina á vagninum okkar.

Frá Hítardal. ©2009 Christopher Lund.
Frá Hítardal. ©2009 Christopher Lund.

Það ringdi hressilega aðfararnótt laugardagsins og veðurspáin gekk ekki alveg eftir, en samkvæmt henni átti að vera svo gott sem heiðskírt. Ég ákvað því að fara úr á Snæfellsnes með krakkana. Hítardalurinn er geysi fallegur og nóg af tröllum í hrauninu eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Þarna er Tröllkarl á ferð með bakpoka og Tröllskessan með höfuðfat gengur á eftir honum. Á undan fer svo Boli.

Tröll í Hítardal. ©2009 Christopher Lund.
Tröll í Hítardal. ©2009 Christopher Lund.

Á leiðinni út á nes hringdu mamma og pabbi, en þau voru líka á ferðalagi um Snæfellsnesið og ákváðu því að slást í för með okkur. Til að hinkra aðeins eftir þeim stoppaði ég út við ströndina nálgæt Votalæk og við fórum í fjöruferð og fengum okkur bita.

Á Snæfellsnesi. ©2009 Christopher Lund.
Á Snæfellsnesi. ©2009 Christopher Lund.

Á Snæfellsnesinu var meiningin að finna ölkeldur með náttúrulegu sódavatni. Í bókinni 101 Ísland eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson er vísað á ölkeldur sem eru skammt frá Bjarnarfossi ofan við Búðir. Ég mæli eindregið með þessari bók í ferðalagið. Hún vísar á minna þekkta áningarstaði í alfaraleið, sem skemmtilegt er að heimsækja.

Ari Carl smakkar ölkelduvatn. ©2009 Christopher Lund.
Ari Carl smakkar ölkelduvatn. ©2009 Christopher Lund.
Amma Arndís og barnabörnin á Snæfellsnesi. ©2009 Christopher Lund.
Amma Arndís og barnabörnin á Snæfellsnesi. ©2009 Christopher Lund.

Eftir að hafa fundið ölkeldurnar og smakkað járnríkt vatnið gengum við Arndís upp að Bjarnarfossi. Þetta er fallegur foss með stuðlabergi og vel þess virði að leggja á sig smá fjallgöngu til að komast í návígi.

Arndís við Bjarnarfoss á Snæfellsnesi. ©2009 Christopher Lund.
Arndís við Bjarnarfoss á Snæfellsnesi. ©2009 Christopher Lund.

Við skelltum okkur svo í sund að Lýsuhóli en þar er heitt ölkelduvatn í lauginni, sem er því frekar slímug í botninn. Amma og Afi fylgdu okkur svo tilbaka í Hítardalinn um kvöldið og við grilluðum saman lambakjöt.

Á sunnudeginum tókum við frekar snemma saman því að við ætluðum að ná í mömmu út á flugvöll síðdegis. Þessari fyrstu útilegu sumarsins var því lokið, öldungis fínt upphaf á góðu ferðasumri.

4 thoughts

  1. Það eru algjör forréttindi að geta ferðast um Ísland. Vonandi fjölgar þeim Íslendingum sem nýta sér þau.

    Flottar myndir.

  2. Lífandi og skemtileg frásögn og fínar stemningsmyndir minnir á ferðir sem við fjölskyldan í Vorsabæ áttum saman hér áður fyrr. Gaman að sjá hversu flökkueðlið og hrifning fyrir útivist fylgir í genunum. Bið spenntur eftir fleirrum ferðasögum.

    Kveðja frá afa Mats

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *