Feðgar á fjöllum

Við fjallið Einhyrning, Eyjafjallajökull í baksýn. ©2009 Christopher Lund.
Við fjallið Einhyrning, Eiríksjökull í baksýn. ©2009 Christopher Lund.

Sunnudaginn var skruppum við pabbi austur á Hvolsvöll. Fórum reyndar fyrst með tjaldvagninn minn í vetrargeymslu að Stóruvöllum og gistum svo á Hótel Hvolsvelli í góðu yfirlæti. Hótelið er stærra en maður reiknar með á Hvolsvelli. Herbergin eru stór og fín og maturinn ekki síðri. Við fengum dýrindis lambafile sem rann ljúflega niður með góðu rauðvíni frá Ástralíu.

Horft yfir í Húsadal frá Fífuhvömmum. Eyjafjallajökull í baksýn. ©2009 Christopher Lund.
Horft yfir í Húsadal frá Fífuhvömmum. Eyjafjallajökull í baksýn. ©2009 Christopher Lund.

Ástæða ferðarinnar var fyrst og fremst að rifja upp gamla tíma. Við feðgar ferðuðumst mikið þegar ég var púki. Pabbi var alltaf að ljósmynda eða selja loftmyndir, nú eða Polariod myndavélar! Ég var því búinn að koma á flesta þéttbýlisstaði landsins löngu fyrir fermingu – og það nokkrum sinnum. Það fór minna fyrir hálendisferðum í þá daga. Þó ég muni reyndar vel eftir ferðum að Sigölduvirkjun. Þá leigði sá gamli jeppa og keyrði alveg eins og brjálæðingur (þannig er það alla vega í minningunni).

Ofan við Markarfljótsgljúfur. Hattafell, Stórkonufell og Mófellshnausar í baksýn. ©2009 Christopher Lund.
Ofan við Markarfljótsgljúfur. Hattafell, Stórkonufell og Mófellshnausar í baksýn. ©2009 Christopher Lund.

Það stóð til að fara Syðra Fjallabak, upp með Fljótshlíðinni og rúlla alla leið í Landmannalaugar. Klára svo með því að fara Landmannaleiðina tilbaka í bæinn með kvöldinu. En við komumst bara rétt áleiðis – eða upp að Markarfljótsgljúfrum. Þar var töluverður snjór og við lentum í smá basli. Þar sem við vorum einbíla vorum við ekki að taka neina sénsa. Það kom þó ekkert að sök, landið skartaði sínu fegursta í frábæru veðri, svo við tókum því rólega og nutum náttúrunnar.

5 pund í dekkjum og Einhyrningur í baksýn. ©2009 Christopher Lund.
5 pund í dekkjum og Einhyrningur í baksýn. ©2009 Christopher Lund.

Það var gaman að komast burt úr borginni og stilla tímann aftur um eins og 25 ár. Nú höfðu hlutverkin aðeins snúist við, þar sem ég var ökumaður og pabbi farþeginn. Takk fyrir ferðina pabbi.

4 thoughts

  1. Kærar þakkir fyrir síðast.
    Þetta var frábær ferð sem freistar til endurtekningar sem fyrst. Feginn var ég að við létum það eiga sig að fara “salibununa” niður Sleggjubeinsskarð. Þá hefðum við líklegast hvorugur verið til frásagnar!
    Pabbi.

  2. Þetta var fallegur póstur. Pabbi þinn er gæðadrengur. Fór á svipaðar slóðir um þarsíðustu helgi og stoppaði í miðjum Hekluhlíðum vegna ófærðar. Svipað ástand í nágrenninu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *