ISO 102.400?

Sævar Þór Ómarsson. ©2009 Christopher Lund.
Sævar Þór Ómarsson. ©2009 Christopher Lund.

Hvað er nú það? Nýr gæðastaðall?

Nei, það er hæsta ljósnæmni sem nýja Nikon D3s getur unnið á. Á mannamáli – þú getur tekið myndir við aðstæður þar sem þú sérð varla til lengur.

Nikon var lengi eftirbátur Canon þegar það kom að gæðum mynda teknar á háu ljósnæmni. Það breyttist þegar Nikon D3 kom á markaðinn haustið 2007. Síðan þá hefur Nikon átt “hreinustu” vélarnar.

Munurinn er reyndar ekki mikill og ef menn eiga Canon vélar eins og 1D Mark III, 1Ds Mark III og 5D Mark II er útkoman úr þeim afar góð á háu ISO. Ég fæ fullkomlega nothæfar myndir á ISO 6400 úr fimmunni minni og ef ég nauðsynlega þarf get ég unnið á ISO 12.800 og jafnvel 25.600. Myndirnar eru vissulega grófar, en með eftirvinnslu er vel hægt að gera þær nothæfar.

Ég hef því ekki pælt mikið í því að skipta um tegund, jafnvel þó að ég reiði mig mikið á hátt ISO í minni vinnu. Fjárfestingin í föstu L-linsunum sem eru f/1.2 eða f/1.4 vegur líka þungt.

En miðað við það sem ég hef skoðað af prufumyndum úr hinni nýju Nikon D3s virðist ISO 12.800 ótrúlega gott. Eins hefur fókuskerfið í Nikon vélunum hvarvetna fengið frábæra dóma. Nýja D3s vélin býður líka upp á 720p HD vídeo og nýja Motion JPEG þjöppun sem á að koma betur út fyrir kvikmyndatökur með D-SLR vél.

Ég væri því að ljúga ef ég viðurkenndi ekki að þessi vél hreyfir svolítið við mér. En ég þykist nokkuð viss um að stóra 600 punda górillan Canon eigi nú eftir að svara fyrir sig áður en langt um líður. Arftaka Canon EOS 1D Mark III hefur verið beðið um nokkurn tíma. Spurning hvort biðin verði löng?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *