Þýski spegilinn

Við Innstadal. ©2009 Christopher Lund.
Við Innstadal. ©2009 Christopher Lund.

Ég var á flakkinu með þýskum blaðamanni mestan part síðustu viku. Hann var frá Der Spiegel, en ég hef unnið reglulega fyrir þá undanfarin ár – síðast í febrúar. Þá var verið að fjalla um hrunið (hvað annað) út frá vinklinum: “Ísland- tilraunarstofa alþjóðlega efnahagshrunsins”. Nú var sem sagt verið að fylgja því eftir og svara spurningunni “Af hverju er Ísland ekki orðið gjaldþrota?”.

Ég vill meina að Þjóðverjar séu okkar bestu vinir. Ég hef alla vega aldrei hitt Þjóðverja sem er ekki yfir sig hrifin af landi og þjóð. Blaðamaðurinn var engin undantekning. Ferðin í Innstadal á föstudaginn, rétt áður en hann flaug svo heim seinnipartinn, heillaði hann upp úr skónum. Enginn Gullfoss og Geysir. Bara hraun, mosi, jarðhiti, víðerni og smá dass af Land Rover. Tölurnar tala líka sínu máli. Þjóðverjar hafa lengi trónað á toppnum yfir fjölda erlendra ferðamanna hér á landi.

Þrátt fyrir þetta held ég að margir Íslendingar taki ekki allt of vel á móti Þjóðverjum. Þjóðsagan um að þeir kaupi lítið sem ekkert og steli svo klósettpappír, sápu og handklæðum er líka langlíf.

Við Íslendingar eigum það til að líta ansi stórt á okkur. Kannski er það óumflýjanlegt, því það hefur bókstaflega verið alið á þessu í gegnum tíðina. Þjóðernishyggjan var óspart notuð á tímum sjálfstæðisbaráttunnar, með góðum árangri. Og stjórnmálamenn dagsins í dag róa gjarnan á sömu mið þegar á móti blæs.

Ég veit ekki með ykkur, en mér er afar illa við það þegar menn fara að tala á þessum þjóðernisnótum. Í mínum huga lýsir það ótta og óöryggi. Og pólitík byggð á slíku er ekki vænleg til árangurs.

One thought

  1. Ég hef alltaf litið á þetta mikilmennskubrjálæði sem minnimáttarkennd, líkt og ég þekki hjá ýmsu fólki. Og það er eins með Frakkana, þeir eru líka mjög hrifnir af Íslandi og öllu sem íslenskt er.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *