Mark IV – fyrstu kynni

Ég er búinn að vera með Canon EOS Mark IV í láni í nokkra dag til reynslu. Ég hef reyndar haft bölvanlega lítinn tíma til að leika mér með hana sökum anna í námi, vinnu og fjölskyldu undanfarna daga. En ég náði nokkrum römmum um helgina síðustu við aðstæður sem ættu að gefa nokkuð góðar vísbendingar um hvernig hún kemur út á hárri ISO stillingu.

Þessi vél er gríðarlega mikilvæg fyrir Canon. Forveri hennar hefur ekki haft nógu gott orð á sér þegar kemur að fókusnum – sérstaklega eltifókus eða AI Servo. Ég átti slíka vel um tíma. Ég mynda sjaldan fugla eða önnur viðfangsefni sem þarf að elta uppi með löngum aðdráttarlinsum, nema stöku sinnum stelpurnar mínar í dansi eða handbolta. Því reyndi ekki mikið á þetta hjá mér. Fókusinn virkaði nákvæmlega eins og á 1Ds Mark III og ég hafði svo sem ekki mikið út á hann að setja. En ég gat ekki komist upp á lagið með það að nota full-frame og 1.3x crop factor vél samhliða í verkefnum og það var ástæðan fyrir því að ég seldi hana.

Það má eiginlega segja að Mark IV vélin sé ástæðan fyrir því að ég ákvað söðla aðeins um merki og kaupa Nikon D3s í lok síðasta árs. Hljómar kannski einkennilega, en málið var að þegar ég sá að Mark IV yrði ekki full-frame missti ég svolítið áhugann. Ég var að vonast til að sjá fyrstu Canon EOS 1D full-frame vélina koma á markað. Upplausnin var ekkert aðalatriði, enda er lítill hluti af mínum verkefnum þess eðlis að ég þurfi meira en 10-12 Megapixla. Ég átti von á því að Canon kæmi með full-frame 1D, einmitt til þess að svara Nikon D3 hvað noise/suð varðar.

Mín fyrstu kynni af nýju 1D Mark IV sýna mér að fókuskerfið er mjög gott. Það er fljótt að taka við sér og mikið fljótara að negla fókus þegar maður er með alla punktana virka í einu. Eltifókusinn fer mikið sjaldnar út af sporinu. Ég er ekki búinn að prófa að láta það “svitna”  við að elta og halda fókus á viðfangsefni á hreyfingu. Daniel Bergmann póstaði reyndar myndum á vef ljósmyndakeppni.is og samkvæmt honum er nýja fókuskerfið mikil framför.

Noise meðhöndlun er líka mjög góð, en í fljótu bragði sýnist mér Nikon D3s vera nokkuð fremri. Ég mun smella inn dæmum hér til samanburðar fljótlega. Þangað til næst!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *