Canon EOS 1D Mark IV vs. Nikon D3s

Canon vs. Nikon er svolítið eins og PC vs. Mac. Fyrir suma eru val á öðru hvoru merkinu umfram hitt trúarbrögð. Ég er ekki einn þeirra sem tek það persónulega þegar ný myndavél kemur á markað frá “hinum” sem er betri en mín. Ég vel það verkfæri sem ég tel hæfa best hverju sinni.

Margir hafa haft samband og spurt hvor þessara véla sé betri. Ég taldi því rétt að skrifa smá stúf hérna og sýna nokkrar myndir sem ég tók við sömu aðstæður á báðar vélarnar. Mér leiðist reyndar að ljósmynda sama mótívið út frá fyrirfram gefinni formúlu, til þess eins að opna myndirnar hlið við hlið á tölvuskjá og dæma aðra betri. En til þess að átta sig á muninum á þeim er það víst nauðsynlegt. Þessi samanburður er langt frá því að vera fullkomlega útfærður og ég tek það fram að aðallljósgjafinn var ekki 100% stöðugur, þó ég hafi auðvitað reynt að sjá til þess að svo væri. Að biðja son minn að sitja fyrir framan tölvuleik og leika sér ekki er frekar vonlaust. En skjámyndin breyttist ekki mikið á meðan ég skaut þessa ramma.

Þar sem báðar vélarnar eru markaðssettar sem kóngar ljósnæmnissviðisins þá liggur beinast við að bera þær saman með það í huga. Ég gerði ekkert sérstakt fókuspróf. Eftir nokkra daga með Mark IV fæ ég ekki betur séð að Canon sé komið aftur á beinu brautina með sjálfvirka fókuskerfið sitt, sem er hið besta mál. Fókuskerfið í Nikon D3 línunni er talið eitt það allra besta sem völ er á. Fyrir þá sem vilja fá mjög yfirgripsmikla umfjöllun um báðar vélarnar á ensku þá er Rob Galbraith oftast góður kostur: Nikon D3s og Canon EOS 1D Mark IV.

Hér koma sem sagt þrjú pör af myndum, teknar á ISO 6400, ISO 12800 og ISO 25600. Myndirnar eru ekkert unnar. Það eina sem ég gerði var að taka þær inn í Lightroom og samræma WB stillingu. Mér finnst vonlaust að bera saman myndir er litirnir eru mjög ólíkir. Eini litamunurinn er sem sagt bara karaktermunur á skynjara þessara véla. Ég notaði Canon EF 50mm f/1.2L, Nikkor 50mm f/1.4D, Canon EF 85mmf/1.2L II og Nikkor 85mm f/1.4D linsur. Fjarlægð í viðfangsefnið er því ekki sú sama, þar sem ég reyni að fylla rammann jafnt. Mark IV er með 1.3x crop factor og D3s er full-frame. Upplausn Mark IV er 16MP en D3s er 12MP.

Að dæma frá skjáupplausn er alveg vonlaust. Þið getið því nálgast fulla upplausn hér. Lykilorðið er: chris

Mark IV og D3s @ ISO 6400 (f/2.8 og 1/80s) ©2010 Christopher Lund.

Fyrstu myndirnar eru teknar á ISO 6400. Mark IV til vinstri og D3s til hægri. Myndirnar eru mjög líkar þó að D3s virðist aðeins dekkri. Þetta er eitt af karaktereinkennum D3s. Þar sem Canon átti til að vera ljós er Nikon stundum í hina áttina. Skuggasvæðin virka dekkri beint úr vélinni en teikningin er þó ekki síðri. Í Lightroom vinnslu þýðir þetta að lækka Black sleðann, nokkuð sem maður gerir mun sjaldnar með Canon skrár.

Mark IV og D3s @ ISO 12800 (f/2.8 og 1/100s) ©2010 Christopher Lund.

Mark IV til vinstri og D3s til hægri. Á ISO 12800 er lýsingarmunurinn nánast enginn. Nikon myndin virðist þó mýkri, jafnvel í skjáupplausn. Það er annað sem lýsir ágætlega þeim mun sem er á þessum vélum. Við hærra ISO herðast Mark IV skrárnar í takt við aukið ljósnæmni. D3s eru frekar mjúkar áfram. Mér hefur hins vegar fundist D3s vera harðari en Mark IV á lágu ISO beint úr vél. Fyrst þegar maður byrjar að nota D3s hefur maður á tilfinningunni að sumar skrár séu undirlýstar sökum þess að svart liggur e-h veginn neðar en á Canon. En upplýsingarnar eru til staðar, upphafsgildin eru bara önnur en maður er vanur (komi maður frá því að vinna með Canon).

Mark IV og D3s @ ISO 25600 (f/2.8 og 1/100s) ©2010 Christopher Lund.

Mark IV er eftir myndin. Hér á ISO 25600 sjáum við enn betur hvað ég var að tala um að Mark IV skrárnar herðist með hærra ISO. Fyrir vikið virkar Mark IV myndin nokkuð  ljósari og jafnvel skarpari, en það er  fyrst og fremst hliðarafurð þess að vera harðari. Með hærri kontrast virka litir líka mettaðari.

Annars hef ég oft heyrt að til einföldunar megi segja að munurinn á karakter Canon og Nikon sé eins og munurinn á Kodak og Fuji. Það er algjört bull að mínu mati. Í raun hef ég aldrei skilið þessar pælingar að myndir úr ákveðnum vélum séu eins og e-h filmur. Stafræn skrá er svo teygjanleg í eðli sínu að þú getur látið hana líta út eins og hvaða filma sem er.

Mér finnst líka skondið að sumir telja það kost að stafrænar vélar hafi eitthvað filmu-lúkk. Síðast þegar ég skaut á filmu var það ansi takmarkandi miðill. Það er ekkert mál að þvinga sjálfan sig í svipaða takmörkun við stafræna ljósmyndum. Byrjaðu bara á því að festa WB á daylight til dæmis. Festu svo -2 undirlýsingu þegar þú myndar á ISO 1600 og þú ert með svipað niðurstöðu eftir vinnslu og að skjóta á ISO 1600 filmu. En hvers vegna vill fólk fá eitthvað filmu-lúkk? Ætli það sé ekki vegna þess að möguleikarnir við úrvinnslu stafrænna mynda eru svo óendanlega margir að stundum er erfitt að ákveða hvenær skal hætta?

Til að auka enn á möguleika okkar til sköpunar er hágæða video komið í flestar nýjustu D-SLR vélarnar. Mark IV er engin undantekning og þar hefur Canon klárlega vinninginn. Bæði með hærri upplausn og fleiri ramma á sekúndu en D3s. Ennfremur virðist D3s vera viðvæmari fyrir flökti sem verður til frá ákveðnum ljósgjöfum (Hz tíðnipúlsar koma fram sem flöktandi línur sem hreyfast upp/niður rammann).

Þegar þið farið að skoða þessar myndir í fullri upplausn sjáið þið miklu betur þann mun sem er á þessum vélum.. Sitt sýnist hverjum, en mér finnst Nikon D3s hafa ákveðið forskot þegar kemur á því að halda suði í skefjum. En munurinn verður varla talinn mjög mikill og ef maður þekkir búnaðinn vel og möguleika í eftirvinnslu skila þær báðar frábærri útkomu við nánast hvaða aðstæður sem er.

8 thoughts

 1. Góður pistill Chris, sérstaklega lokaorðin. Fólk áttar sig svo sjaldan á því hvað það er virkilega lítill munur á þessum vélum, hann er til staðar en lítill er hann.

  …og þessi vídjó fítus á ásnum er rosalegur…úff. Það að geta tekið upp vídjó nánast í myrkri og skilað flottum gæðum finnst mér vert að skoða.

  Vel gert!

 2. Hann myndast vel strákurinn þinn! Ég er alger byrjandi í svona hágæða ljósmyndun, en áhugamaður. Vil spyrja hvort þessar vélar séu ekki í hæsta gæðaflokki. Minnir að ég hafi lesið að núnerin segi til um gæðin, 100 – 400 séu flokki fyrir ofan þessar miða og smella neytendavænu stafrænu vélar, tugir (s.s. Canon 40d eða 45d) séu betri og þessar með númerin 1-4 séu þær bestu.

  Ég er ekki frá því að myndirnar teknar á Canon vélina séu betri. Þær eru bjartari sem er kostur svo lengi sem þær eru ekki yfirlýstar. Nikon virðist gefa meiri skerpu, þó litlu muni.

  Hef líka heyrt að erfiðara sé að fá aukahluti í Nikon en Canon, þar sem fleiri hér á landi versla með síðarnefndu vélarnar.

 3. gaman að sjá þetta fyrir svona nörd eins og mig. er það jákvætt að hafa crop á canon eða ekki? kannski eina góða að maður er með aðeins meira af sweet spotunum á fullu ljósopi en missir þá kannski líka karakterinn sem fylgir vignetti og kantamýkt

 4. Skemmtilegur pistill. Mér finnst þó það besta við hann vera fyrirsætan. Hann er ótrúlega flottur og ekki leiðinlegt að hlusta á hann lesa!!!

 5. Theódór:
  Jú þetta eru bestu vélarnar frá Nikon og Canon fyrir blaðaljósmyndara. Svo eru báðir framleiðendur einnig með vélar sem líta eins út en eru með enn hærri upplausn -> Canon EOS 1Ds Mark III og Nikon D3x. Dreifing á Canon hér landi er margföld á við Nikon, en þeir vinna stöðugt á. En maður finnur stóran mun t.d. þegar maður er að selja notaða hluti hvað markhópurinn er mikið stærri fyrir Canon.

  Benni:
  Crop eða ekki crop? Ég er viss um að margir Canon 1D notendur vilja ekki sjá vélina full-frame. En ég er ekki einn af þeim altså…

  Ágúst:
  Takk fyrir hólið. Hann er náttúrulega algjör snillingur…

 6. Magnaður pistill Chris,, Þessi pistill svarar eflaust mörgum spurningum. Ég hef alltaf verið hálf forvitinn um Nikon en hef aldrei þorað að taka bara á skarið og fara yfir.

  Ég er hæst ánægður með minn ás og ég held ég haldi mig bara við Canon.

  takk fyrir þetta

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *