Cindy og Russ

Russ og Cindy kyssast við Kleifarvatn. ©2010 Christopher Lund.

Þau Cindy og Russ giftu sig um daginn heima á Flordia og ákváðu svo að fara í brúðkaupsferð til Íslands. Þegar þau höfðu samband var ég meira en til í að taka að mér verkefnið. Svona brúðkaupstökur eru mikil tilbreyting miðað við þær íslensku. Hér er hefðin þannig að flestir velja sumarbrúðkaup og vilja myndatöku strax á eftir athöfn áður en haldið er í veisluna. Tíminn er því frekar naumur og ekki miklir möguleikar á því að fara eitthvað út fyrir bæinn.

Þegar um erlenda kúnna er að ræða tek ég allan daginn frá. Flestir reikna með því að takan muni vara í 1-2 klst, en mér finnst það skylda mín að nota tækifærin þegar þau gefast til að gera miklu meira úr tökunni – og um leið meira fyrir viðskiptavininn. Þau eru jú hingað komin til að upplifa Ísland og brúðarmyndirnar eiga að endurspegla það.

Cindy og Russ við Ögmundarhraun. ©2010 Christopher Lund.

Það er vissulega nokkur áhætta fólgin í því að bóka brúðkaupsljósmyndun úti við í byrjun mars. Ég hef hins vegar verið fáranlega heppinn með veður við þessar vetrartökur mínar af brúðhjónum. Og sem betur fer var ekki breyting á því núna. Þó að lukkan sé góður bandamaður, þá er réttur aðstoðarmaður gulls í gildi. Þar kemur Árni sterkur inn og við erum farnir að vinna fumlaust saman. Það var vel hvasst þennan dag og Árni þurfti því stundum að taka vel á við að hemja ljósið í hviðunum!

Russ og Cindy við Bláa lónið. ©2010 Christopher Lund.

Fyrir tækjanörrana þá er myndirnar allar skotnar á Nikon D3x og Nikon D3s. Ég notaði aðeins tvær linsur; Nikkor AF-S 24-70mm f/2.8G og Nikkor AF-S 70-200mm f/2.8G VR II. Ljósabúnaður er Profoto Acute B600 með annað hvort Softlight Reflector eða Standard Reflector.

15 thoughts

 1. Frétti af verkefnið, fylgdist með veðri úr fjarska og beið því spenntur.

  Mikil lifandi skelfing hefur þetta verið skemmtilegt!
  Flottar myndir!

  Það er sko eithvað annað enn bjóða brúðhjón in á stofu –
  eins og var á öldinni sem leið.

 2. Allgjör og tær snilld
  ég er sko alveg til í að troða mér í brúðarkjólinn aftur, skjélla kallinum í gallann og taka smá rúnt með þér um landið…. færð ekki mikið flottari fyrirsætur …..
  kiss kiss
  Heiða

 3. Vá hvað þessar myndir eru geðveikar, ekki af þessum heimi hreinlega. Þau mega sko vera ánægð með þær þessi brúðhjón. 🙂

 4. Magnaðar myndir. Sú fyrsta er held ég bara flottasta brúðhjónarmynd sem ég hef nokkurn tímann séð.

 5. Get eiginlega varla skrifað það sem ég ætlaði, Heiða systir náði að verða á undan!! Spurning um að mynda okkur Heiðu saman í brúðarkjólum, nærð ekki að toppa það í bráð…

 6. Þetta eru magnaðar brúðkaupsmyndir, sérstaklega sú í Bláa Lóninu.

 7. Ég rataði hingað af myndum af gosstöðvunum sem birtust á Eyjunni og verð að segja – Frábærar myndir!

  Þarf augljóslega að panta myndatökuna hjá þér þegar eitthvað merkilegt ber við 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *