Gummi og Namita

Stundum fær maður verkefni sem eru ævintýri. Brúðkaupið þeirra Namtiu Kapoor og Guðmundar Vigfússonar um síðustu helgi í San Francisco var eitt af þeim. Gumma hef ég þekkt síðan ég réði hann til starfa í Diktu forðum daga, en hann var þá að læra ljósmyndun og var asskoti efnilegur, auk þess að vera með eindæmum fínn náungi. Okkur varð fljótt vel til vina og því þótti mér vænt um þegar hann hafði samband og spurði hvort ég gæti ljósmyndaði fyrirhugað brúðkaup hans og Namitu.

Ekki óraði mig samt fyrir því sem var í vændum. Indverskt brúðkaup er svolítið annað og meira en það sem við bleiknefjarnir þekkjum. Ef ég ber það saman við hefðbundið íslenskt brúðkaup eru það svona eins og þrjú eða jafnvel fjögur slík. Það eru fjölmargir siðir og hefðir sem stórfjölskyldan gerir saman fyrir brúðkaupið. Umgjörðin er öll litrík og flott, en umfram allt er fádæma gleði og vinátta í loftinu sem maður smitast af strax frá fyrstu mínútu.

Eins og gefur að skilja tekur maður fleiri frekar en færri myndir í svona verkefnum. Allt er nýtt fyrir manni og ég vildi alls ekki missa af e-h mikilvægu. Þegar upp var staðið var ég með rúmlega 6000 ramma til að þræla mér í gegnum.

Myndirnar sem rúlla á forsíðunni núna (verða farnar ef þú lest þennan póst seinna) eru frá bara frá fyrsta deginum þegar Mehndi og Sangeet fór fram. Brúðurinn er máluð á höndum og fótum með málningu sem er kölluð Henna. Aðrar konur, bæði fjölskylda og vinir eru einnig málaðar þessum mynstrum, þó ekki eins mikið en brúðurin. Nafn brúðgumans er falið í mynstrinu. Sangeet er veisla þar sem fjölskyldur brúður og brúðguma dansa og syngja saman – og auðvitað borða dásamlegan mat. Sniðug hefð sem hristir alla saman fyrir sjálft brúðkaupið.

Góðir vinir eru ómetanlegir. Að fá að taka þátt í svona veislu fyrir líkama og sál var meiriháttar. Takk fyrir mig Gummi og Namita!

7 thoughts

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *