Vika á Norðurlandi

Synt út á Eyjafjörð frá Hjalteyri. ©2010 Bjargey Lund.

Þá erum við búin að vera rúma viku hér á Ytri-Bakka við Hjalteyri. Dásamlegur staður og veðrið er þvílíkt búið að leika við okkur.

Sjósundið í morgun var æðislegt, ekki síst þegar sást til hnísu í cirka 50m fjarlægð frá mér. Þær voru nokkrar saman, sjálfsagt að gæða sér á makríl sem virðist vera í töluverðu magni núna í Eyjafirðinum. Ég var svo spenntur að sjá til þeirra að ég pældi ekkert í því hvort það væri nokkur hætta fólgin því að reyna að synda meðal þeirra. Ég var með litlu vatnsheldu Olympus vélina og langaði mikið að ná mynd af þeim en þær syntu strax út fjörðin aftur.

Við erum annars búin að hitta mikið af góðum vinum, sem hafa komið norður í blíðuna og dvalið á tjaldstæðinu að Hömrum. Fórum í gær að Holtsseli til að smakka hinn margrómaða Holtsels-Hnoss ís sem stóð undir væntingum. Bjór-rjómaís er ansi hreint magnaður, sem og engifer, rabbabara og hundasúruís.

Hér við Hjalteyri gætir yfirleitt hafgolu upp úr hádeginu og í dag er maður bara þakklátur því – annars væri eiginlega of heitt. Það er ekki laust við að freknurnar hlaupi aðeins í kekki á manni og maður getur þóst vera orðinn brúnn!

Hér má svo skoða fleiri myndir – fyrir þá sem vilja.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *