Sjötugur unglingur

Quon Chow ljósmyndar á Þingvöllum. ©2010 Christopher Lund.

Í starfi mínu kynnist ég oft skemmtilegu fólki. Quon Chow er einn af þeim. Hann réði mig sem ljósmynda-leiðsögumann í fjóra daga, eftir að hafa verið í heila viku með PhaseOne PODAS workshop genginu. Quon er fæddur í Kína, en er bæði Kanadískur og Bandarískur ríkisborgari. Hann hætti að vinna fyrir 10 árum og hefur síðan einbeitt sér alfarið að áhugamálinu sínu.

Ég ákvað að halda á norður því spáin sagði SA-átt. Auk þess var hann búinn að vera á suðurströndinni með PODAS, búinn að fara að Fjallabaki, Skaftafell og Jökulsárlón. Þau voru frekar óheppin með veður, þannig að það kom vel til greina að fara að Fjallabaki aftur. Síðustu helgi fór ég hins vegar ásamt Margréti Syðra-fjallabak í brjáluðu suðaustan roki, svo ég vissi að það var ekki alveg málið í ljósmyndaferð.

Strokkur að gjósa. ©2010 Christopher Lund.

Við fórum snemma af stað á mánudaginn var og héldum norður Kjöl. Komum við á Þingvöllum, Geysi og Gullfossi. Hinn gullni hringur var tekinn í eldsnöggan forrétt. Eftir það voru það Kerlingarfjöll, sem sviku ekki þrátt fyrir létta rigningu. Quon var svo hrifinn að hann ætlar að koma aftur til Íslands, nánast eingöngu til að eyða meiri tíma þar! Eftir Kerlingarfjöll var ekið nokkuð beint á Mývatn, en þar smellt ég upp tjaldinu góða á meðan hann kom sér fyrir á Hótel Reynihlíð.

Skrifstofan á Mývatni. ©2010 Christopher Lund.
Sólarupprás á Námafjalli. ©2010 Christopher Lund.

Það var ræs rétt rúmlega fimm daginn eftir og við komum okkur fyrir uppi á Námafjalli til að ná sólarupprás. Með í för slóst Steve Pelton, annar ljósmyndari sem hafði verið með PODAS hópnum og var kominn norður á eigin bílaleigubíl. Við fengum fjári góða birtu og mynduðum í góða tvo tíma áður haldið var í morgunmat á Hótelinu. Eftir það var bara slakað á fram eftir degi, en ég fór seinni partinn með Quon upp í Gjástykki og ók svo slóðann yfir að Þeistareykjum með viðkomu í Litla-víti. Engin leið að ná því almennilega á mynd, en mikið djöfull er magnað að sjá þessa risaholu í jörðinni þarna! Þeistareykir voru fallegir í kvöldbirtunni, en það eru ótrúlega miklar breytingar sem verða á fáeinum dögum. Ég var þarna fyrir þremur vikum og þá entist sólsetrið töluvert lengur.

Sólsetur á Þeistareykjum. ©2010 Christopher Lund.

Á miðvikudaginn héldum við svo áleiðis vestur á Snæfellsnesið, ljósmynduðum Dimmuborgir, Mývatn og Goðafoss á leiðinni og svo fengum við fallega birtu í Öxnadal líka. Komum kl 20 á Hótel Stykkihólm eftir nokkuð stífan keyrsludag, en ég var að veðja á þokkalega birtu síðasta daginn á Snæfellsnesinu. Samkv. veðurkortinu var spáð rigningu svo til um allt land, en síst þar.

Berserkjahraun. ©2010 Christopher Lund.

Berserkjahraunið klikkaði ekki og ekki spillti fyrir að sjá fjóra erni á flugi! Við notuðum daginn til að dóla allt Snæfellsnesið, veðrið fór reyndar versnandi en við náðum nokkrum skotum, t.d. við Djúpalón, Hellna og Búðir. Það var afar sáttur sjötugur unglingur sem kvaddi mig um kvöldmatarleytið á Hilton og ekki síður sáttur leiðsögumaður við stýrið á Lundanum.

Ég kem til með að gera meira af þessu, það er nokkuð ljóst!

5 thoughts

  1. Sæl Chris, fallegar myndir og áhugaverður pistill. Sérstaklega vakti myndin af Berserkjahrauninu upp minningar, ég man eftir því að hafa átt yndislegar stundir að veiða í þessu vatni með föður mínum – ekki vill svo til að þú munir hvað þetta vatn heitir?

    Bestu kveðjur, Ragnar

  2. Þetta er við Mjósund, en ég hugsa að vatnið sem þú ert að hugsa um sé Selvallavatn.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *