Hættur að mynda brúðkaup?

Aníta og Hávarður. ©2010 Christopher Lund.

Ég var spurður að því um daginn hvort ég væri hættur að mynda brúðkaup. Kannski ekki svo skrítin spurning þar sem ég hef varla póstað neinum brúðkaupmyndum í langan tíma. Auk þess eyddi ég stærstum hluta sumarins að flakka um landið. Ég náði þó að skjóta fimm skemmtileg brúðkaup í sumar og svo eru nokkur á döfinni í október.

Myndin hér að ofan er úr brúðkaupi Anítu og Hávarðs sem ég myndaði í lok ágúst. Skemmtilegt brúðkaup í Grindavík, myndataka við Selskóg og Bláa lónið. Flottir staðir til að ljósmynda og meira að segja ágætt skjól í því hávaðaroki sem var þennan dag. Ég ætla ekki að sýna fleiri myndir frá því vegna þess að bókin þeirra er einmitt á leiðinni að utan. Skemmtilegra fyrir þau að skoða myndirnar sínar fyrst í bókinni.

Bækurnar hafa breytt miklu fyrir mig varðandi brúðkaupsljósmyndun. Í fyrsta lagi eru viðskiptavinirnir mjög hrifnir af því að fá vandaða ljósmyndabók sem segir heildstæða sögu frá deginum stóra. Í öðru lagi einfalda þær lífið fyrir mér, þar sem ég þarf ekki að eyða tíma í að prenta allar myndirnar sjálfur og setja í albúm. Áður fyrr fór a.m.k. einn vinnudagur í það, jafnvel meira ef takan var stór. Í þriðja lagi bjóða bækurnar upp á meiri fjölbreytni í framsetningu og myndskurði. Svo fer maður líka að hugsa út frá bókinni við tökurnar og það gerir þær enn markvissari. Ekki veitir af – eftir dæmigert brúðkaup þar sem ég mynda athöfn, myndatöku og veislu er ekki óalgengt að koma í hús með í kringum 1000-1500 myndir. Það sker ég svo niður í rúmlega 200 myndir. Ég er tvo heila daga að vinna úr slíkri töku og klára umbrot á bókinni. Svo það má segja að myndatakan sjálf sé ekki nema 1/3 af ferlinu.

Hér eru nokkrar valdar myndir frá sumrinu. Fyrst eru það Jón og Dóra, svo Unnur og Ellert, því næst Karólína og Stefan og að lokum Sandra og Sveinung. Mæli með því að smella á full-screen til að sjá myndirnar í almennilegri stærð. Fleiri myndir frá brúðkaupi Anítu og Hávarðs koma seinna.

5 thoughts

  1. Blurb hafa reyndar komið best út af því sem ég hef prófað og því hef ég gert flestar bækurnar hjá þeim. Það skiptir miklu máli að næla sér í prófílinn þeirra til að geta séð hvernig myndirnar koma út með því að nota soft-proof í Photoshop. Eins er mikilvægt að setja myndirnar nákvæmlega í þær prentstærðir, frekar en að láta Blurb forritið minnka/stækka þær í umbrotið.

    Ég hef einu sinni fengið bók sem var ekki í lagi, en það var auðsótt að fá nýtt eintak gert með því að senda þeim kvörtun. Ég borga reyndar aðeins meira fyrir professional þjónustu hjá þeim. Þá get ég líka sett logoið mitt á bækurnar í stað blurb lógósins.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *