The Golden Circle

The Golden Circle. ©2010 Christopher Lund

Þar kom að því. Ég drullaðist loksins til að klára leiðsögunámið. Ég átti eftir eina æfingarferð í vor og fékk því ekki að útskrifast með samnemendum mínum. Þó var ég búinn að ljúka öllum öðrum verkefnum og prófum – og það með meðaleinkunn upp á 9.32!

Að útskrifast án þess að taka gullna hringinn er náttúrulega ekki hægt. Þessi klassíski rúntur er kjölfestan í íslenskri ferðaþjónustu. Eða hvað?

Mörg frábær ferðaþjónustufyrirtæki hafa litið dagsins ljós á síðustu árum. Íslensk ferðaþjónusta er að þroskast og möguleikarnir eru miklir. Í dag er mikilvægi greinarinnar öllum ljós, þar sem lungað af erlendum gjaldeyristekjum okkar kemur nú í gegnum hana. Því furða ég mig á því hvað ríkið virðist gera lítið fyrir ferðaþjónustuna. Markaðsátakið Inspired by Iceland var vissulega þarft útspil, en árangurinn næst frekar með langtíma stuðningi og stefnumótun. Skyndilausnin er ekki nóg – það virðist mjög erfitt fyrir okkur að læra það.

Mér finnst vanta töluvert upp á það að við skilgreinum betur áfangastaðinn Ísland. Hvað viljum við selja? Hvernig ferðmenn viljum við fá? Hvaða ímynd skilar okkur bestum árangri? Hvernig förum við að því að viðhalda þeirri ímynd þegar ferðamönnum fjölgar svo hratt sem raun ber vitni? Hversu margir er nóg?

Við eigum það til að einblína bara á fjöldann. Meira fólk = betra. En er það endilega málið? Á mörgum stöðum, sérstaklega á hálendinu er þolmörkum nú þegar náð. Innviði þarf að styrkja ef þau eiga að geta tekið á móti fleira fólki. En það er ekki bara náttúran sem hefur þolmörk. Heimamenn hafa líka þolmörk og auðvitað sjálfur ferðamaðurinn. Upplifun hans stjórnast verulega af því hversu fjölmennt er á svæðum og hvernig aðstaðan er. Ferðamenn sem hingað koma eru flestir að leita að víðernisupplifun og óspjölluðu umhverfi. Stefna okkar skiptir því gríðarlegu máli varðandi framtíð greinarinnar.

9 thoughts

  1. Ég var í Endurmenntun HÍ. 60 eininga háskólanám á tveimur önnum. Kannast við drukknunartilfinninguna!

  2. Til hamingju Chris. en nokkuð til í þessu með aðgang ferðamanna að náttúru íslands. svo eru líka margir staðir sem ekki er nýttir eða aðgengilegir t.d háhitasvæði við hellisheiði og Dynkur. Litlar líkur á að þetta lagist í því kreppu andrúmslofti sem núna ríkir. Líka þörf á að dreifa fleiri ferðamönnum norður á land.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *