Laugar að hausti

Þegar veðurspáin var svona góð eins og hún var fyrir síðustu helgi vissi ég að ég yrði að komast inn í Laugar. Ég ætlaði að tjalda, en þar sem það var laust í skála ferðafélagsins ákvað ég að gista frekar þar enda með börnin með mér. Við erum ágætlega græjuð en eigum þó ekki dúnpúka fyrir alla fjölskyldumeðlimi! Það er gaman að koma inn í laugar að hausti. Ferðamennirnir eru á bak og burt enda mesta ferðatímabilið liðið. Sumir forðast Landmannalaugar á sumrin sökum þess að þar er oft ansi þröngt á þingi. Þessa helgina var þó langt frá því fámennt. Bændur eru enn að ná í síðustu eftirlegukindurnar svo það var líf og fjör í skála FÍ.

Við fengum fallega birtu báða dagana, þó að ég hafi náð hlutfallslega fleiri góðum myndum á laugardeginum. Síðdegisbirtan er heit og falleg á þessum árstíma. Morgunbirtan blokkerast af Norðurbarminum svo sólarupprás nær ekki að sleikja Laugahraunið og Brennisteinsöldu líkt og á sumrin. Engu að síður gríðarlega fallegt að vera staddur í hlíðum Bláhnjúks við sólarupprás. Og líka auðveldara að leggja í göngu um sjö leytið frekar en fjögur eins og í sumar!

Á sunnudeginum dóluðum við okkur svo dómadalsleið heim á leið með viðkomu að Eskihlíðarvatni. Lífið er ljúft þegar maður á svona stundir með börnunum sínum. Það eru forréttindi að búa í landi eins og okkar. Vonandi höfum við vit á því að varðveita landið fyrir komandi kynslóðir í stað þess að fórna því fyrir næstu skyndilausn í efnahags- og atvinnumálum.

3 thoughts

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *