Kominn tími til að skipta?

Hvað skal velja? ©2010 Christopher Lund.
Hvað skal velja? ©2010 Christopher Lund.

Ég þarf að viðurkenna svolítið. Ég hef verið að halda svolítið framhjá Lightroom undanfarið. Ég hafði bæði heyrt og lesið að útkoman úr Capture One Pro væri “betri” þegar kæmi að Nikon raw skrám. Ég set gæsalappir utan um betri því það er svo huglægt hvað er betra eða verra þegar kemur að ljósmyndun.

Ég hef í gegnum tíðina skoðað hin og þessi forrit, þar á meðal Capture One, Bibble, DxO ofl. og alltaf komist að þeirri niðurstöðu að þó að útkoman væri vissulega öðruvísi en vinnsla á sömu Raw skrám frá Adobe Camera Raw – þá væri alltaf hægt að ná jafn góðri eða betri útkomu með því að nota ACR. Adobe Camera Raw er “vélin” sem er undir húddinu á Photoshop og Lightroom, ef svo má að orði komast.

Lightroom 3 vs. C1 Pro - ekkert átt við stillingar. ©2010 Christopher Lund.
Lightroom 3 vs. C1 Pro - ekkert átt við stillingar. ©2010 Christopher Lund.

En nú er kannski kominn tími á að endurskoða það? Mér sýnist ég eiga nokkuð erfitt með að ná C1 Pro lúkkinu fyllilega með stillingunum í Lightroom. Ástæðan er sú að C1 Pro prófílarnir eru búnir til á annan hátt en í LR. Eins og sést vel  á myndinni hér að ofan hefur grunnstilling C1 Pro meira “pop”. Gamma kúrvan er sterkari S-kúrva sem þýðir að háljósin liggja ofar og aðskilnaður miðtóna er meiri. En stærsti munurinn liggur í því hvernig litirnir koma út. C1 Pro les allt annað grájafnvægisgildi (white balanve) út úr Nikon raw skránum en LR. Það er nokkkuð hærri Kelvin tala sem þýðir hlýrri mynd. Það hefur auðvitað áhrif og þá sérstaklega á húðtónana. En jafnvel þó að ég stilli LR á sömu slóðir hvað ljóshita varðar er húðtónninn enn svolítið frábrugðinn. Í C1 Pro er hann alltaf svolítið heitari og jafnari.

Lightroom 3 vs. C1 Pro - unnar útgáfur. ©2010 Christopher Lund.
Lightroom 3 vs. C1 Pro - unnar útgáfur. ©2010 Christopher Lund.

Ég er því töluvert fljótari að fá fallega útkomu í C1 Pro þegar ég er að vinna myndir af fólki teknar í studio eða út í dagsljósi. Kontrastinn situr fyrr og húðtónarnir virðast minna viðkvæmir. Hvað ég ég við með viðkvæmir? Oft er hárfín lína sem gerir húðlit annað hvort of bleikan eða gulgrænan.  Það er einnig mismunandi milli myndavéla (þ.e. skynjara þeirra) hvernig þær skila húðtónum. Nikon D3x finnst mér skila afar fallegum húðtónum, þá fallegustu sem ég hef séð frá D-SLR vél. Nikon D3s hefur töluvert annan karakter. Litirnir eru mettaðri og skrárnar “kraftmeiri” beint frá skynjara. Ef maður myndar sama atburð með báðum vélum og vill halda sömu húðtónum út í gegn getur það reynst snúið. Ég hef prófað að nota Gretag Colorchecker Passport til að búa til sérsniðna ICC prófíla fyrir báðar vélar við sömu aðstæður. Þannig er hægt er hægt að samstilla vélarnar til að skila mjög líkum upphafsgildum. En svona svakalega “réttir” litir koma stundum ekki nógu vel út varðandi húðtónana, eins fáranlega og það hljómar.

Lightroom 3 vs. C1 Pro - Sama WB og myndir unnar til að líkjast í þéttleika. ©2010 Christopher Lund.
Lightroom 3 vs. C1 Pro - Sama WB og myndir unnar til að líkjast í þéttleika. ©2010 Christopher Lund.

Málið er ekki svo einfalt að ég geti sagt að C1 Pro sé málið fyrir allar myndir af fólki. Við ákveðnar aðstæður finnst mér Lightroom betra. Ef við skoðum þessa mynd af Ara Carl að skíða í Hlíðarfjalli sést nokkuð vel það sem ég er að tala um. Þarna er C1 Pro prófílinn að gera úlpuna flata í tónum og andlitið virkar líflaust í lit. Lightroom myndin er hins vegar miklu meira lifandi, bæði tónaaðskilnaður og smáaatriði í fatnaði og líflegri litur í andliti. Þarna grunar mig að áhersla C1 Pro á húðtóna sé að mýkja litbrigðin of mikið. Auk þess er meðhöndun C1 á suði (noise) miklu róttækari en í Lightroom. Myndir teknar á Nikon D3s skotnar á ISO 6400 eða hærra verða mjög skrítnar í C1 Pro ef maður tekur ekki luminance noise reduction niður í nánast núll. Lightroom er klárlega með vinninginn þegar kemur að meðhöndlun á suði og því nota ég það frekar í myndir teknar við léleg birtuskilyrði.

Lightroom 3 vs. C1 Pro - hægt að komast lengra í vinnslu í Lightroom með aðstoð Gradient Tool og Adjustment Brush.
Lightroom 3 vs. C1 Pro - hægt að komast lengra í vinnslu í Lightroom með aðstoð Gradient Tool og Adjustment Brush.

Ef ég skoða landslag finnst mér Lightroom koma betur út. Líklega vegna þess að Lightroom prófílarnir eru ekki eins gíraðir í átt að góðum húðtónum, sem virðist gera landlagið meira rauðleitt úr C1 Pro. En stór hluti af skýringunni er vafalaust líka sú að ég orðinn svo vanur því að hræra í stillingum og tónakúrvu Lightroom. Ennfremur nota ég Adjustment Brush og Gradient Tool verkfærin í LR til að gera ákveðnar áherslur í myndirnar mínar – tól sem ekki eru til staðar í C1 Pro. Þannig að samanburðurinn hér er ekki beint vísindalegur.

Vinnuflæðið er sér kafli út af fyrir sig. Þar finnst mér Lightroom vera mikið heilsteyptara forrit, enda er það í líka gagnagrunnur sem C1 Pro gefur sig ekki út fyrir að vera. Ég mun því halda áfram að nota Lightroom til þess að halda utan um myndasöfnin. En það er ljóst að ég kem til með að nota C1 Pro í bland við Lightroom í framtíðinni. Sérstaklega fyrir studio tökur og myndir af fólki teknar við gott ljós. Þar er C1 Pro virkilega á heimavelli og ég fæ góða útkomu á skemmri tíma.

One thought

  1. Góður samanburður og skír

    á photokina nú í haust skoðaði ég hins vegar nokkur ný og lítið þekkt forrit.
    í þeim er að koma fram nýr “calculus” eða reikniprósess sem gerir allt það sem þessi forrit eru að gera enn sjálfvirkara. Hef ekki haft tíma til að skoða þau almennilega en við eigum eftir að sjá stóra breytingu hjá “amatörnum” sem ekki setur sig inn í hlutina en getur notað slík forrit til að margbæta myndir sýnar og tónaskala á örfáum sekúndum. ég á jafnframt eftir að sjá að portretstofur muni geta nýtt sér þau forrit til að vinna hraðar.

    Vinna vel mun hins vegar áfram taka tíma

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *