Er gaman og bros bannað?

Heitasta umræðuefni meðal ljósmyndara í dag er vafalaust nýfallnir dómar er varða rekstur ljósmyndastofu án þeirra réttinda sem þarf til samkvæmt lögum. Margir eru reiðir og netheimar loga í skrifum þar sem alls konar fullyrðingar koma fram. Það er nokkuð tilgangslaus vettvangur til svona heitrar umræðu – spjallborðið.

Sjálfur held ég að það sé afar hæpið að banna fólki að hafa lifibrauð af sköpun sinni, sama hver hún er. Ljósmyndun snýst um sköpun fyrst og fremst. Þegar maður ætlar að lifa af því að selja sköpun sína er ljóst að sá hinn sami þarf að bjóða vöru sem eftirspurn er eftir. Að öðrum kosti selst varan ekki og vonlaust að fá fyrir salti í grautinn.

Vinsældir Gamanmynda og Brosbarna hafa ekki farið framhjá neinum sem heimsækir vefsíður eins og barnaland og facebook. Ljósmyndarar sem telja sig vera að missa af viðskiptum vegna þessarar samkeppni þurfa fyrst og fremst að spyrja sjálfan sig að því hvers vegna? Er það verðið? Er það varan? Er það þjónustan? Hvað voru þessar ljósmyndastofur að bjóða sem var svo vinsælt?

Mig grunar að ein skýring vinsældanna sé sú að þessar stofur gáfu viðskiptavinum sínum einfaldlega það sem þeir vildu. Margar myndir á lágu verði og fullan yfirráðarétt yfir afgreiddum myndum. Fólk vill fá MIKIÐ fyrir peninginn. Vandamálið er að MIKIÐ er ekki endilega betra. Þegar ljósmyndun er seld í magni en ekki gæðum er útkoman sjaldnast framúrskarandi að mínu mati.

Önnur skýring er án efa að dreifing myndanna á Netinu virkaði sem frábær auglýsing. Flestir ljósmyndarar í dag eru með heimasíðu, en hversu margir kunna að næla í heimsóknir á hana? Hversu margir eru virkilega að nota tæknina til að búa til traffík?

Margir spyrja: “Hver var tilgangur kærunnar?” Það er ekki hægt að skilja hann á neinn annan hátt en þann að ljósmyndarafélagið og/eða viðkomandi ljósmyndarar vildu losna við umrædd fyrirtæki af markaði. Neytendavernd eru frekar léleg rök finnst mér. Það fylgir því engin hætta að fara í myndatöku hjá ófaglærðum.

Fyrir mér er ljósmyndun lífstíll. Ég dey ef ég skapa ekki. Ég er svo heppinn að geta framfleitt mér og mínum við það að selja sköpun mína og þjónustu. Það eru forréttindi sem ég myndi ekki vilja svifta nokkurn mann. Sama í hvaða skóla hann fór – eða ekki.

28 thoughts

 1. Góður punktur en þú skautar (eins og flestir) framhjá lögunum.

  í þjóðfélagi sem byggir á lögum, viljum við að allir séu jafnir fyrir lögunum og fari þar með eftir þeim. Við viljum ekki að sumir velji sér lög til að fara ekki eftir. Enda skapar slíkt kaos.
  Þar með (burt séð frá tilfinningum okkar um það hvað ætti að vera) bar þeim að far eftir lögum eða breyta þeim ella. Eftir lagabreytingu yrði þeim þá fullfrjálst að starfa, þangað til hins vegar ekki.

  Í okkar þjóðfélagi hefur hugsunin verið ríkar um það hvernig komast megi framhjá lögum, en sú hugsun hvernig megi vinna best með lögin til hliðsjónar. Slíkt hefur leitt okkur út í það fen sem við nú sitjum djúpt í.

  Séu menn ósáttir við lög þá vinna menn í því að breyta lögunum, ekki brjóta þau.

 2. Vel mælt Chris, þessi mál sem eru í gangi og umræður eiga eftir að skaða meira þá sem kærðu frekar en eitthvað annað.

  Það verður einnig fróðlegt að sjá hvort að þessi blessuðu lög fái þá loksins endurskoðun, setja ljósmyndun í Listaháskólan eins og þetta er í flest öllum löndum í heiminum og gera þetta að háskólanámi. Ef fólk vill ekki fara í skóla að læra að nýta hæfileika sína þá er þeim meira en frjálst að gera það og sjá hvort þeir geti skapað eitthvað sem fólk vill.

  Verið að fela sig á bakvið það að þetta hafi verið að skoða neitendur er nátturulega út úr kortinu, hafa neitendur eitthvern minni möguleika á að fá sitt í gegn gagnvart þeim sem eru lærðir eða ekki. Klárt mál að ég hef séð mjög svo léleg vinnubrögð hjá lærðum einstaklingum, og kúnna sem áttu í miklu basli með að fá það sem þeir vildu. Hvort sem það var endurgreiðsla eða endurtekning á myndatökum hjá fagaðila.

  Sköpun er klárlega eitthvað sem ekki er hægt að binda niður sem iðnað, það eitt er klárt.

 3. Góð grein og ég er sammála þér í þessu.
  Ég var að velta fyrir mér hvort Sinfóníuhljómsveit Íslands getur ekki látið loka fyrir Bubba Morthens því eftir því sem ég best veit hefur Bubbi ekki lokið prófi frá tónlistarskóla og þar af leiðandi hlýtur tónlist hans að hafa skaðleg áhrif á neytendur.

  Kv. Hm

 4. Góður pistill Chris. Þessi kæra virðist eingöngu vera gerð í þeim eina tilgangi að útrýma samkeppni og punktur.

 5. Heyr heyr Christopher.

  Nú vill svo til að ég þekki til einkarekins leikskóla sem hefur leitað til flefle til þess að taka myndir af leikskólahópnum með kennurum í tvö ár. Ástæðan fyrir því að leitað var til, ehh, fagaðila í stað þess að taka myndirnar í skólanum með þeim gæðum sem það fylgir var sú að verðið sem boðið var upp á var frábært miðað við gæðin sem fengust umfram það sem starfsfólk leikskólans gat boðið uppá.

  Afleiðingar þessa dóms, ef túlkunin sem ég hef heyrt frá kærendum stendur, verður ekki sú að þessi leikskóli, og margir aðrir í sömu stöðu, leiti frekar til ‘réttra’ aðila heldur einmitt að þeir eyði peningnum frekar í annað. Og hvað græða ljósmyndarar á því?

 6. Vissulega brautu þessir aðilar lög. Það er ótvírætt og rök þeirra fyrir því að þetta hafi verið auglýsingastofur að selja hönnun eru ekki beint sannfærandi.

  En mér finnst lögverndun á einni sköpun umfram aðra ekki ganga upp. Af hverju á ljósmyndun e-h ríkari rétt umfram aðra sköpun?

  Mér sýnist nú flestir vera á þeirri skoðun að lögin séu barns síns tíma. Í dag virka þau alla vega meira sem “starfsöryggislög” en “neytendalög”. Það er alveg skiljanlegt að fólk sem hefur eytt miklum fjármunum og tíma í að ná sér í menntun og réttindi finnist það ósanngjarnt að hver sem er geti boðið sömu þjónustu án þess að hafa menntað sig.

  Sjálfur keppi ég við fólk sem býður t.d. brúðkaupsljósmyndun á mun hagstæðara verði – jafnvel 1/4 af minni verðskrá. Ég veit að margir þeirra eru ólærðir, hafa aðra vinnu sem tryggir þeim laun og hafa bara brot af þeim “overhead” sem ég hef í tækjum, leigu og tryggingum.

  En það mun aldrei hjálpa mér mikið að þeir séu “ólöglegir”. Ég verð bara að gera betur en þeir – svo mikið betur að tilvonandi viðskiptavinir sjái klárlega að ég sé þess virði að skipta við.

  Samkeppni er alltaf af hinu góða – lögleg eða ólögleg. Lögverndunin ýtir undir að menn endurnýji sig ekki og staðni sem ljósmyndarar. Þess vegna finnst mér hún tímaskekkja.

  Chris

 7. Hjartanlega sammála þér. Mig grunar einmitt að breyting á þessum lögum eigi eftir að efla ljósmyndun á Íslandi með heilbrigðri samkeppni. Þar sem ríkir ekki alvöru samkeppni mun alltaf ríkja ákveðin stöðnun.

 8. Heill og sæll. og vel mælt

  Ég tel alveg jafn mikilvægt nú sem áður að koma á heildrænum samtökum þeirra sem hafa atvinnu af ljósmyndun á íslandi. – öllum til framdráttar

  Það ber að hafa í huga varðandi þennan dóm að hann snýst í raun alls ekki um ljósmyndun í sjálfu sér. Heldur vill svo til að málsaðilar eru ljósmyndarar. Dómurinn snýst um starfsréttindi í heild sinni, í hvaða stétt eða stöðu sem er. Hann snýst um gildi og vægi menntunar og mikilvægi fagmennsku á hvaða vettvangi sem er og einnig að nám skilar bættum möguleikum til atvinnu.

  Til íhugunar.
  Þú getur fengið hvern sem er til að klippa þig og jafnvel fengið „flottustu og bestu“ klippingu sem sést hefur (eða enginn hefur séð áður), en að reka atvinnustarfsemi og vinna með umsvifum á markaði án menntunar er ekki liðið.

  Þú getur líka varið þig sjálfur fyrir rétti án aðstoðar lögfræðinga… en ekki rekið lögfræðiþjónustu, jafnvel þó þú komir vel fyrir þig orði.

  Menntun skilar þér möguleikum til árangurs en ekki ávísun á velgengni… ef þú kannt ekkert í því sem þú lærðir.

  Ég held að allflestir sem starfa sem ljósmyndarar hafi hlotið menntun á sínu sviði og eða sótt sér frekari menntun fljótlega í frammhaldinu (Ari Magg, Rax ofl.)

  Í menntun felst kunnátta, þekking og þroski sem mikilvægur er til að geta aflað sér frekari menntunar í leik og starfi, hvaða starfi sem er. Símenntun er því algjör grunnlykill að tilveru í nútíma heimi. Grunnmenntun þarftu að hafa til að geta aflað þér frekari menntunar. Engum dylst mikilvægi þess að kunna að lesa og skrifa. Sveinspróf er aðeins slík grundvallar réttindi og gerir þig læsan og skrifandi í eigin starfi. Þú býrð þá að þekkingu til að spyrja spurninga þér til framdráttar í starfi. – enda var sú leið valin að læra um hvað þitt áhugasvið fjallar. Án áhuga á starfsgrein eru engar líkur á árangri.

  Sveinspróf gerir þig hinsvegar ekki endilega að ljósmyndara…! en gefur þér ákveðin starfsréttindi

  Það mega allir taka myndir – en það geta ekki allir – sveinspróf getur gert þig færan um að greina þar á milli.

  Þegar ég hóf nám í ljósmyndun hafði ég starfað á markaði í um 10 ár og vissi að ég gat allt og var meira að segja bestur í sumu. Ég vann við allar gerðir ljósmyndunar (auglýsingar, fréttir, tímarit, helst ekki börn eða fjölskyldumyndir). Það síðasta sem mér datt í hug var að menntast á portrait stofu. Aðstæður höguðu því svo til að ég komst á samning (valinn úr fullt af fólki) hjá portraitstofu og ákvað að harka þetta af mér, enda hafði oft verið hnýtt í mig að ég hefði ekki próf uppá vasann. Eftir fyrstu vikuna komst ég að því að það var nú ýmislegt sem ég hafði ekki kynnst áður. Og þegar á leið fór ég að gera mér grein fyrir takmörunum mínum þrátt fyrir bestu græjur og áralanga reynslu. Við útskrift vissi ég um hvað portraitljósmyndun gekk út á og ákvað að leggja það starf fyrir mig.

  Ég öðlaðist einnig skilning á því hvað ég kunni lítið í því sem ég hafði verið svo góður í áður.

  kv. Gunnar Leifur

 9. Líklega best að óska eftir þeim upplýsingum frá honum? Þeir feðgar hafa unnið saman svo lengi sem ég man með einum eða öðrum hætti og tel Ara amk. fullfæran um að standast þær kröfur sem gerðar væru til hans.

  Varðandi…
  “…hafa neitendur eitthvern minni möguleika á að fá sitt í gegn gagnvart þeim sem eru lærðir eða ekki. Klárt mál að ég hef séð mjög svo léleg vinnubrögð hjá lærðum einstaklingum, og kúnna sem áttu í miklu basli með að fá það sem þeir vildu. Hvort sem það var endurgreiðsla eða endurtekning á myndatökum hjá fagaðila.”

  … þá vil ég segja…
  Fjölmörg mál og erindi berast til Ljósmyndarafélagsins á hverju ári vegna samskipta viðskiptavina við “ljósmyndara” sem starfa á markaðnum sem lúta að gæðamálum og almennri “viðskipta siðfræði”. Nær öll þau mál hafa snúið að snillingum sem starfa á markaðnum, hafa talið sig geta allt en lítið kunnað. Sú staða hefur valdið öllum vandræðum. Í öllum tilvikum (þó fáum) þegar leitað hefur verið aðstoðar Ljósmyndarafélagsins vegna misbrests á þjónustu félagsmanna hefur málið hlotið farsælan endi og oftast á miskilningi byggt.

  Ljósmyndarafélagið getur hins vegar ekki ráðið yfir viðskiptaháttum hvers og eins heldur aðeins komið að málinu sem milligönguaðili og litið á málið útfrá faglegum forsendum og komið með tillögur byggt á þeim rökum. Markaðurinn ræður alltaf! Hvort sem menn eru leiknir eða lærðir. Góðir eða lélegir. Þannig getur “góður ljósmyndari” vegna “markaðslegra hafta og framkomu” ekki notið velgengni og eins getur ljósmyndari sem er býr yfir góðri markaðssetningu notið meiri velgengni þrátt fyrir takmörkun við sína við sína “ljósmyndun” útfrá “listrænu gildi” eða “listhæð”.

  Við búum á markaði með óþrjótandi og ómettandi eftirspurn og stöðugum sóknarfærum. Sú ljósmyndun sem ég stunda amk. á ekki heima í Listaháskóla að mínu mati. Fólk kemur til mín í hópum vegna þeirrar vöru og þjónustu sem ég er þekktur fyrir en ekki vegna “listrænna tilburða”. Fólk vill góðar og fallegar myndir af börnum sínum og þar hjálpar hinsvegar þekking á tæknilegum þáttum mér mjög. Ég get hlutstað á óskir og þarfir og reynt að mæta þeim byggt á þekkingu og reynslu… og veitt viðskiptavininum það sem hann óskar. Viðskiptavinurinn leitar nefninlega ALLTAF að þeim ljósmyndara sem VILL ALLT FYRIR HANN GERA fremur en þeim BESTA (enda hvað er það?)

 10. Vel mælt Gunnar Leifur, er þér innilega sammála varðandi þjónustu. Hún vegur þyngst þegar kemur að því að starfa sem ljósmyndari. Því má segja að ljósmyndun sé fyrst og fremst þjónustustarf – frekar en iðnaður.

  Ég er líka sammála um nauðsyn þess að skapa umhverfi hér á landi sem hvetur ljósmyndara til náms áður en þeir fara út í að bjóða þjónustu sína. Ég held að við getum verið sammála um að umhverfið hafi verið frekar dapurt hér á landi undanfarna áratugi, enda hafa flestir farið út fyrir landsteinana til að sækja sér sína menntun.

  Það er hins vegar auðvelt fyrir ljósmyndara að mennta sig (hvort sem það er áhugafólk eða atvinnufólk) með hjálp Netsins í dag. En sú menntun einskorðast að mestu við tæknileg málefni.

  Þú lærir seint á Netinu hvað þarf til að geta lifað af ljósmyndun. Hæfileikar og ástríða vega þungt, en þjónustulund, siðsemi og samskiptahæfni verða að vera til staðar líka.

  kveðja
  Chris

 11. Skemmtilegar umraedur.
  En vardandi samskipti Ljósmyndarafélagsins og theirra ófaglaerdu. Vaeri ekki upplagt ad hleypa theim thar ad. Ekki einskordast einungis vid thá sem hafa próf frá idnskólanum. T.d ef thú vilt gerast medlimur hjá bladamannafélagi íslands thá verdur madur sýna fram á ákvednar tekjur á ári tengdar fjolmidlun. (thetta á líka vid ef thú vilt vera skrádur sem bladaljósmyndari, their spyrja ekki thar hvort thú sért med sveinspróf.) Thad sem ég er ad reyna ad segja er ad Ljósmyndarafélag Íslands gaeti haft áhrif á hvernig félagsmenn stunda sín vidskipti, t.d. fordast ósanngjarna samninga, gaeta hofundarrétta, borga VSK, og thannig myndu their líka thurfa ad svara fyrir sig ef félaginu berst kvortun vegna ákvedins ljósmyndara.
  Thetta myndi líka auka tekjur og áhrif félagsins til muna og ég er mjog fylgjandi thví ad ljósmyndarar gaeta réttinda sinna.
  Sigurdur

 12. Jú, ég er á því að hleypa öllum ljósmyndurum í félagið, hvort sem þeir eru með menntun eður ei. Það er miklu meira unnið með því í alla staði. Þannig er hægt að hjálpa mönnum með margt, eins og t.d. fræðslu varðandi höfundarrétt.

 13. Ég man eftir gömlu máli sem rétt er að rifja upp hér.

  Það var þegar svokallaðir lærðir ljósmyndarar vildu fá að hafa einkaleifi á allri passamyndatöku á landinu með tilheyrandi aukakostnaði og veseni fyrir fólk, embætti og stofnanir.
  þetta var á þeim tíma þegar nýja ljósmyndatæknin var búin að ryðja ser til rúms og filmur að leggjast af.
  Ef ég man rétt þá runnu þeir á rassgatið með þessa eiginhagsmuna frekju, þetta voru kolruglaðar kröfur á nútíma tækni og þróun.
  Ofl svipað mætti nefna sem úrelt lög náðu ekki yfir.
  Þá voru það lærðir prentarar á sínum tíma, margir þeirra reyndu að setja sig upp á móti ljósritunarvélinni þegar hún kom á markað og sögðu hana tilheyra ser og sínu starfi,allir vita hvernig það fór. Í dag prentvél komin inn á nánast hvert einasta heimili,alveg eins og nýmóðins myndavél. Tímarnir breytast með nýrri tækni og kröfurnar um leið,en lög og reglur sjaldnast í takt við nýja tíma.

 14. Viðskiptavinurinn fer þangað sem honum líkar varan,verðið og þjónustan hvort sem þjónustan er lærð eða ekki.

  Kannski eru það þessir svokallaðir atvinnuljósmyndarar sem lærðu hér í eldgamladaga að sulla með filmur í eitri bara als ekki nægilega góðir ljósmyndarar þannig að þeir þurfa að vernda lélega og dýra vinnuna sína með ríkisvernd og úreltum lögum.

  Að sjálfsögðu á ég ekki við alla lærða ljósmyndara því margir af þeim eru líka snillingar

 15. Vegna spurninga um að hleypa öðrum að.

  Sú tillaga kom fram í ljósmyndarafélaginu fyrir margt löngu. Þar lagði ég til að farið yrði að grunnreglu erlendra félaga og miðað við að ef þú hefðir 70% tekna af ljósmyndun þá gætir þú gerst félagi.
  Það er hinsvegar ekki hægt að svo stöddu máli. Iðnlöggjöfin kemur í veg fyrir það og einnig lög félagsins. Það er ekki hægt að breyta lögum félagsins án þess að styðja lögbrot og því er ekki hægt að opna félagið án þess að breyta iðnlögum.

  Tilraunir til að búa til regnhlífarsamtök fyrir ljósmyndun alla áhugaljósmyndara, blaðaljósmyndara og félagsmenn í LÍ fóru líka út um þúfur þar sem hver og einn hópur taldi sig merkilegri en annann.

  Auglýsingaljósmyndarar (sem vanir eru samkeppni úr öllum áttum) hafa hins vegar alveg staðið utan við öll mál og ekki skipt sér að einu eða neinu. Það eitt og sér er líka vont.

  Allir sem eru að vinna með ljósmyndir á einn eða annann hátt eru að missa mikið af réttindum sínum og það er verið að brjóta verulega mikið á ungu fólki. Það er því mikil þörf á samvinnu, hún næst hins vegar ekki nema menn beri virðingu hver fyrir öðrum. Sú virðing er því miður takmörkuð nú um stundir og hluti atvinnumanna talar illa til áhugamanna sem og áhugamenn nota hvert tækifæri til að skíta út atvinnumenn.
  Eigin hagsmunir eru teknir fram yfir framtíðar og heildar mynd því miður.

  ég lagði til á aðalfundi ljósmyndarafélagsins að félagið hefði forgöngu um að breyta lögunum og gæti því stjórnað því að menntun yrði aukin ásamt öðru. Því miður varð ég undir í þeirri umræðu og þeir sem harðir voru á að kæra klufu félagið óbeint. Aðrir ljósmyndarar drógu sig til hlés þar sem ekki vildu þeir deila við vini sína.

  Dómurinn er því góður að því leyti til að lög í landinu standa og í kjölfar hans vita menn hvernig staðan er. Út frá þessari stöðu er hægt að vinna. Hvernig sú vinna fer fram og á hvaða grunni kemur til með að skipta gríðarlega miklu máli um framtíðina.

  Eins og staðan er nú kemur þetta hins vegar til með að skaða greinina. Það er þörf á þvi að báðir aðilar slíðri sverðin og setjist niður og ræði málin. Hvernig er best að haga málum því annars fáum við bara á okkur enn önnur eftirlitslög (sem iðnlögin í reynd eru) og það kanski ekki af neinu viti sem gerir greininni bara erfiðara fyrir en áður.
  Ekki mun ljósmyndun verða lagalaus og ríkinu er þörf á að skilgreina hana. Sú skilgreining á að stjórnast af ljósmyndaraumhverfinu og það fyrst og fremst fagmönnum en í þeim heyrist ekkert. Aðeins þér og mér en við erum yfir 150 þannig að það er skrítið ef ekki hafa fleiri skoðun á málinu.

 16. Það er eitt sem ég er ekki að skilja í allri þessari umræðu með að leggja niður lögverndunina.
  Hver er tilgangurinn með því að gera það og hverjar verða afleiðingarnar?

  Það gleymist svo mikið í umræðunni að í þeim löndum sem þetta er leyft frjálst lítur það þannig út á yfirborðinu. Erlendis þarftu að vera með umboðsmann til að fá góð verkefni og umboðsmenn taka sér allt uppí ár að gefa grænt ljós á hvort þeir vilji hafa umræddan ljósmyndara undir sinni könnu.
  Einnig þarftu erlendis að ganga á milli með portfolio og það annsi góða og sýna stór verkefni fyrir stóra kúnna sem þú hefur gert. En þú færð ekki stóra kúnna nema með umboðsmanni.
  Þessi umræða hefur enginn bent þessum áhugaljósmyndurum á því hér ríkir svo mikið kaós á þessum markaði.
  Auglýsingarstofur vinna mikið útfá vinatengslum og maður þekkir mann. Sem er í sjálfu sér ágætt en það skilar sér ekki í neinum gæðum.
  Svo er farið í áróðursstarfsemi á netinu gegn atvinnuljósmyndurum sem eyðileggur bara meira útfrá sér.
  Bara það að íslenska ríkið fór að taka passamyndir fyrir vegabréf þá voru þeir annsi nálægt því að eyðileggja iðnlöggjöfina og ef þeir ætla að sópa þessa iðngrein algjörlega útaf borðinu með opnum á stéttinni þá þurfa auglýsingarstofur og aðrar starfstéttir sem þurfa að láta mynda fyrir sig að hafa mun skýrari reglur með gæði. Enda verður gæðamálunum þá komið inná borð til þeirra en ekki hjá fagaðilum.

  Ég veit ekki hve oft ég hef verið að gera tilboð í verkefni og fá svo í andlitið “Nei við ætlum að nota áhugaljósmyndara. Hann er svo miklu ódýrari”
  Þarna er ekkert verið að horfa í gæði eða góða vöru.
  Það er mjög erfitt að vinna í þannig umhverfi. Tækin sem við erum að nota eru frekar dýr og það er mun meiri vinna í eftirvinnslu en fólk gerir sér grein fyrir en ef við viljum keppa við áhugamenn þá þurfum við að draga okkur svo langt niður í gæðum til að geta keppt við sama tímakaup og þeir.

  Ef við skoðum hlutina útfrá því að þú ert að fá allar myndir á diski frá portrettstofu og ætlar svo að gera sjálfur þínar myndir og á kartoni þá ertu kominn í meira kostnað en ef þú hefðir farið beint á stofu sem býður þér uppá útprent í kartoni.
  Þarna er verið að mismuna kúnnanum og þarna er gæðamálum komið til kúnnans en ekki til fagaðilans.

  Ég er sammála þér Kristján með að það hafa alltof fáir atvinnuljósmyndara viljað segja sýna skoðun á þessu máli. Kannski þora þeir því ekki því þeir lenda kannski undir áróðursmasskínu ljósmyndakeppnis. Heimasíðan er stundum ekki alltaf að segja allt um gæði. Það er lokaútkoman útprentuð sem lokar hringnum.

  En ef þeir standa saman þá getum við gert þetta umhverfi mun betra með betra regluverki og enn betri gæðum.

 17. Sæll Lýður.

  Ég hef nú ekki orðið var við það að ljósmyndabransinn í þeim löndum sem ég starfað utan Íslands, svo sem og í Noregi eða Danmörku, sé háður umboðsmönnum.

  Því finnst mér svolítið sérstakt að ýja að því að ef við opnum ljósmyndafagið öðrum en þeim sem hafa lokið sveinsprófi (eða öðru ljósmyndanámi sem er viðurkennt er af menntamálaráðuneytinu) skapist hér markaður þar sem ljósmyndarar eru alfarið háðir umboðsmönnum- eða skrifstofum.

  Þú hittir naglann ansi vel á höfuðið varðandi auglýsingabransann hér, sem stýrist mikið af vinatengslum og maður þekkir mann. Það virðast alla vega ekki margir ljósmyndarar búa til flotta möppu til að selja sig á auglýsingastofunum. En hey – við búum á Íslandi, svona gerast kaupin oftast á eyrinni, sama hvort það er í ljósmyndun, bankastarfsemi eða á Alþingi.

  Það er líka rétt að það er fúlt að vinna í umhverfi þar sem tilvonandi viðskiptavinir virðast oft horfa fyrst á verðið og svo vöruna/gæðin. En hvað segir það okkur um gæði ljósmyndunar almennt?

  Mér hefur stundum fundist að Ljósmyndarafélagið snúist um samráð um verðstrúktur, fremur en að passa upp á að félagar veiti þjónustu sem er félaginu sæmandi. Þar er víða pottur brotinn og þess vegna hafa áhugaljósmyndarar átt góða möguleika að koma sér fyrir á markaðnum.

  Gunnar Leifur sagði einmitt að kúnninn fer þangað sem hann fær bestu þjónustuna. Honum er slétt sama um myndavélina, ljósin, tölvuna eða hvort skjárinn sé kvarðaður. Hann vill fá myndir sem eru nægilega góðar (að hans mati NB) og fá þær afgreiddar fljótt og örugglega.

 18. Til að taka undir með Gunnari Leifi hér að ofan um viðurkenningu á menntun og hæfni til að starfa sem ljósmyndari langar mig að benda á að 135 starfsgreinar eru lögverndaðar á Íslandi, þar af eru u.þ.b. 90 af þeim sem hafa ekkert með líf og limi fólks að gera. Þessar uppl er að finna hér:
  http://menntagatt.is/default.aspx?pageid=270

  Þarna stendur einnig að þessi lögverndun heyri undir Iðnaðar og viðskiptaráðuneytið og evróputilskipun 1999/42/EB sem gildir í öllum evrópusambandsríkjum eftir því sem ég best veit.

  Þegar sú tilskipun er lesin segir í yfirskriftinni “TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 1999/42/EB frá 7. júní 1999 um tilhögun viðurkenningar á menntun og hæfi með tilliti til atvinnustarfsemi sem fellur undir tilskipanir um afnám hafta og bráðabirgðaráðstafanir og um viðbót við almennu kerfin til
  viðurkenningar á menntun og hæfi”

  Sem sagt, þessi lögverndun er til, vegna þess að það er verið að viðurkenna menntun. En til hvers er þá Tækniskólinn ef menntun er ekki viðurkennd á Íslandi? Í blaðagrein Morgunblaðsins “Mennt er máttur” kemur fram að þær þjóðir, sem lengst hafa náð í hagsæld og velferð, hafa varið mestum fjármunum til menntunar, rannsókna og vísinda.

  Það hefur mikið borið á því í umræðunni að fólk kvartar yfir því að fá ekki pláss hjá meistara hér á landi, sökum þess að þeir vilji/geti/nenni ekki að taka að sér nema. En þá spyr ég, hvað með að drífa sig út fyrir landsteinanna og sækja sína menntun þangað? Ég er ekki ljósmyndari, og mitt fag var ekki í boði hér á landi þannig að ég þurfti að sækja það til útlanda.

  Tæknin hefur vissulega breyst frá því að lögin voru sett á sínum tíma og starfs ljósmyndarans ekki það sama í dag og það var þá. En þegar litið er yfir langan lista lögverndaðra stétta, sést að það er ekki einungis starf ljósmyndarans sem hefur breyst. Hvað með blikksmiðinn, landslagshönnuðinn, prentarann eða rennismiðinn? Þetta eru bara dæmi.

  Ég vil hvetja alla þá sem hafa áhuga á að starfa sem ljósmyndarar, að sækja sér menntun á því sviði, hvort sem það er hér á landi eður ei, lög eru lög og þeim ber að fara eftir hvort sem mönnum finnst þau óréttlát eða ekki.

 19. Lög eru gerð fyrir fólkið og byggð á málefnalegum grunni svo síður komi upp ágreiningur, Óréttlæti og Ósanngirni. Svo breytist tæknin og tíminn og þá þarf að breyta lögunum.

  Margir starfandi áhugaljósmyndarar eru mikið betur tækjum búnir heldur en þeir lærðu og taka mikið betri myndir.

  Af allri þessari umræðu má dæma að lærðir ljósmyndara eru að berjast fyrir því að hafa ekki samkeppni og vilja sitja einir að kökunni sem allir geta búið til og bakað

  Margir af okkar bestu ljósmyndurum hafa ekkert látið heyra í ser hér, vegna þess að þeir eru sjálflærðir snillingar á sínu sviði.

 20. takk fyrir góða grein Chris, þetta er málefnalegasta umræðan sem ég hef séð hingað til um þessi mál.

  Var að fletta upp umræðum tengdum “ljósmyndari” á vaktarinn.is og rakst á þessa umræðu:

  http://er.is/messageboard/messageboard.aspx?advid=22039882&advtype=52&page=1&advertiseType=0

  kannski ekki hátt skrifaðasti umræðuvefurinn en sýnir smá hvað það er sem sumt fólk er óánægt með. er nú ekki að mæla með að gefa 250 myndir í disk í 3 lita brigðum en það er nú samt í lagi að láta fólk fá e-h nokkrar myndir í vefupplausn til að setja á netið eða fb. hef séð marga sem gera það en vista þá myndina í jpeg 4-5 þjöppun eða blasta risastóru vatnsmerki yfir alla myndina. pixeleruð mynd kemur kannski í veg fyrir að fólk prenti út en er ekki til sóma fyrir viðkomandi! hvað þá innskönnuð mynd á pearl pappír…

  held að áhugaverðasta kommentið í þræðinum hér að ofan hafi verið óánægja konunar með að myndirnar voru of vel límdar inn í albúmið:)

  og gera kúnnanum grein fyrir því í upphafi hvað eftirprentanir kosta. ekki láta fólk fá kast í desember þegar það kemst að því að jólakorta prentið kostar á við nokkrar myndatökur ef því er þannig fyrir komið

  allavega held ég að þetta lögsóknar æði setji stofubransan á lægra plan frekar en æðra. nú er þetta að fara fyrir hæstarétt með tilheyrandi umfjöllun og stappi. það er þörf á góðum stofum, og fólk vill halda í þess hefð að fara á stofu með reglulegu millibili.

  Varðandi vinatengsl í auglýsingageiranum þá er hann vissulega til staðar en stofurnar mega margar hverjar eiga það að þær dreifa verkefnunum nokkuð vel á flesta sem þeim líkar við án tillits til vinatengsla.

  Vona að einhverskonar regnhlífarsamtök með 70% viðmið komist á laggirnar, alltaf gaman að geta umgengist aðra ljósmyndara;)

 21. “Það mega allir taka myndir – en það geta ekki allir – sveinspróf getur gert þig færan um að greina þar á milli.”

  Þessu er ég ekki sammála.

  Ég er tónlistarmaður. Segjum sem svo að ég sé að taka upp plötu. Mig vantar gítarleikara til að spila sóló og mig vantar upptökustjóra. Gummi Pé sem er sjálflærður að mestu og ekki með neinar gráður uppá vegg finnst mér æðislegur og fæ hann, hann spilar frábært sóló, enginn slasast, ég er sáttur og borga honum það sem hann sættir sig við. Allir ánægðir. En nei, nú kemur einhver sem er útlærður gítaristi með gráðu úr Háskóla og heimtar ég þurki burt sólóið hans Gumma og ráði sig, á hærri launum afþví að gítaristi er lögverndað starfsheiti. Ég geri það, sólóið er kannski fínt, en ekki það sem ég vildi upprunalega og það kostaði mig miklu meira. Allir ánægðir? Nei.

  Ég sé engann mun á þessu tvennu, ljósmyndun og tónlistargeiranum. Sjálfur er ég atvinnutónlistarmaður, heilmikið lærður reyndar, en vel mér ekki samstafsfélaga byggt á diplómum. Þannig virkar bransinn ekki.
  Þeir hæfustu lifa af og það styrkir tónlistarbransann að allir eru jafn réttháir, lærðir sem ólærðir og þeir ólærðu eru oft að ýta á þá lærðu að vera á tánum…. og öfugt!

  Sýnist ykkur svo að íslenski tónlistarheimurinn sé í vanda eða kreppu?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *