Kærkomin þjónusta

Á Íslandi er ljósmyndavéla- og linsueign með ólíkindum. Ég fullyrði að það er engin þjóð jafn rosalega vel græjuð þegar það kemur að ljósmyndabúnaði almennt.

Fólk byrjar gjarnan smátt (sem er þó yfirleitt grunnfjárfesting upp á 2-300 þúsund) en eru komnir í milljóna fjárfestingu áður en þeir vita af. Og margir eru ekki að þéna neitt inn á þessum búnaði!

Maður hefur vanist því í gegnum tíðina að kaupa þann búnað sem hefur þurft í verkefnin. Ég viðurkenni fúslega að ég er duglegur við að versla – en ég hef líka verið duglegur að selja á móti. Ég fer reglulega yfir búnaðinn og er bara með þau verkfæri sem henta mér hverju sinni.

Á þenslutímum verlsaði maður nánast hvað sem var. Hikaði ekki við að kaupa 300 þúsund króna linsu þó að það væri bara fyrir eitt verkefni. Ég vissi að það kæmu fleiri í svipuðum dúr, sem stóð yfirleitt heima. Í dag er öldin önnur.

Það er því ánægjulegt að tækjaleiga Sense skuli nú bjóða leigu á Canon ljósmyndabúnaði. Úrvalið má sjá hér. Sumir vilja sjálfsagt sjá meira úrval, en ég er nú bara á því að þetta sé ágætis byrjun. Ég held að það sé sniðugt að stíla fyrst og fremst á sérhæftar og dýrar linsur eins og tilt/shift línuna, björtu föstu L-linsurnar og svo auðvitað stóru hvítu aðdráttarlinsunar.

Ég óska Sense til hamingju með þetta og vona að þessu framtaki verði vel tekið. Þá vex leigan og dafnar og hver veit nema að menn geti jafnvel bara farið að reiða sig á að leigja búnað fyrir verkefni – í stað þess að liggja með fjármuni í búnaði sem er ekki notaður nema stöku sinnum?

3 thoughts

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *