Hugarástand

Urriðafoss waterfall in river Þjórsá, South Iceland. Landsvirkjun, the energy company owned by the Icelandic State, is planning to build hydropower stations on the lower part of Þjórsár river, at Urriðafoss and Núpur..The proposed Urriðafoss Power Plant is expected to have a capacity of approximately 125 MW and a power-generating capacity of 930 GWh per year. The powerhouse will be underground and a tunnel leading from the powerhouse will open out into Þjórsá river below Urriðafoss waterfall. The waterfall is expected to disappear.

Hann var undrandi, bandaríkjamaðurinn sem ég fór með í ljósmyndaferð um Suðurland í síðustu viku, þegar ég sagði honum að til stæði að virkja neðri hluta Þjórsá og svo gott sem þurrka út Urriðafoss. Hann var enn meira undrandi þegar ég sagði honum frá Kirkjufossi sem varð að engu og öllu því einstaka landsvæði sem var sökkt vegna Kárahnjúkavirkjunar. Hann skildi nefnilega verðmæti þess að hrófla ekki við svo einstakri náttúru. Hann skildi að til langtíma eru það meiri verðmæti fyrir Íslendinga að eiga landið, en að fórna því fyrir einhæfan orkufrekan iðnað, sem er að mestu leyti í eigu samlanda hans.

Nú heyrast háværar raddir um að við höfum ekki efni á því að virkja ekki – að hér sé engin von nema taka upp fyrri iðju og halda áfram að selja auðlindir landsins. En hvernig væri að við Íslendingar myndum hætta augnablik að hugsa um efnahagsástandið og skoða frekar eigin hugarástand?

Það liggur fyrir að menn sáu í hvað stefndi löngu fyrir efnahagshrun. Þó að vinsælt hafi verið að segja í kjölfarið á þessum atburðum að “enginn gat séð fyrir alþjóðlega efnahagsvandann sem var kveikjan að hruninu á Íslandi” þá er margbúið að sýna okkur fram á það að sérfræðingar um allan heim – og hér heima – sáu vandann fyrir.

Við vorum búin að heilaþvo okkur varðandi það að hér giltu ekki almennar reglur. Við erum svo sérstök þjóð. Okkar bankamenn voru sérstakir og því giltu módelin ekki um þá. Það trúðu því allir að þeir væru svo miklu snjallari en aðrir. Ég veit að ég trúði því.

Snilldin smitaði líka út frá sér. Hinn almenni borgari þurfti að snjallvæðast og láta “peningana vinna” fyrir sig. Á örfáum árum varð til stétt fólks sem stórefnaðist á undraverðum hraða. Margir þeirra unnu ekkert meira en aðrir. Þeir voru bara svo snjallir að fá innherjaupplýsingar um hlutabréfakaup eða svo snjallir að fá milljónatugi fyrir að hefja störf eða hætta í vinnunni sinni. Afi minn heitinn sagði gjarnan þegar fólk ræddi um að taka lán fyrir hinu eða þessu: “Best er að afla fyrst og eyða svo”. Snjöllu Íslendingarnir hugsuðu ekki svona. Þeir eyddu fyrst og fremst og öfluðu sem minnst. Aflinn var ímyndaður. Aflinn var kjaftaður upp eftir þörfum. Og þegar á hólminn var komið var aflinn aðallega loft.

Kirkjufoss í Jökulsá á Fljótsdal, Norðurdal. Áin er nú orðinn þurr vegna myndun Ufsalóns, Kárahnjúkavirkjunar. Kirkjufoss waterfall in river Jokusla a Fljotsdal, Nordurdal. The river is now dry, due to the making of Ufsalon, part of the Karahnjukar powerplant.

Og hvað gerist svo þegar þessi sérstaka þjóð þarf að horfast í augu við snilldina? Jú, hún vill fá sértæka meðferð. Við getum til dæmis verið sammála um að maður mætir ekki drukkinn til vinnu eða stelur frá atvinnuveitandanum – a.m.k. ef maður vill halda í starfið. En ef maður er alþingimaður virðist það í lagi. Þá á maður það e-h veginn inni því maður er svo duglegur að öðru leyti. Er ekki nálgun okkar á skuldbindingum bankana á svipaða leið? Ætluðu stjórnvöld ekki, með Davíð Oddson í broddi fylkingar, að bjarga innlenndri starfsemi bankana með því að stofna ný félög um hana og skilja svo erlendar skuldir eftir hræinu? Við erum svo sérstök og snjöll. Við bárum ekki ábyrgð á alþjóðakreppunni. Þess vegna gilda reglurnar ekki hér.

Maður myndi ætla að nú væri tími til að horfast í augu við blekkinguna. En ennþá heyrum við kröfur verktaka um að fá að grafa. Af hverju? Jú út af því ÞEIR eiga gröfur. Þeir eiga því rétt á því að grafa. Enginn vill horfast í augu við þá staðreynd að byggingariðnaðurinn var að mestu að byggja á sandi. Það var sáralítið á bak við allar þessar framkvæmdir. Ekki voru þúsundir manna að flytja til landsins og bráður húsnæðisvandi handan við hornið. Og nú heyrist að virkjanir og fleiri álbræðslur séu eina lausnin. Skítt með það að dæmin frá Reyðarfirði sýna klárlega fram á það að stóriðjan bætti ekki lífskjör íbúa nema í besta falli tímabundið. Framkvæmdir urðu fyrst og fremst olía á eld þenslunnar í samfélaginu, svo ekki sé minnst á þær ótrúlegu fórnir sem við færðum á náttúrunni.

Margir segja hins vegar núna: “ÉG tók ekki þátt í þessu góðæri. ÉG keypti mér ekki flatskjá. ÉG fékk ekki ofurlaun. ÉG ber því enga ábyrgð.” Það er rétt að það tóku ekki allir þátt í partýinu. En svo lengi sem við erum ekki tilbúin að takast á við þá staðreynd að við búum í samfélagi við annað fólk og berum ábyrgð hvort á öðru, er vonlítið að við komumst nokkurn tíma út úr þessu öngstræti einstaklingshyggjunar sem þjóðin er svo rammvilt í.

 

2 thoughts

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *