Hópkaup eða hópgubb?

Sindri Benedikt Hlynsson (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Umræðan um faglærða vs. ófaglærða ljósmyndara heldur áfram. Undanfarnar vikur hafa myndatökutilboð á hópkaup verið í brennidepli, ekki síst á umræðuvefnum ljosmyndakeppni.is. Sitt sýnist hverjum. Ég hef ekki haft tíma til að setja mig mikið inn í þessi mál, en varð vægast sagt undrandi þegar ég sá að ekki var bara um ófaglærða ljósmyndara að ræða.

Ef fólk vill bjóðast til að taka myndir fyrir lítið sem ekkert og selja slíkar tökur í tuga- eða hundraðavís, skiptir þá e-h máli að viðkomandi sé faglærður eður ei?

Það hlýtur hver heilvita maður að sjá að þessi tilboð geta aldrei gefið góða afurð af sér. Ef viðkomandi ljósmyndari vill halda e-h metnaði og ekki hætta mannorði sínu, er ljóst að tímakaupið er lágt og vinnan mikil. Mjög mikil.

Til að hafa eitthvað upp úr svona rugli er eina ráðið að gera myndatökurnar að einsleitri færibandavinnu þar sem ekkert svigrúm er t.d. fyrir það að vinna traust þeirra barna sem á að ljósmynda. Þeirri ábyrgð er þá sjálfsagt velt yfir á kúnnann?

Þegar fólk fer til fagljósmyndara er það ekki að kaupa prentaðar myndir eða jólakort. Það er ekki heldur að kaupa mínútur í studio. Það er að kaupa þekkingu og reynslu – það sem margir myndu kalla fagmennsku. Að ætla sér að afgreiða myndatöku á 20-30 mínutum finnst mér ekki vera fagmennska heldur argasta fúsk. Sama hvaða “skóla” viðkomandi hefur farið í.

9 thoughts

 1. Við erum að tala um 4.110,- al-íslenskar krónur fyrir hverja myndatöku miðað við þær forsendur sem hann hefur gefið sér.

  Það gefur augaleið að það kemur til með að skila top-notch vinnubrögðum þegar kúnni #43 mætir á svæðið – eða hvað?

 2. góðir punktar, gleymist í umræðunni að 3 fyrstu sem riðu á vaðið með þetta rugl voru öll “Lærð”, en einhvern veginn fór umræðan að snúast um að þessi eini “ólærði” sem kom með svona tilboð væri að eyðileggja markaðinn fyrir hinum. menntaður eða ekki, þá er þetta bara skammgóður vermir, svo kemur janúar þá er langt í hókpkaups fermingartilboðinn… hvað svo, hópkaups brúðkaupstilboð – 25 kjall fyrir heilan dag með albúmi, sminku og vídeó töku? menn reka sig aldrei á þessu

  fúsk er rétta orðið yfir þetta eins og þú segir

 3. Einmitt Benni, enda var ég mun meira undrandi á þeim “lærðu”. Ekkert af þeim eyðileggur neinn markað, bara svo það sé á hreinu. Þau skapa hins vegar leiðinlegan orðstýr stéttarinnar sem við tilheyrum. Ljósmyndari fer að verða e-h samnefnari fyrir einkennilega viðskiptahætti. Það er glatað.

 4. þau vissulega ná nýjum kúnnum sem hefðu hvort eð er ekki farið í neinar tökur, annað hvort ekki pælt í því eða fundist það of dýrt. hef bara áhyggjur af því að þetta eyðileggji verðvitund margra á kostnaði við svona tökur. ef fólki finnst eðlilegt að myndataka með útprentun og vsk kosti undir 10þ þá er hætt við að þessi markaður fjari út, hefur svo sem verið að gera það í gegnum árin þannig að þetta er kannski bara náttúrlega þróun. survival of the fittest;)

 5. Já, portrett ljósmyndarar hafa átt undir högg að sækja lengi. En það er ekki bara samkeppni frá ófaglærðum sem er ástæðan fyrir því. Verðstrúktur er og hefur verið mjög óljós hjá mörgum portrett ljósmyndurum. Ástæðan er ekki síst sú að menn hafa ekki þorað að rukka almennilega fyrir sig sem ljósmyndara og kosið að fela hluta af verðinu í e-h fáranlega háum prísum á stækkunum og öðru áþreifanlegu. Hér áður fyrr þénuðu menn oft þokkalega á því einu að smyrja ofan á filmur og framköllun. Vandinn er svo þegar filmur og efni hverfa, hvar á þá að taka inn þá framlegð?

 6. sammála því með þennan falda kostnað sem oft hefur komið fólki á óvart eftir tökur. þetta þarf að vera skírt, að myndirnar komi ekki á disk og hver prentuð mynd kosti aukalega. það á líka við í þessum hópkaupspökkum, innifalinn 10 jólakort en ekkert minnst á hvað hin 100 kosta mann aukalega í smá letrinu

 7. Elli ódýri faglærður eður ei mun ávallt vera til.

  Það er erfitt að segja hvort svona færibandavinna telst fúsk eða ekki, allt eftir því hver lokaútkoman er.

  Miðað við snarsnúna útreikninga geta aðilar haft þokkalegt uppúr þessu athæfi ef þeir eru vel undirbúnir og með vinnuflæði í þokkalegu lagi. Sér í lagi ef menn hafa aðstoðarmenn, en hér byggja sjálfsagt útreikningar einnig á “overhead”.

  Í sjálfu sér er ekkert að því að nota ekki nema 30min til að mynda börn enda þau farin að þreytast eftir meira. Það sem svona kemur fyrst og fremst niður á og er vand séð hvernig menn ætla að leysa er öll hliðarþjónustan við viðskiptavininn að ég tali nú ekki um eftirásala og frekari þjónusta uppbygging viðskiptavildar og sambönd.

  Stafræn tækni og áhugamenn sem ekki hafa rekstur nema um kvöld og helgar og ekki reka stúdíó td skekkja hinsvegar markaði töluvert meira nú en áður.

  Kanski verður þetta til að markaðurinn taki sér taki og það skerpist línur.
  Annarsvegar hafi menn Ella ódýra og hinsvegar þá sem veita þjónustu sem kostar meira og er þá jafnframt betri.

  Staðreyndin hefur nefnilega verið sú að þeir sem hafa verið að bjóða góða þjónustu sem og myndgæði hafa átt í erfiðleikum með að verðleggja sig “rétt”.

  Umræðan sem slík og það að hún verði opinber er af hinu góða. Það er rík þörf á því að umræðan verði opinber og nái útyfir ljósmyndaumhverfið svo viðskiptavinir læri hvað þeir eiga að sækjast eftir og hvernig þeir geti borið saman verð og gæði. Slíkt hefur vantað lengi.

 8. Góðir punktar Kristján, ekki síst hvað varðar þá sem hafa kvöld- og/eða helgarrekstur samhliða öðrum störfum. Það er skiljanlegt að slíkir aðilar verðleggi sig út úr korti því þeir þekkja ekki hvað þarf til að reka batteríið. Það er mér hins vegar ráðgáta þegar faglærðir ljósmyndarar í rekstri gera slíkt hið sama?

  Það sem mér finnst verst í þessum tilboðum er að enn og aftur er verið að koma aftan að fólki og selja því myndatökur á “góðu” verði sem reynist svo bara vera bull þegar á hólminn er komið.

  Ég heyrði af því í dag frá fyrirtæki sem prentar mikið á striga að það hafa komið margir til þeirra með myndir í skjáupplausn úr svona hópkaups-tökum, til að fá prentað á striga fyrir jólagjafirnar. Fólkið verður skiljanlega fúlt þegar það uppgvötar að það þarf að greiða aukalega fyrir að fá myndir sem hægt er að gera eitthvað meira við en að sýna á skjá!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *