Er meira, meira?

Nikon D800

Nikon kynnir til leiks í dag Nikon D800 og Nikon D800E. E-týpan er án AA-filters en hlutverk hans er í raun að mýkja myndina á skynjaranum til að koma í veg fyrir galla sem kallast móri (e. moire). Móri skapast þegar eitthvað í myndefninu hefur mynstur eða línur sem falla illa að mynstri RGB litsía sem eru settar fyrir ofan pixlana á skynjaranum (Bayern-filter).

Skynjari í stafrænni myndavél er ljósnæmur. Hann gefur upplýsingar um ljósmagnið sem fellur á hann. Hann veit hins vegar ekkert um lit ljóssins. Rétt eins og í filmu, þar sem það eru þrjú emulsjón lög sem lesa rautt, grænt og blátt ljós, þarf skynjari í stafrænni myndavél að geta lesið litina alla og skilað niðurstöðu fyrir þá alla í sérhverjum punkti. Til eru þrjár leiðir til að ná því fram:

  1. Taka þrjár myndir með rauðum, grænum og bláum litfilter og setja svo myndirnar saman (multishot aðferð).
  2. Setja litfiltersmosaík yfir skynjarann.
  3. Skipta ljósinu með prisma í þrennt og setja þrjá skynjara með litfilter fyrir rauðan, grænan og bláan og svo eru þessar þrjár myndir sameinaðar (beamsplitter aðferð). Sú filtermosaík sem mest er notuð í stafrænum myndavélum heitir Bayern-matrix. Samsetningin er svona

bayern2.gif
Eins og sjá má er tvisvar sinnum fleiri grænir fletir en rauðir og bláir. Ástæðan er sú að augun okkar eru næmari fyrir grænu ljósi en rauðu og bláu.

Véllin þarf því að umbreyta gögnunum frá skynjaranum í litmynd sem inniheldur gildi fyrir RGB í sérhverjum pixli myndarinnar. Á ensku er talað um þetta ferli sem demosaicing. Þegar við skjótum í JPEG gerir vélin þetta en ef við skjótum í RAW gerir myndvinnsluforritið það.

Ef eitthvað í mynd fellur illa að þessu mynstri RGB filtera koma fram gallar (móri). Við að mýkja aðeins myndina (í raun taka úr fókus lítllega) losnar maður oftast við þennan galla.

Þegar pixlar eru orðnir svo þéttir og smáir, eins og raun ber vitni í nýju Nikon D800, þá mun AA-filter hafa sjáanlega meiri áhrif en hjá vélum sem hafa lægri upplausn. Þess vegna býður Nikon upp á tvær útfærslur af vélinni. Þeir sem liggja yfir skerpu og smáatriðum geta keypt D800E en hinir D800 (eru það einhverjir?). D800E mun þó skapa meiri eftirvinnslu við ákveðnar aðstæður.

Nikon hefur póstað sýnishornamyndum í fullri upplausn frá D800 og D800E – en að sjálfsögðu hafa þeir ekki myndir af sama viðfangsefni teknar á báðar vélarnar. Þá væri of auðvelt fyrir fólk að bera saman! Annars lítur D800/E mjög vel út á pappírunum og þessar sýnishornamyndir lofa góðu. Það er því nokkuð ljóst að vélin á eftir að seljast í bílförmum, ekki síst í ljósi þess að verðið er frekar gott fyrir svona stóra uppfærslu.

Ég bíð spenntur eftir því að sjá hvernig hún kemur út í samanburði við hina yndislegu Nikon D3x. Sú vél ræður við breiðasta tónasvið allra D-SLR véla og hefur karakter sem mér þykir afar fallegur. Persónulega vegur þetta þyngra í mínum huga en upplausn, þó hún sé vissulega stórt atriði.

Hér er slóð á ítarlega umfjöllun robgalbraith um Nikon D800

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *