Canon EOS 5D Mark III

Canon hefur nú svipt hulunni af uppfærslu á hinni vinsælu 5D Mark II. Nýja vélin heitir einfaldlega 5D Mark III. Viðbrögðin láta ekki á sér standa. Annað hvort eru menn afar ánægðir eða óánægðir. Við fyrstu sýn virðist Canon uppfæra allt það sem Mark II vélin hefur verið gagnrýnd fyrir. Fókuskerfið er það sama og í nýju EOS 1DX vélinni og húsið er sterkbyggðara og betur veðurþolið. Vélin er mikið sprækari og ræður við 6 ramma á sekúndu. Canon segir að að nýja vélin skili um tveggja ljósops bætingu við hátt ljósnæmni, ISO 3200 á þeirri nýju á að vera sambærilegt við ISO 800 á Mark II. Samt á Canon 1DX að vera enn betri samkv. Canon, þó munurinn sé varla mikill.

Þeir sem eru óánægðir eiga það flestir sameiginlegt að vilja meiri pixla fyrir peninginn. Ég seldi hluta af Canon dótinu mínu á sínum tíma til að kaupa Nikon D3s. Sú vél opnaði alveg nýja möguleika fyrir mér. Að fara úr 21 MP í 12.5 MP skipti mig engu máli. Ég hélt eftir einni Canon EOS 5D Mark II og skipti út EF linsum, einfaldaði kittið þar töluvert á sama tíma og ég jók við dótið í Nikon. Ég hef lengi talað um að gæði pixla skiptir meira máli en fjöldi þeirra. Hvernig skynjarar ráða við litadýpt og tónasvið skiptir mig meira máli en upplausn. Nú er nýja 5D Mark III er kominn með 14 bita hliðrænan/stafrænan breyti og Digig 5 örgjörvinn er líka með 14 bita dýpt. Þetta þýðir að nýja vélin á að geta skilað töluvert meiri dýpt í myndum. Það finnst mér ákaflega spennandi!

Litakarakter skiptir einnig máli og mér finnst það gleymast svolítið í umræðum um stafrænar myndavélar. Hún á það til að snúast mest um megapixla og hátt ISO. Tökum fyrstu fimmuna sem dæmi. Hún er enn að seljast á þokkalega háu verði fyrir vél sem kom á markað 2005. Ástæðan er ekki síst karakterinn sem hún hefur. Þeir sem hafa átt slíka vél og uppfærðu í 5D Mark II vita sjálfsagt hvað ég er að tala um.

Sama er upp á teningnum varðandi Nikon D3x. Vélin er komin til ára sinna, en selst enn á háu verði. Það er litakarakter og hvernig vélin skilar stóru tónasviði sem er sjarminn við hana. Hún er langt í frá það sprækasta þarna úti, en hún hefur ákveðinn karakter sem menn falla fyrir.

Nú er ég mest spenntur að sjá hvað af þessum nýju vélum frá Canon og Nikon sé mest að mínu skapi. Það verður gaman að fá að prófa þær og svo hugsanlega uppfæra eitthvað af búnaðnum fyrir sumarið!

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *