Spegill, spegill…

Fyrir þremur árum keypti ég fyrstu Sony vélina mína. Það var Sony A7rII. Ég átti í ákveðnu ástar/ -hatursambandi við þá vél. Ég elskaði myndgæðin, hristivörnina og fókuskerfið – sérstaklega Eye-focus möguleikann. Ég hataði lélega rafhlöðuendingu og hversu óþarflega flókið það gat verið að breyta stillingum á henni. Ég var ekki tilbúinn að yfirgefa Nikon D-SLR og var því með tvö 35mm “full-frame” kerfi um tíma.

Louis Mendes, New York City. Pentax 645z, 75mm f/2.8.

Svo kom tækifæri á að eignast Pentax 645z medium format með því að skipta út Sony fyrir Pentax. Ég stökk á það, jafnvel þó að Pentaxinn væri hugsanlega ákveðinn “dead-end” varðandi endursölu, enda markhópurinn fyrir svona vél talsvert minni. En ég sé ekki eftir því. Medium format opnaði nýja vídd fyrir mig og hefur karakter sem hvorki D-SLR eða spegillausar vélar hafa.

Svo kom uppfærsla í Nikon D850. Æðisleg vél og mikil bæting frá D810. En með aukinni upplausn skynjarans kom betur í ljós yfirburðir Sony hvað varðar skerpu og upplausn í linsum. Allar björtu Nikon prímurnar mínar áttu ekki roð í sömu brennivíddir frá Sony, Ziess – eða Sigma Art línuna. Linsur hafa allar sinn karakter, sem er sér kapituli út af fyrir sig. Skerpa er ekki endilega aðalatriðið en krómatískir feilar geta eyðilagt myndir í ákveðnum aðstæðum. Ég skipti út Nikon prímunum (35mm f/1.4, 58mm f/1.4 og 85mm f/1.4) fyrir Sigma Art og var í betri málum við að ljósmynda á ljósopi f/1.4 eða f/2.0. En það var samt eitthvað sem vantaði – a.m.k. fyrir hluta af þeim verkefnum sem ég þarf að leysa.

Sigma Art línan fyrir Sony E-mount.

Sko, ef ég væri bara að skjóta landslag þá myndi þetta ekki skipta neinu máli. Nikon D850 er D-SLR kóngurinn í landslagi og ákaflega góð vél. En fyrir önnur verkefni – þar sem fókusnákvæmni og þörf fyrir á að vinna á lægri lokarahraða án þrífóts er til staðar – þá er munurinn áþreifanlegur.

María Ellingsen. Sony A7rII, FE 55mm f/1.8 ZA.

Það sem ég saknaði mest var hristivörnin í húsinu (sem virkar þá fyrir allar linsur óháð tegund) og Eye focus kerfið. Þessir tveir eiginleikar í Sony Alpha vélunum eru algjörlega magnaðir. Hlutfall skarpra og nothæfra mynda er einfaldlega hærra á þessum vélum við þess konar aðstæður. Því ákvað ég – eftir mikla yfirlegu – að losa Nikon búnaðinn minn og færa mig aftur í Sony.

Nú er komin þriðja kynslóð af A7r, þar sem rafhlöðuendingin er frábær og myndavélin er betur hönnuð og veðurvarin. Valmyndir fyrir stillingarnar eru ennþá of flóknar að mínu mati, en ný hönnun með fleiri sérsniðnum tökkum og valmyndum leysir þó þann vanda betur en á A7 rII.

Nú er ég að byggja upp linsusafnið fyrir Sony, er kominn með 24-70mm f/2.8 GM og 70-200mm f/2.8 GM. Ég lét svo skipta um lens mount á Sigma Art linsunum sem ég var búinn að kaupa fyrir Nikon. Með tíð og tíma hef ég hugsað mér að taka 16-35mm f/2.8 GM og jafnvel 100-400mm f/4.5-5.6 sem er alveg hreint mögnuð linsa. Nýja 400mm f/2.8 væri náttúrulega draumur, en aðeins of stór biti miðað við notkunarsviðið mitt (væri “no brainer” ef ég væri mikið að ljósmynda sport eða fugla).

Canon TS-E 24mm linsa á Sony Alpha.

Möguleikar á að nota linsur frá nánast hvaða framleiðanda með breytistykki er líka stór kostur varðandi Sony. Ég nota t.d. svokallaðar tilt/shift linsur reglulega og möguleikinn á að nota Canon TS-E 24mm f/3.5 á Sony A7rIII er algjör snilld. Nýju speglalausu vélarnar frá Nikon (Z6 og Z7) styðja ekki annað en linsur frá Nikon. Mér finnst það afleikur hjá Nikon, því akkúrat þessi möguleiki er einn af hornsteinum vinsælda Sony Alpha. Þannig gat Sony keypt sér tíma til að byggja upp linsusafnið sitt, sem nú er orðið ansi þétt, sérstaklega í ljósi þess hversu vel þeim hefur tekist upp gæðalega.

Það er hægt að stökkva á milli kerfa endalaust í takt við uppfærslur hjá framleiðendum. Það er dýrt spaug að skipta alveg um merki og fæstir gera það nema vera fullvissir um að með breytingunni fái þeir meira út úr búnaðnum en áður. Ég er afar sáttur við þessa breytingu og get nú valið verkfæri eftir því sem hentar. Pentaxinn þegar mig langar í medium format karakterinn og horfa í gegnum stóran og bjartan optískan skoðara – og svo Sony í þeim tilfellum þar sem fókusnákvæmni, hristivörn og hraði skiptir máli.

Grandaflutningar

Enn á ný flyt ég vinnustofuna á Grandanum. Ég kveð Gunnar Svanberg og Pétur Þór á Hólmaslóð 6 en leigi nú hjá Marino Thorlacius að Fiskislóð 31. Ég leigði einmitt síðast pláss hjá honum á Hólmaslóð 4 – svo þetta er nú kunnulegt allt saman 🙂

Á Fiskislóðnni mun ég m.a. blása nýju lífi í prentþjónustuna, en á næstunni mun ég fá afhentan nýjan Epson SC 9000 bleksprautuprentara, en hann leysir Canon iPF8300 af hólmi eftir áralanga og dygga þjónustu. Ég er mjög spenntur fyrir þessari uppfærslu og hlakka til að leysa prentverkefnin enn betur fyrir viðskiptavinina. Prentarinn á ekki síst að skila svart/hvítum myndum betur með endurbættu bleki.

Á Fiskislóð 31 finnið þið mig í bili B – 104. Hurðin er merkt Ratel en það er firmanafnið hans Marino. Hlakka til að sjá ykkur!

Er gests augað glöggt?

Í mínu starfi sem ljósmyndagæd hitti ég mikið af erlendum gestum. Almennt alveg úrvals fólk. Flest þeirra eiga það sameiginlegt að hafa verið með Ísland á sínum “bucket list” lengi og eru loks komin til bera dýrðina augum.  En þau eiga það líka flest sameiginlegt að sjá einungis tilgang í því að ljósmynda það sem er búið að ljósmynda; þ.e.a.s. hin klassísku íslensku landslagsmótív. Gott og vel, klassíkin stendur alltaf fyrir sínu. En jaðarinn höfðar sterkar til mín. 

Ég var staddur á Grundó um daginn. Helvítis tussa í veðrinu (afskakið frönskuna mína). Engin sólarupprás og ekkert sólsetur. Aðallega rigning og rok. Mest þó við hið fræga Kirkjufell. Kúnnarnir voru heldur svekktir að fá ekki rjómann sem þeir hafa séð á Instagram. Skil þá svo sem vel, fúlt að koma alla þessa leið og fá bara rigningu og gráma. 

En þegar ég parkeraði Sprinternum baka til við Hótel Framnes sá ég fullt af mótívum! Það var hætt að rigna og ljósið í blámanum mjúkt og fínt. Ég benti kúnnunum mínum spenntur á dýrðina en fékk bara spurningarmerki í andlitum þeirra. “Ekkert mál, ég fer þá bara einn í þennan konfektkassa” – hugsaði ég.

Daginn eftir sýndi ég þeim myndirnar. Svona dót höfðar auðvitað ekki til allra, en þrír úr hópnum fóru á sömu slóðir þann daginn og virtust skemmta sér vel. Og ég er ekki frá því að hinir hafi líka farið að horfa meira í kringum sig á þeim stöðum sem við höfum heimsótt síðan. 

Ljósmyndun er nefnilega svo frábær. Það eru engar reglur. Eða jú – bara ein. Taktu myndir af því sem þig langar. Hvað öðrum finnst skiptir engu máli. Ef maður deilir því af ástríðu er útkoman alltaf þess virði.

 

Welcome to Wík

Ég er að gæda. Stundum held ég að Ingó veðurguð hati mig. Túrinn hófst í stormi, svo miklum stormi að ég þurfti að leggja af stað kl 6.00 úr bænum til að vera viss um að komast fyrsta legg ferðarinnar. Það er nefnilega ekkert grín að að aka í gegnum 35 m/s hviður á seglskútinni Sprinter. Það hafðist að vera á undan versta veðrinu. Við vorum mætt kl 9.00 í morgunmat á Hótel Lunda (hæfir vel). Svo kom stormurinn með tilheyrandi rok og rigningu. 

Það stytti aðeins upp seinnipartinn, en rokið var enn svo mikið að ekki var á það hættandi að aka yfir í Reynisfjöru. Svo ég stakk upp á því að taka röltið um “downtown” Vík. Ekki miklar undirtektir frá hópnum, en ég ákvað að fara bara einn. Held ég hafi aldrei skoðað Vík almennilega. Hér er mikið af alls konar góðgæti. 

Planes, trains and automobiles kom upp í hugann – mínus trains reyndar. Á þessu klukkutíma rölti mínu fann ég alls konar mótív. Kannski ekki alveg draumamótív fyrir landslagsljósmyndara frá útlöndum, en fínasta fínt fyrir hálfnorskan skógarkött eins og mig. 

Hér má finna drauma-gistihús, flugvélaflak, bátshús, gamla herjeppa, rauða kerru og auðvitað hina frægu Víkurkirkju. Þar var reyndar varla stætt. Samt komu reglulega Dacia Dusterar akandi upp að kirkju og ferðamennirnir fuku nánast út úr þeim með bros á vör. Það er nefnilega upplifun að reyna að standa í alvöru suðaustan!

Og það er upplifun að vera aðeins kyrrsettur í plássinu í stað þess að æða burt í landslagið. Á þessu rölti mínu sá ég alls konar fegurð. Ég tengdi á e-h fallegan hátt við allt þetta dót og öll skrítnu Guesthouse-skiltin.

Pentaxinn 645Z og fasta 75mm linsan. Enginn þrífótur, ekkert vesen, bara ganga um og reyna að fanga sálina í plássinu. Þessi vél er fjandi mögnuð. Gömlu lisnurnar hafa líka skemmtilegan karakter. Það er e-h galdur í þessu. Kannski er ég bara að ímynda mér það. En mér er slétt sama.

Endum þessa samhengislausu hugleiðingu á bakenda Víkurkirkju. Góðar stundir.

Mun DSLR verða undir?

 (©2017 Christopher Lund)
Magnús Norðdahl forstjóri LS Retail opnar ConneXion Madrid ráðstefnuna.

Ég var að koma frá Madrid. Ég var þar að ljósmynda árlega ráðstefnu LS Retail. Þetta var í fyrsta skipti sem ég ákvað að nota alfarið Sony spegillausar myndavélar í svona verkefni. Fram að þessu hef ég valið að nota Nikon DSLR.

Ég hef nú átt Sony A7rII í eitt og hálft ár. Þó að þessar vélar séu góðar þá hafa þær sína galla. Helst er það slök ending á rafhlöðum og skortur á veðurþoli. Það tekur oft langan tíma að breyta stillingum á A7rII þar sem valmyndirnar eru flokkaðar á undarlegan hátt. Hönnunin ber þess merki að Sony hefur ekki áratuga reynslu í hönnun ljósmyndavéla fyrir fagmenn.

 (©2017 Christopher Lund)
Doug Stevens “The Retail Prophet” heldur fyrirlestur um framtíð verslunar.

En nýja Sony A9 vélin lofar góðu.  Sony hefur hlustað á notendur og bætt vélina á öllum þessum sviðum. Eins og Steve Jobs predikaði, þá snýst hönnun fyrst og fremst um virkni – fremur en útlit.

Hingað til hef ég ekki viljað taka undir það að spegillausar myndavélar muni útrýma DSLR. En nú þegar Sony, Fuji og meira að segja Hasselblad eru á góðri siglingu fer maður að spyrja sig hvort DSLR hönnun stafrænna myndavéla sé hreinlega á leiðinni út? 

Fjárhagsvandræði Nikon eru staðreynd og fyrirtækið er að endurskipuleggja stefnu sína. Ég hef aldrei skilið afhverju Nikon og Canon þurfa að vera með svo margar DSLR vélar á markaði ætlaðar áhugamönnum. Það hlýtur að kosta mikinn tíma og peninga að innleiða sífellt nýjar framleiðslulínur af vélum sem fljótt á litið eru allar eins!

Það vantar fókus á atvinnuvélarnar. Nikon D810 er að verða þriggja ára gömul. Verðið á flagskip vélunum Nikon D5 og Canon 1Dx MII er allt of hátt.  Sigma býður nú betri linsur fyrir allt að helmingsverð hinna. Það er því ekki undarlegt að salan dragist saman. Það er eins og þeir kunni ekki að keppa í nýju umhverfi.

Það er ljóst að þeir þurfa að bregðast hratt við ef þeir ætla ekki að missa viðskiptin. Það verður spennandi að sjá hvað gerist á þessu ári. Munum við sjá gömlu Risana vakna?

 

 

Pabbi áttræður

Pabbi minn varð áttræður 28. febrúar síðastliðinn. Ég ætlaði að skrifa þessa bloggfærslu á afmælisdeginum hans-  en það er víst betra seint en aldrei.

Pabbi er um margt merkilegur maður. Ungur að árum fékk hann mikinn áhuga á Íslandi. Hann kom hingað fyrst 1954, en hann hafði frétt af möguleika á því að komast með norskum stúdentum að taka þátt í fornleifuppgreftri í Skálholti. Hann skrifaði Kristjáni Eldjárn og tryggði sér plássið. Til að eiga fyrir farinu með strandferðarskipinu seldi hann frímerkjasafnið sitt. Mömmu kynntist hann þó ekki fyrr 1962 í Oslo, þar sem hún stundaði hjúkrunarnám.

Pabbi á tröppunum í Reynihlíð eftir að búið var um búa um brunasárin sem hann hlaut við Námaskarð í ágúst 1956.

Ég man varla eftir pabba á annan hátt en hann væri á kafi í vinnu. Hann hefur alla tíð verið stórhuga og maður framkvæmda. Hann hefur gaman af fólki og á erindi við flesta sem hann hittir. Hann er því fljótur að kynnast fólki og eignast vini og kunningja. Ástríða hans fyrir landi og þjóð féll Íslendingum í geð og hann varð fljótt þjóðþekktur fyrir myndir sínar. Hann rak lengi portett studíó, ljósmyndavöruverslun og framköllunarþjónustu – sem bar heitið Ljósmyndaþjónustan og var til húsa að Laugavegi 178.

Ég er yngstur þriggja systkina. Þegar ég byrjaði að vinna hjá pabba var hann búinn að selja portrett studíóið og verslunina. Ég starfaði því mest við loftmyndirnar og myndasafnið, vann í myrkaherberginu við að stækka myndir og gekk frá í ramma. Pabbi er metnaðarfullur og það var góður skóli fyrir ungan mann að læra fagið undir handleiðslu hans. 

Við fjölskyldan ferðuðumst mikið bæði hér heima og erlendis og standa skíðafríin í Evrópu og Bandaríkjunum upp úr. Við feðgar ferðuðumst líka mikið saman um landið, bæði í sölu- og ljósmyndaferðum. Ég var líklega búinn að heimsækja alla þéttbýlisstaði landsins fyrir tólf ára aldur – og æði margar sveitir að auki. 

Mamma og pabbi með barnabörnin á Spáni í tilefni 70 ára afmæli mömmu.

Pabbi hefur alltaf stutt við bakið á mér í öllu því sem ég hef sýnt áhuga. Þó að honum hafi sjálfsagt þótt vænt um að ég sýndi ljósmyndun áhuga, upplifði ég aldrei neina pressu frá honum um að ég skildi verða ljósmyndari. Þegar ég svo hóf formlegt ljósmyndanám samhliða menntaskólanum var hann minn Meistari og ég sótti einnig framhaldsnám til Noregs og Danmörku. 

Elsku Pabbi. Innilega til hamingju með stórafmælið. Þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið og kennt mér. Ég er stoltur af því að vera sonur þinn og elska þig af öllu hjarta. 

Chrissi

Kari Kola

Kari Kola
Photo: © Ville Kokkola

Stundum kynnist maður fólki sem hugsar stærra en aðrir. Kari Kola tilheyrir þeim hópi. Ég hitti hann fyrst sumarið 2015 þegar hann heimsótti okkur Maríu hér á Íslandi. Þau höfðu unnið saman í Norrænu verkefni sem bar nafnið Nordisk Ljus.  Ungmenni frá öllum Norðurlöndunum – dansarar, leikarar og tónlistarfólk – vann í hópum vítt og breitt um Norðurlöndin að verkefni þar sem allir hóparnir sameinuðust í magnaðri sýningu á Finnlandi. Þar var Kari í lykilhlutverki að skapa sjónrænu umgjörðina.

Kari Kola's Magical Garden. This light installation on the Střelecký Ostrov island in Prague is based on dynamic lighting, strong colours and a meditative tempo. (Christopher Lund/©2015 Christopher Lund)
Kari Kola’s Magical Garden. This light installation on the Střelecký Ostrov island in Prague is based on dynamic lighting, strong colours and a meditative tempo. (Christopher Lund/©2015 Christopher Lund)

Þegar hann kom til Íslands var ég upptekinn við að leiðsegja tveimur ljósmyndurum frá Þýskalandi. Kari og María slógust eiginlega með í ferðina, eltu okkur um suðurströndina og gistu á sömu stöðum. Hópurinn náði vel saman og þessi óvænta viðbót var stórskemmtileg fyrir alla. Í framhaldinu spurði hann hvort ég hefði áhuga á því að mynda fyrir sig verkefnin sem voru í farvatninu. Ég var ekki lengi að segja já við því.

Kari Kola's Magical Garden. This light installation on the Střelecký Ostrov island in Prague is based on dynamic lighting, strong colours and a meditative tempo. (Christopher Lund/©2015 Christopher Lund)
Kari Kola’s Magical Garden. This light installation on the Střelecký Ostrov island in Prague is based on dynamic lighting, strong colours and a meditative tempo. (Christopher Lund/©2015 Christopher Lund)

Það fyrsta sem ég ljósmyndaði fyrir hann var innsetning í Prag þar sem hann lýsti upp eyjuna Střelecký ostrov. Með því að lýsa upp tré og skapa stemningu með ljósi, þoku og hljóði bjó hann til fallegt umhverfislistaverk sem hann hefur einnig sett upp í Cascais í Portugal og á ljóshátiðnni Glow í Einhoven. Ég náði því miður ekki að fara til Cascais sökum anna við leiðsögn en Glow myndaði ég í Nóvember 2016. Ég fór líka til Istanbul að mynda Light is here, þar sem Kari lýsti upp fjóra turna – Zorlu Center – á fyrstu ljósahátið sem sett hefur verið upp í Instanbul.

Light is Here - Istanbul Light Festival main piece by Kari Kola. Zorlu Center, Istanbul, Turkey. (Christopher Lund/©2015 Christopher Lund)
Light is Here – Istanbul Light Festival main piece by Kari Kola. Zorlu Center, Istanbul, Turkey. (Christopher Lund/©2015 Christopher Lund)

Þessi verkefni eru með því skemmilegasta sem ég hef gert. Það er frískandi tilbreyting og krefjandi verkefni að fanga stemmninguna sem Kari býr til. Að fá að vinna með honum og teyminu hans er frábært. Finnar eru magnað fólk og mér finnst vera óútskýranleg djúpstæð tenging á milli Íslendinga og Finna.

Light is Here - Istanbul Light Festival main piece by Kari Kola. Zorlu Center, Istanbul, Turkey. (Christopher Lund/©2015 Christopher Lund)
Light is Here – Istanbul Light Festival main piece by Kari Kola. Zorlu Center, Istanbul, Turkey. (Christopher Lund/©2015 Christopher Lund)

Í ár stendur mikið til, því Finnland fagnar 100 ára afmæli sjálfstæðis síns. Kari hefur verið ráðinn til þess að gera risavaxnar innsteningar á sex stöðum um allt Finnland. Ég mun aftur bætast við teymið og skrásetja hluta þessara verka í desember. Til að undirbúa mig fer ég til Finnlands í byrjum mars til að skoða aðstæður. Ég hlakka til að deila því með ykkur.

Filmusnobb

Eystrahorn

Mig langar að segja ykkur frá tilraun sem ég gerði. Í einni af ferðum mínum um landið voru veðurbrigðin þannig að ég ákvað að vinna þessa mynd frá Eystrahorni í svart/hvítu. Ég notaði eitthvað Lightroom preset sem líkir eftir Kodak Tri-X og póstaði svo myndinni á Facebook.

Svo kom upp einhver púki í mér. Ég skrifaði myndatexta þar sem ég skrökvaði að myndin væri tekin á filmu.  Ég gekk meira að segja svo langt að skrifa hvaða myndavél, linsu, filmu og framkallara ég hafði notað.

Það stóð ekki á viðbrögðunum. Margir voru gríðarlega hrifnir af því að ég væri að skjóta á filmu. Sumir gengu meira að segja svo langt að segja að þetta væri “meira alvöru”. Það voru reyndar tveir vinir mínir sem sáu í gegnum þetta. Þeim fannst skrítið að hafa aldrei séð Nikon FM vélina mína. Eins vissu þeir að ég var nýlega búinn að vera á svæðinu með kúnnana mína. Það var því ómögulegt að ég hafði náð að framkalla og skanna á meðan ég var enn á ferðalagi 🙂

Dyrhólaey

Mér fannst þetta svo skemmtilegt að ég póstaði tveimur öðrum myndum seinna, bara til að sjá hvort kenning mín um filmusnobbið væri á rökum reist. Svo reyndist vera.

Hraundrangi, Öxnadal.

Filmusnobbið er þannig að ljósmynd fær aukið gildi við það eitt að hafa verið skotin á filmu. Stundum virðast meira að segja frekar slappar myndir verða að listaverkum við það eitt að hafa verið skotnar á filmu. Snobbið er einnig í réttu hlutfalli við filmustærð. Medium format er flottara en 35mm – og ef 4×5″ blaðfilma kemur við sögu er myndin nánast samstundis komin í meistaraflokk.

Ert þú filmusnobbari?

Af hverju er bloggið að hverfa?

Ég hef verið að pæla. Þessi blogsíða, sem ég setti í loftið fyrir rúmum tíu árum, lifði einu sinni góðu lífi. Síðasta færsla – fyrir þessa sem ég er að skrifa núna – er orðin rúmlega tveggja ára gömul. Ég hef því spurt sjálfan mig af hverju ég hætti að blogga. Ég hafði nefnilega töluvert gaman af því.

Það hefur mikið breyst á Netinu undanfarin ár. Bloggið hefur að mestu vikið fyrir samfélagsmiðlum eins og Facebook, Twitter og Instagram. Þar er jú massinn og svörun við deildu efni hröð. En á sama tíma hafa þessir miðlar orðið að markaðsmaskínu.

Ég hef lengi verið hugsi yfir öllu því efni sem rignir yfir mann á samfélagsmiðlunum, sem virðist vera póstað af einhvers konar róbotum. Tíðnin er ör og oftar en ekki eru notaðir kvótar – sem passa oft ágætlega við myndefnið – en segja manni afskaplega lítið um það hver viðkomandi er í raun og veru. Og í stað þess að treysta á eigin tilfinningu fer maður að gera slíkt hið sama. Setja inn mynd 2-3x á dag sem birtist samtímis á Facebook og Instagram og skrifa dulbúin sölutexta með. Til að selja þjónustu þarf maður jú að vera sýnilegur. Markaðsmógúlar mæla með því að pósta mikið, hashtagga og linka svo eins og brjálæðingur. En það er erfitt að átta sig á hverju það skilar. Ég veit að mikill meirihluti þeirra verkefna sem ég hef fengið í gegnum tíðina kom í gegnum beinar tilvísanir – eða svokallað word of mouth.

Það var Egill Harðar sem hvatti mig til þess að stofna bloggið árið 2006. Hann hannaði lógóið mitt og við höfðum rabbað svolítið saman um það hvernig Netið nýtist best fyrir fólk í kreatíva geiranum. Hann ráðlagði mér að skrifa færslur sem væru ekki bara um ljósmyndun. Þannig gætu hugsanlegir viðskiptavinir fengið betur á tilfinninguna hvaða mann ég hef að geyma.

Ég fór eftir ráðum hans og það stóð heima – færslur af daglegu lífi og hugleiðingum fá meiri traffík en eintómt græjurúnk. Ég held að þegar öllu er á botnin hvolft finnst okkur meira gaman að kynnast öðru fólki en að skoða dulbúnar auglýsingar.

Ég ætla því að sjá hvort mér takist að blása nýju lífi í bloggið mitt. Sjáum hvað setur.

Er þess virði að uppfæra í Nikon D810?

Veiðivatnahraun lava field, Central Highlands of Iceland. (Christopher Lund/©2014 Christopher Lund)
Veiðivatnahraun lava field, Central Highlands of Iceland. (Christopher Lund/©2014 Christopher Lund)

Nú er ég búinn að nota Nikon D810 í um mánuð og kominn ágæt reynsla við hin ýmsu tökuskilyrði. Fyrst í stað var ég ekki alveg sannfærður um að virði þess að uppfæra, en eftir að hafa skoðað betur uppfærslurnar var nokkuð ljóst að kostir D810 umfram D800E væru þónokkrir.

Í fyrsta lagi er búið að fjarlægja með öllu svokallaðan Optical Low Pass Filter. Þessi filter er í öllum öðrum D-SLR vélum og er til þess að koma í veg fyrir moire, með því hreinlega að mýkja myndina – og um leið tapast skerpa. Þegar upplausnin er orðin eins mikil og raun ber vitni í D810 eru hins vegar tilfelli moire orðin hverfandi. Enginn OLPF filter þýðir enn meiri upplausn og skerpa.

Jökulgil at sunset, Interior of Iceland. (Christopher Lund/©2014 Christopher Lund)
Jökulgil at sunset, Interior of Iceland. (Christopher Lund/©2014 Christopher Lund)

Í öðru lagi er vélin töluvert sprækari, þökk sé um 30% hraðari örgjörva sem ber heitið Expeed 4. Vélin frýs ekki í nokkrar sekúndur eins og D800/E á stundum til með að gera, sérstaklega ef notandi fer strax í e-h menu-aðgerðir eftir að hafa tekið mynd . Lægsta ISO er nú ISO 64, sem kemur sér vel í landslagsljósmyndun og eins líka þegar notaðar eru mjög bjartar linsur. Expeed 4 eykur einnig úrvinnslugetuna á 36MP skránum úr fjórum römmum á sekúndu í fimm. Ef notuð eru hraðvirkustu minniskortin virðist vera hægt að skjóta stanslaust án þess að buffer eða flýtiminnið fyllist, sem verður að teljast vel af sér vikið miðað við stærðina á skránum frá 36MP skynjaranum.

Fókuskerfið býður nú upp á svokallað “Group-Area” sem eykur áreiðanleika í fókus. Ég tók sérstaklega eftir því að vélin var bæði fljótari að ná fókus við döpur birtuskilyrði – og eins virðist það auka nákvæmni, sem er snilld. Munurinn á D810 og D4 við þess konar aðstæður er því orðin minni.

Craterlake Hnausapollur (also named Bláhylur) in the central Highlands of Iceland. (Christopher Lund/©2014 Christopher Lund)
Craterlake Hnausapollur (also named Bláhylur) in the central Highlands of Iceland. (Christopher Lund/©2014 Christopher Lund)

Vélin býður loks upp á RAW-S sem er 9MP, sem er t.d. hentugt ef skjóta á TimeLapse, því 36MP fylla minniskortin og tölvurnar hratt. Ljósmæli er hægt að stilla á “Highlight Weighted Metering” sem gefur háljóssvæðum aukið gildi. Það kemur sér vel í tilfellum þar sem stór hluti myndefnis er dökkur en það sem skiptir máli er mikið ljósari – eins og t.d. á tónleikum eða leiksýningum. Quiet mode er loksins farið að standa undir nafni, þökk sé endurhönnun á spegilhúsinu.

Nú er líka hægt að virkja rafrænan forlokara (Electronic Front-curtain Shutter) þar sem vélin notar skynjarann sem forlokara. Það þýðir minni hreyfing við töku á löngum tíma, sem þýðir aftur minni hættu á lokarahristing sem skapar hugsanlega óskerpu í myndum.

Háifoss waterfall in Iceland. The river Fossá, a tributary of Þjórsá, drops here from a height of 122 m. This is the second highest waterfall of Iceland. (Christopher Lund/©2014 Christopher Lund)
Háifoss waterfall in Iceland. The river Fossá, a tributary of Þjórsá, drops here from a height of 122 m. This is the second highest waterfall of Iceland. (Christopher Lund/©2014 Christopher Lund)

Þegar það kemur að videotökum eru uppfærslurnar þær að vélin býður nú upp á 60p í Full-HD upplausn, það er hægt að skjóta efni á sama tíma inn á minniskort og útværa upptökugræju og eins eru fleiri möguleikar á stillingu á tíðnisviði hljóðupptöku. Vélin hefur ennfremur innbyggðan Stereo hljóðnema, og hægt er að kalla fram Zebra rendur í útbrennd háljóssvæði við videotöku.

Húsið sjálft hefur fengið smá andlitslyftingu, gripið er aðeins dýpra og vélin liggur betur í hendi. Rafhlöðuending er töluvert betri, hingað til hefur mér dugað að vera með eina auka rafhlöðu á löngum tökudegi, þar sem ég var oft komin á þá þriðju áður.

Rauðá river running through Gjáin in Þjórsárdalur, South Iceland. (Christopher Lund/©2014 Christopher Lund)
Rauðá river running through Gjáin in Þjórsárdalur, South Iceland. (Christopher Lund/©2014 Christopher Lund)

Þannig á heildina litið er þetta engar smávægilegar uppfærslur. Þar sem ég fæst við alls konar verkefni, bæði rólegheita þrífótsvinnu í bland við tökur á háu ISO með björtum linsum, þá verð ég að segja að Nikon D810 gerði mjög góða myndavél (D800E) að bestu vél sem ég hef nokkurn tíma átt.