Ari 8 ára

Ari Carl tekur upp afmælispakka að morgni dags. Star Wars Lego er aðal má¡lið hjá 8 ára gutta. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Það var ekki lítið glaður átta ára gutti sem opnaði nokkra pakka upp í rúmi hjá mömmu og pabba í morgun. Star Wars á hug hans allan um þessi mundir og því hitti Lego Star Wars geimflaugin og tölvuleikurinn beint í mark. Það er skrítið til þess að hugsa að átta ár séu síðan þessi gaur kom í heiminn.

Ég með Ara á handlegg að taka mynd í­ baðspegilinn í­ Hraunbænum. (Christopher Lund)

Það er ekki síst á tímamótum eins og afmælisdögum sem maður sest aðeins niður og skoðar myndasafnið. Rennir í gegnum alla gullmolana sem maður á. Ég hef alltaf verið duglegur við að ljósmynda börnin mín. Þetta eru dýrmætustu myndirnar mínar.

Þessi mynd hér að ofan er tekin þegar kauði er ca 9 mánaða, sama dag og ég smellti af myndinni sem e-h fékk lánaða til að myndskreyta “Hver á að borga icesave? – essasú?”. 

Hér eru nokkrar fleiri myndir frá því í morgun sem slideshow. 

Flateyjartími

 (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Það er kominn Flateyjartími. Hin árvissa Flateyjarferð verður farin næstu helgi. Vinahópurinn minn er svo lánsamur að hafa aðgengi að góðum húsakosti á þessari dásamlegu eyju á Breiðafirði. Börnin okkar eru farin að miða upphaf sumars við þessa ferð. Ekki skrítið, þar sem við höfum nánast alltaf upplifað fádæma veðurblíðu þarna í lok maí.

 (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Í gegnum tíðina hef ég verið nokkuð duglegur að ljósmynda í þessum ferðum. Það eru ekki síst börnin sem eru viðfangsefni, enda er vinahópurinn minn bæði fagur og frjósamur. Ég hef oft spáð í því hvað ég er lánsamur að hafa þessa ástríðu. Vissulega kraumar hún missterkt frá degi til dags. En á stað eins og Flatey er varla hægt annað en að finna sterkt fyrir henni.

 (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Hérna má skoða fleiri myndir úr Flateyjarferð 2010.

 

 

Sveitin

Blue Overalls hanging out to dry outside a farm in South Iceland. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Ég fór um helgina í ferð með 66 Norður. Með í för var hópur erlendra blaðamanna, sem var komin til að kynna sér vörur 66 Norður og hvað Ísland hefur að bjóða ferðamönnum – ekki síst þeirra sem stunda útivist. Megin tilgangur ferðarinnar var að ganga á Hvannadalshnúk á laugardeginum. En það var meira á dagskrá en bara Hnúkurinn. Á leiðinni austur var gert stutt stopp í sveitinni, á dæmigerðum íslenskum sveitabæ.

Old farm house in South Iceland. Large green sacks of fertilizer in front of the building. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Ég held að bændur geri sér margir ekki grein fyrir því hversu miklar gersemar þeir eru með í höndunum. Að komast í snertingu við alvöru sveit, sjá gömlu bæina við hlið þeirra nýju og komast í tæri við dýrin, er upplifun sem margir útlendingar hafa ekki tækifæri til í sínu heimalandi.

Rooster and Hens outside a farm in South Iceland. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Það sem okkur finnst merkilegt er ekki endilega það sem erlendum gestum þykir merkilegt og öfugt. Konan á þessum fallega bæ tók á móti gestunum með opnum örmum og bauð upp á kaffi og meðlæti inn á heimili sínu. Þegar hún sá að ég var að ljósmynda gömlu húsin sagðist hún skammast sín fyrir ástand þeirra. Hún vissi ekki að fólkið heillaðist að nákvæmlega þessu og fannst frábært að fá að sjá hvernig fólk hafði búið áður. Ég sagði henni að sjarminn við staðinn væri ekki síst sá að upplifa söguna svona ljóslifandi. Það sem okkur þykir ljótt getur nefnilega verið gullfallegt í augum annara.

Meiri dans

Í gær var ég mættur enn á ný í Borgarleikhúsið að mynda. Í þetta skiptið var það nemendasýningin hjá JSB, en Bjargey æfir dans þar. Hér má skoða nokkrar myndir frá undirbúningi og generalprufu.

Sýningin var flott, enda búið að æfa stíft undanfarnar vikur. Fjöldi dansara kemur mér alltaf jafn mikið á óvart. Skólinn lætur nefnilega ekki mikið yfir sér í Lágmúlanum en er greinilega vinsæll!

Myndirnar af stelpunum að gera sig klárar eru teknar á Nikkor AF-S 35mm f/1.4G og Nikkor AF-S 85mm f/1.4G. Mér finnst þessar tvær brennivíddir brilljant saman við svona aðstæður – og er sú samsetning sem ég nota oftast. Myndirnar frá sviðinu er hins vegar skotnar með AF-S Nikkor 70-200mm f/2.8G VR II. Ahhhh linsur…

Gott mót hjá Fylki

Arndís kominn í gegn og mark í uppsiglingu. ©2011 Christopher Lund.

Handboltastelpurnar  í 6. flokki Fylkis áttu gott mót í dag í Víkinni, unnu alla leiki sína örugglega og færðust því upp um deild.

Ég var mættur með vélina eins og venjulega. Lýsingin í Víkinni er afar erfið, örugglega svona fjórar týpur af flúrperum í gangi þar og því alls konar ljóshiti eftir því hvar maður er staddur á vellinum. Það sést vel á myndinni hér að ofan þar sem gráa tjaldið er rauðleitt vinstra megin í rammanum en bláleitt hægra megin.

Arndís brýst í gegn og skorar! ©2011 Christopher Lund.Almennt er gott að nota ekki of stuttan lokarahraða ef maður er að ljósmynda við flúrbirtu, því það jafnar út þetta flökt á ljóshita frá flúrperunum. En það er ekki valmöguleiki þegar íþróttir eru annars vegar.

Þessi samsetta gif-mynd hér til vinstri er skotin á  Nikon D3s og Nikkor AF-S 70-200mm f/2.8G VRII linsu. Þetta kombó er alveg að virka í handboltanum. Fókuskerfið í D3s er ansi magnað og því meira sem maður lærir að sérsníða stillingarnar eftir aðstæðum því betra er það.

Í handboltanum vinn ég oft á f/2.8 og s/250s á ISO 3200. Það er yfirleitt nægur hraði til að frysta hreyfinguna, a.m.k. í 6. flokki. Ég gæti auðveldlega hækkað ISO og fengið styttri lokararhraða, en um leið og ég fer upp í 1/320 eða 1/400s fer að bera á mismunandi grájafnvægi á milli ramma. Það er afar þreytandi að eiga við það.

Photo Guide

Þá er Photo Guide síðan mín opinberlega komin í loftið. Hún er reyndar búin að vera aðgengileg í nokkurn tíma, enda var ég að föndra við hana frá því í haust og fékk álit góðra vina “á leiðinni”. Merkið hannaði hinn mæti drengur og afbragðshönnuður Oscar Bjarnason.

Ég er búinn að eiga þann draum í nokkurn tíma að geta ferðast og ljósmynda meira en ég geri í dag. Mikið meira! Ég fann út að leiðsegja erlendum ljósmyndurum um landið væri líklega ágæt leið til þess að gera drauminn að veruleika. Leiðsögunámið í EHÍ var eitt púslið sem mig vantaði og meiraprófið sömuleiðis.

Einhvers staðar segir að góðir hlutir gerist hægt. Þrátt fyrir að vera fljótfær týpa (ég kýs að kalla það ástríðu) þá er ég með báðar fætur á jörðinni og geri mér grein fyrir því að það tekur tíma að byggja upp orðstýr og rekstur á þessu sviði. Ég er því rétt að byrja á verkefninu – sem ég vona að muni reynast mér og öðrum skemmtilegt.