Flateyjartími

 (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Það er kominn Flateyjartími. Hin árvissa Flateyjarferð verður farin næstu helgi. Vinahópurinn minn er svo lánsamur að hafa aðgengi að góðum húsakosti á þessari dásamlegu eyju á Breiðafirði. Börnin okkar eru farin að miða upphaf sumars við þessa ferð. Ekki skrítið, þar sem við höfum nánast alltaf upplifað fádæma veðurblíðu þarna í lok maí.

 (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Í gegnum tíðina hef ég verið nokkuð duglegur að ljósmynda í þessum ferðum. Það eru ekki síst börnin sem eru viðfangsefni, enda er vinahópurinn minn bæði fagur og frjósamur. Ég hef oft spáð í því hvað ég er lánsamur að hafa þessa ástríðu. Vissulega kraumar hún missterkt frá degi til dags. En á stað eins og Flatey er varla hægt annað en að finna sterkt fyrir henni.

 (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Hérna má skoða fleiri myndir úr Flateyjarferð 2010.

 

 

Toppað með 66 Norður

66 North trip. Hiking Hvannadalshnúkur, Icelands highest peak at 2110m. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Eins og ég kom inn á í þar síðustu færslu var ég í smá verkefni fyrir 66 Norður um helgina. Það er skemmst frá því að segja að þetta var algjör draumaferð upp á Hnúkinn, veðrið var eins og best er á kosið og færið upp á jökul hart og gott. Við lögðum af stað kl 4 um morguninn, brottför var flýtt um klukkutíma sökum þess að búist var við töluverðri umferð þennan daginn. Það reyndist hin besta ákvörðun þar sem allur hópurinn náði flottu útsýni á toppnum, en fljólega eftir að síðasti hópurinn frá 66 fór niður af toppnum byrjaði að skýja yfir efsta hlutann.

66 North trip. Hiking Hvannadalshnúkur, Icelands highest peak at 2110m. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Gangan á Hnúkinn er ekki mjög krefjandi tæknilega, en reynir því meira á þol þátttakenda. Ég var ekki búinn að taka þátt í Toppaðu verkefninu og einu fjallgöngurnar sem ég átti í reynslubankanum frá í vetur voru farnar helgina áður á Esjuna og Hafnarfjall. Ferðin gekk hins vegar eins og í sögu og var í raun auðveldari en ég átti von á. Ég neita því samt ekki að maður var vel lúinn í hnjám síðstu 700m lækkunina eftir að við vorum komin úr fönninni, sem var orðin sólbráðin og mjúk á leið niður. Erfiðari yfirferðar en á leið upp, því maður sökk niður, en á sama tíma hlífði hún hnjánum mikið.

Hér eru fleiri myndir frá þessari ferð, fyrst frá stuttri jöklagöngu á Sólheimajökul, svo gangan á Hnúkinn og að lokum bátsferð á Zodiac með björgunarsveitinni í Þorlákshöfn.

Fyrir græjuáhugafólk þá var ég með Canon EOS 5D Mark II og EF 24-105mm f/4L IS linsu. Fimman er létt og linsan dekkar mjög vítt svið í aðstæðum þar sem enginn tími er til að skipta um linsur. Hún er hins vegar misgóð skerpulega eftir ljósopi, t.d. furðu mikill munur á f/8 vs f/11 þar sem hún er best.

Sveitin

Blue Overalls hanging out to dry outside a farm in South Iceland. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Ég fór um helgina í ferð með 66 Norður. Með í för var hópur erlendra blaðamanna, sem var komin til að kynna sér vörur 66 Norður og hvað Ísland hefur að bjóða ferðamönnum – ekki síst þeirra sem stunda útivist. Megin tilgangur ferðarinnar var að ganga á Hvannadalshnúk á laugardeginum. En það var meira á dagskrá en bara Hnúkurinn. Á leiðinni austur var gert stutt stopp í sveitinni, á dæmigerðum íslenskum sveitabæ.

Old farm house in South Iceland. Large green sacks of fertilizer in front of the building. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Ég held að bændur geri sér margir ekki grein fyrir því hversu miklar gersemar þeir eru með í höndunum. Að komast í snertingu við alvöru sveit, sjá gömlu bæina við hlið þeirra nýju og komast í tæri við dýrin, er upplifun sem margir útlendingar hafa ekki tækifæri til í sínu heimalandi.

Rooster and Hens outside a farm in South Iceland. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Það sem okkur finnst merkilegt er ekki endilega það sem erlendum gestum þykir merkilegt og öfugt. Konan á þessum fallega bæ tók á móti gestunum með opnum örmum og bauð upp á kaffi og meðlæti inn á heimili sínu. Þegar hún sá að ég var að ljósmynda gömlu húsin sagðist hún skammast sín fyrir ástand þeirra. Hún vissi ekki að fólkið heillaðist að nákvæmlega þessu og fannst frábært að fá að sjá hvernig fólk hafði búið áður. Ég sagði henni að sjarminn við staðinn væri ekki síst sá að upplifa söguna svona ljóslifandi. Það sem okkur þykir ljótt getur nefnilega verið gullfallegt í augum annara.

Photo Guide

Þá er Photo Guide síðan mín opinberlega komin í loftið. Hún er reyndar búin að vera aðgengileg í nokkurn tíma, enda var ég að föndra við hana frá því í haust og fékk álit góðra vina “á leiðinni”. Merkið hannaði hinn mæti drengur og afbragðshönnuður Oscar Bjarnason.

Ég er búinn að eiga þann draum í nokkurn tíma að geta ferðast og ljósmynda meira en ég geri í dag. Mikið meira! Ég fann út að leiðsegja erlendum ljósmyndurum um landið væri líklega ágæt leið til þess að gera drauminn að veruleika. Leiðsögunámið í EHÍ var eitt púslið sem mig vantaði og meiraprófið sömuleiðis.

Einhvers staðar segir að góðir hlutir gerist hægt. Þrátt fyrir að vera fljótfær týpa (ég kýs að kalla það ástríðu) þá er ég með báðar fætur á jörðinni og geri mér grein fyrir því að það tekur tíma að byggja upp orðstýr og rekstur á þessu sviði. Ég er því rétt að byrja á verkefninu – sem ég vona að muni reynast mér og öðrum skemmtilegt.

 

Vetrarfrí

Sólarupprás í sveitinni. ©2010 Christopher Lund.
Sólarupprás í sveitinni. ©2010 Christopher Lund.

Við vorum svo heppin að næla okkur í bústað yfir langa helgi í Skagafirði, nánar tiltekið að Steinsstöðum. Krakkarnir voru í vetrarfríi í skólanum fram á miðvikudag. Þessi vetrarfrí eru svo ný af nálinni að það er auðvelt að gleyma þeim. Ný að nálinni fyrir svona háaldaraða eins og mig alla vega. Til að þessi frí verði nú að einhverju er nauðsynlegt að komast aðeins út úr bænum, þó að það sé dálítil keyrsla fyrir ekki mjög langan tíma.

Ari Carl einbeittur í tölvuleik. ©2010 Christopher Lund.
Ari Carl einbeittur í tölvuleik. ©2010 Christopher Lund.
Arndís með nýjum vini sínum. ©2010 Christopher Lund.

Þar var dásemdar veður alla helgina. Blankalogn og brakandi frost. Við nutum þess aðallega að slaka á í sveitinni. Ég fór þó í göngutúr með Arndísi upp á Reykjatungu og á sunnudeginum gerðum við okkur ferð út á Hofsós til að prófa nýju sundlaugina sem þær Lilja Pálmadóttir og Steinunn Jónsdóttir athafnakonur gáfu íbúum á Hofsósi. Hún er glæsileg, flott hönnun á húsinu sem fer lítið fyrir. Laugin sjálft er lítil, enda myndi ekki passa að vera með mjög stóra laug með á þessum stað. Útsýnið frá henni er einstakt. Eftir sundið renndum við svo inn á Krók og heimsóttum góða vini og fengum dýrindis vöfflukaffi.

Arndís úti í ljósaskiptunum. ©2010 Christopher Lund.
Arndís úti í ljósaskiptunum. ©2010 Christopher Lund.

Í svona ferðum ljósmynda ég yfirleitt svolítið (surprice, surprice!). Fer þá gjarnan með smá dóteri með mér. Í þetta sinn rötuðu litlu Nikon SB-900 og SB-800 flössin með ásamt tilbehör, nettum ljósastöndum, bracketum og regnhlífum. Ég er orðinn mjög hrifinn af Nikon flash-kerfinu. Það er auðvelt að blanda því við ambient ljósið og mælingarnar eru oftast nokkuð góðar. Með Nikon SU-800 þráðlausa sendinum stýrir maður allt að þremur hópum af ljósum, hvort sem maður vill notfæra sér i-TTL mælinguna eða stilla aflið handvirkt með Manual stillingu. Myndin af Ara í tölvunni hér að ofan er tekin með smá aðstoð frá stöku SB-900 sem ég festi með Justin Clamp á hitaveiturör á veggnum. Skotið á Nikon D3s, Nikkor 50mm f/1.4G , ISO 400 á f/2.0 og 1/60s. Ég stilli vélina á ljósops forval með -1 EV undirlýsingu og flassið +0.7EV yfirlýsingu. Á flassinu er diffuser dome og mig minnir að ég hafi þrengt geislann í 70mm stillinguna. Á myndinni af Arndísi út í ljósaskiptunum er ég aftur með SB-900 en í þetta sinn skotið í gegnum hvíta regnhlíf. Það var orðið frekar lítið ljós úti svo ég vann á ISO 800 á f/2.0 og 1/60s. Á Nikon D3s er ég að nota Nikkor 85mm f/1.4D sem gefur þetta fallega bokeh. Nýja linsan á víst að vera enn betri, uppfærð með AF-S mótor og 9-blaða lokara. Andsk… uppfærslur alltaf hreint…

Laugar að hausti

Þegar veðurspáin var svona góð eins og hún var fyrir síðustu helgi vissi ég að ég yrði að komast inn í Laugar. Ég ætlaði að tjalda, en þar sem það var laust í skála ferðafélagsins ákvað ég að gista frekar þar enda með börnin með mér. Við erum ágætlega græjuð en eigum þó ekki dúnpúka fyrir alla fjölskyldumeðlimi! Það er gaman að koma inn í laugar að hausti. Ferðamennirnir eru á bak og burt enda mesta ferðatímabilið liðið. Sumir forðast Landmannalaugar á sumrin sökum þess að þar er oft ansi þröngt á þingi. Þessa helgina var þó langt frá því fámennt. Bændur eru enn að ná í síðustu eftirlegukindurnar svo það var líf og fjör í skála FÍ.

Við fengum fallega birtu báða dagana, þó að ég hafi náð hlutfallslega fleiri góðum myndum á laugardeginum. Síðdegisbirtan er heit og falleg á þessum árstíma. Morgunbirtan blokkerast af Norðurbarminum svo sólarupprás nær ekki að sleikja Laugahraunið og Brennisteinsöldu líkt og á sumrin. Engu að síður gríðarlega fallegt að vera staddur í hlíðum Bláhnjúks við sólarupprás. Og líka auðveldara að leggja í göngu um sjö leytið frekar en fjögur eins og í sumar!

Á sunnudeginum dóluðum við okkur svo dómadalsleið heim á leið með viðkomu að Eskihlíðarvatni. Lífið er ljúft þegar maður á svona stundir með börnunum sínum. Það eru forréttindi að búa í landi eins og okkar. Vonandi höfum við vit á því að varðveita landið fyrir komandi kynslóðir í stað þess að fórna því fyrir næstu skyndilausn í efnahags- og atvinnumálum.

Út að leika

Suma daga verður maður bara að fara út að leika. Mánudagar eru sérstaklega góðir í það. Ekki síst ef maður þarf að prófa nýjan bíl. Ég er loksins kominn aftur á Land Rover Discovery. Það tók svolítinn tíma að landa þessum en það gekk fyrir rest. Fyrri eigandi hefur hugsað vel um hann og það leyndi sér ekki í dag. Hrikalega mjúkur og fínn, hleypti úr niður í 12 pund og þá fann maður varla fyrir stórgrýtinu.

Ég ákvað að taka smá hring sunnan við Skjaldbreið. Fór austan megin inn á Bláskógarheiðina, svo  meðfram Skjaldbreið að Hlöðufelli og suður Rótarsand niður á Laugarvatn. Það blés svolítið upp á Rótarsandi eins og sést á þessari mynd hér fyrir neðan. Fínn sandurinn minnti mig á það þegar ég var að mynda í öskufalli úr Eyjafjallajökli. Hugsanlega er hún eitthvað í bland þarna.

Smellti mér svo upp á Lyngdalsheiði og af henni aftur norður að Skjaldbreið. Hafði ekki farið þessa leið áður en hún er mjög falleg í kvöldsólinni, þar sem maður þræðir með fjöllunum. Þó að myndavélin hafi verið með í för tók ég nú fáar myndir. Þetta var meira svona ökuferð sko!

The Golden Circle

The Golden Circle. ©2010 Christopher Lund

Þar kom að því. Ég drullaðist loksins til að klára leiðsögunámið. Ég átti eftir eina æfingarferð í vor og fékk því ekki að útskrifast með samnemendum mínum. Þó var ég búinn að ljúka öllum öðrum verkefnum og prófum – og það með meðaleinkunn upp á 9.32!

Að útskrifast án þess að taka gullna hringinn er náttúrulega ekki hægt. Þessi klassíski rúntur er kjölfestan í íslenskri ferðaþjónustu. Eða hvað?

Mörg frábær ferðaþjónustufyrirtæki hafa litið dagsins ljós á síðustu árum. Íslensk ferðaþjónusta er að þroskast og möguleikarnir eru miklir. Í dag er mikilvægi greinarinnar öllum ljós, þar sem lungað af erlendum gjaldeyristekjum okkar kemur nú í gegnum hana. Því furða ég mig á því hvað ríkið virðist gera lítið fyrir ferðaþjónustuna. Markaðsátakið Inspired by Iceland var vissulega þarft útspil, en árangurinn næst frekar með langtíma stuðningi og stefnumótun. Skyndilausnin er ekki nóg – það virðist mjög erfitt fyrir okkur að læra það.

Mér finnst vanta töluvert upp á það að við skilgreinum betur áfangastaðinn Ísland. Hvað viljum við selja? Hvernig ferðmenn viljum við fá? Hvaða ímynd skilar okkur bestum árangri? Hvernig förum við að því að viðhalda þeirri ímynd þegar ferðamönnum fjölgar svo hratt sem raun ber vitni? Hversu margir er nóg?

Við eigum það til að einblína bara á fjöldann. Meira fólk = betra. En er það endilega málið? Á mörgum stöðum, sérstaklega á hálendinu er þolmörkum nú þegar náð. Innviði þarf að styrkja ef þau eiga að geta tekið á móti fleira fólki. En það er ekki bara náttúran sem hefur þolmörk. Heimamenn hafa líka þolmörk og auðvitað sjálfur ferðamaðurinn. Upplifun hans stjórnast verulega af því hversu fjölmennt er á svæðum og hvernig aðstaðan er. Ferðamenn sem hingað koma eru flestir að leita að víðernisupplifun og óspjölluðu umhverfi. Stefna okkar skiptir því gríðarlegu máli varðandi framtíð greinarinnar.

Sjötugur unglingur

Quon Chow ljósmyndar á Þingvöllum. ©2010 Christopher Lund.

Í starfi mínu kynnist ég oft skemmtilegu fólki. Quon Chow er einn af þeim. Hann réði mig sem ljósmynda-leiðsögumann í fjóra daga, eftir að hafa verið í heila viku með PhaseOne PODAS workshop genginu. Quon er fæddur í Kína, en er bæði Kanadískur og Bandarískur ríkisborgari. Hann hætti að vinna fyrir 10 árum og hefur síðan einbeitt sér alfarið að áhugamálinu sínu.

Ég ákvað að halda á norður því spáin sagði SA-átt. Auk þess var hann búinn að vera á suðurströndinni með PODAS, búinn að fara að Fjallabaki, Skaftafell og Jökulsárlón. Þau voru frekar óheppin með veður, þannig að það kom vel til greina að fara að Fjallabaki aftur. Síðustu helgi fór ég hins vegar ásamt Margréti Syðra-fjallabak í brjáluðu suðaustan roki, svo ég vissi að það var ekki alveg málið í ljósmyndaferð.

Strokkur að gjósa. ©2010 Christopher Lund.

Við fórum snemma af stað á mánudaginn var og héldum norður Kjöl. Komum við á Þingvöllum, Geysi og Gullfossi. Hinn gullni hringur var tekinn í eldsnöggan forrétt. Eftir það voru það Kerlingarfjöll, sem sviku ekki þrátt fyrir létta rigningu. Quon var svo hrifinn að hann ætlar að koma aftur til Íslands, nánast eingöngu til að eyða meiri tíma þar! Eftir Kerlingarfjöll var ekið nokkuð beint á Mývatn, en þar smellt ég upp tjaldinu góða á meðan hann kom sér fyrir á Hótel Reynihlíð.

Skrifstofan á Mývatni. ©2010 Christopher Lund.
Sólarupprás á Námafjalli. ©2010 Christopher Lund.

Það var ræs rétt rúmlega fimm daginn eftir og við komum okkur fyrir uppi á Námafjalli til að ná sólarupprás. Með í för slóst Steve Pelton, annar ljósmyndari sem hafði verið með PODAS hópnum og var kominn norður á eigin bílaleigubíl. Við fengum fjári góða birtu og mynduðum í góða tvo tíma áður haldið var í morgunmat á Hótelinu. Eftir það var bara slakað á fram eftir degi, en ég fór seinni partinn með Quon upp í Gjástykki og ók svo slóðann yfir að Þeistareykjum með viðkomu í Litla-víti. Engin leið að ná því almennilega á mynd, en mikið djöfull er magnað að sjá þessa risaholu í jörðinni þarna! Þeistareykir voru fallegir í kvöldbirtunni, en það eru ótrúlega miklar breytingar sem verða á fáeinum dögum. Ég var þarna fyrir þremur vikum og þá entist sólsetrið töluvert lengur.

Sólsetur á Þeistareykjum. ©2010 Christopher Lund.

Á miðvikudaginn héldum við svo áleiðis vestur á Snæfellsnesið, ljósmynduðum Dimmuborgir, Mývatn og Goðafoss á leiðinni og svo fengum við fallega birtu í Öxnadal líka. Komum kl 20 á Hótel Stykkihólm eftir nokkuð stífan keyrsludag, en ég var að veðja á þokkalega birtu síðasta daginn á Snæfellsnesinu. Samkv. veðurkortinu var spáð rigningu svo til um allt land, en síst þar.

Berserkjahraun. ©2010 Christopher Lund.

Berserkjahraunið klikkaði ekki og ekki spillti fyrir að sjá fjóra erni á flugi! Við notuðum daginn til að dóla allt Snæfellsnesið, veðrið fór reyndar versnandi en við náðum nokkrum skotum, t.d. við Djúpalón, Hellna og Búðir. Það var afar sáttur sjötugur unglingur sem kvaddi mig um kvöldmatarleytið á Hilton og ekki síður sáttur leiðsögumaður við stýrið á Lundanum.

Ég kem til með að gera meira af þessu, það er nokkuð ljóst!

Útileguburst

Burstað á Eyjólfsstöðum í Fossárdal. ©2010 Christopher Lund.

Það er óhætt að segja að sumarið 2010 hafi verið gott til ferðalaga. Við vorum tæpan mánuð samfleytt úr bænum og eyddum mestum tíma fyrir norðan. Eyjafjörður, Aðaldalur, Ásbyrgi og Langanes fyrir norðan. Norðfjörður, Stöðvarfjörður og Fossárdalur fyrir austan. Og veðrið lék við okkur svo gott sem allan tímann. Lygilegt alveg.

Í fríi ljósmynda ég ákaflega mismikið. Ég forðast yfirleitt “hefðbundna” landslagsljósmyndun, en mynda auðvitað landslagið og umhverfi í bland við börnin og hvað sem við erum svo að bralla með þeim. Þetta er tími til að hlaða sig upp af orku og það er misjafnt hvernig maður er í upphafi sumarfrís. Stundum er ég svo útkeyrður að ég hef varla orku í neinar myndapælingar. Það rjátlar þó fljótt af mér, fjölskyldunni til skelfingar. Hún þarf að hafa ákveðna þolinmæði gagnvart þráhyggjunni við að skjalfesta samtímann.

Myndirnar fimm sem rúlla sem slideshow á síðunni eru frá heimsókn í Hrísey þann 26. júlí síðastliðinn. Magnaður staður Hrísey.