Er minna meira?

Canon S100

Það er mikið um að vera á myndavélamarkaði um þessar mundir. Framleiðendur keppast við að koma með nýjar vélar og útspil Nikon með sitt nýja mirrorless Nikon 1 kerfi virðist fara nokkuð vel af stað, ef marka má sölutölur vestanhafs.

Sjálfur er ég ekkert rosalega spenntur yfir þessum mirrorless vélum með útskiptanlegum linsum. Undantekningin er helst Fuji Pro X1 – þó ekki nema bara fyrir það hversu falleg hún er. Hvort ég kæmi til með nota svona vél mikið er annað mál. Ég hef nefnilega aldrei náð almennilegum tökum á því að nota rangefinder í annað en statísk viðfangsefni. Fínt í landslag og hluti þar sem maður hefur nægan tíma til að ramma viðfangsefnið inn og fókusera. Í portrett og önnur dýnamískari viðfangsefni er ég glataður með rangefinder.

Vetrarstemning við Bugðu. Canon S100 @ISO 80/16:9 Crop Mode RAW+JPEG
Canon G1X

Svo finnst mér það bara vera e-h þannig að annað hvort nota ég með vél með skiptanlegum linsum (D-SLR) eða bara litla handhæga vél með góðu zoom-sviði. Því er ég töluvert spenntur fyrir Canon G1X. Hún er með mjög stórum skynjara miðað við aðrar vélar af þessari stærðargráðu og sýnishornamyndirnar sem ég hef séð úr henni lofa mjög góðu. Útlitið er reyndar svolítið kanntað og klossað, hún virkar eiginlega eins og eldra módel af G-línunni, en það er svo sem aukaatriði.

Í gegnum tíðina hef ég átt svolítið af stafrænum vasamyndavélum. Flestar hafa átt það sameiginlegt að rísa ekki undir væntingu mínum og verið afar lítið notaðar.

Það breyttist þó með komu Canon S90. Hún var sú fyrsta sem bjó yfir nógu miklum myndgæðum að ég nennti að taka hana með mér. Nú er ég svo kominn með Canon S100 sem er snyrtileg uppfærsla. Á milli kom reyndar S95, sem var uppfærsla sem mér fannst ekki taka því að fara út í.

Canon S100 hefur nýjan CMOS skynjara, en Canon S90 og S95 hefur CCD skynjara. Hann skilar aðeins meiri upplausn (12 vs 10 MP) og töluvert betri gæðum á hærri ISO stillingum, en það munar um það bil einu ljósopi. Canon S100 ræður ennfremur við Full HD video / 1080p @ 24 fps. Það er svo hægt að fókusera enn nær í macro tökum eða niður í 3 cm úr 5 cm.

Piparkökuhús með sætu þaki. Canon S100 @ISO 400/RAW

Linsan er nefnilega ný, en hún dekkar nú stærra brennivíddarsvið sem samsvarar 24-120mm miðað við 35mm format.  Á Canon S90/95 er það 28-105mm. Einn ókostur við nýju linsuna er sá að stærsta ljósop á lengri endann er f/5.9 vs. f/4.9 áður. Einnig er ljósop f/2.0 eingöngu mögulegt á víðustu 24mm stillingu. Á 35mm brennivídd er stærsta ljósop f/2.8 á meðan Canon S90/95 býður ennþá f/2.0. Kannski ekki margir að velta sér upp úr þessu, en ég var hrifinn af því að geta notað f/2.0 á 35mm brennivídd til þess að einangra viðfangsefnið frá bakgrunni betur.

Nýtt í S100 er innbyggð GPS hnit og ND filter auk þess sem hægt er að skjóta ofurhæg myndskeið á 240 fps. En stærðin á slíku myndskeiði er reyndar takmarkað við 320×240 pixla. Full HD videoið er býnsa gott, sérstaklega ef maður er að mynda við þokkaleg birtuskilyrði og hristivörnin hjálpar til við að halda myndinni sæmilega stöðugri við töku. Dæmi um slíkt má sjá hér að ofan.

Hér er svo að finna fleiri myndir úr Canon S100 – lykilorðið er S100. Ég ákvað að hafa aðgengi að fullri upplausn svo þið getið halað myndunum niður til að skoða útkomuna betur. Ég hef ekki skerpt myndirnar í eftirvinnslu og leiðrétti ekki linsuna eins og auðvelt er að gera. Allar myndirnar eru skotnar í RAW og unnar í Lightroom 4 beta.

Vinsamlegast virðið höfundarréttinn og notið myndirnar aðeins í þessum eina tilgangi.

 

Hraðportrett með aðstoð PocketWizard

Geir Hilmar Haarde (born 8 April 1951) was Prime Minister of Iceland from 15 June 2006 to 1 February 2009 and Chairman of the Icelandic Independence Party from 2005 to 2009. In September 2010, Geir became the first Icelandic minister to be indicted for misconduct in office, and will stand trial before the Landsdómur, a special court for such cases. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Í ljósi umræðu síðasta pósts er það kannski kaldhæðni af mér að halda því fram að hægt sé að taka gott portrett á nokkrum mínútum? En það er það sem ætlast er til af mér í verkefnum fyrir Der Spiegel. Enn á ný senda þeir blaðamenn hingað til að fjalla um skrítnu eyjuna í norðri og hvernig okkur reiðir af eftir efnahagshrun.

Össur Skarphéðinsson (born 19 June 1953) Minister for Foreign Affairs in Iceland since February 2009. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Myndirnar hér að ofan af Geir Haarde og Össur Skarphéðinssyni eru teknar með PocketWizard MiniTT1 / FlexTT5 kerfinu. Það er algjör draumur í svona verkefni þar sem maður hefur engan tíma til að ljósmæla og hlaupa fram og tilbaka á flössin til að stilla styrk. Ég get flakkað að vild með stillingar á ISO, ljósop, lokarahraða og kerfið bregst alltaf við.

Myndin af Geir er skotin á Nikon D3s með Nikkor 24mm f/1.4G linsu, lýsingin eru tvö SB-900 flöss í silfraða regnhlíf. Myndin af Össur er skotin á Nikon D3s með Nikkor 85mm f/1.4G linsu (galopin) og lýsingin er eitt SB-900 flass á borði sem endurkastar ljósi frá vegg og svo er eitt SB-800 flass í regnhlíf sem örlítið uppfyllingarljós.

Kærkomnir endurfundir

Saltvatn skolað af Nikon D3x

Ég stútaði myndavél í sumar. Nikon D3x vélin mín steyptist fram af kletti og ofan í sjó, ásamt Nikkor AF-S 14-24mm f/2.8G og Gitzo þrífót. Svona klaufar eins og ég eru tryggðir upp í rjáfur, en engu að síður þokkalegasta tjón þar sem sjálfsábyrgðin er 15%. Ég hafði strax samband við Beco sem fóru á fullt að útvega mér nýrri vél. Lagerstaða á D3x hefur verið lág um allan heim og því tók tíma að redda vél. Beco lánuðu mér D3x ítrekað í sumar endurgjaldslaust sem er frábær þjónusta. Ég var því frekar aumur að geta ekki gengið frá kaupum þegar vélin kom nokkrum vikum síðar. Tryggingarféð hafði að sjálfsögðu  horfið í reksturinn og ég kaupi ekki svona dýra hluti nema sjá fyrir endan á fjármögnun.

Við tóku vikur án D3x og því lengra sem leið, því líklegra fannst mér að Nikon myndu kynna nýja D800 eða D4. Það voru alls konar sögusagnir í gangi, en ekkert hefur enn bólað á D-SLR uppfærslum. Fyrir síðustu helgi gat ég bara ekki verið án D3x lengur og gekk frá kaupum á nýrri vél. Beco var reyndar búin að selja vélina sem upphaflega var pöntuð fyrir mig, en áttu aðra. Ef maður skoðar lagerstöðu víða um heim, sést að það er mjög lítið til af Nikon D3x og jafnvel líka D3s. Það má því teljast nokkuð magnað að hún skuli vera til á lager hér á Íslandi.

Allar pælingar mínar varðandi að kaup á röngum tíma hurfu um leið og ég byrjaði aftur að skjóta með vélinni á föstudaginn var. Það er bara e-h galdur við D3x. Hún hefur einstakan karakter. Tónasviðið (D-range) er frábært í landslagið og ég hef ekki enn fundið vél sem skilar húðtónum betur. Vissulega væri gaman að fá HD video og hraðari örgjörva svo hún réði við meira en 1.8 ramma á sek þegar skotið er í 14bit. En ég er afar sáttur að vera loks kominn x-inn aftur í töskuna.

Nýjir möguleikar

Ari Carl út við Sandavað. Skotið á Nikon D3s með tveimur SB-900 flössum í regnhlíf. PocketWizard MiniTT1 og FlexTT5 notað. Ljósop f/5.6 og 1/1000s.
Skotið með PocketWizard MiniTT1/FlexTT5. Ljósop f/5.6 og 1/1000s.

Ólíkt sem margir halda er sól og heiðskír himinn sjaldnast óskabirta ljósmyndarans. Að minnsta kosti ekki yfir miðjan daginn, því þá er ljósið gríðarlega hart og um hásumarið er sólin svo hátt á lofti að lítið er um skugga í landslagi. Sömu sögu er að segja þegar maður tekur mannamyndir úti við – sólin er þá oft helsti óvinurinn. Til að fólk verði ekki grettið og píreygt á myndum þarf að finna skugga eða snúa því undan sterku sólarljósinu og nota flass til að lýsa upp andlitin.

Það gefur auga leið að það þarf nokkuð öflug flöss til að vega upp á móti sólarljósi. Profoto Pro 7b 1200, Pro B3 1200 og AcuteB2 600 eru frábær ljós – en með prís í stíl. Helsti ókosturinn við að nota D-SLR vélar með þessum og sambærilegum ljósum er takmörkun á lokarahraða, en flestar D-SLR vélar geta ekki unnið á hraðari lokararhraða en 1/200s eða 1/250s með þeim. Það þýðir að á heiðskírum sumardegi þarf að vinna á ljósopi f/11 – f/16 og 1/200s lokarahraða miðað við ISO 100. Það útheimtir bæði mikið afl frá flassinu og takmarkar hvaða ljósop við höfum til afnota til að stýra dýptarskerpu.

Bæði Nikon og Canon hafa þó boðið upp á High Speed Sync með sínum eigin flössum. Hins vegar hafa IR-sendarnir frá þeim ekki verið mjög áreiðanlegir úti við eða þegar staðsetja þarf flassið á þann hátt að bein sjónlína frá IR-sendi að flassi rofnar.

Pineapple desert for the BBQ (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)
PocketWizard MiniTT1 og FlexTT5 notað. Ljósop f/2.0 og 1/6400s.

PocketWizard hefur leyst þetta vandamál með nýju MiniTT1 og FlexTT5 græjunum. Þar sameinast kostir útvarpsbylgjusendis (Radio Signal) við sjálfvirkni TTL ljósmælingar. Nú er hægt að nota litlu flössin af meira öryggi og eftir að hafa leikið mér með þetta kerfi í svolítinn tíma verð ég að segja að það virkar betur en ég þorði að vona!  Stærstu kostirnir eru að fá TTL-ljósmælingu við að blanda dagsljósi og flassi saman og að geta unnið á stærri ljósopum með hærri lokarahraða. Vissulega þarf að hafa ljósgjafann nokkuð nálægt viðfangsefninu í slíkum tilvikum, en mér finnst ótrúlegt að geta fengið flass til að ganga upp á f/2.0 og 1/8000s með Nikon D3s vélinni minni.

 

The Father, Son and the Holy Goat

Hin heilaga linsu þrenning. Það eru til margar uppskriftir.

Nikon virðist ætla sér að einfalda málið þessa dagana með því að bjóða pakka með þremur nýjustu f/1.4 linsunum. Þeir hafa reyndar ekki komið með neina opinbera tilkynningu um þennan pakka. Það merkilega er að verðið er hagstæðara en að kaupa þær í sitt hvoru lagi! Það er auðvitað lógískt í almennum viðskiptum, en hingað til hefur það ekki beint verið stefnan í verðlagningu á ljósmyndadóti.

En þurfum við svona bjartar (og um leið dýrar) linsur? Það fer auðvitað eftir því hvers konar ljósmyndun við stundum og hvaða kröfur við gerum. Þessar þrjár dekka a.m.k. mjög skemmtilegt svið og skilar okkur nothæfum myndum við nánast hvaða birtuskilyrði sem er.

Elísabet 4 ára. Blásið á kertin. (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Hins vegar eru þessar f/1.4 linsur ekkert endilega svo mikið betri en aðrar þegar þær eru stoppaðar niður. Diffraction sést yfirleitt fyrr og því getur borgað sig að nota aðra linsur í þeim tilfellum þegar nota þarf ljósop f/8-11 eða smærra. Þess vegna myndi ég frekar fara af stað með AF-S Nikkor 24-70mm f/2.8G í gönguferð til að mynda landslag, heldur en að burðast með þrjár f/1.4 linsur sem ég væri sífellt að rífa af og setja á, með tilheyrandi möguleika á ryksöfnun á skynjara.

En ég viðurkenni að ég er sökker fyrir þessum björtum linsum. Ég ljósmynda gjarnan við skilyrði þar sem ég hef ekki tíma eða möguleika til þess að stýra lýsingu eða þá hver bakgrunnurinn er. Svona linsur er ómetanlegar í báðum tilfellum.

Ég hef nú þegar eignast nýju Nikkor AF-S 24mm f/1.4G og Nikkor AF-S 35mm f/1.4G. Ég er svo með demo eintak af Nikkor AF-S 85mm f/1.4G í láni um helgina frá Beco. Ég rá reyndar fyrir Nikkor AF 85mm f/1.4D sem er frábært gler, skarpt og fallegt, en sjálfvirki fókusinn mætti vera hraðvirkari. Við aðstæður þar sem viðfangsefnið er á hreyfingu á hún oft í erfiðleikum. Optíkst hélt ég að það væri tæpast hægt að toppa hana en nýja G-linsan gerir það. Og maður lifandi hvað AF-S fókusinn munar miklu, hraðvirkur og nákvæmur. Linsan skilar ennfremur svæðum sem eru út úr fókus (bokeh) afskaplega mjúkum og fallegum, eins og við mátti búast.

Canon á sínar frábæru: Canon EF 24mm f/1.4L II, Canon EF 35mm f/1.4L og Canon EF 85mm f/1.2L II. Ég átti þær allar um tíma, auk þess sem Canon EF 50mm f/1.2L og Canon EF 135mm f/2L voru gjarnan í töskunni. Allt frábær gler. En ef ég ætti að velja þrjár af þessum fimm held ég að ég myndi jafnvel frekar stilla upp 35mm – 50mm og svo 135mm. Canon EF 135mm f/2L er líklega ein allra bestu linsukaup sem ég hef gert. Æðisleg linsa í alla staði, fáranlega fljót að fókusera og skerpa/bokeh yndislegt. Hér er dæmi:

Arndís úti við bústaðinn við Meðalfellsvatn. (Christopher Lund/©2008 Christopher Lund)

Ziess linsurnar fyrir Nikon og Canon D-SLR eru möguleiki líka, sætti maður sig við að missa sjálfvirka fókusinn. Þessar linsur hafa selst mjög vel upp á síðkastið, ekki síst eftir mikla uppfjöllun og lof á ljósmyndakeppni.is. Ég hef nú ekki prófað að setja annað en Distagon T* 2,8/21 ZF og Distagon T* 2/35 ZF á mínar vélar og þær eru a.m.k. á pari við það besta frá Nikon varðandi skerpu og bjögun. Mig langar svolítið að prófa Planar T* 1,4/50 ZF til að bera saman við Nikkor AF-S 50mm f/1.4G sem er eiginlega veikasti hlekkurinn núna í föstu Nikkor f/1.4G línunni. Hún er samt ekkert drasl. Þessi mynd er tekin á hana á f/2 og 1/250s á Nikon D3x @ ISO 6400.

Volcanic eruption in Eyjafjallajökull, 19th of April 2010. On 14th of April 2010 Eyjafjallajökull resumed erupting after a brief pause, this time from the top crater in the centre of the glacier, causing meltwater floods (also known as jökulhlaup) to rush down the nearby rivers, and requiring 800 people to be evacuated. This eruption was explosive in nature and is estimated to be ten to twenty times larger than the previous one in Fimmvörðuháls. This second eruption threw volcanic ash several kilometres up in the atmosphere which led to air travel disruption in northwest Europe for six days from 15 April 2010, including the closure of airspace over most of Europe. (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Eitt er víst. Ef maður eyðir svona miklum tíma og peningum í þennan nördaskap er eins gott að koma annað slagið í hús með ljósmyndir sem eru annað en bara skerputest!

Kærkomin þjónusta

Á Íslandi er ljósmyndavéla- og linsueign með ólíkindum. Ég fullyrði að það er engin þjóð jafn rosalega vel græjuð þegar það kemur að ljósmyndabúnaði almennt.

Fólk byrjar gjarnan smátt (sem er þó yfirleitt grunnfjárfesting upp á 2-300 þúsund) en eru komnir í milljóna fjárfestingu áður en þeir vita af. Og margir eru ekki að þéna neitt inn á þessum búnaði!

Maður hefur vanist því í gegnum tíðina að kaupa þann búnað sem hefur þurft í verkefnin. Ég viðurkenni fúslega að ég er duglegur við að versla – en ég hef líka verið duglegur að selja á móti. Ég fer reglulega yfir búnaðinn og er bara með þau verkfæri sem henta mér hverju sinni.

Á þenslutímum verlsaði maður nánast hvað sem var. Hikaði ekki við að kaupa 300 þúsund króna linsu þó að það væri bara fyrir eitt verkefni. Ég vissi að það kæmu fleiri í svipuðum dúr, sem stóð yfirleitt heima. Í dag er öldin önnur.

Það er því ánægjulegt að tækjaleiga Sense skuli nú bjóða leigu á Canon ljósmyndabúnaði. Úrvalið má sjá hér. Sumir vilja sjálfsagt sjá meira úrval, en ég er nú bara á því að þetta sé ágætis byrjun. Ég held að það sé sniðugt að stíla fyrst og fremst á sérhæftar og dýrar linsur eins og tilt/shift línuna, björtu föstu L-linsurnar og svo auðvitað stóru hvítu aðdráttarlinsunar.

Ég óska Sense til hamingju með þetta og vona að þessu framtaki verði vel tekið. Þá vex leigan og dafnar og hver veit nema að menn geti jafnvel bara farið að reiða sig á að leigja búnað fyrir verkefni – í stað þess að liggja með fjármuni í búnaði sem er ekki notaður nema stöku sinnum?

Vetrarfrí

Sólarupprás í sveitinni. ©2010 Christopher Lund.
Sólarupprás í sveitinni. ©2010 Christopher Lund.

Við vorum svo heppin að næla okkur í bústað yfir langa helgi í Skagafirði, nánar tiltekið að Steinsstöðum. Krakkarnir voru í vetrarfríi í skólanum fram á miðvikudag. Þessi vetrarfrí eru svo ný af nálinni að það er auðvelt að gleyma þeim. Ný að nálinni fyrir svona háaldaraða eins og mig alla vega. Til að þessi frí verði nú að einhverju er nauðsynlegt að komast aðeins út úr bænum, þó að það sé dálítil keyrsla fyrir ekki mjög langan tíma.

Ari Carl einbeittur í tölvuleik. ©2010 Christopher Lund.
Ari Carl einbeittur í tölvuleik. ©2010 Christopher Lund.
Arndís með nýjum vini sínum. ©2010 Christopher Lund.

Þar var dásemdar veður alla helgina. Blankalogn og brakandi frost. Við nutum þess aðallega að slaka á í sveitinni. Ég fór þó í göngutúr með Arndísi upp á Reykjatungu og á sunnudeginum gerðum við okkur ferð út á Hofsós til að prófa nýju sundlaugina sem þær Lilja Pálmadóttir og Steinunn Jónsdóttir athafnakonur gáfu íbúum á Hofsósi. Hún er glæsileg, flott hönnun á húsinu sem fer lítið fyrir. Laugin sjálft er lítil, enda myndi ekki passa að vera með mjög stóra laug með á þessum stað. Útsýnið frá henni er einstakt. Eftir sundið renndum við svo inn á Krók og heimsóttum góða vini og fengum dýrindis vöfflukaffi.

Arndís úti í ljósaskiptunum. ©2010 Christopher Lund.
Arndís úti í ljósaskiptunum. ©2010 Christopher Lund.

Í svona ferðum ljósmynda ég yfirleitt svolítið (surprice, surprice!). Fer þá gjarnan með smá dóteri með mér. Í þetta sinn rötuðu litlu Nikon SB-900 og SB-800 flössin með ásamt tilbehör, nettum ljósastöndum, bracketum og regnhlífum. Ég er orðinn mjög hrifinn af Nikon flash-kerfinu. Það er auðvelt að blanda því við ambient ljósið og mælingarnar eru oftast nokkuð góðar. Með Nikon SU-800 þráðlausa sendinum stýrir maður allt að þremur hópum af ljósum, hvort sem maður vill notfæra sér i-TTL mælinguna eða stilla aflið handvirkt með Manual stillingu. Myndin af Ara í tölvunni hér að ofan er tekin með smá aðstoð frá stöku SB-900 sem ég festi með Justin Clamp á hitaveiturör á veggnum. Skotið á Nikon D3s, Nikkor 50mm f/1.4G , ISO 400 á f/2.0 og 1/60s. Ég stilli vélina á ljósops forval með -1 EV undirlýsingu og flassið +0.7EV yfirlýsingu. Á flassinu er diffuser dome og mig minnir að ég hafi þrengt geislann í 70mm stillinguna. Á myndinni af Arndísi út í ljósaskiptunum er ég aftur með SB-900 en í þetta sinn skotið í gegnum hvíta regnhlíf. Það var orðið frekar lítið ljós úti svo ég vann á ISO 800 á f/2.0 og 1/60s. Á Nikon D3s er ég að nota Nikkor 85mm f/1.4D sem gefur þetta fallega bokeh. Nýja linsan á víst að vera enn betri, uppfærð með AF-S mótor og 9-blaða lokara. Andsk… uppfærslur alltaf hreint…

Úlfur í sauðagæru

Litla Canon S90 myndavélin er sannkallaður úlfur í sauðagæru. Lítur út eins og venjuleg vasamyndavél og virkar ekki fancy á að líta. En hún getur töluvert mikið meira en þær flestar. Myndgæðin koma skemmtilega á óvart og möguleikinn á að skjóta RAW býður enn meiri möguleika til að kreista allt út úr kvikindinu.

Stærsta ljósop er f/2.0 á 6mm brennivídd og f/4.9 á 22.5mm. Hægt er að stilla allt sjálfur og stýra t.d. þannig ljósopi eða hraða. Vélin er með P-program, Av, Tv, Full Manual, Full Auto og Custom uppsetningu. Hægt er að stilla hringinn sem er í kringum linsuna þannig að maður velji þar ljósop eða hraða, ISO, over/underexposure ofl. Mjög svalt kerfi finnst mér.

Allar aðgerðir eru því aðgengilegar og auðvelt að taka stjórnina frá vélinni ef þarf. Hægt er að stjórna styrk á flassinu, sem er frábært ef maður vill nota fill-flash sem má ekki að vera of áberandi. Eina sem ég sakna er meiri upplausn á video en það er bara VGA. HD video væri auðvitað frábært. Video er nefnilega eitthvað sem ég þarf að skjóta meira af. Fyrir tveimur árum keypti ég mjög fína Sony HD videovél. En hún er eiginlega overkill í það sem ég er að gera. Auk þess er allt of mikið vesen að importa þessu AVCHD formati og klippa til. Gerir það ekki nema þú sért tjöruslakur með nægan tíma í að horfa á tölvuna vinna.

Eldgos @ ISO 25.600

Eldgos í Eyjafjallajökli í ljósaskiptunum. ©2010 Christopher Lund.
Eldgos í Eyjafjallajökli í ljósaskiptunum. ©2010 Christopher Lund.

Fyrir ekki löngu síðan hefði verið ómögulegt að ná nothæfri mynd við svona aðstæður. Klukkan er 21.39 að kveldi 19. apríl og ég er staddur í Cessnu Hawk yfir Eyjafjallajökli. Birtan er alveg að hverfa, við fljúgum á um 90 hnúta hraða með opinn glugga og ég tek þessa mynd á ISO 25.600 á Nikon D3s. Það gefur mér lokararhraða upp á 1/200s og ljósop f/2.8. Almennt myndi maður segja að 1/200s væri ekki nógu stuttur lokararhraði fyrir loftmyndatöku, hvað þá á 185mm brennivídd. En hristivörnin í 70-200mm VRII linsunni gaf mér skarpar myndir alveg niður í 1/60s. Ég er frekar sáttur.

Hér má annars skoða fleiri myndir frá gosinu í Eyjafjallajökli.

Canon EOS 1D Mark IV vs. Nikon D3s

Canon vs. Nikon er svolítið eins og PC vs. Mac. Fyrir suma eru val á öðru hvoru merkinu umfram hitt trúarbrögð. Ég er ekki einn þeirra sem tek það persónulega þegar ný myndavél kemur á markað frá “hinum” sem er betri en mín. Ég vel það verkfæri sem ég tel hæfa best hverju sinni.

Margir hafa haft samband og spurt hvor þessara véla sé betri. Ég taldi því rétt að skrifa smá stúf hérna og sýna nokkrar myndir sem ég tók við sömu aðstæður á báðar vélarnar. Mér leiðist reyndar að ljósmynda sama mótívið út frá fyrirfram gefinni formúlu, til þess eins að opna myndirnar hlið við hlið á tölvuskjá og dæma aðra betri. En til þess að átta sig á muninum á þeim er það víst nauðsynlegt. Þessi samanburður er langt frá því að vera fullkomlega útfærður og ég tek það fram að aðallljósgjafinn var ekki 100% stöðugur, þó ég hafi auðvitað reynt að sjá til þess að svo væri. Að biðja son minn að sitja fyrir framan tölvuleik og leika sér ekki er frekar vonlaust. En skjámyndin breyttist ekki mikið á meðan ég skaut þessa ramma.

Þar sem báðar vélarnar eru markaðssettar sem kóngar ljósnæmnissviðisins þá liggur beinast við að bera þær saman með það í huga. Ég gerði ekkert sérstakt fókuspróf. Eftir nokkra daga með Mark IV fæ ég ekki betur séð að Canon sé komið aftur á beinu brautina með sjálfvirka fókuskerfið sitt, sem er hið besta mál. Fókuskerfið í Nikon D3 línunni er talið eitt það allra besta sem völ er á. Fyrir þá sem vilja fá mjög yfirgripsmikla umfjöllun um báðar vélarnar á ensku þá er Rob Galbraith oftast góður kostur: Nikon D3s og Canon EOS 1D Mark IV.

Hér koma sem sagt þrjú pör af myndum, teknar á ISO 6400, ISO 12800 og ISO 25600. Myndirnar eru ekkert unnar. Það eina sem ég gerði var að taka þær inn í Lightroom og samræma WB stillingu. Mér finnst vonlaust að bera saman myndir er litirnir eru mjög ólíkir. Eini litamunurinn er sem sagt bara karaktermunur á skynjara þessara véla. Ég notaði Canon EF 50mm f/1.2L, Nikkor 50mm f/1.4D, Canon EF 85mmf/1.2L II og Nikkor 85mm f/1.4D linsur. Fjarlægð í viðfangsefnið er því ekki sú sama, þar sem ég reyni að fylla rammann jafnt. Mark IV er með 1.3x crop factor og D3s er full-frame. Upplausn Mark IV er 16MP en D3s er 12MP.

Að dæma frá skjáupplausn er alveg vonlaust. Þið getið því nálgast fulla upplausn hér. Lykilorðið er: chris

Mark IV og D3s @ ISO 6400 (f/2.8 og 1/80s) ©2010 Christopher Lund.

Fyrstu myndirnar eru teknar á ISO 6400. Mark IV til vinstri og D3s til hægri. Myndirnar eru mjög líkar þó að D3s virðist aðeins dekkri. Þetta er eitt af karaktereinkennum D3s. Þar sem Canon átti til að vera ljós er Nikon stundum í hina áttina. Skuggasvæðin virka dekkri beint úr vélinni en teikningin er þó ekki síðri. Í Lightroom vinnslu þýðir þetta að lækka Black sleðann, nokkuð sem maður gerir mun sjaldnar með Canon skrár.

Mark IV og D3s @ ISO 12800 (f/2.8 og 1/100s) ©2010 Christopher Lund.

Mark IV til vinstri og D3s til hægri. Á ISO 12800 er lýsingarmunurinn nánast enginn. Nikon myndin virðist þó mýkri, jafnvel í skjáupplausn. Það er annað sem lýsir ágætlega þeim mun sem er á þessum vélum. Við hærra ISO herðast Mark IV skrárnar í takt við aukið ljósnæmni. D3s eru frekar mjúkar áfram. Mér hefur hins vegar fundist D3s vera harðari en Mark IV á lágu ISO beint úr vél. Fyrst þegar maður byrjar að nota D3s hefur maður á tilfinningunni að sumar skrár séu undirlýstar sökum þess að svart liggur e-h veginn neðar en á Canon. En upplýsingarnar eru til staðar, upphafsgildin eru bara önnur en maður er vanur (komi maður frá því að vinna með Canon).

Mark IV og D3s @ ISO 25600 (f/2.8 og 1/100s) ©2010 Christopher Lund.

Mark IV er eftir myndin. Hér á ISO 25600 sjáum við enn betur hvað ég var að tala um að Mark IV skrárnar herðist með hærra ISO. Fyrir vikið virkar Mark IV myndin nokkuð  ljósari og jafnvel skarpari, en það er  fyrst og fremst hliðarafurð þess að vera harðari. Með hærri kontrast virka litir líka mettaðari.

Annars hef ég oft heyrt að til einföldunar megi segja að munurinn á karakter Canon og Nikon sé eins og munurinn á Kodak og Fuji. Það er algjört bull að mínu mati. Í raun hef ég aldrei skilið þessar pælingar að myndir úr ákveðnum vélum séu eins og e-h filmur. Stafræn skrá er svo teygjanleg í eðli sínu að þú getur látið hana líta út eins og hvaða filma sem er.

Mér finnst líka skondið að sumir telja það kost að stafrænar vélar hafi eitthvað filmu-lúkk. Síðast þegar ég skaut á filmu var það ansi takmarkandi miðill. Það er ekkert mál að þvinga sjálfan sig í svipaða takmörkun við stafræna ljósmyndum. Byrjaðu bara á því að festa WB á daylight til dæmis. Festu svo -2 undirlýsingu þegar þú myndar á ISO 1600 og þú ert með svipað niðurstöðu eftir vinnslu og að skjóta á ISO 1600 filmu. En hvers vegna vill fólk fá eitthvað filmu-lúkk? Ætli það sé ekki vegna þess að möguleikarnir við úrvinnslu stafrænna mynda eru svo óendanlega margir að stundum er erfitt að ákveða hvenær skal hætta?

Til að auka enn á möguleika okkar til sköpunar er hágæða video komið í flestar nýjustu D-SLR vélarnar. Mark IV er engin undantekning og þar hefur Canon klárlega vinninginn. Bæði með hærri upplausn og fleiri ramma á sekúndu en D3s. Ennfremur virðist D3s vera viðvæmari fyrir flökti sem verður til frá ákveðnum ljósgjöfum (Hz tíðnipúlsar koma fram sem flöktandi línur sem hreyfast upp/niður rammann).

Þegar þið farið að skoða þessar myndir í fullri upplausn sjáið þið miklu betur þann mun sem er á þessum vélum.. Sitt sýnist hverjum, en mér finnst Nikon D3s hafa ákveðið forskot þegar kemur á því að halda suði í skefjum. En munurinn verður varla talinn mjög mikill og ef maður þekkir búnaðinn vel og möguleika í eftirvinnslu skila þær báðar frábærri útkomu við nánast hvaða aðstæður sem er.