Canon EOS 5D Mark III

Canon hefur nú svipt hulunni af uppfærslu á hinni vinsælu 5D Mark II. Nýja vélin heitir einfaldlega 5D Mark III. Viðbrögðin láta ekki á sér standa. Annað hvort eru menn afar ánægðir eða óánægðir. Við fyrstu sýn virðist Canon uppfæra allt það sem Mark II vélin hefur verið gagnrýnd fyrir. Fókuskerfið er það sama og í nýju EOS 1DX vélinni og húsið er sterkbyggðara og betur veðurþolið. Vélin er mikið sprækari og ræður við 6 ramma á sekúndu. Canon segir að að nýja vélin skili um tveggja ljósops bætingu við hátt ljósnæmni, ISO 3200 á þeirri nýju á að vera sambærilegt við ISO 800 á Mark II. Samt á Canon 1DX að vera enn betri samkv. Canon, þó munurinn sé varla mikill.

Þeir sem eru óánægðir eiga það flestir sameiginlegt að vilja meiri pixla fyrir peninginn. Ég seldi hluta af Canon dótinu mínu á sínum tíma til að kaupa Nikon D3s. Sú vél opnaði alveg nýja möguleika fyrir mér. Að fara úr 21 MP í 12.5 MP skipti mig engu máli. Ég hélt eftir einni Canon EOS 5D Mark II og skipti út EF linsum, einfaldaði kittið þar töluvert á sama tíma og ég jók við dótið í Nikon. Ég hef lengi talað um að gæði pixla skiptir meira máli en fjöldi þeirra. Hvernig skynjarar ráða við litadýpt og tónasvið skiptir mig meira máli en upplausn. Nú er nýja 5D Mark III er kominn með 14 bita hliðrænan/stafrænan breyti og Digig 5 örgjörvinn er líka með 14 bita dýpt. Þetta þýðir að nýja vélin á að geta skilað töluvert meiri dýpt í myndum. Það finnst mér ákaflega spennandi!

Litakarakter skiptir einnig máli og mér finnst það gleymast svolítið í umræðum um stafrænar myndavélar. Hún á það til að snúast mest um megapixla og hátt ISO. Tökum fyrstu fimmuna sem dæmi. Hún er enn að seljast á þokkalega háu verði fyrir vél sem kom á markað 2005. Ástæðan er ekki síst karakterinn sem hún hefur. Þeir sem hafa átt slíka vél og uppfærðu í 5D Mark II vita sjálfsagt hvað ég er að tala um.

Sama er upp á teningnum varðandi Nikon D3x. Vélin er komin til ára sinna, en selst enn á háu verði. Það er litakarakter og hvernig vélin skilar stóru tónasviði sem er sjarminn við hana. Hún er langt í frá það sprækasta þarna úti, en hún hefur ákveðinn karakter sem menn falla fyrir.

Nú er ég mest spenntur að sjá hvað af þessum nýju vélum frá Canon og Nikon sé mest að mínu skapi. Það verður gaman að fá að prófa þær og svo hugsanlega uppfæra eitthvað af búnaðnum fyrir sumarið!

 

Lakkrístoppar á laugardegi

Arndís bakar lakkrístoppa fyrir jólin. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Fjölskyldan er kominn í jólaskap. Frúin er búinn að gera snilldar piparmyntukonfekt og Arndís bakaði lakkrístoppa í gær. Í dag stendur til að krækja sér í jólatré hjá Skógræktinni á Jólamarkaðnum við Elliðavatn og baka svo eina sort í viðbót.

Langt síðan ég hef verið kominn í jólaskap svona snemma í desember. Veit ekki alveg hvað veldur. Kannski kann maður betur að meta þessar fjölskyldustundir með aldrinum?

Oft hrekk ég í bullandi ljósmyndagír þegar við erum að gera eitthvað svona hér heima við.  Mér finnst það ferlega gaman að búa til smá sögu með myndunum.

Hraðportrett með aðstoð PocketWizard

Geir Hilmar Haarde (born 8 April 1951) was Prime Minister of Iceland from 15 June 2006 to 1 February 2009 and Chairman of the Icelandic Independence Party from 2005 to 2009. In September 2010, Geir became the first Icelandic minister to be indicted for misconduct in office, and will stand trial before the Landsdómur, a special court for such cases. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Í ljósi umræðu síðasta pósts er það kannski kaldhæðni af mér að halda því fram að hægt sé að taka gott portrett á nokkrum mínútum? En það er það sem ætlast er til af mér í verkefnum fyrir Der Spiegel. Enn á ný senda þeir blaðamenn hingað til að fjalla um skrítnu eyjuna í norðri og hvernig okkur reiðir af eftir efnahagshrun.

Össur Skarphéðinsson (born 19 June 1953) Minister for Foreign Affairs in Iceland since February 2009. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Myndirnar hér að ofan af Geir Haarde og Össur Skarphéðinssyni eru teknar með PocketWizard MiniTT1 / FlexTT5 kerfinu. Það er algjör draumur í svona verkefni þar sem maður hefur engan tíma til að ljósmæla og hlaupa fram og tilbaka á flössin til að stilla styrk. Ég get flakkað að vild með stillingar á ISO, ljósop, lokarahraða og kerfið bregst alltaf við.

Myndin af Geir er skotin á Nikon D3s með Nikkor 24mm f/1.4G linsu, lýsingin eru tvö SB-900 flöss í silfraða regnhlíf. Myndin af Össur er skotin á Nikon D3s með Nikkor 85mm f/1.4G linsu (galopin) og lýsingin er eitt SB-900 flass á borði sem endurkastar ljósi frá vegg og svo er eitt SB-800 flass í regnhlíf sem örlítið uppfyllingarljós.

Hópkaup eða hópgubb?

Sindri Benedikt Hlynsson (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Umræðan um faglærða vs. ófaglærða ljósmyndara heldur áfram. Undanfarnar vikur hafa myndatökutilboð á hópkaup verið í brennidepli, ekki síst á umræðuvefnum ljosmyndakeppni.is. Sitt sýnist hverjum. Ég hef ekki haft tíma til að setja mig mikið inn í þessi mál, en varð vægast sagt undrandi þegar ég sá að ekki var bara um ófaglærða ljósmyndara að ræða.

Ef fólk vill bjóðast til að taka myndir fyrir lítið sem ekkert og selja slíkar tökur í tuga- eða hundraðavís, skiptir þá e-h máli að viðkomandi sé faglærður eður ei?

Það hlýtur hver heilvita maður að sjá að þessi tilboð geta aldrei gefið góða afurð af sér. Ef viðkomandi ljósmyndari vill halda e-h metnaði og ekki hætta mannorði sínu, er ljóst að tímakaupið er lágt og vinnan mikil. Mjög mikil.

Til að hafa eitthvað upp úr svona rugli er eina ráðið að gera myndatökurnar að einsleitri færibandavinnu þar sem ekkert svigrúm er t.d. fyrir það að vinna traust þeirra barna sem á að ljósmynda. Þeirri ábyrgð er þá sjálfsagt velt yfir á kúnnann?

Þegar fólk fer til fagljósmyndara er það ekki að kaupa prentaðar myndir eða jólakort. Það er ekki heldur að kaupa mínútur í studio. Það er að kaupa þekkingu og reynslu – það sem margir myndu kalla fagmennsku. Að ætla sér að afgreiða myndatöku á 20-30 mínutum finnst mér ekki vera fagmennska heldur argasta fúsk. Sama hvaða “skóla” viðkomandi hefur farið í.

Þýskir sjóræningjar á Íslandi

Members of the german Piraten Partei in front of the statue of Jón Sigurðsson,  leader of the 19th century Icelandic independence movement. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

í október fékk ég það verkefni að skrásetja heimsókn þriggja meðlima þýska sjóræningaflokksins – Piraten Partei –  ásamt blaðamanni Der Spiegel. Flokkur þessi hefur náð töluverðu fylgi í Berlín þar sem fengu 8.9% fylgi og 15 sæti á þingi. Þeir komu hingað m.a. til að hitta meðlimi Besta flokksins og kynna sér hvernig meðlimum flokksins hefur gengið að fóta sér á nýjum starfsvetvangi.

Members of the german Piraten Partei get a tour of Alþingi Parlament building in Reykjavik lead by Guðmundur Steingrímsson. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Flokkurinn minnir á Besta flokkinn að því leyti að meðlimir hans hafa enga reynslu af politík og koma til dyrana eins og þeir eru klæddir. Andstæðingar þeirra í stjórnmálum hafa átt erfitt með að taka á þeim, því þeir viðurkenna blákalt þegar þeir vita ekki svörin við spurningum. Líkt og Besti flokkurinn fengu þeir fyrst og fremst óánægjufylgi. Því virðist sem þreyta almennings á hefðbundinni stjórnsýslu og stjórnmálaflokkum sé hnattræn.

Þeir félagar gerðu mikið úr möguleikum Íslands í því að hýsa hér örugga netþjóna. Þeir vilja meina að við séum í einstakri stöðu til að skapa öruggari netþjónabú. Hér ætti t.d. WikiLeaks og sambærilegt viðkvæmt efni heima. Þeir hittu meðal annars Birgittu Jónsdóttur í tengslum við þetta.

Members of the german Piraten Partei   meeting with Birgitta Jónsdóttir at Café Hressó Reykjavík. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Þetta eru miklir tölvunerðir og stefnumál flokksins snúast ekki síst um óheftan aðgang að Netinu, bann við hvers konar ritskoðun á efni þess og að fjarskiptatækni verði aðgengileg almenningi á hagstæðari kjörum. Þeir vilja auka gagnsæi stjórnsýslunnar með því að innleiða opinn gagnagrunn sem sýnir hvernig málefni og hugmyndir fæðast, hverjir eru með eða á móti – ekki ósvipað og Reykjavíkurborg hefur innleitt með Betri Reykjavík.

Members of the German Piraten Partei by Lake Kleifarvatn on the Reykjanes Peninsula, Iceland. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Kærkomnir endurfundir

Saltvatn skolað af Nikon D3x

Ég stútaði myndavél í sumar. Nikon D3x vélin mín steyptist fram af kletti og ofan í sjó, ásamt Nikkor AF-S 14-24mm f/2.8G og Gitzo þrífót. Svona klaufar eins og ég eru tryggðir upp í rjáfur, en engu að síður þokkalegasta tjón þar sem sjálfsábyrgðin er 15%. Ég hafði strax samband við Beco sem fóru á fullt að útvega mér nýrri vél. Lagerstaða á D3x hefur verið lág um allan heim og því tók tíma að redda vél. Beco lánuðu mér D3x ítrekað í sumar endurgjaldslaust sem er frábær þjónusta. Ég var því frekar aumur að geta ekki gengið frá kaupum þegar vélin kom nokkrum vikum síðar. Tryggingarféð hafði að sjálfsögðu  horfið í reksturinn og ég kaupi ekki svona dýra hluti nema sjá fyrir endan á fjármögnun.

Við tóku vikur án D3x og því lengra sem leið, því líklegra fannst mér að Nikon myndu kynna nýja D800 eða D4. Það voru alls konar sögusagnir í gangi, en ekkert hefur enn bólað á D-SLR uppfærslum. Fyrir síðustu helgi gat ég bara ekki verið án D3x lengur og gekk frá kaupum á nýrri vél. Beco var reyndar búin að selja vélina sem upphaflega var pöntuð fyrir mig, en áttu aðra. Ef maður skoðar lagerstöðu víða um heim, sést að það er mjög lítið til af Nikon D3x og jafnvel líka D3s. Það má því teljast nokkuð magnað að hún skuli vera til á lager hér á Íslandi.

Allar pælingar mínar varðandi að kaup á röngum tíma hurfu um leið og ég byrjaði aftur að skjóta með vélinni á föstudaginn var. Það er bara e-h galdur við D3x. Hún hefur einstakan karakter. Tónasviðið (D-range) er frábært í landslagið og ég hef ekki enn fundið vél sem skilar húðtónum betur. Vissulega væri gaman að fá HD video og hraðari örgjörva svo hún réði við meira en 1.8 ramma á sek þegar skotið er í 14bit. En ég er afar sáttur að vera loks kominn x-inn aftur í töskuna.

Arndís og Arnar

Þann 13. ágúst myndaði ég brúðkaup Arndísar og Arnars. Ég var bókaður með óvenju stuttum fyrirvara og fann strax að þetta brúðkaup yrði ekki mjög hefðbundið. Þau Arndís og Arnar vildu t.d. ekki eyða nema í mesta lagi 5-10 mínútum í myndatöku eftir athöfn, því þau ætluðu að koma í veisluna á sama tíma og gestirnir. Stutt myndataka gerir óneitanlega kröfur á ljósmyndarann. Ég er að fíla það.

Ég stakk upp á því við þau að skjótast yfir í Alþingisgarðinn til að ná eldsnöggum myndum af þeim á meðan gestirnir hinkruðu á kirkjutröppum Dómkirkjunnar. Veðrið var hagstætt svo þetta gekk eins og í sögu. Eftir töku gengu þau í broddi fylkingar að Iðusölum þar sem ég myndaði fordrykk og upphaf veislu.

Skemmtilegt djobb fyrir skemmtilegt fólk.

 

Sigurrós og Davíð

Sigurrós og Davíð giftu sig 6. ágúst síðastliðinn í Háteigskirkju. Eftir athöfn og myndatöku var blásið til veislu í Súlnasal Hótel Sögu – eða Radisson Blu Saga Hotel, eins og það heitir víst í dag. Súlnasalur verður seint talinn draumur brúðkaupsljósmyndarans. Salurinn er frekar dimmur og það er rosalegur kontrast á milli svæða. Gyllt loftið gerir flassnotkun líka vonlausa.

Ég var búinn að scouta aðstæður og vissi að í þetta sinn fengi Nikon D3s svo sannarlega að vinna fyrir kaupinu. Öðlingarnir í Beco lánðuðu mér svo annað D3s body fyrir daginn svo ég gat skotið grimmt á ljósopi f/1.4. Með björtu Nikkor 35mm f/1.4G og 85mm f/1.4G linsurnar að vopni eru mér flestir vegir færir án þess að þurf að grípa nokkurn tíma í flass. Það er í svona verkefnum sem maður elskar tækniframfarir síðustu ára.

Þetta var frábær brúðkaupsveisla. Ég man varla eftir annarri eins stemningu alveg frá fyrstu mínutu. Yfirleitt fara svona veislur rólega af stað, en hér var greinilega fólk sem kunni að skemmta sér. Og þá er gaman að vera brúðkaupsljósmyndari. Ég held að myndirnar endurspegli það líka 😉

Fjallabak í sand og ösku

Það var ekki kræsilegt að Fjallabaki á mánudaginn var. Norðaustan 15 m/s þýðir sand- eða öskufok fyrir allan peninginn á þessum slóðum. Farþegarnir mínir voru ljósmyndari frá New York og konan hans. Þrátt fyrir netta ‘Desert Storm’ – stemningu voru þau í skýjunum með túrinn.

Ég arkaði meira að segja með þau inn Grænagil og upp að Brennisteinsöldu. Það var magnað að vera þarna í svona döpru skyggni. Ég hef farið ófáar ferðirnar inn í Laugar í alls konar birtu og veðri. Það virðist alltaf vera hægt að ná e-h með sér heim sem er brúklegt. Ég er alla vega að fíla þessa ramma ágætlega… hvað finnst þér?