Vantar fókus?

Fókus er mikilvægur í ljósmyndun, sérstaklega þegar ljósmyndað er á þann hátt að dýptarskerpa er ekki mikil. Sjálfvirki fókusinn í stafrænum myndavélum verður sífellt fullkomnari og hraðvirkari. Margir ljósmyndarar (ég þar með talinn) uppfæra gjarnan búnað sinn þegar nýjar og hraðvirkari vélar koma á markað. En nýjar vélar tryggja ekki betri myndir, því miður.

Ég man þegar ég var nýlega búinn að fá Nikon D3s og fór í verkefni þar sem ég ljósmyndaði dansara heilan dag. Ég skaut  mjög mikið, því vélin bauð jú upp á mikinn hraða og fókuskerfið var alveg magnað. Þetta var tveggja daga verkefni og eftir fyrri daginn var kom ég í hús með um 1500 ramma. Ég byrjaði að fara yfir efnið og sá fljótt að þrátt fyrir að vera með besta verkfærið á markaðnum í svona tökur, var ég ekki með hátt hlutfall af  góðum römmum. Þetta var alveg í lagi skerpu- og lýsingarlega, en þegar maður myndar dansara er tímasetningin mikilvægust. Ég var með mikið að af myndum sem voru annað hvort teknar aðeins of snemma eða of seint – þrátt fyrir að vera að skjóta á köflum 8-9 ramma á sekúndu!

Ég klóraði mér svolítið í hausnum yfir þessu og skoðaði myndir sem ég hafði tekið fyrir nokkrum árum við áþekkar aðstæður. Þá hafði ég unnið með vél sem var engan vegin eins hraðvirk, hvorki fókuskerfið né geta hennar við að háma í sig megapixla endalaust. Mappan sú geymdi hins vegar mun hærra hlutfall af góðum myndum. Ég kveikti strax á því hvað ég var að gera vitlaust.

Með nýju ofurvélina í höndunum fór ég að trúa því að hún skipti meira máli en hausinn á mér. Seinni tökudaginn tók ég mun færri myndir. Ég kom samt með mikið fleiri góða ramma í hús. Ástæðan var sú að ég fór að nota minn eigin fókus. Ljósmyndari sem er orðinn meira upptekinn af búnaðnum en myndefninu tekur seint góðar myndir.

Er meira, meira?

Nikon D800

Nikon kynnir til leiks í dag Nikon D800 og Nikon D800E. E-týpan er án AA-filters en hlutverk hans er í raun að mýkja myndina á skynjaranum til að koma í veg fyrir galla sem kallast móri (e. moire). Móri skapast þegar eitthvað í myndefninu hefur mynstur eða línur sem falla illa að mynstri RGB litsía sem eru settar fyrir ofan pixlana á skynjaranum (Bayern-filter).

Skynjari í stafrænni myndavél er ljósnæmur. Hann gefur upplýsingar um ljósmagnið sem fellur á hann. Hann veit hins vegar ekkert um lit ljóssins. Rétt eins og í filmu, þar sem það eru þrjú emulsjón lög sem lesa rautt, grænt og blátt ljós, þarf skynjari í stafrænni myndavél að geta lesið litina alla og skilað niðurstöðu fyrir þá alla í sérhverjum punkti. Til eru þrjár leiðir til að ná því fram:

  1. Taka þrjár myndir með rauðum, grænum og bláum litfilter og setja svo myndirnar saman (multishot aðferð).
  2. Setja litfiltersmosaík yfir skynjarann.
  3. Skipta ljósinu með prisma í þrennt og setja þrjá skynjara með litfilter fyrir rauðan, grænan og bláan og svo eru þessar þrjár myndir sameinaðar (beamsplitter aðferð). Sú filtermosaík sem mest er notuð í stafrænum myndavélum heitir Bayern-matrix. Samsetningin er svona

bayern2.gif
Eins og sjá má er tvisvar sinnum fleiri grænir fletir en rauðir og bláir. Ástæðan er sú að augun okkar eru næmari fyrir grænu ljósi en rauðu og bláu.

Véllin þarf því að umbreyta gögnunum frá skynjaranum í litmynd sem inniheldur gildi fyrir RGB í sérhverjum pixli myndarinnar. Á ensku er talað um þetta ferli sem demosaicing. Þegar við skjótum í JPEG gerir vélin þetta en ef við skjótum í RAW gerir myndvinnsluforritið það.

Ef eitthvað í mynd fellur illa að þessu mynstri RGB filtera koma fram gallar (móri). Við að mýkja aðeins myndina (í raun taka úr fókus lítllega) losnar maður oftast við þennan galla.

Þegar pixlar eru orðnir svo þéttir og smáir, eins og raun ber vitni í nýju Nikon D800, þá mun AA-filter hafa sjáanlega meiri áhrif en hjá vélum sem hafa lægri upplausn. Þess vegna býður Nikon upp á tvær útfærslur af vélinni. Þeir sem liggja yfir skerpu og smáatriðum geta keypt D800E en hinir D800 (eru það einhverjir?). D800E mun þó skapa meiri eftirvinnslu við ákveðnar aðstæður.

Nikon hefur póstað sýnishornamyndum í fullri upplausn frá D800 og D800E – en að sjálfsögðu hafa þeir ekki myndir af sama viðfangsefni teknar á báðar vélarnar. Þá væri of auðvelt fyrir fólk að bera saman! Annars lítur D800/E mjög vel út á pappírunum og þessar sýnishornamyndir lofa góðu. Það er því nokkuð ljóst að vélin á eftir að seljast í bílförmum, ekki síst í ljósi þess að verðið er frekar gott fyrir svona stóra uppfærslu.

Ég bíð spenntur eftir því að sjá hvernig hún kemur út í samanburði við hina yndislegu Nikon D3x. Sú vél ræður við breiðasta tónasvið allra D-SLR véla og hefur karakter sem mér þykir afar fallegur. Persónulega vegur þetta þyngra í mínum huga en upplausn, þó hún sé vissulega stórt atriði.

Hér er slóð á ítarlega umfjöllun robgalbraith um Nikon D800

 

 

Er minna meira?

Canon S100

Það er mikið um að vera á myndavélamarkaði um þessar mundir. Framleiðendur keppast við að koma með nýjar vélar og útspil Nikon með sitt nýja mirrorless Nikon 1 kerfi virðist fara nokkuð vel af stað, ef marka má sölutölur vestanhafs.

Sjálfur er ég ekkert rosalega spenntur yfir þessum mirrorless vélum með útskiptanlegum linsum. Undantekningin er helst Fuji Pro X1 – þó ekki nema bara fyrir það hversu falleg hún er. Hvort ég kæmi til með nota svona vél mikið er annað mál. Ég hef nefnilega aldrei náð almennilegum tökum á því að nota rangefinder í annað en statísk viðfangsefni. Fínt í landslag og hluti þar sem maður hefur nægan tíma til að ramma viðfangsefnið inn og fókusera. Í portrett og önnur dýnamískari viðfangsefni er ég glataður með rangefinder.

Vetrarstemning við Bugðu. Canon S100 @ISO 80/16:9 Crop Mode RAW+JPEG
Canon G1X

Svo finnst mér það bara vera e-h þannig að annað hvort nota ég með vél með skiptanlegum linsum (D-SLR) eða bara litla handhæga vél með góðu zoom-sviði. Því er ég töluvert spenntur fyrir Canon G1X. Hún er með mjög stórum skynjara miðað við aðrar vélar af þessari stærðargráðu og sýnishornamyndirnar sem ég hef séð úr henni lofa mjög góðu. Útlitið er reyndar svolítið kanntað og klossað, hún virkar eiginlega eins og eldra módel af G-línunni, en það er svo sem aukaatriði.

Í gegnum tíðina hef ég átt svolítið af stafrænum vasamyndavélum. Flestar hafa átt það sameiginlegt að rísa ekki undir væntingu mínum og verið afar lítið notaðar.

Það breyttist þó með komu Canon S90. Hún var sú fyrsta sem bjó yfir nógu miklum myndgæðum að ég nennti að taka hana með mér. Nú er ég svo kominn með Canon S100 sem er snyrtileg uppfærsla. Á milli kom reyndar S95, sem var uppfærsla sem mér fannst ekki taka því að fara út í.

Canon S100 hefur nýjan CMOS skynjara, en Canon S90 og S95 hefur CCD skynjara. Hann skilar aðeins meiri upplausn (12 vs 10 MP) og töluvert betri gæðum á hærri ISO stillingum, en það munar um það bil einu ljósopi. Canon S100 ræður ennfremur við Full HD video / 1080p @ 24 fps. Það er svo hægt að fókusera enn nær í macro tökum eða niður í 3 cm úr 5 cm.

Piparkökuhús með sætu þaki. Canon S100 @ISO 400/RAW

Linsan er nefnilega ný, en hún dekkar nú stærra brennivíddarsvið sem samsvarar 24-120mm miðað við 35mm format.  Á Canon S90/95 er það 28-105mm. Einn ókostur við nýju linsuna er sá að stærsta ljósop á lengri endann er f/5.9 vs. f/4.9 áður. Einnig er ljósop f/2.0 eingöngu mögulegt á víðustu 24mm stillingu. Á 35mm brennivídd er stærsta ljósop f/2.8 á meðan Canon S90/95 býður ennþá f/2.0. Kannski ekki margir að velta sér upp úr þessu, en ég var hrifinn af því að geta notað f/2.0 á 35mm brennivídd til þess að einangra viðfangsefnið frá bakgrunni betur.

Nýtt í S100 er innbyggð GPS hnit og ND filter auk þess sem hægt er að skjóta ofurhæg myndskeið á 240 fps. En stærðin á slíku myndskeiði er reyndar takmarkað við 320×240 pixla. Full HD videoið er býnsa gott, sérstaklega ef maður er að mynda við þokkaleg birtuskilyrði og hristivörnin hjálpar til við að halda myndinni sæmilega stöðugri við töku. Dæmi um slíkt má sjá hér að ofan.

Hér er svo að finna fleiri myndir úr Canon S100 – lykilorðið er S100. Ég ákvað að hafa aðgengi að fullri upplausn svo þið getið halað myndunum niður til að skoða útkomuna betur. Ég hef ekki skerpt myndirnar í eftirvinnslu og leiðrétti ekki linsuna eins og auðvelt er að gera. Allar myndirnar eru skotnar í RAW og unnar í Lightroom 4 beta.

Vinsamlegast virðið höfundarréttinn og notið myndirnar aðeins í þessum eina tilgangi.

 

Hópkaup eða hópgubb?

Sindri Benedikt Hlynsson (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Umræðan um faglærða vs. ófaglærða ljósmyndara heldur áfram. Undanfarnar vikur hafa myndatökutilboð á hópkaup verið í brennidepli, ekki síst á umræðuvefnum ljosmyndakeppni.is. Sitt sýnist hverjum. Ég hef ekki haft tíma til að setja mig mikið inn í þessi mál, en varð vægast sagt undrandi þegar ég sá að ekki var bara um ófaglærða ljósmyndara að ræða.

Ef fólk vill bjóðast til að taka myndir fyrir lítið sem ekkert og selja slíkar tökur í tuga- eða hundraðavís, skiptir þá e-h máli að viðkomandi sé faglærður eður ei?

Það hlýtur hver heilvita maður að sjá að þessi tilboð geta aldrei gefið góða afurð af sér. Ef viðkomandi ljósmyndari vill halda e-h metnaði og ekki hætta mannorði sínu, er ljóst að tímakaupið er lágt og vinnan mikil. Mjög mikil.

Til að hafa eitthvað upp úr svona rugli er eina ráðið að gera myndatökurnar að einsleitri færibandavinnu þar sem ekkert svigrúm er t.d. fyrir það að vinna traust þeirra barna sem á að ljósmynda. Þeirri ábyrgð er þá sjálfsagt velt yfir á kúnnann?

Þegar fólk fer til fagljósmyndara er það ekki að kaupa prentaðar myndir eða jólakort. Það er ekki heldur að kaupa mínútur í studio. Það er að kaupa þekkingu og reynslu – það sem margir myndu kalla fagmennsku. Að ætla sér að afgreiða myndatöku á 20-30 mínutum finnst mér ekki vera fagmennska heldur argasta fúsk. Sama hvaða “skóla” viðkomandi hefur farið í.

Kærkomnir endurfundir

Saltvatn skolað af Nikon D3x

Ég stútaði myndavél í sumar. Nikon D3x vélin mín steyptist fram af kletti og ofan í sjó, ásamt Nikkor AF-S 14-24mm f/2.8G og Gitzo þrífót. Svona klaufar eins og ég eru tryggðir upp í rjáfur, en engu að síður þokkalegasta tjón þar sem sjálfsábyrgðin er 15%. Ég hafði strax samband við Beco sem fóru á fullt að útvega mér nýrri vél. Lagerstaða á D3x hefur verið lág um allan heim og því tók tíma að redda vél. Beco lánuðu mér D3x ítrekað í sumar endurgjaldslaust sem er frábær þjónusta. Ég var því frekar aumur að geta ekki gengið frá kaupum þegar vélin kom nokkrum vikum síðar. Tryggingarféð hafði að sjálfsögðu  horfið í reksturinn og ég kaupi ekki svona dýra hluti nema sjá fyrir endan á fjármögnun.

Við tóku vikur án D3x og því lengra sem leið, því líklegra fannst mér að Nikon myndu kynna nýja D800 eða D4. Það voru alls konar sögusagnir í gangi, en ekkert hefur enn bólað á D-SLR uppfærslum. Fyrir síðustu helgi gat ég bara ekki verið án D3x lengur og gekk frá kaupum á nýrri vél. Beco var reyndar búin að selja vélina sem upphaflega var pöntuð fyrir mig, en áttu aðra. Ef maður skoðar lagerstöðu víða um heim, sést að það er mjög lítið til af Nikon D3x og jafnvel líka D3s. Það má því teljast nokkuð magnað að hún skuli vera til á lager hér á Íslandi.

Allar pælingar mínar varðandi að kaup á röngum tíma hurfu um leið og ég byrjaði aftur að skjóta með vélinni á föstudaginn var. Það er bara e-h galdur við D3x. Hún hefur einstakan karakter. Tónasviðið (D-range) er frábært í landslagið og ég hef ekki enn fundið vél sem skilar húðtónum betur. Vissulega væri gaman að fá HD video og hraðari örgjörva svo hún réði við meira en 1.8 ramma á sek þegar skotið er í 14bit. En ég er afar sáttur að vera loks kominn x-inn aftur í töskuna.

Sigurrós og Davíð

Sigurrós og Davíð giftu sig 6. ágúst síðastliðinn í Háteigskirkju. Eftir athöfn og myndatöku var blásið til veislu í Súlnasal Hótel Sögu – eða Radisson Blu Saga Hotel, eins og það heitir víst í dag. Súlnasalur verður seint talinn draumur brúðkaupsljósmyndarans. Salurinn er frekar dimmur og það er rosalegur kontrast á milli svæða. Gyllt loftið gerir flassnotkun líka vonlausa.

Ég var búinn að scouta aðstæður og vissi að í þetta sinn fengi Nikon D3s svo sannarlega að vinna fyrir kaupinu. Öðlingarnir í Beco lánðuðu mér svo annað D3s body fyrir daginn svo ég gat skotið grimmt á ljósopi f/1.4. Með björtu Nikkor 35mm f/1.4G og 85mm f/1.4G linsurnar að vopni eru mér flestir vegir færir án þess að þurf að grípa nokkurn tíma í flass. Það er í svona verkefnum sem maður elskar tækniframfarir síðustu ára.

Þetta var frábær brúðkaupsveisla. Ég man varla eftir annarri eins stemningu alveg frá fyrstu mínutu. Yfirleitt fara svona veislur rólega af stað, en hér var greinilega fólk sem kunni að skemmta sér. Og þá er gaman að vera brúðkaupsljósmyndari. Ég held að myndirnar endurspegli það líka 😉

Bruðlið í Skjálfandafljóti

The Aldeyjarfoss waterfall is situated in the north of Iceland at the northern part of the Sprengisandur Highland Road which means it is to be found within the Highlands of Iceland. One of the most interesting features of the waterfall is the contrast between the black basalt columns and the white waters of the fall. The river Skjálfandafljót drops here from a height of 20 m. The basalt belongs to a lava field called Frambruni or Suðurárhraun, hraun being the Icelandic designation for lava. Aldeyjarfoss er foss í Skjálfandafljóti í Bárðardal. Fossinn er umkringdur stuðlabergi sem er hluti af hraunþekjunni Frambruna eða Suðurárhrauni. Hvíti litur jökulfljótsins þykir mynda skemmtilega andstæðu við dökkt bergið. Fallið er um 20 metrar.

Alþingismaðurinn Tryggvi Þór Herbertsson lét þessi orð falla í ræðu sinni á eldhúsdagsumræðum: “…Erlendir fjárfestar eru fældir frá með tali um þjóðnýtingu. Á meðan renna vötnin til sjávar – óbeisluð, engum til gagns…”

magnað…

Tryggvi hefur rétt fyrir sér að mikil verðmæti felast í óbeisluðum stórfljótum Íslands.
Það er meira að segja tvöfaldur regnbogi við Aldeyjarfoss.

En ég er ekki sammála því að óbeisluð séu þau engum til gagns. Það liggur fyrir að ferðamannastraumur hingað til lands hefur aldrei verið meiri. Stærsti hluti ferðamanna tilgreinir náttúru landsins sem helsta aðdráttaraflið þegar ákvörðun var tekin að koma til Íslands. Ferðaþjónustan er nú mikilvægari póstur í landsframleiðslu en nokkru sinni fyrr. Þar erum við að tala um raunveruleg margföldunaráhrif og afleidd störf. Ekki tímabundin og einhæf störf sem tengjast ofur-innspýtingum líkt og við stóriðjuframkvæmdir.

Hversu stóran skell þarf að taka til að átta sig á því að stefnan var röng?
Hvenær hættum við að reikna út lífsgæði í Excel™?

 

Bévítans eldgos

Young girl (3) looking a bit pissed. (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Ég er í eldgosafýlu. Grímsvatnafýla reynist þó ekki eins slæm og síðasta eldgosafýla. Ég er nefnilega búinn að prófa að fara inn í öskufall í síðasta gosi. Það er að vissu leyti mögnuð upplifun, en í þetta sinn virðist það aðallega vera viðbjóður.

Mig langar hins vegar mikið að komast í tæri við eldstöðina, líkt og Jón Ólafur Magnússon og félagar sem voru á leið heim úr jeppaferð á jökulinn þegar byrjaði að gjósa. Stórkostlegar myndir þarna, en það virðist samt snúið að koma stærðinni og kraftinum til skila. Vídeóið virkar betur fyrir kraftinn, en mér finnst samt vel útfærð ljósmynd geta sagt meira en vídeó.

Við eigum orðið mjög mikið af hæfileikaríku fólki með myndavélar. Það er vel. Ljósmyndun hefur líklega aldrei verið jafn spennandi og í dag. Tæknin opnar sífellt nýja möguleika – og þó að vissulega komi tímabil þar sem maður sér sömu myndinar endurteknar út í eitt, þá er svo ótrúlega margt að gerjast núna í þessu fagi. Það er m.a. að renna saman við kvikmyndatökur og hljóðvinnslu. Sköpunin hefur aldrei verið jafn auðveld, svo maður tali ekki um dreifinguna.

En það er ekki þar með sagt að dreifa skuli öllu efni sem framleitt er. Þar stendur hnífurinn dulítið í kúnni. Munurinn á góðum ljósmyndara og frábærum eru myndirnar sem við þurfum ekki að sjá.