Toppað með 66 Norður

66 North trip. Hiking Hvannadalshnúkur, Icelands highest peak at 2110m. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Eins og ég kom inn á í þar síðustu færslu var ég í smá verkefni fyrir 66 Norður um helgina. Það er skemmst frá því að segja að þetta var algjör draumaferð upp á Hnúkinn, veðrið var eins og best er á kosið og færið upp á jökul hart og gott. Við lögðum af stað kl 4 um morguninn, brottför var flýtt um klukkutíma sökum þess að búist var við töluverðri umferð þennan daginn. Það reyndist hin besta ákvörðun þar sem allur hópurinn náði flottu útsýni á toppnum, en fljólega eftir að síðasti hópurinn frá 66 fór niður af toppnum byrjaði að skýja yfir efsta hlutann.

66 North trip. Hiking Hvannadalshnúkur, Icelands highest peak at 2110m. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Gangan á Hnúkinn er ekki mjög krefjandi tæknilega, en reynir því meira á þol þátttakenda. Ég var ekki búinn að taka þátt í Toppaðu verkefninu og einu fjallgöngurnar sem ég átti í reynslubankanum frá í vetur voru farnar helgina áður á Esjuna og Hafnarfjall. Ferðin gekk hins vegar eins og í sögu og var í raun auðveldari en ég átti von á. Ég neita því samt ekki að maður var vel lúinn í hnjám síðstu 700m lækkunina eftir að við vorum komin úr fönninni, sem var orðin sólbráðin og mjúk á leið niður. Erfiðari yfirferðar en á leið upp, því maður sökk niður, en á sama tíma hlífði hún hnjánum mikið.

Hér eru fleiri myndir frá þessari ferð, fyrst frá stuttri jöklagöngu á Sólheimajökul, svo gangan á Hnúkinn og að lokum bátsferð á Zodiac með björgunarsveitinni í Þorlákshöfn.

Fyrir græjuáhugafólk þá var ég með Canon EOS 5D Mark II og EF 24-105mm f/4L IS linsu. Fimman er létt og linsan dekkar mjög vítt svið í aðstæðum þar sem enginn tími er til að skipta um linsur. Hún er hins vegar misgóð skerpulega eftir ljósopi, t.d. furðu mikill munur á f/8 vs f/11 þar sem hún er best.

Danssýning

From the Ballet students show 15th of March 2011. Dancers from The Icelandic Classic Dance School. Frá nemendasýningu Klassíska Listdansskólans í Borgarleikhúsinu 15. mars 2011.

Klassíski listdansskólin var með sína árlegu vorsýningu í vikunni sem leið  í Borgarleikshúsinu. Þetta er í fjórða sinn sem ég ljósmynda sýninguna, en dóttir mín Arndís lagði stund á ballet í nokkur ár í skólanum. Fyrstu sýniningarnar ljósmyndaði ég því mest í kringum hana, en undanfarin tvö ár hef ég verið beðinn um að skrásetja sýninguna í heild sinni fyrir skólann.

From the Ballet students show 15th of March 2011. Dancers from The Icelandic Classic Dance School. Frá nemendasýningu Klassíska Listdansskólans í Borgarleikhúsinu 15. mars 2011.

Það er nokkuð krefjandi verkefni að ljósmynda svona sýningu. Fjöldi dansara og ör skipti á milli atriða og lýsingar spilar þar inn – og ekki gengur að smella algjörlega án afláts, þar sem ég sit meðal gesta í salnum og slík hríðskotaáras myndi trufla mikið. Best væri að getað ljósmyndað á meðan generalprufu stendur, upp á að geta breytt sjónarhorni og fengið fleiri en eitt tækifæri til að frysta rétta augnablikið. En þá eru dansararnir ekki komnir í búninga, né búið að mála andlit og greiða hárið.

From the Ballet students show 15th of March 2011. Dancers from The Icelandic Classic Dance School. Frá nemendasýningu Klassíska Listdansskólans í Borgarleikhúsinu 15. mars 2011.

Ég mæti þó vel tímanlega og fylgist með síðustu æfingunum fyrir sjálfa sýninga og smitast af orkunni sem flæðir um. Það er magnað að fylgjast með metnaði allra sem koma að svona sýningu. Þarna eru dansarar á öllum aldri (rúmlega 99% stúlkur auðvitað), allir með sama markmið – að gera sitt besta og vinna saman. Maður sér eftirvæntinguna í andlitum yngstu stelpnanna sem eru að fara á stórt svið í fyrsta skipti.

From the Ballet students show 15th of March 2011. Dancers from The Icelandic Classic Dance School prepare for the show. Frá nemendasýningu Klassíska Listdansskólans í Borgarleikhúsinu 15. mars 2011, nemendur undirbúa sig fyrir sýninguna.

Það er ekki laust við að maður greini blöndu af eftivæntingu og ótta í andlitum sumra foreldra. Það getur verið erfitt að sleppa hendinni af 3-4 ára barni baksviðsí stóru leikhúsi og sjá það ekki aftur fyrr en eftir drjúgan tíma að sýningu lokinni. En í öruggum höndum kennara og aðstoðarfólks gengur allt eins og vel smurð vél og eftir sýninguna sér maður stolltið skína úr hverju andliti.

From the Ballet students show 15th of March 2011. Dancers from The Icelandic Classic Dance School. Frá nemendasýningu Klassíska Listdansskólans í Borgarleikhúsinu 15. mars 2011.

 

Gnarrenburg

Enn leita þeir hjá Der Spiegel til mín með verkefni.  Að þessu sinni var verið að fjalla um borgarstjórann okkar, Jón Gnarr. Blaðamaðurinn var greinilega bjartsýnn maður og taldi víst að við fengjum tíma til að draga Jón frá Ráðhúsinu upp í Perluna til að fá portrett með Reykjavík í baksýn. Fimm mínútna myndataka rétt utan við Ráðhúsið, eftir um klukkutíma bið er nær lagi.

Jón Gnarr, Mayor of Reykjaví­k City. Also an Actor and Comedian. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Það er mjög gaman að vinna með fagmanni sem vinnur alvöru rannsóknarblaðamennsku. Hann talaði við mikið af fólki, bæði vini Jóns og andstæðinga til að fá glögga mynd af manninum og borginni hans. Reykjavík er óneitanlega orðin svolítil Gnarrenburg. Man e-h eftir þættinum? Hann varð reyndar ekki langlífur, en það var í fyrsta skipti sem ég myndaði Jón á sínum tíma árið 2002. Ef e-h hefði sagt mér að átta árum seinna væri hann orðinn Borgarstjóri Reykjavíkur hefði ég líklega sagt: “Yeah right!” Á þessum tíma tengdi maður þá félaga Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson eingöngu við Tvíhöfða og Fóstbræður.

Sigurjón Kjartansson, Musician, Actor and Comedian. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Mér líkar vel að ljósmynda fyrir Der Spiegel. Þeir vilja eingöngu “straight-forward” portrett. Enga stæla eða stíliseringu, enda er ekki gert ráð fyrir löngum tím í sjálfar tökurnar. Spiegel notar almennt ekki stórar myndir, þeirra “sell” er textinn, ólíkt Stern sem er mikið myndablað. Ásamt því að mynda borgarstjórann tók ég myndir af Sigurjóni Kjartans og Ragnari Bragasyni.

Ragnar Bragason, director. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

 

Að skjóta ísbjörn

Ég póstaði tvíræðum status í fyrradag á Facebook og sagðist ætla fara að skjóta ísbjörn. Einhverjir föttuðu ekki tvíræðnina og systir mín hringdi í mig áðan og spurði hvort ég væri á Grænlandi, því hún hafði frétt af meintum ísbjarnarveiðum mínum!

Bjargey Ólafsdóttir listamaður bað mig um að taka myndir af verki sínu á Langjökli, en þar var í dag málaður þessi 90x50m rauði ísbjörn. Verkið er hluti af 350 Earth project þar sem listamenn um allan heim gera risastór umhverfislistaverk. Ég vill meina að verkið hennar Bjargeyju sé með þeim flottari!

Það var Jón Spaði hjá Norðuflugi sem flaug með okkur Besta tökumann, en hann skaut líka þetta video á RED.

Á mánudag verður fjallað um verkið og Bjargey í Kastljósi.

Frekar skemmtilegur dagur í vinnunni í dag myndi ég segja.

Hættur að mynda brúðkaup?

Aníta og Hávarður. ©2010 Christopher Lund.

Ég var spurður að því um daginn hvort ég væri hættur að mynda brúðkaup. Kannski ekki svo skrítin spurning þar sem ég hef varla póstað neinum brúðkaupmyndum í langan tíma. Auk þess eyddi ég stærstum hluta sumarins að flakka um landið. Ég náði þó að skjóta fimm skemmtileg brúðkaup í sumar og svo eru nokkur á döfinni í október.

Myndin hér að ofan er úr brúðkaupi Anítu og Hávarðs sem ég myndaði í lok ágúst. Skemmtilegt brúðkaup í Grindavík, myndataka við Selskóg og Bláa lónið. Flottir staðir til að ljósmynda og meira að segja ágætt skjól í því hávaðaroki sem var þennan dag. Ég ætla ekki að sýna fleiri myndir frá því vegna þess að bókin þeirra er einmitt á leiðinni að utan. Skemmtilegra fyrir þau að skoða myndirnar sínar fyrst í bókinni.

Bækurnar hafa breytt miklu fyrir mig varðandi brúðkaupsljósmyndun. Í fyrsta lagi eru viðskiptavinirnir mjög hrifnir af því að fá vandaða ljósmyndabók sem segir heildstæða sögu frá deginum stóra. Í öðru lagi einfalda þær lífið fyrir mér, þar sem ég þarf ekki að eyða tíma í að prenta allar myndirnar sjálfur og setja í albúm. Áður fyrr fór a.m.k. einn vinnudagur í það, jafnvel meira ef takan var stór. Í þriðja lagi bjóða bækurnar upp á meiri fjölbreytni í framsetningu og myndskurði. Svo fer maður líka að hugsa út frá bókinni við tökurnar og það gerir þær enn markvissari. Ekki veitir af – eftir dæmigert brúðkaup þar sem ég mynda athöfn, myndatöku og veislu er ekki óalgengt að koma í hús með í kringum 1000-1500 myndir. Það sker ég svo niður í rúmlega 200 myndir. Ég er tvo heila daga að vinna úr slíkri töku og klára umbrot á bókinni. Svo það má segja að myndatakan sjálf sé ekki nema 1/3 af ferlinu.

Hér eru nokkrar valdar myndir frá sumrinu. Fyrst eru það Jón og Dóra, svo Unnur og Ellert, því næst Karólína og Stefan og að lokum Sandra og Sveinung. Mæli með því að smella á full-screen til að sjá myndirnar í almennilegri stærð. Fleiri myndir frá brúðkaupi Anítu og Hávarðs koma seinna.

Litríkt brúðkaup

Mig langar að sýna ykkur fleiri myndir frá brúðkaupi Namitu og Gumma í San Fransisco. Ég sagði ykkur fyrst frá þessu verkefni hér. Indversk brúðkaup taka nokkuð lengri tíma en þau vestrænu og því eru þessar myndir teknar á þremur dögum. Þau eru líka afar litrík eins og sjá má, fáar s/h myndir sem koma út úr svona töku! Ég mæli með full-screen valmöguleikanum í gallery-inu.

Cindy og Russ

Russ og Cindy kyssast við Kleifarvatn. ©2010 Christopher Lund.

Þau Cindy og Russ giftu sig um daginn heima á Flordia og ákváðu svo að fara í brúðkaupsferð til Íslands. Þegar þau höfðu samband var ég meira en til í að taka að mér verkefnið. Svona brúðkaupstökur eru mikil tilbreyting miðað við þær íslensku. Hér er hefðin þannig að flestir velja sumarbrúðkaup og vilja myndatöku strax á eftir athöfn áður en haldið er í veisluna. Tíminn er því frekar naumur og ekki miklir möguleikar á því að fara eitthvað út fyrir bæinn.

Þegar um erlenda kúnna er að ræða tek ég allan daginn frá. Flestir reikna með því að takan muni vara í 1-2 klst, en mér finnst það skylda mín að nota tækifærin þegar þau gefast til að gera miklu meira úr tökunni – og um leið meira fyrir viðskiptavininn. Þau eru jú hingað komin til að upplifa Ísland og brúðarmyndirnar eiga að endurspegla það.

Cindy og Russ við Ögmundarhraun. ©2010 Christopher Lund.

Það er vissulega nokkur áhætta fólgin í því að bóka brúðkaupsljósmyndun úti við í byrjun mars. Ég hef hins vegar verið fáranlega heppinn með veður við þessar vetrartökur mínar af brúðhjónum. Og sem betur fer var ekki breyting á því núna. Þó að lukkan sé góður bandamaður, þá er réttur aðstoðarmaður gulls í gildi. Þar kemur Árni sterkur inn og við erum farnir að vinna fumlaust saman. Það var vel hvasst þennan dag og Árni þurfti því stundum að taka vel á við að hemja ljósið í hviðunum!

Russ og Cindy við Bláa lónið. ©2010 Christopher Lund.

Fyrir tækjanörrana þá er myndirnar allar skotnar á Nikon D3x og Nikon D3s. Ég notaði aðeins tvær linsur; Nikkor AF-S 24-70mm f/2.8G og Nikkor AF-S 70-200mm f/2.8G VR II. Ljósabúnaður er Profoto Acute B600 með annað hvort Softlight Reflector eða Standard Reflector.

Íslenskir listamenn

Einar Már Guðmundsson, rithöfundur. ©2010 Christopher Lund.

Ég fékk smá verkefni fyrir Der Spiegel um mánaðarmótin. Áhugi Þjóðverja á Íslendingum hefur ekki minnkað í takt við gengi krónu. Hér á landi eru nefnilega til áhugaverðari hlutir (aðrir en peningar). Á Íslandi er öflugt menningarlíf. Og nú velta menn því fyrir sér hvernig því vegnar, á þessum nýju tímum.

Jón Páll Eyjólfsson, leikari og leikstjóri. ©2010 Christopher Lund.

Mér finnst gaman þegar Der Spiegel hefur samband. Verkefnin fyrir þá eru fjölbreytt, en eiga það þó sameiginlegt að þeir vilja fá “alvöru” myndir. Þá á ég við portrett sem eru ekki stílfærð eða sviðsett. Það þarf að vera tenging við manneskjuna sem er raunveruleg.

Barði Jóhannsson, tónlistarmaður. ©2010 Christopher Lund.

Þetta eru allt íslenskir listamenn sem ég lít upp til. Ég held að myndirnar gefi það líka til kynna.

Fljúgandi feðgar

Sá gamli mundar vélina í cirka 1500 fetum yfir Reykjavík. ©2009 Christopher Lund.
Sá gamli mundar vélina í cirka 1500 fetum yfir Reykjavík. ©2009 Christopher Lund.

Við pabbi fórum í smá ljósmyndaflug í gær. Það sem var sérstakt var að við fórum í fyrsta skipti í Aerospatiale Dauphin AS-365 N2 – öðru nafni TF-EIR. Verkefnið var fyrir Siglingamálastofnun að ljósmynda hafnir Reykjavíkur. Það var gullfallegt veður í gær og smá norðanátt sem kom lítið að sök. Flugið var silkimjúkt á þessari frábæru græju enda flugmenn á meðal þeirra allra bestu.

Ekki ónýtur sunnudagur það.

Horft yfir miðbæinn til austurs. ©2009 Christopher Lund.
Horft yfir miðbæinn til austurs. ©2009 Christopher Lund.

Sigrún og Elvar

Brúðkaup Sigrúnar og Elvars í Reykholtskirkju. ©2009 Christopher Lund.

Þann 10. október síðastliðinn gengu vinir okkar, Sigrún og Elvar, í hjónaband. Eins og vaninn er í vinahópnum sá ég um ljósmyndun. Ég er stundum spurður að því hvort mér finnist það þreytandi að vera alltaf beðinn um að taka myndirnar. Vissulega velti ég því stundum fyrir mér hvernig það sé að sitja bara í kirkjunni og fylgjast með – í stað þess að glíma við að fanga réttu augnablikin á kortið. En satt best að segja yrði ég geðveikur á því að horfa á e-h annan gera það!

Brúðhjónin í hrísgrjónaflóði. ©2009 Christopher Lund.
Brúðhjónin í hrísgrjónaflóði. ©2009 Christopher Lund.

En ég lít heldur ekki á þetta sem neina kvöð. Það er í senn heiður og áskorun að fá svona verkefni. Ég verð að viðurkenna að fiðrildin í maganum eru nokkuð stærri þegar ég ljósmynda brúðkaup vina eða ættingja. Maður skildi halda að það væri minna stress, en í mínu tilfelli er það ekki svo. Kannski er það vegna þess að viðskiptavinurinn þekkir mig og veit hvers hann á að vænta. Ég vill heldur ekki endurtaka mig og skila verki sem svipar um of til annars innan hópsins.

Falleg kvöldsteming við Reykholtskirkju. ©2009 Christopher Lund.
Falleg kvöldsteming við Reykholtskirkju. ©2009 Christopher Lund.

En það eru auðvitað óþarfa áhyggjur. Hvert brúðkaup er sérstakt og jafnvel þó að stór hópur gesta sé sá sami eru aðstæður alltaf misjafnar. Það er sjaldast sama kirkjan eða sami salurinn – nú eða þá sami landshlutinn! Sigrún og Elvar giftu sig í Reykholti og svo var veislan auðvitað á Hótel Hamri við Borgarnes, enda reka foreldrar Sigrúnar það. Hamar er orðinn fastur liður hjá vinahópnum, þar hittumst við í Gala dinner í byrjun hvers árs og skemmtum okkur ávallt konunglega.

Dansinn dunar á Hamri. ©2009 Christopher Lund.
Dansinn dunar á Hamri. ©2009 Christopher Lund.

Það kom okkur því ekki beint á óvart að brúðkaupið var algjörlega frábær skemmtun. Þétt dagskrá af ræðum og söngatriðum og svo var dansað fram á nótt undir góðri blöndu tónlistar frá sjálfum Kidda Bigfoot. Þau gerast ekki betri  laugardagskvöldin í október.