Myndvinnsla og skönnun

Mér er sagt að ég sé nörd. Ég hugsa að það sé svolítið til í því. Ég hef gaman af því að kafa ofan í hluti og gera allt eins vel og mögulegt er. Tæknin í faginu mínu finnst mér spennandi og verkefni eins skönnun, myndvinnsla, litgreining, litstýring og ICC prófílar eiga stundum stóran hluta af tímanum mínum. 

949

Ég skanna filmur á Imacon 949. Þessi virtual-drum skanni er alger draumur að vinna á og tryggir frábæra útkomu í skönnun á filmum, hvort sem það er negatívur eða pósitívur.

Myndvinnsla eins og samsetningar mynda, viðgerðir, hreinsun, möskun og þess háttar getur verið skemmtileg eða hundleiðinleg. Galdurinn felst í nálguninni. 

Krefjandi verkefni þurfa góðan undirbúning. Ég hef gaman af því að sjá afrasktur erfiðis og því hef ég oft tekið að mér verkefni í myndvinnslu sem öðrum finnst hálfgerð bilun að eyða tímanum í.

Ég komið að ófáum ljósmynda- og listaverkabókum í gegnum tíðina. Mitt hlutverk er að halda utan um myndefnið og sjá til þess að það skili sér eins vel og mögulegt er – þó að það komi úr ýmsum áttum.kj

Þegar ég vann myndirnar í bókina um Kjarval var myndefnið frá fyrirliggjandi eftirtökum á filmum eða ljósmyndað sérstaklega á stafrænan hátt. Til að fá bestu mögulegu útkomu fór ég reglulega með tölvuna, skjáinn og næstum bara allt dótið upp á Kjarvalsstaði. Þar var málverkunum safnað saman til myndatöku. Jafnvel þó að ég noti alltaf gráskala og litaspjöld eru ákveðin litbrigði til í málverkum sem engin leið er að stilla af nema að hafa frummyndina fyrir framan sig. Það var mögnuð tilfinning að vera innan um frummyndir Kjarvals, ekki síst persónulega muni hans og rissbækur. Hann var frábær málari og það kom mér á óvart hversu ótrúlega fjölhæfur hann var sem málari.

Ég hef einnig unnið með Ragnar Axelssyni að ljósmyndabókunum hans: Veiðimenn Norðursins, Fjallaland og Andlitum Norðursins. Þær voru ýmist prentaðar í fjórlit-CMYK, Duotone eða Tritone. Ég fylgdi tveimur þeirra í prentsmiðju á Ítalíu. Það var mikill heiður að fá að vinna með Rax og njóta þess trausts frá einum helsta meistara ljósmyndunar á norðurslóðum. Ragnar hefur alltaf verið minn uppáhaldsljósmyndari og fyrirmynd.

Ef þú þarft aðstoð við myndvinnslu eða litgreiningu þá er ég til taks í stærri og smærri verkefni. Hafðu samband ef þú vilt fá mig til að skoða verkefnið og gefa þér tilboð í vinnsluna.