Ari 8 ára

Ari Carl tekur upp afmælispakka að morgni dags. Star Wars Lego er aðal má¡lið hjá 8 ára gutta. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Það var ekki lítið glaður átta ára gutti sem opnaði nokkra pakka upp í rúmi hjá mömmu og pabba í morgun. Star Wars á hug hans allan um þessi mundir og því hitti Lego Star Wars geimflaugin og tölvuleikurinn beint í mark. Það er skrítið til þess að hugsa að átta ár séu síðan þessi gaur kom í heiminn.

Ég með Ara á handlegg að taka mynd í­ baðspegilinn í­ Hraunbænum. (Christopher Lund)

Það er ekki síst á tímamótum eins og afmælisdögum sem maður sest aðeins niður og skoðar myndasafnið. Rennir í gegnum alla gullmolana sem maður á. Ég hef alltaf verið duglegur við að ljósmynda börnin mín. Þetta eru dýrmætustu myndirnar mínar.

Þessi mynd hér að ofan er tekin þegar kauði er ca 9 mánaða, sama dag og ég smellti af myndinni sem e-h fékk lánaða til að myndskreyta “Hver á að borga icesave? – essasú?”. 

Hér eru nokkrar fleiri myndir frá því í morgun sem slideshow. 

Öskudagskarate

Innanfélagsmót Fylkis í karate, Ari Carl í sínum fyrsta bardaga. ©2011 Christopher Lund.

Ari Carl tók þátt í sínu fyrsta innanfélagsmóti í karate í dag. Það var gaman að sjá þessa ungu snillinga stíga sín fyrstu skref í alvöru karate bardögum. Reglurnar eru stífar og krakkarnir fá ekki stig nema að gera alveg rétt. Það er bannað að kýla eða sparka fast og öll högg í höfuð eru bönnuð. Karate snýst um snerpu og tækni og ávallt skal bera virðingu fyrir andstæðingnum.

Verðlaunapeningurinn var ekkert slor! ©2011 Christopher Lund.

Það var mjög misjafnt hvað guttarnir tóku þetta alvarlega, sumir voru tapsárari en aðrir eins og gengur. Minn maður kom mér á óvart, hann var ákveðnari en ég átti von á, lét vel í sér heyra og gargaði kííaa! Hárgreiðslan var afgangur af “mad scientist” lúkkinu sem hann valdi fyrir öskudaginn.

Fyrsti áfanginn

Gráðun í Karate hjá Karatedeild Fylkis, byrjendur. (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Það var gráðun hjá byrjendaflokk í Karate um helgina. Ari Carl fékk þá fyrstu strípuna í hvíta beltið og viðurkenningarskjal um að fyrsta áfanga hafi verið náð. Karate er flott íþrótt fyrir svona gutta. Ekki síst fyrir það að þeim er kennt að bera virðingu fyrir hvor öðrum og að andlegi þátturinn sé ekki síður mikilvægur en sá líkamlegi. Hópurinn virkaði mjög áhugasamur og einbeittur, þó að erfiðasta æfingin sé líklegast þegar þeir eiga að sitja með lokuð augun og anda dúpt…

Gráðun í Karate hjá Karatedeild Fylkis, byrjendur. (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Fleiri myndir má finna hér.

Foreldraskóladagur

Fór með Ara í skólann í morgun, það er svona foreldraskóladagur í dag þar sem við foreldrar fáum sjá hvað börnin okkar eru að læra. Ari byrjaði á því að taka eina skák áður en kennarinn fór yfir dagsplanið. Að því loknu perluðum við feðgar marsbúa (sem leit reyndar út eins og græn kanína). Mikið rosalega er notalegt að byrja daginn svona. Mig langaði eiginlega ekkert að fara!

7 ára Karate Kid

Ari Carl Karate Kid. ©2010 Christopher Lund.

Ari Carl varð sjö ára gamall í dag. Helgin var eiginlega eitt stórt afmæli. Strákaafmæli í skógarhúsinu í Björnslundi í gær og svo fjölskylduafmæli heima í dag. Ari er nýbyrjaður að æfa karate og fékk því karatebúning frá okkur sem hann var afar ánægður með.

Þegar gestirnir voru farnir í kvöld var hamast í karate á milli þess sem maður hámaði í sig meiri kökur. Smá súkkulaðiblettir hér og þar gera búninginn bara líflegri. Hér má skoða fleiri myndir frá afmælishelginni miklu.

Vetrarfrí

Sólarupprás í sveitinni. ©2010 Christopher Lund.
Sólarupprás í sveitinni. ©2010 Christopher Lund.

Við vorum svo heppin að næla okkur í bústað yfir langa helgi í Skagafirði, nánar tiltekið að Steinsstöðum. Krakkarnir voru í vetrarfríi í skólanum fram á miðvikudag. Þessi vetrarfrí eru svo ný af nálinni að það er auðvelt að gleyma þeim. Ný að nálinni fyrir svona háaldaraða eins og mig alla vega. Til að þessi frí verði nú að einhverju er nauðsynlegt að komast aðeins út úr bænum, þó að það sé dálítil keyrsla fyrir ekki mjög langan tíma.

Ari Carl einbeittur í tölvuleik. ©2010 Christopher Lund.
Ari Carl einbeittur í tölvuleik. ©2010 Christopher Lund.
Arndís með nýjum vini sínum. ©2010 Christopher Lund.

Þar var dásemdar veður alla helgina. Blankalogn og brakandi frost. Við nutum þess aðallega að slaka á í sveitinni. Ég fór þó í göngutúr með Arndísi upp á Reykjatungu og á sunnudeginum gerðum við okkur ferð út á Hofsós til að prófa nýju sundlaugina sem þær Lilja Pálmadóttir og Steinunn Jónsdóttir athafnakonur gáfu íbúum á Hofsósi. Hún er glæsileg, flott hönnun á húsinu sem fer lítið fyrir. Laugin sjálft er lítil, enda myndi ekki passa að vera með mjög stóra laug með á þessum stað. Útsýnið frá henni er einstakt. Eftir sundið renndum við svo inn á Krók og heimsóttum góða vini og fengum dýrindis vöfflukaffi.

Arndís úti í ljósaskiptunum. ©2010 Christopher Lund.
Arndís úti í ljósaskiptunum. ©2010 Christopher Lund.

Í svona ferðum ljósmynda ég yfirleitt svolítið (surprice, surprice!). Fer þá gjarnan með smá dóteri með mér. Í þetta sinn rötuðu litlu Nikon SB-900 og SB-800 flössin með ásamt tilbehör, nettum ljósastöndum, bracketum og regnhlífum. Ég er orðinn mjög hrifinn af Nikon flash-kerfinu. Það er auðvelt að blanda því við ambient ljósið og mælingarnar eru oftast nokkuð góðar. Með Nikon SU-800 þráðlausa sendinum stýrir maður allt að þremur hópum af ljósum, hvort sem maður vill notfæra sér i-TTL mælinguna eða stilla aflið handvirkt með Manual stillingu. Myndin af Ara í tölvunni hér að ofan er tekin með smá aðstoð frá stöku SB-900 sem ég festi með Justin Clamp á hitaveiturör á veggnum. Skotið á Nikon D3s, Nikkor 50mm f/1.4G , ISO 400 á f/2.0 og 1/60s. Ég stilli vélina á ljósops forval með -1 EV undirlýsingu og flassið +0.7EV yfirlýsingu. Á flassinu er diffuser dome og mig minnir að ég hafi þrengt geislann í 70mm stillinguna. Á myndinni af Arndísi út í ljósaskiptunum er ég aftur með SB-900 en í þetta sinn skotið í gegnum hvíta regnhlíf. Það var orðið frekar lítið ljós úti svo ég vann á ISO 800 á f/2.0 og 1/60s. Á Nikon D3s er ég að nota Nikkor 85mm f/1.4D sem gefur þetta fallega bokeh. Nýja linsan á víst að vera enn betri, uppfærð með AF-S mótor og 9-blaða lokara. Andsk… uppfærslur alltaf hreint…

Útileguburst

Burstað á Eyjólfsstöðum í Fossárdal. ©2010 Christopher Lund.

Það er óhætt að segja að sumarið 2010 hafi verið gott til ferðalaga. Við vorum tæpan mánuð samfleytt úr bænum og eyddum mestum tíma fyrir norðan. Eyjafjörður, Aðaldalur, Ásbyrgi og Langanes fyrir norðan. Norðfjörður, Stöðvarfjörður og Fossárdalur fyrir austan. Og veðrið lék við okkur svo gott sem allan tímann. Lygilegt alveg.

Í fríi ljósmynda ég ákaflega mismikið. Ég forðast yfirleitt “hefðbundna” landslagsljósmyndun, en mynda auðvitað landslagið og umhverfi í bland við börnin og hvað sem við erum svo að bralla með þeim. Þetta er tími til að hlaða sig upp af orku og það er misjafnt hvernig maður er í upphafi sumarfrís. Stundum er ég svo útkeyrður að ég hef varla orku í neinar myndapælingar. Það rjátlar þó fljótt af mér, fjölskyldunni til skelfingar. Hún þarf að hafa ákveðna þolinmæði gagnvart þráhyggjunni við að skjalfesta samtímann.

Myndirnar fimm sem rúlla sem slideshow á síðunni eru frá heimsókn í Hrísey þann 26. júlí síðastliðinn. Magnaður staður Hrísey.

Loksins sumarfrí!

Þá er maður kominn í langþráð sumarfrí. Við fjölskyldan ætlum að dvelja á Norðurlandi næstu tvær vikurnar, en hér við leigðum fallegt hús á Ytri-Bakka rétt við Hjalteyri. Við ætlum okkur að vera hjólafólk í sumar, allir eru með reiðfákana sína með þökk sé Thule (ekki bjórnum).

Þegar ég lagði af stað úr Reykjavík í dag var ótrúleg hitamolla. Hér fyrir norðan er hins vegar smá Eyjafjarðarþoka. Finnst ykkur hún ekki falleg?

24mm í portrett?

Gleiðhornalinsur eru (of) oft misnotaðar. Netið er uppfullt af alls konar myndefni sem er skotið á mjög víðar linsur. Oft virðist mér það vera til þess eins að sýna fram á hversu víða linsu viðkomandi á! Landslag er oftast fórnarlamb þessarar misnotkunar. Vissulega eru til flottar landslagsmyndir skotnar á 14mm brennivídd. En þær eru nálin í heystakknum.

Ég heyrði sögu af myndaritstjóra í Danmörku sem var kominn með svo mikið upp í kok af gleiðhorna-væðingu blaðaljósmyndara að hann bannaði beinlínis ljósmyndurum blaðsins að nota víðari linsur en 35mm í starfi sínu. Hvort sem það er satt eður ei þá finnst mér það áhugaverð pæling.

Portrett má ekki skjóta á víðar linsur. Svo segja fræðin að minnsta kosti. En reglur eru til að brjóta þær. Ef við erum að ljósmynda fólk með víðum linsum þurfum við að vera meðvituð um bjögunina og láta hana vinna með okkur frekar en á móti. Tökum myndina af Ara hér að ofan sem dæmi. Hann er frekar miðsettur í rammanum og ég er í augnhæð við hann. Börn verða oft enn meiri krútt þegar víðlinsan ýkir enn frekar það sem við fullorðna fólkið elskum -> stórt höfuð miðað við búk. Það hættir samt að vera sjarmerandi þegar þessar elskur verða táningar…