Gleðilegt ár!

Gleðilegt ár kæru vinir, nær og fjær.

Við fjölskyldan endurtókum leikinn frá því í fyrra og skelltum okkur norður á Akureyri um áramótin til að skíða inn í nýtt ár. Það er notalegt að vera hér í höfðustað norðurlands yfir áramót, ekki síst þegar veðrið leikur við mann og við komumst í brekkurnar til að brenna svolítið af hátíðar-eldsneytinu sem hefur óneitanlega safnast fyrir utan á manni.

Árið 2011 var okkur gott, við fjárfestum í mörgum góðum minningum í ferðalögum okkar um landið og nutum þess að hitta fjölskyldu og vini.

Árið 2012 verður án efa spennandi. Það eru breytingar í vændum hjá mér. Ég flyt vinnustofuna frá Hólmaslóðinni upp í Ögurhvarf núna í jánúar. Nýja aðsetrið er í göngufæri frá heimili mínu, svo það er töluvert þægilegra og spara aksturstíma og olíu. Ljósmyndaferðaþjónustan mín er líka að vaxa og það þýðir kallar á gott skipulag og samvinnu við fjölskylduna í sumar. Ég fer því spenntur inn í nýtt ár og hlakka til að takast á við verkefnin sem fyrir liggja í leik og starfi.

 

Lakkrístoppar á laugardegi

Arndís bakar lakkrístoppa fyrir jólin. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Fjölskyldan er kominn í jólaskap. Frúin er búinn að gera snilldar piparmyntukonfekt og Arndís bakaði lakkrístoppa í gær. Í dag stendur til að krækja sér í jólatré hjá Skógræktinni á Jólamarkaðnum við Elliðavatn og baka svo eina sort í viðbót.

Langt síðan ég hef verið kominn í jólaskap svona snemma í desember. Veit ekki alveg hvað veldur. Kannski kann maður betur að meta þessar fjölskyldustundir með aldrinum?

Oft hrekk ég í bullandi ljósmyndagír þegar við erum að gera eitthvað svona hér heima við.  Mér finnst það ferlega gaman að búa til smá sögu með myndunum.

Flateyjartími

 (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Það er kominn Flateyjartími. Hin árvissa Flateyjarferð verður farin næstu helgi. Vinahópurinn minn er svo lánsamur að hafa aðgengi að góðum húsakosti á þessari dásamlegu eyju á Breiðafirði. Börnin okkar eru farin að miða upphaf sumars við þessa ferð. Ekki skrítið, þar sem við höfum nánast alltaf upplifað fádæma veðurblíðu þarna í lok maí.

 (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Í gegnum tíðina hef ég verið nokkuð duglegur að ljósmynda í þessum ferðum. Það eru ekki síst börnin sem eru viðfangsefni, enda er vinahópurinn minn bæði fagur og frjósamur. Ég hef oft spáð í því hvað ég er lánsamur að hafa þessa ástríðu. Vissulega kraumar hún missterkt frá degi til dags. En á stað eins og Flatey er varla hægt annað en að finna sterkt fyrir henni.

 (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Hérna má skoða fleiri myndir úr Flateyjarferð 2010.

 

 

Gott mót hjá Fylki

Arndís kominn í gegn og mark í uppsiglingu. ©2011 Christopher Lund.

Handboltastelpurnar  í 6. flokki Fylkis áttu gott mót í dag í Víkinni, unnu alla leiki sína örugglega og færðust því upp um deild.

Ég var mættur með vélina eins og venjulega. Lýsingin í Víkinni er afar erfið, örugglega svona fjórar týpur af flúrperum í gangi þar og því alls konar ljóshiti eftir því hvar maður er staddur á vellinum. Það sést vel á myndinni hér að ofan þar sem gráa tjaldið er rauðleitt vinstra megin í rammanum en bláleitt hægra megin.

Arndís brýst í gegn og skorar! ©2011 Christopher Lund.Almennt er gott að nota ekki of stuttan lokarahraða ef maður er að ljósmynda við flúrbirtu, því það jafnar út þetta flökt á ljóshita frá flúrperunum. En það er ekki valmöguleiki þegar íþróttir eru annars vegar.

Þessi samsetta gif-mynd hér til vinstri er skotin á  Nikon D3s og Nikkor AF-S 70-200mm f/2.8G VRII linsu. Þetta kombó er alveg að virka í handboltanum. Fókuskerfið í D3s er ansi magnað og því meira sem maður lærir að sérsníða stillingarnar eftir aðstæðum því betra er það.

Í handboltanum vinn ég oft á f/2.8 og s/250s á ISO 3200. Það er yfirleitt nægur hraði til að frysta hreyfinguna, a.m.k. í 6. flokki. Ég gæti auðveldlega hækkað ISO og fengið styttri lokararhraða, en um leið og ég fer upp í 1/320 eða 1/400s fer að bera á mismunandi grájafnvægi á milli ramma. Það er afar þreytandi að eiga við það.

Öskudagskarate

Innanfélagsmót Fylkis í karate, Ari Carl í sínum fyrsta bardaga. ©2011 Christopher Lund.

Ari Carl tók þátt í sínu fyrsta innanfélagsmóti í karate í dag. Það var gaman að sjá þessa ungu snillinga stíga sín fyrstu skref í alvöru karate bardögum. Reglurnar eru stífar og krakkarnir fá ekki stig nema að gera alveg rétt. Það er bannað að kýla eða sparka fast og öll högg í höfuð eru bönnuð. Karate snýst um snerpu og tækni og ávallt skal bera virðingu fyrir andstæðingnum.

Verðlaunapeningurinn var ekkert slor! ©2011 Christopher Lund.

Það var mjög misjafnt hvað guttarnir tóku þetta alvarlega, sumir voru tapsárari en aðrir eins og gengur. Minn maður kom mér á óvart, hann var ákveðnari en ég átti von á, lét vel í sér heyra og gargaði kííaa! Hárgreiðslan var afgangur af “mad scientist” lúkkinu sem hann valdi fyrir öskudaginn.

Keppnisskap

Það er eitt sem vantar ekki í hana Arndísi mína og það er keppnisskap. Þótt hún sé ekki há í loftinu gengur henni vel í handboltanum, því hún er ákveðin og snögg.

Það var frábært að sjá hana og hinar Fylkisstelpurnar á mótinu í Laugardalshöll í dag. Framfarirnar eru stöðugar og Alla þjálfari nær að laða fram það besta í hverjum og einum leikmanni. Mikill fengur fyrir Fylki að hafa svona reynslumikinn handboltamann og þjálfara innanborðs.

Stundum er fundið að börnum sem hafa of mikið keppnisskap og vissulega er mikilvægara að taka þátt en að vinna. En metnaður til að gera sitt besta og ná árangri eru dýrmætir eiginleikar. Ég er á því að keppnisskap þarf að vera til staðar í réttu magni í lífinu. Ætli það sé ekki betra að hafa meira en minna af því?

Hér eru nokkrar fleiri myndir af litla naglanum mínum.

Vetrarfrí

Sólarupprás í sveitinni. ©2010 Christopher Lund.
Sólarupprás í sveitinni. ©2010 Christopher Lund.

Við vorum svo heppin að næla okkur í bústað yfir langa helgi í Skagafirði, nánar tiltekið að Steinsstöðum. Krakkarnir voru í vetrarfríi í skólanum fram á miðvikudag. Þessi vetrarfrí eru svo ný af nálinni að það er auðvelt að gleyma þeim. Ný að nálinni fyrir svona háaldaraða eins og mig alla vega. Til að þessi frí verði nú að einhverju er nauðsynlegt að komast aðeins út úr bænum, þó að það sé dálítil keyrsla fyrir ekki mjög langan tíma.

Ari Carl einbeittur í tölvuleik. ©2010 Christopher Lund.
Ari Carl einbeittur í tölvuleik. ©2010 Christopher Lund.
Arndís með nýjum vini sínum. ©2010 Christopher Lund.

Þar var dásemdar veður alla helgina. Blankalogn og brakandi frost. Við nutum þess aðallega að slaka á í sveitinni. Ég fór þó í göngutúr með Arndísi upp á Reykjatungu og á sunnudeginum gerðum við okkur ferð út á Hofsós til að prófa nýju sundlaugina sem þær Lilja Pálmadóttir og Steinunn Jónsdóttir athafnakonur gáfu íbúum á Hofsósi. Hún er glæsileg, flott hönnun á húsinu sem fer lítið fyrir. Laugin sjálft er lítil, enda myndi ekki passa að vera með mjög stóra laug með á þessum stað. Útsýnið frá henni er einstakt. Eftir sundið renndum við svo inn á Krók og heimsóttum góða vini og fengum dýrindis vöfflukaffi.

Arndís úti í ljósaskiptunum. ©2010 Christopher Lund.
Arndís úti í ljósaskiptunum. ©2010 Christopher Lund.

Í svona ferðum ljósmynda ég yfirleitt svolítið (surprice, surprice!). Fer þá gjarnan með smá dóteri með mér. Í þetta sinn rötuðu litlu Nikon SB-900 og SB-800 flössin með ásamt tilbehör, nettum ljósastöndum, bracketum og regnhlífum. Ég er orðinn mjög hrifinn af Nikon flash-kerfinu. Það er auðvelt að blanda því við ambient ljósið og mælingarnar eru oftast nokkuð góðar. Með Nikon SU-800 þráðlausa sendinum stýrir maður allt að þremur hópum af ljósum, hvort sem maður vill notfæra sér i-TTL mælinguna eða stilla aflið handvirkt með Manual stillingu. Myndin af Ara í tölvunni hér að ofan er tekin með smá aðstoð frá stöku SB-900 sem ég festi með Justin Clamp á hitaveiturör á veggnum. Skotið á Nikon D3s, Nikkor 50mm f/1.4G , ISO 400 á f/2.0 og 1/60s. Ég stilli vélina á ljósops forval með -1 EV undirlýsingu og flassið +0.7EV yfirlýsingu. Á flassinu er diffuser dome og mig minnir að ég hafi þrengt geislann í 70mm stillinguna. Á myndinni af Arndísi út í ljósaskiptunum er ég aftur með SB-900 en í þetta sinn skotið í gegnum hvíta regnhlíf. Það var orðið frekar lítið ljós úti svo ég vann á ISO 800 á f/2.0 og 1/60s. Á Nikon D3s er ég að nota Nikkor 85mm f/1.4D sem gefur þetta fallega bokeh. Nýja linsan á víst að vera enn betri, uppfærð með AF-S mótor og 9-blaða lokara. Andsk… uppfærslur alltaf hreint…

Útileguburst

Burstað á Eyjólfsstöðum í Fossárdal. ©2010 Christopher Lund.

Það er óhætt að segja að sumarið 2010 hafi verið gott til ferðalaga. Við vorum tæpan mánuð samfleytt úr bænum og eyddum mestum tíma fyrir norðan. Eyjafjörður, Aðaldalur, Ásbyrgi og Langanes fyrir norðan. Norðfjörður, Stöðvarfjörður og Fossárdalur fyrir austan. Og veðrið lék við okkur svo gott sem allan tímann. Lygilegt alveg.

Í fríi ljósmynda ég ákaflega mismikið. Ég forðast yfirleitt “hefðbundna” landslagsljósmyndun, en mynda auðvitað landslagið og umhverfi í bland við börnin og hvað sem við erum svo að bralla með þeim. Þetta er tími til að hlaða sig upp af orku og það er misjafnt hvernig maður er í upphafi sumarfrís. Stundum er ég svo útkeyrður að ég hef varla orku í neinar myndapælingar. Það rjátlar þó fljótt af mér, fjölskyldunni til skelfingar. Hún þarf að hafa ákveðna þolinmæði gagnvart þráhyggjunni við að skjalfesta samtímann.

Myndirnar fimm sem rúlla sem slideshow á síðunni eru frá heimsókn í Hrísey þann 26. júlí síðastliðinn. Magnaður staður Hrísey.

Loksins sumarfrí!

Þá er maður kominn í langþráð sumarfrí. Við fjölskyldan ætlum að dvelja á Norðurlandi næstu tvær vikurnar, en hér við leigðum fallegt hús á Ytri-Bakka rétt við Hjalteyri. Við ætlum okkur að vera hjólafólk í sumar, allir eru með reiðfákana sína með þökk sé Thule (ekki bjórnum).

Þegar ég lagði af stað úr Reykjavík í dag var ótrúleg hitamolla. Hér fyrir norðan er hins vegar smá Eyjafjarðarþoka. Finnst ykkur hún ekki falleg?