Dansað í desember

Bjargey á æfingu í Jazzballet hjá JSB í Laugardalshöll. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Það er sá tími ársins að foreldrar fá að líta inn á æfingu hjá JSB þar sem Bjargey stundar listdansnám. Stelpurnar taka slíkum framförum að það er óhætt að segja að þær taki flugið. Það var stolltur pabbi sem fylgdist með og smellti af í gríð og er í Laugardalshöll í dag. Hér eru nokkrar fleiri myndir frá æfingunni.

Að sjá betur

Bjargey í keiluhöllinni. ©2010 Christopher Lund.
Bjargey í keiluhöllinni. ©2010 Christopher Lund.

Það er furðuleg tilfinning að smella af mynd við aðstæður þar sem birtumagnið er svo lítið að maður sér engan veginn hvort myndin sé í fókus og reikna með því að hún verði ekki bara nothæf – heldur í góðu lagi! Myndin hér að ofan er tekin á ISO 12.800, ljósop f/1.4 og hraði 1/60s. Ekki mikið ljós það.

Það er í raun ótrúlegt hvað tæknin í stafrænni ljósmyndun er farin að gera okkur kleift. En það er sama hversu þróuð hún verður, hún kemur aldrei til með að leysa af hólmi nám, þekkingu og reynslu. Góður ljósmyndari er ekki bara tæknitröll. Hann þarf að kunna á margt annað en búnaðinn sinn. Og hann heldur áfram að læra. Það gerir þetta starf svo skemmtilegt. Maður er aldrei búinn að fullnema ljósmyndun.

Þess vegna skýtur það skökku við að fólk vilji fá að starfa sem atvinnuljósmyndarar – þó það hafi ekki lokið námi?

Ég held að þeir sem ná að lifa af ljósmyndun hafi á einn eða annan hátt numið það sem til þarf. Það er nefnilega ekki svo auðvelt að lifa af ljósmyndun einni saman. Það er ekki nóg að kaupa bara græjurnar og kunna á þær. Ég hef séð marga hefja rekstur ljósmyndastofu og hætta rekstri eftir tiltölulega skamman tíma. Þeir sem ná hins vegar að halda rekstri gangandi eru að gera eitthvað rétt. Sú formúla getur verið margslungin og í raun aldrei eins.

Ljósmyndarar á Íslandi þurfa að starfa saman, jafnt áhuga- sem atvinnumenn. Til þess að það sé hægt þarf fólk að bera virðingu fyrir hvort öðru. Það eru sameiginlegir hagsmunir allra sannra ljósmyndara að hefja ljósmyndun á stall. Menntun er hornsteinninn í því uppbyggingarstarfi sem framundan er – hvernig sem formið á henni er.

Útileguburst

Burstað á Eyjólfsstöðum í Fossárdal. ©2010 Christopher Lund.

Það er óhætt að segja að sumarið 2010 hafi verið gott til ferðalaga. Við vorum tæpan mánuð samfleytt úr bænum og eyddum mestum tíma fyrir norðan. Eyjafjörður, Aðaldalur, Ásbyrgi og Langanes fyrir norðan. Norðfjörður, Stöðvarfjörður og Fossárdalur fyrir austan. Og veðrið lék við okkur svo gott sem allan tímann. Lygilegt alveg.

Í fríi ljósmynda ég ákaflega mismikið. Ég forðast yfirleitt “hefðbundna” landslagsljósmyndun, en mynda auðvitað landslagið og umhverfi í bland við börnin og hvað sem við erum svo að bralla með þeim. Þetta er tími til að hlaða sig upp af orku og það er misjafnt hvernig maður er í upphafi sumarfrís. Stundum er ég svo útkeyrður að ég hef varla orku í neinar myndapælingar. Það rjátlar þó fljótt af mér, fjölskyldunni til skelfingar. Hún þarf að hafa ákveðna þolinmæði gagnvart þráhyggjunni við að skjalfesta samtímann.

Myndirnar fimm sem rúlla sem slideshow á síðunni eru frá heimsókn í Hrísey þann 26. júlí síðastliðinn. Magnaður staður Hrísey.

Loksins sumarfrí!

Þá er maður kominn í langþráð sumarfrí. Við fjölskyldan ætlum að dvelja á Norðurlandi næstu tvær vikurnar, en hér við leigðum fallegt hús á Ytri-Bakka rétt við Hjalteyri. Við ætlum okkur að vera hjólafólk í sumar, allir eru með reiðfákana sína með þökk sé Thule (ekki bjórnum).

Þegar ég lagði af stað úr Reykjavík í dag var ótrúleg hitamolla. Hér fyrir norðan er hins vegar smá Eyjafjarðarþoka. Finnst ykkur hún ekki falleg?

Fjallahjólaflipp

Bjargey fékk nýtt hjól í dag. Það er af sem áður var að maður fái sæmilegt fjallahjól fyrir 30-40 þúsund. Prísinn fyrir gott hjól í dag er næstum tvisvar sinnum það takk fyrir! Fórum í Örninn enda ber sú verslun af þegar kemur að reiðhjólum. Oft verið meira úrval af alvöru hjólum. Væntanlega fáir sem eru að versla sér dýru hjólin í dag. Sá þó Trek Carbon racer á 1.500 þúsund.

Eftir að búið var að velja rétta hjólið og ganga frá kaupum hjóluðum við að sjálfsögðu saman heim. Ég fór með stúlkuna á “fornar slóðir” á stígana utan í Breiðholtinu í stað þess að hjóla á malbikinu. Þetta eru nú einu sinni fjallahjól! Var með litlu Olympus Tough vélina með og ákvað að taka smá video með “einari”.

Karlinn hefur engu gleymt…

Flottur árangur

Ég er svo stoltur af Bjargey, elstu dóttur minni. Þessi elska vann upplestrarkeppni í skólanum sínum dag. Ég er búinn að fylgjast með henni við undirbúningin undanfarna daga, heyra í henni lesa upphátt fyrir sjálfa sig kvöld eftir kvöld. Í gærkvöldi sagði hún mér að hún kynni orðið textann utanbókar, svo oft var hún búin að lesa í gegnum hann. Bjargey hefur þann frábæra eiginleika að hafa trú á sjálfri sér. Lestur var eitt af því sem hún mátti bæta og nú hefur hún náð þessum frábæra árangri, að vera valin af dómnefnd, til að keppa fyrir hönd skólans í stóru upplestrarkeppninni, sem verður haldin 11. mars. Það er á svona dögum sem ég finnst ég vera ríkasti maður í heimi.

Öskudagur

Ég þarf að játa svolítið. Ég skil ekki öskudag. Þessi dagur er eitthvað svo fáranlegur. Öskudagur er rakinn til kristni og er fyrsti dagur lönguföstu. Við erum búin að afbaka hann í einhvers konar hrekkjavöku! Á hrekkjavöku er verið að þakka fyrir uppskeru og boða komu vetursins. Hrekkjavökubúningarnir tengjast því að mörk heima hinna lifandi og hinna dauðu voru óljós þennan dag (sem er btw 31. október!). Fólk dulbjó sig til að þekkjast ekki og buðu óvættunum mat og drykk til að friðþægja þær.

Ari Carl hrikalega hræðilegur draugur. ©2010 Christopher Lund.

Öskudagur alltaf verið svolítið spes hér á landi. Ég las mig til á vísindavefnum um þróun þeirra siða sem tengjast öskudegi. Þeir hafa þróast í allar áttir í gegnum tíðina. Svo hrekkjavökuvæðing okkar Íslendinga á öskudegi er kannski ekki svo skrítin, í ljósi þess að Ísland hefur lengi haft Bandaríkin sem fyrirmynd?

Það hefði verið svolítið hressandi að skella smá þjóðernisrembing í þetta aftur. Hætta að kaupa einnota búninga á okurverði og fara að sauma öskupoka á ný. Allir krakkar út í vaðmálinu sínu að hengja poka í fólk! Kreisý stuð!

Það voru heimagerðir búningar hér á bæ. Vínberjaklasinn hennar Arndísar var nokkuð ferskur fannst mér. Hér eru fleiri myndir frá gærkvöldi við undirbúning öskudags 2010.

Nemendasýning JSB

cld090324_068_jazz_dance
Bjargey á Nemendasýningu JSB 2009

Nemandasýning JSB í kvöld. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 70-200mm f/2.8L IS

Það var stolltur faðir sem tók þessa mynd í kvöld. “Litla” stelpan mín stóð sig frábærlega, eins og þær allar sem dönsuðu fyrir okkur í kvöld. Það kemur ykkur kannski ekki á óvart, en ég ljósmynda þessar sýningar alltaf nokkuð ítarlega. Mér finnst ekki síður gaman að mynda undirbúninginn og reyna að búa til litla myndasögu. Afraksturinn má skoða hér.