Leynibrúðkaup

Það er ekki almennt að konur fái bónorð og gifti sig sama daginn! Sú var þó raunin hjá þeim Konna og Rakel í lok september. Þegar Anna Svava, vinkona brúðurinnar hafði samband til að kanna hvort ég væri laus, verð ég að segja að ég var ansi spenntur að sjá hvernig þetta myndi fara fram. Brúðguminn var sem sagt búinn að undirbúa allt saman, með hjálp góðra vina og fjölskyldu. Brúðurinn átti bara að segja já – og svo var búið að græja rest!

Rakel gengur í salinn. Nikon D4, Nikkor 35mm f/1.4G, f/1.4 – 1/60s @ ISO 12800

Ég tók verkefni auðvitað að mér, enda er gaman að taka þátt í svona óhefðbundnum hlutum. Ég ljósmyndaði undirbúninginn þar sem vinkonunar mættu hver af annari til að hafa sig til, sumar meira að segja óvænt frá útlöndum. Þær voru stórglæsilegar þegar forláta Land Rover sótti dömurnar til að aka niður á Hotel Borg, þar sem vinir og fjölskylda biðu. Rakel og Konni voru svo gefin saman í Speglasalnum og strax á eftir fórum við í ofursnögga myndatöku – enda áttu gestirnir ekki að þurfa að bíða of lengi.

Konni og Rakel. Nikon D4, Nikkor 85mm f/1.4G, f/1.4 – 1/250s @ ISO 3200

Það er ljóst að Nikon D4 stendur sig vel þegar kemur að háu ISO. Þessi mynd er t.d. tekin fram á hótelgangi og eini ljósgjafinn er eingönu það sem þar fyrir hendi, engin auka ljós að flöss frá mér. Til að fela lampann betur á bak við þau og fá skemmtilegri dýnamík í myndina lagðist ég bókstaflega í gólfið og tók myndina með 85mm f/1.4 galopna. Ég er nokkuð sáttur við stemmarann.

Megapixlasumar

A river flowing in front of the farm Hraun in Valley Öxnadalur, North Iceland. In background rays of light hit Mount Drangafjall. The Peak Hraundrangi (1075m) was first climbed in 1956. (Christopher Lund/©2012 Christopher Lund)
Hraun í Öxnadal. Nikon D800E, Ziess Distagon 21mm f/2.8, f/11 – 30s @ ISO 100

Nú er orðið langt um liðið síðan ég póstaði færslu hér inni. Sumarið var nefnilega tími ferðalaga og eftir sumarið er ég einnig kominn með góða reynslu af notkun á Nikon D800/E og get óhikað sagt að ég sé afar sáttur við þessa vélar.

Það var að sama skapi lítið um brúðkaupsmyndatökur í sumar, í ljósi þess að ég sást varla í Reykjavík. Þó ljósmyndaði ég tvö brúðkaup núna síðsumars. Það fyrra var það fyrsta sem ég notaði D800E og D800 saman. Eftir það lét ég hafa eftir mér á feisbúkk að D800 væri ekki málið í brúðkaup.

Elín og Sæmi. Nikon D800E, Nikkor AF-S 70-200mm f2.8G VR II, f/11 – 1/200s @ ISO 100

Sko – það var fínt að skjóta brúðkaup með D800/E  vélum – en ekki alveg eins þægilegt að að vinna úr ríflega þúsund 36 megapixla skrám! Ég tók því ákvörðun um að fara líka í Nikon D4, þrátt fyrir að hafa haldið því fram að ég þyrfti ekki slíka vél. Maður fær næstum tvær D800 fyrir sama verð og eina D4, svo ég var svolítið tvístígandi að fara út í þessa fjárfestingu.

Það tók mig þó ekki langan tíma að finna að D4 er frábært verkfæri. Mér finnst hún sneggri en D800 að fókusera og breytingar á hönnun á húsinu og hnöppum frá D3s eru klárlega til bóta. Breytingarnar á autofókus-hnappi og hvernig skipt er á milli kerfa og fjölda fókuspunkta finnst mér ekki afturför eins og aðrir hafa kvartað yfir. Þvert á móti er nú auðvelt að skipta á milli kerfa án þess að taka augað af skoðaranum.

Ég er þó minna hrifinn af breytingu á minniskortategundum. Ég hefði viljað sjá tvær CF kortaraufar í stað þessa nýja XQD + CF. Það flækir málin töluvert fyrir mann að þurfa að vera með tvær tegundir af kortum í tökum. Að sama skapi hefði ég viljað sjá D800 með tvær SD kortaraufar  í stað SD + CF.

Enn bólar ekkert á megapixlamonsterinu frá Canon. Þeir þurfa líkast til meiri tíma til að fullkomna það kvikindi. Þeir virðast þó vera með svar við Nikon D600 ef eitthvað er að marka orðróminn. Það eru engin lát á þróuninni og Photokina 2012 virðist vera töluvert meira spennandi en 2010. Það verður spennandi að sjá hvað rætist varðandi nýjar vörur frá Canon á morgun!

 

Arndís og Arnar

Þann 13. ágúst myndaði ég brúðkaup Arndísar og Arnars. Ég var bókaður með óvenju stuttum fyrirvara og fann strax að þetta brúðkaup yrði ekki mjög hefðbundið. Þau Arndís og Arnar vildu t.d. ekki eyða nema í mesta lagi 5-10 mínútum í myndatöku eftir athöfn, því þau ætluðu að koma í veisluna á sama tíma og gestirnir. Stutt myndataka gerir óneitanlega kröfur á ljósmyndarann. Ég er að fíla það.

Ég stakk upp á því við þau að skjótast yfir í Alþingisgarðinn til að ná eldsnöggum myndum af þeim á meðan gestirnir hinkruðu á kirkjutröppum Dómkirkjunnar. Veðrið var hagstætt svo þetta gekk eins og í sögu. Eftir töku gengu þau í broddi fylkingar að Iðusölum þar sem ég myndaði fordrykk og upphaf veislu.

Skemmtilegt djobb fyrir skemmtilegt fólk.

 

Sigurrós og Davíð

Sigurrós og Davíð giftu sig 6. ágúst síðastliðinn í Háteigskirkju. Eftir athöfn og myndatöku var blásið til veislu í Súlnasal Hótel Sögu – eða Radisson Blu Saga Hotel, eins og það heitir víst í dag. Súlnasalur verður seint talinn draumur brúðkaupsljósmyndarans. Salurinn er frekar dimmur og það er rosalegur kontrast á milli svæða. Gyllt loftið gerir flassnotkun líka vonlausa.

Ég var búinn að scouta aðstæður og vissi að í þetta sinn fengi Nikon D3s svo sannarlega að vinna fyrir kaupinu. Öðlingarnir í Beco lánðuðu mér svo annað D3s body fyrir daginn svo ég gat skotið grimmt á ljósopi f/1.4. Með björtu Nikkor 35mm f/1.4G og 85mm f/1.4G linsurnar að vopni eru mér flestir vegir færir án þess að þurf að grípa nokkurn tíma í flass. Það er í svona verkefnum sem maður elskar tækniframfarir síðustu ára.

Þetta var frábær brúðkaupsveisla. Ég man varla eftir annarri eins stemningu alveg frá fyrstu mínutu. Yfirleitt fara svona veislur rólega af stað, en hér var greinilega fólk sem kunni að skemmta sér. Og þá er gaman að vera brúðkaupsljósmyndari. Ég held að myndirnar endurspegli það líka 😉

Brúðkaup fyrir norðan

Ég hef nú ekki haft tíma fyrir mörg brúðkaup í sumar. Ástæðan er sú að ég hef verið að leggja áherslu á ný tímafrek verkefni og svo tók ég mér líka gott þriggja vikna ferðalag um landið með fjölskyldunni . Þann 16. júlí gat ég tvinnað saman ferðalagið við starfið þegar ég myndaði stórskemmtilegt brúðkaup á Húsavík. Katla og Kenneth gengu í það heilaga, en hún er íslensk og hann norskur.

Það var nú heldur svalt fyrir norðan þessa helgina, en veðrið var þó mun betra en spáin hafði gert ráð fyrir. Við sluppum alveg við rigningu og rok að minnsta kosti! Brúðhjónin nýbökuðu létu kuldan ekkert á sig fá og við tókum myndir á þremur stöðum á Húsavík; í lystigarðinum (sem er vel falinn í hjarta bæjarins), niður við höfn og svo út í fjöru fyrir neðan bæinn.

Ég fylgdi þeim eftir allan daginn, frá undirbúningi til lok veislu. Það er ekki svo algengt að ég sé beðinn um að mynda undirbúningin hér heima, virðist bara ekki vera komin mikil hefð fyrir því ennþá. En ég fíla það vel, enda ljósmynda ég brúðkaup í þannig stíl. Það tekur þó vissulega svolítið á að vera á vakt í 12-16 tíma!

 

Hættur að mynda brúðkaup?

Aníta og Hávarður. ©2010 Christopher Lund.

Ég var spurður að því um daginn hvort ég væri hættur að mynda brúðkaup. Kannski ekki svo skrítin spurning þar sem ég hef varla póstað neinum brúðkaupmyndum í langan tíma. Auk þess eyddi ég stærstum hluta sumarins að flakka um landið. Ég náði þó að skjóta fimm skemmtileg brúðkaup í sumar og svo eru nokkur á döfinni í október.

Myndin hér að ofan er úr brúðkaupi Anítu og Hávarðs sem ég myndaði í lok ágúst. Skemmtilegt brúðkaup í Grindavík, myndataka við Selskóg og Bláa lónið. Flottir staðir til að ljósmynda og meira að segja ágætt skjól í því hávaðaroki sem var þennan dag. Ég ætla ekki að sýna fleiri myndir frá því vegna þess að bókin þeirra er einmitt á leiðinni að utan. Skemmtilegra fyrir þau að skoða myndirnar sínar fyrst í bókinni.

Bækurnar hafa breytt miklu fyrir mig varðandi brúðkaupsljósmyndun. Í fyrsta lagi eru viðskiptavinirnir mjög hrifnir af því að fá vandaða ljósmyndabók sem segir heildstæða sögu frá deginum stóra. Í öðru lagi einfalda þær lífið fyrir mér, þar sem ég þarf ekki að eyða tíma í að prenta allar myndirnar sjálfur og setja í albúm. Áður fyrr fór a.m.k. einn vinnudagur í það, jafnvel meira ef takan var stór. Í þriðja lagi bjóða bækurnar upp á meiri fjölbreytni í framsetningu og myndskurði. Svo fer maður líka að hugsa út frá bókinni við tökurnar og það gerir þær enn markvissari. Ekki veitir af – eftir dæmigert brúðkaup þar sem ég mynda athöfn, myndatöku og veislu er ekki óalgengt að koma í hús með í kringum 1000-1500 myndir. Það sker ég svo niður í rúmlega 200 myndir. Ég er tvo heila daga að vinna úr slíkri töku og klára umbrot á bókinni. Svo það má segja að myndatakan sjálf sé ekki nema 1/3 af ferlinu.

Hér eru nokkrar valdar myndir frá sumrinu. Fyrst eru það Jón og Dóra, svo Unnur og Ellert, því næst Karólína og Stefan og að lokum Sandra og Sveinung. Mæli með því að smella á full-screen til að sjá myndirnar í almennilegri stærð. Fleiri myndir frá brúðkaupi Anítu og Hávarðs koma seinna.

Litríkt brúðkaup

Mig langar að sýna ykkur fleiri myndir frá brúðkaupi Namitu og Gumma í San Fransisco. Ég sagði ykkur fyrst frá þessu verkefni hér. Indversk brúðkaup taka nokkuð lengri tíma en þau vestrænu og því eru þessar myndir teknar á þremur dögum. Þau eru líka afar litrík eins og sjá má, fáar s/h myndir sem koma út úr svona töku! Ég mæli með full-screen valmöguleikanum í gallery-inu.

Gummi og Namita

Stundum fær maður verkefni sem eru ævintýri. Brúðkaupið þeirra Namtiu Kapoor og Guðmundar Vigfússonar um síðustu helgi í San Francisco var eitt af þeim. Gumma hef ég þekkt síðan ég réði hann til starfa í Diktu forðum daga, en hann var þá að læra ljósmyndun og var asskoti efnilegur, auk þess að vera með eindæmum fínn náungi. Okkur varð fljótt vel til vina og því þótti mér vænt um þegar hann hafði samband og spurði hvort ég gæti ljósmyndaði fyrirhugað brúðkaup hans og Namitu.

Ekki óraði mig samt fyrir því sem var í vændum. Indverskt brúðkaup er svolítið annað og meira en það sem við bleiknefjarnir þekkjum. Ef ég ber það saman við hefðbundið íslenskt brúðkaup eru það svona eins og þrjú eða jafnvel fjögur slík. Það eru fjölmargir siðir og hefðir sem stórfjölskyldan gerir saman fyrir brúðkaupið. Umgjörðin er öll litrík og flott, en umfram allt er fádæma gleði og vinátta í loftinu sem maður smitast af strax frá fyrstu mínútu.

Eins og gefur að skilja tekur maður fleiri frekar en færri myndir í svona verkefnum. Allt er nýtt fyrir manni og ég vildi alls ekki missa af e-h mikilvægu. Þegar upp var staðið var ég með rúmlega 6000 ramma til að þræla mér í gegnum.

Myndirnar sem rúlla á forsíðunni núna (verða farnar ef þú lest þennan póst seinna) eru frá bara frá fyrsta deginum þegar Mehndi og Sangeet fór fram. Brúðurinn er máluð á höndum og fótum með málningu sem er kölluð Henna. Aðrar konur, bæði fjölskylda og vinir eru einnig málaðar þessum mynstrum, þó ekki eins mikið en brúðurin. Nafn brúðgumans er falið í mynstrinu. Sangeet er veisla þar sem fjölskyldur brúður og brúðguma dansa og syngja saman – og auðvitað borða dásamlegan mat. Sniðug hefð sem hristir alla saman fyrir sjálft brúðkaupið.

Góðir vinir eru ómetanlegir. Að fá að taka þátt í svona veislu fyrir líkama og sál var meiriháttar. Takk fyrir mig Gummi og Namita!

Helga og Ásmundur


Palli flottur að venju. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 35mm f/1.4L

Þau Helga og Ásmundur gengu í það heilaga 25. október síðastliðinn. Flott par sem átti mjög fallegan dag, athöfn í Háteigskirkju, myndataka í studio á eftir (það var of kalt fyrir útimyndatöku) og svo veislan í turninum við Smáratorg.

Páll Óskar sá um sönginn í kirkjunni og sannaði að hann er sá besti í bransanum. Ég hef skotið ófá brúðkaupin þar sem hann syngur og í hvert sinn langar mig til að hætta að mynda og bara hlusta. Fagmennska hans er einstök.


Steggjavídeóið getur verið pínlegt. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 50mm f/1.2L

Ég var annars nokkuð spenntur að mynda í fyrsta skipti í veisluturninum. Flottur salur með svona tæknivæddu ljósakerfi og öllu tilheyrandi. En eins og oftast er með svona veislur er ljósmagninu stillt í hóf til að hafa kósý stemningu. Það er því eins gott að mæta með björtu linsurnar og styrka hönd. Nánast allt skotið á stærsta opi – f/1.2 og mesta lagi á 1/60s og það á ISO 3200!


Brúðartertan var listaverk. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 50mm f/1.2L

Veislan var flott, maturinn framúrskarandi og félagskapurinn á borðinu mínu skemmtilegur. Það spillir nú ekki fyrir þar sem maður er nú hálfgerður wedding crasher í svona veislum. Brúðhjónin hljóta að vera mjög sátt með þennan dag. Nú er bara að sjá hvort þau verði ekki líka sátt við myndirnar.


Brúðarvalsinn stiginn af öryggi. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 50mm f/1.2L

Ragna og Bragi


Kjóllinn lagaður fyrir stóru stundina. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 35mm f/1.4L

Ég var að klára myndvinnslu á brúðkaupi Rögnu og Braga sem ég ljósmyndaði hinn örlagaríka dag 13. september. Það var sama dag og ég lenti í bílslysinu. Ég man lítið sem ekkert frá deginum og því var svolítið sérstök upplifun að vinna úr þessum myndum.

Þau voru gefin saman í Bessastaðakirkju og þrátt fyrir að vera orðinn vel sjóaður í þessum bransa var þetta í fyrsta skipti sem ég myndaði athöfn þar. Bessastaðakirkja er langt frá því að vera björt, hún er eiginlega með þeim erfiðari. Ég hef það fyrir reglu að taka út aðstæður í þeim kirkjum sem ég hef ekki myndað áður og mætti því á æfinguna til að mæla ljósið og gera prufur með flass. Ég nota reyndar flass sama og ekkert. Bara í neyð til að frysta hreyfingu og ef það vantar uppfyllingarljós í skuggasvæðin. Þessa athöfn myndaði ég alla á ISO 3200 og á ljósopum frá f/1.2 til f/2.0. Myndin hér fyrir neðan er t.d. skotin á ISO 3200 og f/1.4 – 1/125s. Dýptarskerpan á svona stóru opi er sama og engin og því mikilvægt að negla fókusinn. Sumum finnst óþægilegt að vinna svona en ég er eiginlega alveg orðinn háður því!


Leikið með hringapúða. Canon EOS 1D Mark III, EF 85mm II  f/1.2L

Það viðraði ekki beint til útimyndatöku þennan dag. Við fórum því hingað á Hverfisgötuna í sjálfa myndatökuna. Hún gekk vel, krakkarnir voru vel með á nótunum eins og sjá má.