Er framtíðin án spegils?

Á Vestfjörðum, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/8 - 1/80s @ ISO 100
Á Vestfjörðum, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/8 – 1/80s @ ISO 100

Ég fékk lánaða Sony A7r hjá Nýherja í viku ferðalag um Vestfirði og Strandir í byrjun júní. Mig langaði að kynnast þessari verðlaunavél betur – í aðstæðum sem ég sá fyrir mér að hún hentaði vel. Stundum kemur sér vel að vera með léttari vél, sem maður grípur í og smellir bara af. Ég ákvað því að nota vélina mest án þrífót, nota auto-ISO og nota eingöngu þessar tvær sony/ziess linsur sem ég fékk lánaðar með vélinni: FE 35mm f/2.8 ZA og FE 55mm f/1.8 ZA.

Eldhraun við sólsetur, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/11 - 1/60s @ ISO 1000
Eldhraun við sólsetur, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/11 – 1/60s @ ISO 1000

Í stuttu máli kom vélin ákaflega vel út. Myndgæðin eru verulega góð, flagan í henni er sú sama í grunninn og í Nikon D800/E, þó að Nikon vinni öðruvísi úr gögnunum. Samt sem áður eru skrárnar keimlíkar Nikon D800/E hvað varðar lita- og tónadýpt. Sony A7r er létt og skemmtileg, húsið er verklegt, liggur vel í hendi og rafræni skoðarinn sá besti sem ég hef notað. Skjárinn er líka góður, nægilega bjartur til að hægt sé að nota hann í sól og frábært að fá histogram og hallamál fram bæði í rafræna skoðaranum og á skjánum. Ljósmælingin var almennt mjög fín, vélin var oftast að negla mælinguna – án þess að sprengja háljósin.

Litla Hlíð við Þingeyri, Sony A7r, FE 55mm f/1.8 ZA, f/1.8 - 1/5000s @ ISO 100
Litla Hlíð við Þingeyri, Sony A7r, FE 55mm f/1.8 ZA, f/1.8 – 1/5000s @ ISO 100

Ziess linsurnar eru virkilega fínar, góð skerpa, litir og mikrokontrast. Fókusinn er þokkalega hraður, þó að hann eigi nú töluvert í land með að ná fókushraða D-SLR. Þannig að A7r er tæpast vélin sem maður grípur í til að ljósmynda mikið action. Ég veit að töluvert af ljósmyndurum hafa fengið sér Sony A7r til að að bæta við D-SLR kitið, ekki síst Canon ljósmyndarar sem vilja hafa möguleika að fá meiri upplausn. Þá notast menn gjarnan við millihringi t.d. frá Metabones til að nota Canon EF linsur.

Lund Rover við Lómagnúp, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/8 - 1/100s @ ISO 100
Lund Rover við Lómagnúp, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/8 – 1/100s @ ISO 100

Sony A7r er frábær vél og góð kaup þar sem verðið á henni er það lægsta sem sést hefur fyrir full-frame 36MP myndavél. Það er því ekki skrítið að hún hefur fengið mjög góðar viðtökur um allan heim. Canon notendur hafa margir stokkið á hana til að hafa möguleika á því að nota bestu Canon glerin á vél sem gefur meiri upplausn en Canon býður upp á. Nikon D800 eigendur eiga kannski svolítið erfiðara með að réttlæta kaupin. Helsti gallinn við hana að það vantar sárlega góðan víðvinkill frá Sony. Jú, vissulega er hægt að nota millihringi og þannig nota gleiðhornalinsur frá Nikon. En heila málið fyrir mér er að fá létta vél, með nettum linsum sem virka fullkomlega með vélinni. Að troða Nikkor gleiðhornalinsum framan á hana með aðstoð millihringja er ekki alveg málið að mínu mati.

Sólarupprás við Arnarfjörð, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/8 - 1/20s @ ISO 100
Sólarupprás við Arnarfjörð, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/8 – 1/20s @ ISO 100

Engu að síður blóðlangar mig í Sony A7r, hún kemur með nýja möguleika og það eitthvað sem heillar mig alltaf. Vélin lætur lítið yfir sér og fólk verður ekki eins hrætt við mann vs. þegar maður mundar D-SLR fyrir framan það. Myndgæðin eru frábær og gæðin sem hún skilar með því allra besta sem gerist á markaðnum í dag. Það er eitthvað mjög heillandi við að hafa svona netta græju með sér og taka snap-shot sem eru samt sem áður í toppgæðum.

Ég get því óhætt mælt með Sony A7r og hvet alla til að kynna sér þennan kostagrip betur.

Vantar fókus?

Fókus er mikilvægur í ljósmyndun, sérstaklega þegar ljósmyndað er á þann hátt að dýptarskerpa er ekki mikil. Sjálfvirki fókusinn í stafrænum myndavélum verður sífellt fullkomnari og hraðvirkari. Margir ljósmyndarar (ég þar með talinn) uppfæra gjarnan búnað sinn þegar nýjar og hraðvirkari vélar koma á markað. En nýjar vélar tryggja ekki betri myndir, því miður.

Ég man þegar ég var nýlega búinn að fá Nikon D3s og fór í verkefni þar sem ég ljósmyndaði dansara heilan dag. Ég skaut  mjög mikið, því vélin bauð jú upp á mikinn hraða og fókuskerfið var alveg magnað. Þetta var tveggja daga verkefni og eftir fyrri daginn var kom ég í hús með um 1500 ramma. Ég byrjaði að fara yfir efnið og sá fljótt að þrátt fyrir að vera með besta verkfærið á markaðnum í svona tökur, var ég ekki með hátt hlutfall af  góðum römmum. Þetta var alveg í lagi skerpu- og lýsingarlega, en þegar maður myndar dansara er tímasetningin mikilvægust. Ég var með mikið að af myndum sem voru annað hvort teknar aðeins of snemma eða of seint – þrátt fyrir að vera að skjóta á köflum 8-9 ramma á sekúndu!

Ég klóraði mér svolítið í hausnum yfir þessu og skoðaði myndir sem ég hafði tekið fyrir nokkrum árum við áþekkar aðstæður. Þá hafði ég unnið með vél sem var engan vegin eins hraðvirk, hvorki fókuskerfið né geta hennar við að háma í sig megapixla endalaust. Mappan sú geymdi hins vegar mun hærra hlutfall af góðum myndum. Ég kveikti strax á því hvað ég var að gera vitlaust.

Með nýju ofurvélina í höndunum fór ég að trúa því að hún skipti meira máli en hausinn á mér. Seinni tökudaginn tók ég mun færri myndir. Ég kom samt með mikið fleiri góða ramma í hús. Ástæðan var sú að ég fór að nota minn eigin fókus. Ljósmyndari sem er orðinn meira upptekinn af búnaðnum en myndefninu tekur seint góðar myndir.

Er minna meira?

Canon S100

Það er mikið um að vera á myndavélamarkaði um þessar mundir. Framleiðendur keppast við að koma með nýjar vélar og útspil Nikon með sitt nýja mirrorless Nikon 1 kerfi virðist fara nokkuð vel af stað, ef marka má sölutölur vestanhafs.

Sjálfur er ég ekkert rosalega spenntur yfir þessum mirrorless vélum með útskiptanlegum linsum. Undantekningin er helst Fuji Pro X1 – þó ekki nema bara fyrir það hversu falleg hún er. Hvort ég kæmi til með nota svona vél mikið er annað mál. Ég hef nefnilega aldrei náð almennilegum tökum á því að nota rangefinder í annað en statísk viðfangsefni. Fínt í landslag og hluti þar sem maður hefur nægan tíma til að ramma viðfangsefnið inn og fókusera. Í portrett og önnur dýnamískari viðfangsefni er ég glataður með rangefinder.

Vetrarstemning við Bugðu. Canon S100 @ISO 80/16:9 Crop Mode RAW+JPEG
Canon G1X

Svo finnst mér það bara vera e-h þannig að annað hvort nota ég með vél með skiptanlegum linsum (D-SLR) eða bara litla handhæga vél með góðu zoom-sviði. Því er ég töluvert spenntur fyrir Canon G1X. Hún er með mjög stórum skynjara miðað við aðrar vélar af þessari stærðargráðu og sýnishornamyndirnar sem ég hef séð úr henni lofa mjög góðu. Útlitið er reyndar svolítið kanntað og klossað, hún virkar eiginlega eins og eldra módel af G-línunni, en það er svo sem aukaatriði.

Í gegnum tíðina hef ég átt svolítið af stafrænum vasamyndavélum. Flestar hafa átt það sameiginlegt að rísa ekki undir væntingu mínum og verið afar lítið notaðar.

Það breyttist þó með komu Canon S90. Hún var sú fyrsta sem bjó yfir nógu miklum myndgæðum að ég nennti að taka hana með mér. Nú er ég svo kominn með Canon S100 sem er snyrtileg uppfærsla. Á milli kom reyndar S95, sem var uppfærsla sem mér fannst ekki taka því að fara út í.

Canon S100 hefur nýjan CMOS skynjara, en Canon S90 og S95 hefur CCD skynjara. Hann skilar aðeins meiri upplausn (12 vs 10 MP) og töluvert betri gæðum á hærri ISO stillingum, en það munar um það bil einu ljósopi. Canon S100 ræður ennfremur við Full HD video / 1080p @ 24 fps. Það er svo hægt að fókusera enn nær í macro tökum eða niður í 3 cm úr 5 cm.

Piparkökuhús með sætu þaki. Canon S100 @ISO 400/RAW

Linsan er nefnilega ný, en hún dekkar nú stærra brennivíddarsvið sem samsvarar 24-120mm miðað við 35mm format.  Á Canon S90/95 er það 28-105mm. Einn ókostur við nýju linsuna er sá að stærsta ljósop á lengri endann er f/5.9 vs. f/4.9 áður. Einnig er ljósop f/2.0 eingöngu mögulegt á víðustu 24mm stillingu. Á 35mm brennivídd er stærsta ljósop f/2.8 á meðan Canon S90/95 býður ennþá f/2.0. Kannski ekki margir að velta sér upp úr þessu, en ég var hrifinn af því að geta notað f/2.0 á 35mm brennivídd til þess að einangra viðfangsefnið frá bakgrunni betur.

Nýtt í S100 er innbyggð GPS hnit og ND filter auk þess sem hægt er að skjóta ofurhæg myndskeið á 240 fps. En stærðin á slíku myndskeiði er reyndar takmarkað við 320×240 pixla. Full HD videoið er býnsa gott, sérstaklega ef maður er að mynda við þokkaleg birtuskilyrði og hristivörnin hjálpar til við að halda myndinni sæmilega stöðugri við töku. Dæmi um slíkt má sjá hér að ofan.

Hér er svo að finna fleiri myndir úr Canon S100 – lykilorðið er S100. Ég ákvað að hafa aðgengi að fullri upplausn svo þið getið halað myndunum niður til að skoða útkomuna betur. Ég hef ekki skerpt myndirnar í eftirvinnslu og leiðrétti ekki linsuna eins og auðvelt er að gera. Allar myndirnar eru skotnar í RAW og unnar í Lightroom 4 beta.

Vinsamlegast virðið höfundarréttinn og notið myndirnar aðeins í þessum eina tilgangi.

 

Nýjir möguleikar

Ari Carl út við Sandavað. Skotið á Nikon D3s með tveimur SB-900 flössum í regnhlíf. PocketWizard MiniTT1 og FlexTT5 notað. Ljósop f/5.6 og 1/1000s.
Skotið með PocketWizard MiniTT1/FlexTT5. Ljósop f/5.6 og 1/1000s.

Ólíkt sem margir halda er sól og heiðskír himinn sjaldnast óskabirta ljósmyndarans. Að minnsta kosti ekki yfir miðjan daginn, því þá er ljósið gríðarlega hart og um hásumarið er sólin svo hátt á lofti að lítið er um skugga í landslagi. Sömu sögu er að segja þegar maður tekur mannamyndir úti við – sólin er þá oft helsti óvinurinn. Til að fólk verði ekki grettið og píreygt á myndum þarf að finna skugga eða snúa því undan sterku sólarljósinu og nota flass til að lýsa upp andlitin.

Það gefur auga leið að það þarf nokkuð öflug flöss til að vega upp á móti sólarljósi. Profoto Pro 7b 1200, Pro B3 1200 og AcuteB2 600 eru frábær ljós – en með prís í stíl. Helsti ókosturinn við að nota D-SLR vélar með þessum og sambærilegum ljósum er takmörkun á lokarahraða, en flestar D-SLR vélar geta ekki unnið á hraðari lokararhraða en 1/200s eða 1/250s með þeim. Það þýðir að á heiðskírum sumardegi þarf að vinna á ljósopi f/11 – f/16 og 1/200s lokarahraða miðað við ISO 100. Það útheimtir bæði mikið afl frá flassinu og takmarkar hvaða ljósop við höfum til afnota til að stýra dýptarskerpu.

Bæði Nikon og Canon hafa þó boðið upp á High Speed Sync með sínum eigin flössum. Hins vegar hafa IR-sendarnir frá þeim ekki verið mjög áreiðanlegir úti við eða þegar staðsetja þarf flassið á þann hátt að bein sjónlína frá IR-sendi að flassi rofnar.

Pineapple desert for the BBQ (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)
PocketWizard MiniTT1 og FlexTT5 notað. Ljósop f/2.0 og 1/6400s.

PocketWizard hefur leyst þetta vandamál með nýju MiniTT1 og FlexTT5 græjunum. Þar sameinast kostir útvarpsbylgjusendis (Radio Signal) við sjálfvirkni TTL ljósmælingar. Nú er hægt að nota litlu flössin af meira öryggi og eftir að hafa leikið mér með þetta kerfi í svolítinn tíma verð ég að segja að það virkar betur en ég þorði að vona!  Stærstu kostirnir eru að fá TTL-ljósmælingu við að blanda dagsljósi og flassi saman og að geta unnið á stærri ljósopum með hærri lokarahraða. Vissulega þarf að hafa ljósgjafann nokkuð nálægt viðfangsefninu í slíkum tilvikum, en mér finnst ótrúlegt að geta fengið flass til að ganga upp á f/2.0 og 1/8000s með Nikon D3s vélinni minni.

 

The Father, Son and the Holy Goat

Hin heilaga linsu þrenning. Það eru til margar uppskriftir.

Nikon virðist ætla sér að einfalda málið þessa dagana með því að bjóða pakka með þremur nýjustu f/1.4 linsunum. Þeir hafa reyndar ekki komið með neina opinbera tilkynningu um þennan pakka. Það merkilega er að verðið er hagstæðara en að kaupa þær í sitt hvoru lagi! Það er auðvitað lógískt í almennum viðskiptum, en hingað til hefur það ekki beint verið stefnan í verðlagningu á ljósmyndadóti.

En þurfum við svona bjartar (og um leið dýrar) linsur? Það fer auðvitað eftir því hvers konar ljósmyndun við stundum og hvaða kröfur við gerum. Þessar þrjár dekka a.m.k. mjög skemmtilegt svið og skilar okkur nothæfum myndum við nánast hvaða birtuskilyrði sem er.

Elísabet 4 ára. Blásið á kertin. (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Hins vegar eru þessar f/1.4 linsur ekkert endilega svo mikið betri en aðrar þegar þær eru stoppaðar niður. Diffraction sést yfirleitt fyrr og því getur borgað sig að nota aðra linsur í þeim tilfellum þegar nota þarf ljósop f/8-11 eða smærra. Þess vegna myndi ég frekar fara af stað með AF-S Nikkor 24-70mm f/2.8G í gönguferð til að mynda landslag, heldur en að burðast með þrjár f/1.4 linsur sem ég væri sífellt að rífa af og setja á, með tilheyrandi möguleika á ryksöfnun á skynjara.

En ég viðurkenni að ég er sökker fyrir þessum björtum linsum. Ég ljósmynda gjarnan við skilyrði þar sem ég hef ekki tíma eða möguleika til þess að stýra lýsingu eða þá hver bakgrunnurinn er. Svona linsur er ómetanlegar í báðum tilfellum.

Ég hef nú þegar eignast nýju Nikkor AF-S 24mm f/1.4G og Nikkor AF-S 35mm f/1.4G. Ég er svo með demo eintak af Nikkor AF-S 85mm f/1.4G í láni um helgina frá Beco. Ég rá reyndar fyrir Nikkor AF 85mm f/1.4D sem er frábært gler, skarpt og fallegt, en sjálfvirki fókusinn mætti vera hraðvirkari. Við aðstæður þar sem viðfangsefnið er á hreyfingu á hún oft í erfiðleikum. Optíkst hélt ég að það væri tæpast hægt að toppa hana en nýja G-linsan gerir það. Og maður lifandi hvað AF-S fókusinn munar miklu, hraðvirkur og nákvæmur. Linsan skilar ennfremur svæðum sem eru út úr fókus (bokeh) afskaplega mjúkum og fallegum, eins og við mátti búast.

Canon á sínar frábæru: Canon EF 24mm f/1.4L II, Canon EF 35mm f/1.4L og Canon EF 85mm f/1.2L II. Ég átti þær allar um tíma, auk þess sem Canon EF 50mm f/1.2L og Canon EF 135mm f/2L voru gjarnan í töskunni. Allt frábær gler. En ef ég ætti að velja þrjár af þessum fimm held ég að ég myndi jafnvel frekar stilla upp 35mm – 50mm og svo 135mm. Canon EF 135mm f/2L er líklega ein allra bestu linsukaup sem ég hef gert. Æðisleg linsa í alla staði, fáranlega fljót að fókusera og skerpa/bokeh yndislegt. Hér er dæmi:

Arndís úti við bústaðinn við Meðalfellsvatn. (Christopher Lund/©2008 Christopher Lund)

Ziess linsurnar fyrir Nikon og Canon D-SLR eru möguleiki líka, sætti maður sig við að missa sjálfvirka fókusinn. Þessar linsur hafa selst mjög vel upp á síðkastið, ekki síst eftir mikla uppfjöllun og lof á ljósmyndakeppni.is. Ég hef nú ekki prófað að setja annað en Distagon T* 2,8/21 ZF og Distagon T* 2/35 ZF á mínar vélar og þær eru a.m.k. á pari við það besta frá Nikon varðandi skerpu og bjögun. Mig langar svolítið að prófa Planar T* 1,4/50 ZF til að bera saman við Nikkor AF-S 50mm f/1.4G sem er eiginlega veikasti hlekkurinn núna í föstu Nikkor f/1.4G línunni. Hún er samt ekkert drasl. Þessi mynd er tekin á hana á f/2 og 1/250s á Nikon D3x @ ISO 6400.

Volcanic eruption in Eyjafjallajökull, 19th of April 2010. On 14th of April 2010 Eyjafjallajökull resumed erupting after a brief pause, this time from the top crater in the centre of the glacier, causing meltwater floods (also known as jökulhlaup) to rush down the nearby rivers, and requiring 800 people to be evacuated. This eruption was explosive in nature and is estimated to be ten to twenty times larger than the previous one in Fimmvörðuháls. This second eruption threw volcanic ash several kilometres up in the atmosphere which led to air travel disruption in northwest Europe for six days from 15 April 2010, including the closure of airspace over most of Europe. (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Eitt er víst. Ef maður eyðir svona miklum tíma og peningum í þennan nördaskap er eins gott að koma annað slagið í hús með ljósmyndir sem eru annað en bara skerputest!

Nýja linsan rokkar

Arndís plokkar rafmagnsgítarinn. ©2009 Christopher Lund.

Fyrir rúmum mánuði eignaðist ég nýju 24mm f/1.4L II linsuna frá Canon. Var lengi búin að langa í þessa brennivídd í þessari föstu og hröðu L-línu. Ég prófaði fyrstu kynslóð af henni og þótt hún sé góð þá fannst mér hún vera nokkuð lakari en t.d. 35mm f/1.4L sem ég á líka og er ein af mínum uppáhalds linsum.

Á þessum mánuði hef ég notað linsuna töluvert það er skemst frá því að segja að hún stendur undir væntingum og vel það. Teikningin í henni er falleg, bjögun furðu lítil og bakgrunns-blurið dásamlegt.

Stoppuð niður í f/2.0 eins og á þessari mynd af Arndísi er hún snilld, nær fram öllum smáatriðum og þolir mótljósið vel. Það eru ekki notuð nein ljós við tökuna, hér er eingöngu um dagsljós frá gluggum að ræða. Skotið á 5D Mark II á ISO 800, f/2.0 og 1/80s. Dýptarskerpan er að sjálfsögðu ekki mikil, en það er jú með ráðum gert.

100% crop frá sömu mynd.
100% crop frá sömu mynd.

Það er því óhætt að mæla með þessu gæðagleri, ef ykkur vantar gleiðhornalinsu sem hægt er að nota í mjög döpru ljósi og/eða til að einangra viðfangsefnið frá bakgrunninum.

Myndir ársins og nýjar TS-E frá Canon

Myndir ársins 2008 opnar í­ Gerðarsafni í­ dag kl. 15.00. Vert er að taka það fram að frítt er á sýninguna eins og áður. Hún er alltaf vel sótt, Golli sagði mér í gær að hún væri árlega mest sótta sýning Gerðarsafns. Það kemur ekki á óvart. Þessi ljósmyndasýning er baksýnisspegill þjóðarinnar.

Um að gera að skella sér og mingla við kollegana. Reyndar er frekar vonlaust að skoða sýninguna vel í dag út af mannfjöldanum. Fyrir mitt leyti kemur það ekki að sök. Ég prentaði sýninguna og er því líkast til búinn að skoða hana manna best.


Háskólatorg. Canon EOS 1Ds Mark III, TS-E 24mm f/3.5L

Ég er farinn að verða spenntur fyrir komu nýju Tilt/shift linsanna fá Canon. Sjálfur á ég 24mm og 90mm TS-E sem ég nota mikið. 90mm linsan er skörp og fín, en 24mm linsan mætti vera skarpari, sérstaklega út í hornin. Ég var búinn að spá því að Canon myndi uppfæra víðustu TS-E linsuna, en átti ekki von á því að þeir kæmu með nýja enn víðari.


Sléttuvegur. Canon EOS 1Ds Mark III, TS-E 24mm f/3.5L

Ég reikna fastlega með að uppfæra 24mm TS-E linsuna mína, en er ekki viss um að ég tími að splæsa í þessa 17mm. Það er ekki bara óhagstætt gengi sem spilar inn í þá ákvörðun.

Persónulega finnst mér þessar ultra-víðu linsur ekki eins skemmtilegar. Ég á 16-35mm f/2.8L II sem ég nota m.a. í interior arkitektúr. Mér leiðist hins vegar þegar ég þarf að nota hana mikið á víðasta endanum. Bjögunin er svo svakaleg að ég upplifi mig sem argasta lygalaup þegar myndir af 20fm rými eru farnar líta út eins og 100fm salakynni! Hins vegar veit ég svo sem um hús sem hægt væri að gera mjög skemmtilega hluti með svona 17mm TS-E. Þannig að maður á aldrei að segja aldrei.

Annars ég bara góður. Bísnessinn er nokkuð þéttur, þrátt fyrir allt. Maður kvartar ekki á meðan.

Fókusinn í lagi?


Ari Carl í Paradís. Canon EOS 5D Mark II, EF 35mm f/1.4L

Sumir vilja meina að fókusvandamál D-SLR myndavéla hafi verið að aukast. Ég held reyndar ekki að um aukningu sé að ræða. Það gefur auga leið að með hærri upplausn sjáum við myndirnar í meiri smáatriðum og því sjást bara allir gallar betur.

Sjálfvirkur fókus er samspil myndavélar og linsu. Sérhver framleiðandi hefur sína staðla varðandi frávik í nákvæmni tækjanna. Það er vel hugsanlegt að fá í hendurnar myndavél eða linsu sem hefur rétt sloppið í gegn, miðað við þessi frávik. Ef bæði vélin og linsan hafa verið á sitt hvorum pólnum, má vera að fókusplanið sé aðeins framar eða aftar en það á að vera.

Hér áður fyrr var lítið að hægt gera en að fara með dótið í viðgerð. Þá setti þjónustuaðilinn vél og linsu í sérhannað mælitæki til að kvarða fókusinn að nýju.

En nú hafa framleiðendur myndavélanna byrjað að setja fókus fínstillingar inn í hugbúnað myndvélanna þannig að notendurnir geta stillt hugsanlegt frávik sjálfir. Vélarnar sem ég þekki til að hafi slíkar stillingar eru: Canon 1D Mk III, 1Ds Mk III, 5D Mk II, 50D, Nikon D3, D3x, D300, D700, Sony A900 og Pentax K20.


Custom Functions til að fínstilla fókus í Canon EOS 1Ds Mark III.

En hvernig fer maður að því að kanna nákvæmni sjálfvirka fókusins?
Og ef við sjáum frávik, hvernig leiðréttum við það?

Það er orðinn til stór hliðarmarkaður fyrir stafrænar myndavélar með alls kyns hjálparbúnað. Það tók því ekki langan tíma fyrir markaðinn að koma með búnað sem er eingöngu ætlaður í það að ákvarða hvort sjálfvirki fókusinn sé réttur og aðstoða við leiðréttingar. LensAlign er örugglega fín græja, en mér finnst verðið nokkuð hátt.

Hér er önnur leið sem ég fann á Netinu um daginn.

Við byrjum á því að sækja þessa skrá og opnum hana svo á skjánum í 100% stækkun. Því næst setjum við myndavélina á þrífót og sjáum til þess að hún vísi alveg beint á skjáinn úr sömu hæð. Það er mjög mikilvægt að það sé engin skekkja. Fjarlægðin frá skjánum þarf að vera a.m.k. 50x lengri en brennivídd linsunnar sem við erum að prófa. Dæmi: 35mm linsa þarf að vera 35mm x 50 = 1750mm frá eða 1.75m. Ef við erum að prófa zoomlinsu notum við lengstu brennivíddina. Við veljum miðpunktinn á fókus sérstaklega og stillum á one-shot fókus (ekki eltifókus). Síðan stillum við linsuna handvirkt á óendanlegt og látum svo vélina um að stilla skarpt (setjum linsuna á óendanlegt og ræsum svo fókusinn þaðan). Því næst kveikjum við á Live view.


Greinilegur móri = nákvæmur fókus.

Ef fókusinn er í lagi á myndin að sýna mjög greinilegt móra mynstur líkt og við sjáum á myndinni hér að ofan. Prófaðu næst að sjá hvort þú getur fengið það enn sterkara fram, með því að stilla fókusinn handvirkt fram eða aftur. Ef það gerist er fókusinn ekki 100% nákvæmur. Ef hann er nokkuð langt frá birtist myndin svona í Live view.


Enginn móri = ónákvæmur fókus.

Það borgar sig að framkvæma þetta próf nokkrum sinnum. Ef nákvæmnin er ekki í lagi þarftu að finna út hvort vélin sé að fókusera fyrir framan eða fyrir aftan rétt fókusplan (front- eða backfocus). Þú snýrð fókushringnum til að fá örlítið styttri vegalengd – verður mynstrið greinilegra? Ef svo er þá eru um bakfókus að ræða. Ef mynstrið er minna sýnilegt er um framfókus að ræða.

Svo er bara að prófa sig áfram með að setja inn gildi í Custom Functions og endurtaka prófið til að sjá hvort úkoman sé betri.

Ég gerði þetta próf á Canon EOS 1Ds Mark III og 5D Mark II á öllum helstu linsunum mínum. Mér til ánægju var fókusinn í góðu lagi. Það kom mér svo sem ekki á óvart, því ég hafði ekki orðið var við fókusvandamál. Vissulega hef ég tekið myndir þar sem fókusinn er ekki á réttum stað! En ég var nokkuð viss um að orsökina væri að finna hjá trommuheilanum, sjálfum mér.

Fastbúnaðaruppfærsla fyrir EOS 5D Mark II


Frændurnir Erling og Halldór á góðri stund. Canon EOS 5D Mark II, EF 50mm f/1.2L

WTF er fastbúnaðaruppfærsla? Á ensku heitir það firmware update.Til að standa við loforðið um nördapóst ákvað ég að skella þessu inn.

Það er sem sagt komin svokölluð fastbúnaðaruppfærsla á Canon EOS 5D Mark II. Eigendur slíkra gæðagripa geta sótt uppfærsluna hér. Þegar því er lokið er aðferðin í grófum dráttum svona:

 1. Sækja skrána á vef Canon.
 2. Forsníða minniskortið í vélinni.
 3. Afrita skrána yfir á rótina á minniskortinu.
 4. Athuga hvort rafhlaðan sé fullhlaðin eða tengja vélina beint við rafmagn (trúðu mér – þú vilt ekki að vélin verði rafmagnslaus í þessari aðgerð!).
 5. Opna Menu á vélinni og finna Setup – 3 (guli skiptilykillinn lengst til hægri). Velja þar Firmware Ver. x.x.x.
 6. Velja OK og uppfærslan hefst.
 7. Uppfærslan tekur nokkra stund. Á meðan má alls ekki snerta neina takka á vélinni og auðvitað ekki slökkva á henni heldur.
 8. Þegar uppfærslu er lokið færðu staðfestingu upp á skjáinn.
 9. Slökkva á vélinni, taka rafhlöðuna úr í nokkrar sekúndur, setja aftur í og kveikja á vélinni.
 10. Nú ertu komin með nýjasta hugbúnaðinn inn á vélina!
 11. Anda inn róandi, anda út brosandi.

Jólin komu snemma í ár


Arndís málar sig. Canon EOS 5D Mark II, EF 50mm f/1.2L

Ég sá eftir því að hafa selt fimmuna mína. Þó að hún væri ekki eins sterkbyggð og ásarnir og ekki með eins öflugt fókuskerfi var hún samt svo frábær. Þegar ég spái í það þá er Canon EOS 5D líkast til bestu myndavélakaup sem ég hef gert. Frábær myndavél fyrir peninginn og stendur enn fyrir sínu.

Það var því alveg klárt að ég myndi fá mér næstu kynslóð af fimmunni þegar hún kæmi. Mig grunar líka að nýja fimman eigi ekki eftir að reynast lakari fjárfesting (hún tvöfaldaðist reyndar í verði frá því að ég pantaði hana og þangað til ég fékk hana í hendur, en það er önnur og leiðinlegri saga.).

Í gærkvöldi voru kjöraðstæður til að reyna nýja gripinn. Stelpurnar mínar voru að leika sér að mála sig og eini ljósgjafinn í þessum myndum er jólasería sem hangir í kringum spegilinn. Myndin af Arndísi hér að ofan er tekin á ISO 3200 og þessar af Bjargey eru teknar á ISO 6400. Fljótt á litið sýnist mér fimman gefa mér sömu gæði á ISO 6400 og Mark III ásarnir skila á ISO 3200. Auk þess get ég pressað hana tvo stopp í viðbót upp að ISO 25600 sem er náttúrlega bara bull! Ég hef reyndar ekki prófað það ennþá, fyrir utan nokkur skot í gær á ISO 12500. Þau voru gróf, en myndu samt alveg ganga í mörgum tilfellum.


Bjargey málar sig. Canon EOS 5D Mark II, EF 50mm f/1.2L


100% crop, þetta er skotið á ISO 6400!

Ég myndaði svo ballettíma hjá Bjargey í dag, flakkaði á milli ISO 800-3200, allt eftir því hvaða linsu ég notaði. Tók saman nokkrar myndir sem má skoða hér. Til að vinna úr þessum skrám í Lightroom þurfti ég að sækja nýjasta Adobe DNG Converter og byrja á því að breyta .CR2 skránum í .dng þar sem Lightroom 2.1 styður ekki hráfælana. Uppfærslan er handað við hornið samkvæmt Adobe.


Ballettími. Canon EOS 5D Mark II, EF 70-200mm f/2.8L IS

Það er óhætt að segja að vélin stendur undir væntingum. Ég á alveg eftir að skoða video möguleikana, en hún getur líka tekið allt að hálftíma full-HD videomyndir. Það opnar nýja möguleika, en ljósmyndarar erlendis eru að færa sig meira inn á kvikmyndsviðið, sérstaklega sumir auglýsingaljósmyndarar sem eru farnir að bjóða viðskiptavinum að slá tvær flugur í einu höggi. Þar eru RED vélarnar ákaflega spennandi og ljóst að framtíðin í þessum geira er mjög áhugaverð!