Vantar fókus?

Fókus er mikilvægur í ljósmyndun, sérstaklega þegar ljósmyndað er á þann hátt að dýptarskerpa er ekki mikil. Sjálfvirki fókusinn í stafrænum myndavélum verður sífellt fullkomnari og hraðvirkari. Margir ljósmyndarar (ég þar með talinn) uppfæra gjarnan búnað sinn þegar nýjar og hraðvirkari vélar koma á markað. En nýjar vélar tryggja ekki betri myndir, því miður.

Ég man þegar ég var nýlega búinn að fá Nikon D3s og fór í verkefni þar sem ég ljósmyndaði dansara heilan dag. Ég skaut  mjög mikið, því vélin bauð jú upp á mikinn hraða og fókuskerfið var alveg magnað. Þetta var tveggja daga verkefni og eftir fyrri daginn var kom ég í hús með um 1500 ramma. Ég byrjaði að fara yfir efnið og sá fljótt að þrátt fyrir að vera með besta verkfærið á markaðnum í svona tökur, var ég ekki með hátt hlutfall af  góðum römmum. Þetta var alveg í lagi skerpu- og lýsingarlega, en þegar maður myndar dansara er tímasetningin mikilvægust. Ég var með mikið að af myndum sem voru annað hvort teknar aðeins of snemma eða of seint – þrátt fyrir að vera að skjóta á köflum 8-9 ramma á sekúndu!

Ég klóraði mér svolítið í hausnum yfir þessu og skoðaði myndir sem ég hafði tekið fyrir nokkrum árum við áþekkar aðstæður. Þá hafði ég unnið með vél sem var engan vegin eins hraðvirk, hvorki fókuskerfið né geta hennar við að háma í sig megapixla endalaust. Mappan sú geymdi hins vegar mun hærra hlutfall af góðum myndum. Ég kveikti strax á því hvað ég var að gera vitlaust.

Með nýju ofurvélina í höndunum fór ég að trúa því að hún skipti meira máli en hausinn á mér. Seinni tökudaginn tók ég mun færri myndir. Ég kom samt með mikið fleiri góða ramma í hús. Ástæðan var sú að ég fór að nota minn eigin fókus. Ljósmyndari sem er orðinn meira upptekinn af búnaðnum en myndefninu tekur seint góðar myndir.

Dansað í desember

Bjargey á æfingu í Jazzballet hjá JSB í Laugardalshöll. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Það er sá tími ársins að foreldrar fá að líta inn á æfingu hjá JSB þar sem Bjargey stundar listdansnám. Stelpurnar taka slíkum framförum að það er óhætt að segja að þær taki flugið. Það var stolltur pabbi sem fylgdist með og smellti af í gríð og er í Laugardalshöll í dag. Hér eru nokkrar fleiri myndir frá æfingunni.

Meiri dans

Í gær var ég mættur enn á ný í Borgarleikhúsið að mynda. Í þetta skiptið var það nemendasýningin hjá JSB, en Bjargey æfir dans þar. Hér má skoða nokkrar myndir frá undirbúningi og generalprufu.

Sýningin var flott, enda búið að æfa stíft undanfarnar vikur. Fjöldi dansara kemur mér alltaf jafn mikið á óvart. Skólinn lætur nefnilega ekki mikið yfir sér í Lágmúlanum en er greinilega vinsæll!

Myndirnar af stelpunum að gera sig klárar eru teknar á Nikkor AF-S 35mm f/1.4G og Nikkor AF-S 85mm f/1.4G. Mér finnst þessar tvær brennivíddir brilljant saman við svona aðstæður – og er sú samsetning sem ég nota oftast. Myndirnar frá sviðinu er hins vegar skotnar með AF-S Nikkor 70-200mm f/2.8G VR II. Ahhhh linsur…

Danssýning

From the Ballet students show 15th of March 2011. Dancers from The Icelandic Classic Dance School. Frá nemendasýningu Klassíska Listdansskólans í Borgarleikhúsinu 15. mars 2011.

Klassíski listdansskólin var með sína árlegu vorsýningu í vikunni sem leið  í Borgarleikshúsinu. Þetta er í fjórða sinn sem ég ljósmynda sýninguna, en dóttir mín Arndís lagði stund á ballet í nokkur ár í skólanum. Fyrstu sýniningarnar ljósmyndaði ég því mest í kringum hana, en undanfarin tvö ár hef ég verið beðinn um að skrásetja sýninguna í heild sinni fyrir skólann.

From the Ballet students show 15th of March 2011. Dancers from The Icelandic Classic Dance School. Frá nemendasýningu Klassíska Listdansskólans í Borgarleikhúsinu 15. mars 2011.

Það er nokkuð krefjandi verkefni að ljósmynda svona sýningu. Fjöldi dansara og ör skipti á milli atriða og lýsingar spilar þar inn – og ekki gengur að smella algjörlega án afláts, þar sem ég sit meðal gesta í salnum og slík hríðskotaáras myndi trufla mikið. Best væri að getað ljósmyndað á meðan generalprufu stendur, upp á að geta breytt sjónarhorni og fengið fleiri en eitt tækifæri til að frysta rétta augnablikið. En þá eru dansararnir ekki komnir í búninga, né búið að mála andlit og greiða hárið.

From the Ballet students show 15th of March 2011. Dancers from The Icelandic Classic Dance School. Frá nemendasýningu Klassíska Listdansskólans í Borgarleikhúsinu 15. mars 2011.

Ég mæti þó vel tímanlega og fylgist með síðustu æfingunum fyrir sjálfa sýninga og smitast af orkunni sem flæðir um. Það er magnað að fylgjast með metnaði allra sem koma að svona sýningu. Þarna eru dansarar á öllum aldri (rúmlega 99% stúlkur auðvitað), allir með sama markmið – að gera sitt besta og vinna saman. Maður sér eftirvæntinguna í andlitum yngstu stelpnanna sem eru að fara á stórt svið í fyrsta skipti.

From the Ballet students show 15th of March 2011. Dancers from The Icelandic Classic Dance School prepare for the show. Frá nemendasýningu Klassíska Listdansskólans í Borgarleikhúsinu 15. mars 2011, nemendur undirbúa sig fyrir sýninguna.

Það er ekki laust við að maður greini blöndu af eftivæntingu og ótta í andlitum sumra foreldra. Það getur verið erfitt að sleppa hendinni af 3-4 ára barni baksviðsí stóru leikhúsi og sjá það ekki aftur fyrr en eftir drjúgan tíma að sýningu lokinni. En í öruggum höndum kennara og aðstoðarfólks gengur allt eins og vel smurð vél og eftir sýninguna sér maður stolltið skína úr hverju andliti.

From the Ballet students show 15th of March 2011. Dancers from The Icelandic Classic Dance School. Frá nemendasýningu Klassíska Listdansskólans í Borgarleikhúsinu 15. mars 2011.

 

Nemendasýning JSB

cld090324_068_jazz_dance
Bjargey á Nemendasýningu JSB 2009

Nemandasýning JSB í kvöld. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 70-200mm f/2.8L IS

Það var stolltur faðir sem tók þessa mynd í kvöld. “Litla” stelpan mín stóð sig frábærlega, eins og þær allar sem dönsuðu fyrir okkur í kvöld. Það kemur ykkur kannski ekki á óvart, en ég ljósmynda þessar sýningar alltaf nokkuð ítarlega. Mér finnst ekki síður gaman að mynda undirbúninginn og reyna að búa til litla myndasögu. Afraksturinn má skoða hér.

Jólin komu snemma í ár


Arndís málar sig. Canon EOS 5D Mark II, EF 50mm f/1.2L

Ég sá eftir því að hafa selt fimmuna mína. Þó að hún væri ekki eins sterkbyggð og ásarnir og ekki með eins öflugt fókuskerfi var hún samt svo frábær. Þegar ég spái í það þá er Canon EOS 5D líkast til bestu myndavélakaup sem ég hef gert. Frábær myndavél fyrir peninginn og stendur enn fyrir sínu.

Það var því alveg klárt að ég myndi fá mér næstu kynslóð af fimmunni þegar hún kæmi. Mig grunar líka að nýja fimman eigi ekki eftir að reynast lakari fjárfesting (hún tvöfaldaðist reyndar í verði frá því að ég pantaði hana og þangað til ég fékk hana í hendur, en það er önnur og leiðinlegri saga.).

Í gærkvöldi voru kjöraðstæður til að reyna nýja gripinn. Stelpurnar mínar voru að leika sér að mála sig og eini ljósgjafinn í þessum myndum er jólasería sem hangir í kringum spegilinn. Myndin af Arndísi hér að ofan er tekin á ISO 3200 og þessar af Bjargey eru teknar á ISO 6400. Fljótt á litið sýnist mér fimman gefa mér sömu gæði á ISO 6400 og Mark III ásarnir skila á ISO 3200. Auk þess get ég pressað hana tvo stopp í viðbót upp að ISO 25600 sem er náttúrlega bara bull! Ég hef reyndar ekki prófað það ennþá, fyrir utan nokkur skot í gær á ISO 12500. Þau voru gróf, en myndu samt alveg ganga í mörgum tilfellum.


Bjargey málar sig. Canon EOS 5D Mark II, EF 50mm f/1.2L


100% crop, þetta er skotið á ISO 6400!

Ég myndaði svo ballettíma hjá Bjargey í dag, flakkaði á milli ISO 800-3200, allt eftir því hvaða linsu ég notaði. Tók saman nokkrar myndir sem má skoða hér. Til að vinna úr þessum skrám í Lightroom þurfti ég að sækja nýjasta Adobe DNG Converter og byrja á því að breyta .CR2 skránum í .dng þar sem Lightroom 2.1 styður ekki hráfælana. Uppfærslan er handað við hornið samkvæmt Adobe.


Ballettími. Canon EOS 5D Mark II, EF 70-200mm f/2.8L IS

Það er óhætt að segja að vélin stendur undir væntingum. Ég á alveg eftir að skoða video möguleikana, en hún getur líka tekið allt að hálftíma full-HD videomyndir. Það opnar nýja möguleika, en ljósmyndarar erlendis eru að færa sig meira inn á kvikmyndsviðið, sérstaklega sumir auglýsingaljósmyndarar sem eru farnir að bjóða viðskiptavinum að slá tvær flugur í einu höggi. Þar eru RED vélarnar ákaflega spennandi og ljóst að framtíðin í þessum geira er mjög áhugaverð!

Meiri dans


Klassíski listdansskólinn. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 70-200mm f/2.8L IS

Þá loksins gafst mér smá tími til að vinna aðeins úr myndunum sem ég tók á vorsýningu Klassíska listdansskólans. Arndís dóttir mín æfir ballet hjá skólanum og sýningarnar verða flottari með hverju árinu sem líður. Hún er búin að æfa í þrjú ár og það er magnað að sjá framfarirnar hjá nemendum á hverju ári.

Ég ætlaði að fá að mynda generalprufuna en klúðraði því þar sem ég misskildi hvenær generalprufan var haldin. Hún var haldin daginn fyrir sýninguna, en ekki sama dag og sýningin – eins og ég hélt. Þá var bara stutt rennsli án búninga, svo ég myndaði nú ekki mikið þar.

Þegar ég verslaði miðana gat ég valið úr lausum sætum. Þrátt fyrir að þurfa að vera alveg út í enda þá valdi ég sæti fyrir mig og fjölskylduna á öðrum og þriðja bekk, frekar en að vera fyrir miðju ofarlega í salnum. Það reyndist vel valið, því ég gat náð helling af myndum frá þessum stað. Venjulega mynda ég bara börnin mín á svona sýningum, en sökum þess hversu vel staðsettur ég var og hversu flottir dansararnir voru gat ég eiginlega ekki hætt að smella af! Afraksturinn má skoða nánar hér. Fyrst gefur að líta myndir af Arndísi við undirbúning og svo myndir frá sýningunni.

Vorverk grasekkils


Á leið á balletæfingu. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 50mm f/1.2L

Það er nóg að gera á stóru heimili. Ekki síst þegar konan er erlendis. Ég er sem sagt grasekkill þessa daganna og því nóg að gera. Það er uppskerutíð hjá börnunum. Arndís æfir stíft fyrir lokasýningu og Bjargey fyrir árshátíð skólans. Litli bróðir er nú ekki enn farinn að æfa neitt – sem betur fer. Frá því að hann opnar augun á morgnanna og þangað til hann dettur út á kvöldin er hann á fullu. Vinnusemin er mögnuð. Hann þarf engan tíma til að vakna. Um leið og hann er búinn að opna augun er kominn nýr dagur með nýjum tækifærum til að leika og læra. Og það er ekki slegið af fyrr en rafhlöðurnar þurfa hleðslu. Stundum óska ég þess að ég gæti uppfært rafhlöðurnar mínar í þessa tegund. Svona eins og að skipta út Nikkel Metal Hydrid fyrir Lithium Ion.


Kíkt á ballerínur. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 50mm f/1.2L

Jazzballet


Generalprufa, Nemendasýning JSB. Canon EOS 1Ds Mark II, EF 35mm f/1.4L.

Bjargey tók þátt í Nemendasýningu JSB þann 12. mars síðastliðinn. Hún er búin að æfa Jazzballet undanfarið ár með miklum áhuga og því var nokkur eftirvænting að fá að sjá afrakstur vetrarins. Ég fékk leyfi til að fylgjast með generalprufunni og gat því ljósmyndað sýninguna betur, heldur en ef ég sæi bara sjálfa sýninguna. Ég stalst meira að segja til að fylgjast aðeins með undirbúningnum og tók þar fleiri myndir sem segja heilsteyptari sögu fyrir vikið. Það er greinilega mikill metnaður á bak við skólann og sýningin var í takt við það. Nemendurnir eru ófáir og því er sýnt tvisvar sama daginn í Borgarleikhúsinu til að allir aðstandendur fái tækifæri til að sjá hana. Það var því bæði stolltur og þreyttur dansari sem kom heim seint um kvöldið. Hér finnið þið fleiri myndir frá þessum degi.

Viðburðarík helgi


Bjargey tekur flugið. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 70-200 f/2.8L IS.

Það er nóg að gera þessa dagana – á öllum sviðum. Jólapantanirnar að drekkja manni og svo var ég svo “sniðugur” að taka að mér vikulangt verkefni fyrir Listasafn Reykjavíkur í síðustu viku, svona til að viðhalda nægri pressu! Krakkarnir eru líka á fullu auðvitað. Við fengum að fylgjast með jazzballet æfingu hjá Bjargey á laugardaginn var. Stelpan er efnileg, annað verður ekki sagt. Við Margrét vorum að rifna úr stollti.

Þetta var annars í fyrsta skipti sem ég notaði nýju vélina af e-h viti. Hún stóð undir væntingum. Ég myndaði ófá gígabæt í viðbót seinna um daginn, enda vel bókaður í tökum. Það var allt studiovinna og spennandi að sjá hvernig nýja vélin gerir sig þar.


Fíflast með Astró. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 50mm f/1.2L

Á sunnudaginn fórum við ásamt systur minni og hennar börnum út í Björnslund hérna í Norðlingaholtinu. Þar tók ég þessa mynd af frændsystkinunum með hundinum Astró. Það var rosa gaman hjá okkur, enda Björnslundur skemmtilegur staður þar sem Norðlingaskóli á úti-kennslustofu. Þar er búið að gera alls kyns leiktæki af norskri fyrirmynd (nema hvað?). En svo átti reyndar gamanið aðeins eftir að kárna. Arndís datt nefnilega úr tré (skömmu eftir að frænka hennar hafði smollið beint á bakið!) og meiddi sig á vinstri höndinni. Norska skógarkattargenið hleypur kannski yfir þennan ættlið?

Í fyrstu héldum við að þetta væri allt í lagi, en þegar heim var komið var ljóst að hér var e-h meira á ferðinni. Fórum því með skvísuna á slysó – og jú stelpan var handleggsbrotin. Þrátt fyrir miklar annir á slysadeildinni biðum við frekar stutt og starfsfólkið tók hlýlega á móti okkur. Arndís slapp betur en haldið var í fyrstu; brotið var ekki mjög slæmt og hún fékk því gips sem við getum sjálf klippt af eftir 2-3 vikur. Þrátt fyrir að vera stressaður með barnið, var ég pínu fúll út í sjálfan mig að taka ekki með myndavélina! Ég veit, ég er ekki alveg normal. En til að skjalfesta atburðinn tók ég myndir á símann minn, nokkuð sem ég geri afar sjaldan. Hugsa að ég fari að gera meira af því miðað við útkomuna. Þetta er sem sagt símamynd úr Sony Ericsson K610i.