Kari Kola

Kari Kola
Photo: © Ville Kokkola

Stundum kynnist maður fólki sem hugsar stærra en aðrir. Kari Kola tilheyrir þeim hópi. Ég hitti hann fyrst sumarið 2015 þegar hann heimsótti okkur Maríu hér á Íslandi. Þau höfðu unnið saman í Norrænu verkefni sem bar nafnið Nordisk Ljus.  Ungmenni frá öllum Norðurlöndunum – dansarar, leikarar og tónlistarfólk – vann í hópum vítt og breitt um Norðurlöndin að verkefni þar sem allir hóparnir sameinuðust í magnaðri sýningu á Finnlandi. Þar var Kari í lykilhlutverki að skapa sjónrænu umgjörðina.

Kari Kola's Magical Garden. This light installation on the Střelecký Ostrov island in Prague is based on dynamic lighting, strong colours and a meditative tempo. (Christopher Lund/©2015 Christopher Lund)
Kari Kola’s Magical Garden. This light installation on the Střelecký Ostrov island in Prague is based on dynamic lighting, strong colours and a meditative tempo. (Christopher Lund/©2015 Christopher Lund)

Þegar hann kom til Íslands var ég upptekinn við að leiðsegja tveimur ljósmyndurum frá Þýskalandi. Kari og María slógust eiginlega með í ferðina, eltu okkur um suðurströndina og gistu á sömu stöðum. Hópurinn náði vel saman og þessi óvænta viðbót var stórskemmtileg fyrir alla. Í framhaldinu spurði hann hvort ég hefði áhuga á því að mynda fyrir sig verkefnin sem voru í farvatninu. Ég var ekki lengi að segja já við því.

Kari Kola's Magical Garden. This light installation on the Střelecký Ostrov island in Prague is based on dynamic lighting, strong colours and a meditative tempo. (Christopher Lund/©2015 Christopher Lund)
Kari Kola’s Magical Garden. This light installation on the Střelecký Ostrov island in Prague is based on dynamic lighting, strong colours and a meditative tempo. (Christopher Lund/©2015 Christopher Lund)

Það fyrsta sem ég ljósmyndaði fyrir hann var innsetning í Prag þar sem hann lýsti upp eyjuna Střelecký ostrov. Með því að lýsa upp tré og skapa stemningu með ljósi, þoku og hljóði bjó hann til fallegt umhverfislistaverk sem hann hefur einnig sett upp í Cascais í Portugal og á ljóshátiðnni Glow í Einhoven. Ég náði því miður ekki að fara til Cascais sökum anna við leiðsögn en Glow myndaði ég í Nóvember 2016. Ég fór líka til Istanbul að mynda Light is here, þar sem Kari lýsti upp fjóra turna – Zorlu Center – á fyrstu ljósahátið sem sett hefur verið upp í Instanbul.

Light is Here - Istanbul Light Festival main piece by Kari Kola. Zorlu Center, Istanbul, Turkey. (Christopher Lund/©2015 Christopher Lund)
Light is Here – Istanbul Light Festival main piece by Kari Kola. Zorlu Center, Istanbul, Turkey. (Christopher Lund/©2015 Christopher Lund)

Þessi verkefni eru með því skemmilegasta sem ég hef gert. Það er frískandi tilbreyting og krefjandi verkefni að fanga stemmninguna sem Kari býr til. Að fá að vinna með honum og teyminu hans er frábært. Finnar eru magnað fólk og mér finnst vera óútskýranleg djúpstæð tenging á milli Íslendinga og Finna.

Light is Here - Istanbul Light Festival main piece by Kari Kola. Zorlu Center, Istanbul, Turkey. (Christopher Lund/©2015 Christopher Lund)
Light is Here – Istanbul Light Festival main piece by Kari Kola. Zorlu Center, Istanbul, Turkey. (Christopher Lund/©2015 Christopher Lund)

Í ár stendur mikið til, því Finnland fagnar 100 ára afmæli sjálfstæðis síns. Kari hefur verið ráðinn til þess að gera risavaxnar innsteningar á sex stöðum um allt Finnland. Ég mun aftur bætast við teymið og skrásetja hluta þessara verka í desember. Til að undirbúa mig fer ég til Finnlands í byrjum mars til að skoða aðstæður. Ég hlakka til að deila því með ykkur.

Ljósmyndaferð í janúar

Leiðsöguárið byrjaði með skemmtilegri ljósmyndaferð með þeim félögum Harry og Dougie. Þeir höfðu samband í desember og vildu fá 5 daga ferð til að ljósmynda norðurljós og veturinn á Íslandi.

Ég sótti þá félaga út á flugvöll seinnipart á þriðjudegi og svo var haldið beint að stað með stefnuna austur. Ég stoppaði fyrst með þá í Seltúni við Krýsvík, svona rétt til að koma þeim í gang – þó að birtan væri alveg að hverfa. Við ókum svo nýja suðurstrandarveginn og fengum dýrindis kvöldmat í Rauða húsinu á Eyrarbakka.

Fyrsti gististaður var hins vegar í Vík í Mýrdal á Hótel Lunda. Morguninn eftir var grenjandi rigning og rok, hressandi suðaustan fyrir allan peninginn. Við fórum af stað um sólarupprás og ljósmynduðum í Reynisfjöru. Þessi staður er nú ekkert síðri í góðu roki!

Reynisfjara black sand beach on the south coast of Iceland. Reynisdrangar sea stacs in background. January morning twilight. (Christopher Lund/©2013 Christopher Lund)

Það þarf að koma gestum okkar vel í skilning um hættuna í Reynisfjöru, en aldan þar getur verið mjög viðsjárverð. Sunnan rokið og rigning gerði okkur líka erfitt fyrir að mynda, enda komu regndropar á linsuna á augabragði. Þetta var fyrsta myndin sem ég tók þennan morgun og sú eina sem reyndist nothæf.

Við eyddum samt morgninum þarna, fórum svo í pylsur í Víkurskála og svo var líka ljósmyndað í fjörunni í Vík. Harry hefur komið tvisvar áður til Íslands og er gjörsamlega vitlaus í SS pylsur. Ekki sá fyrsti af mínum kúnnum sem kann vel við pylsurnar okkar. Lambakjötið í bland við svínið gerir gæfumuninn 🙂

Á leiðinni austur stoppuðum við hjá Foss á Síðu. Harry hafði orð á því að það væri nú meira líf yfir fossinum, en hann sá hann síðast í þurrkatíð að sumri. Regnið kom nú lárétt úr austri, svo það var lítið annað að gera en að mynda í skjóli við bílinn eða húsvegg. Þetta gamla skilti heillaði mig þarna við húsvegginn.

The old sign for the farm Foss á Síðu lies on the ground, by one of the older houses. The waterfall (also called Foss á Síðu) in background. The water comes from a lake called Þórutjörn. (Christopher Lund/©2013 Christopher Lund)

Ferðinni var svo haldið áfram í átt að þjóðgarðinum í Skaftafelli. Við ljósmyndum við Svínafellsjökul áður en birtan kláraðist og héldum svo áleiðis til Bjössa í Gerði, en þar áttum við eftir að gista næstu þrjár næturnar. Það er alltaf gott að koma í Gerði. Eitthvað fannst nú Dougie samt rúmin vera of lítil. Held að hann hafi bara verið fúll út af því að Harry fékk herbergi með tvíbreiðu rúmi. Það leystist þó allt farsællega og báðir voru þeir ánægðir með dvöl sína í Suðursveitinni.

Daginn eftir héldum við út að Jökulsárlóni til að sjá hvort það væri ekki ísjakar á ströndinni. Og maður lifandi, ég hef aldrei séð jafn mikið af ís á ströndinni! Bæði voru klakarnir margir og stórir. Það er strembið að mynda við þessar aðstæður, því þeir renna bara allir saman í rammanum. Ströndin var líka orðinn brött út af briminu og hvergi góður staður til að fanga ölduna á hreyfingu í kringum ísinn. Þá þarf maður að reyna finna form og þess háttar, eða bara skilja vélina eftir í bílnum og taka smá hugleiðslu á þessum magnaða stað.

Eftir dágóðan tíma á ströndinni fórum við upp að lóninu. Þar voru Bandaríkjamenn að taka myndir fyrir fyrirtæki sem framleiðir blautbúninga. Asskoti fínt að fá gaurinn inn í rammann á réttu augnabliki, rétt þegar rofaði aðeins til á himni og þessi hlýja birta kom í skýin fyrir ofan ísinn á lóninu.

Jökulsárlón Glacial Lagoon, Southeast Iceland. A surfer wearing a wet suite paddeling out towards the ice (Christopher Lund/©2013 Christopher Lund)

Dagurinn var fljótur að líða og gestirnir voru afar sáttir í þessu undralandi íssins. Daginn eftir áttum við pantaða íshellaferð með Einari í Hofsnesi. Einar er mikill fagmaður og frábær náungi. Eitthvað fékk Harry þó innilokunarkennd þegar inn í íshellinn var komið. Ég sá að hann var mjög óöruggur á leiðinni inn í hann, enda bæði sleipur ís og mjúk drulla inn í hellinum. Harry er slæmur í hnjánum og átti erfitt með að fóta sig. Þegar við vorum komnir inn var eins og hann ætlaði að fara að taka upp vélina og mynda, en hætti svo snarlega við og dreif sig bara út aftur. Ekkert við því að gera og við Dougie gátum lítið talað um fyrir honum.

Einar Rúnar Sigurðsson, Mountain Guide by the entrance of an Ice Cave in Svínafellsjökull Outlet Glacier.d (Christopher Lund/©2013 Christopher Lund)

Eftir íshellaferðina fór ég með þá félaga yfir í þjóðgarðinn og við fengum fallega birtu til að mynda speglun í tjörnum við Skaftafell. Veðrið var hvað best þennan dag og magnað hvað það er  staðbundið á þessu svæði. Við ókum úr rigningarsudda við Jökulsárlón og við Hof var brjálað rok, en dúnalogn inn við Svínafellsjökul aðeins örfáum kílómetrum austar. Fjöllin og jöklarnir búa til sín eigin veðurkerfi og ómögulegt að reiða sig of mikið á veðurspár á þessu svæði.

Svartifoss (Black Fall) waterfall in Skaftafell National Park in Iceland. The fall is surrounded by dark lava columns of Basalt, which gave rise to its name. (Christopher Lund/©2013 Christopher Lund)

Á síðasta degi var svo ekið í vestur í átt að höfuðborginni. Þeir mynduðu reyndar aftur ís á ströndinni í upphafi dags og svo byrjuðum við að bruna tilbaka. Ég vildi ljúka degi upp á Dyrhólaey og til að ná því mátti ekki stoppa of lengi í myndastoppunum á leiðinni. Við fengum ágætis birtu við Lómagnúp og náðum að ljúka ljósmynduninni upp á Dyrhólaey í allra síðustu birtu dagsins. Lýsingartíminn á myndinni þaðan er rétt tæpar fjórar mínútur – enginn LEE big stopper nauðsynlegur í þetta skiptið.

The small peninsula, or promontory, Dyrhólaey (120m high) is located on the south coast of Iceland, not far from the village Vík. It was formerly an island of volcanic origin, which is also known by the Icelandic word eyja meaning island. This view is to the south. (Christopher Lund/©2013 Christopher Lund)

Áður en ég kom þeim félögum út í Keflavík tók ég smá rúnt um Reykjavík – enda hafði Dougie aldrei séð borgina. Harry fékk einn skammt í viðbót á Bæjarins Beztu og staðfesti að þær voru töluvert betri þar enn í Víkurskála 🙂

 

Skjaldbreiðarskreppur

Skammt frá Nesjavöllum. ©2009 Christopher Lund
Skammt frá Nesjavöllum. ©2009 Christopher Lund

Við Árni skelltum okkur í jeppaljósmynda-bíltúr á laugardaginn var. Það var dásemdarveður, algjört logn og mjög milt miðað við árstíma. Við lögðum í hann á Lundanum með nesti og nýja skó um hádegisbil. Á þessum árstíma þarf maður ekki mikið að stressa sig á því að “ná” morgunbirtunni líkt og á sumrin.

cld091107_009
Horft yfir Hestvík og Klumbu við Þingavallavatn. Miðfell í baksýn. ©2009 Christopher Lund.

Ég ákvað að taka Nesjavallaleiðina og eins og þið sjáið var afar fallegt við Þingvallavatn. Við vorum ekki komnir nema rétt að Bláskógarheiði þegar hungrið sagði til sín. Yfirferðin er ekki svo mikil þegar ljósmyndarar eru á ferð!

Hraun og MelgresiᇠBlá‡skó—garheiði. Skjaldbreiður í baksýn. ©2009 Christopher Lund.
Hraun og MelgresiᇠBlá‡skó—garheiði. Skjaldbreiður í baksýn. ©2009 Christopher Lund.

Eftir að hafa nestað okkur og drukkið kaffi héldum við leið okkar áfram. Rjúpnaskyttunum fjölgaði jafnt og þétt þegar við nálguðumst Skjaldbreið. Jeppunum var lagt á víð og dreif við slóðann og þegar við stoppuðum til að taka myndir heyrðum við skothvellina. Grey rjúpan. Hún á ekki mikinn séns á móti svona her.

Suðaustan við Skjaldbreið. Horft ’ suður til Skriðutinda. ©2009 Christopher Lund.
Suðaustan við Skjaldbreið. Horft ’ suður til Skriðutinda. ©2009 Christopher Lund.

Ég var með Nikon D3x með í för, sem er auðvitað góð í landslagið með alla sína 24.5 Megapixla. Ég er reyndar í þrífótshallæri með hana þar sem mig vantar RRS-plötu undir vélina. Ég afrekaði það um daginn að týna eina þrífætinum sem er ekki með RRS-festingu, þegar við fórum austur á Klaustur.

Við rætur Rauðafells. ©2009 Christopher Lund.
Við rætur Rauðafells. ©2009 Christopher Lund.

Annars er ég orðinn spenntur að fá nýju Nikon D3s vélina. Ég er búinn að liggja vel yfir stillingum á fókuskerfum í D3x vélinni og það verður að segjast að það virkar töluvert öruggara á mig en í ásnum frá Canon. Það verður því afar spennandi að sjá hvernig nýji Mark IV ásinn reynist þegar hann kemur í des. Það sem reið baggamuninn fyrir mig að taka Nikon fram yfir núna var að nýji ásinn er ekki full-frame. Svo er líka svo asskoti gaman að breyta til.

Félagar í Land Rover í ljósaskiptunum á Miðdalsfjalli. Apavatn, Mosfell, Vörðufell og Hestfjall í baksýn. ©2009 Christopher Lund
Félagar í Land Rover í ljósaskiptunum á Miðdalsfjalli. ©2009 Christopher Lund

Vetrarfrí

Sumarhúœs við Hæðargarðsvatn, sunnan við Kirkjusbæjarklaustur. ©2009 Christopher Lund
Sumarhúœs við Hæðargarðsvatn, sunnan við Kirkjusbæjarklaustur. ©2009 Christopher Lund

Við hefðum alveg getað hugsað okkur að vera tvær til þrjár vikur í sumarbústaðnum Klausturbúð, sem stendur við Hæðargarðsvatn sunnan við Kirkjubæjarklaustur. Þetta er afskaplega fallegt svæði og ekki sveik veðrið um helgina. Það er ekki beint gefið að fá logn í fjóra daga og allt að 10 stiga hita í lok október.

Ari Carl að tefla. ©2009 Christopher Lund
Ari Carl að tefla. ©2009 Christopher Lund

Ari Carl veiktist reyndar á fyrsta degi. Við vorum dauðhrædd um að hann væri komin með hina alræmdu svínaflensu. En sem betur fer varð hann ekki mjög veikur. Á meðan ég fór með stelpurnar í bíltúr á laugardaginn voru hann og Margrét því eftir í bústaðnum. Margrét að prjóna og hann horfði á teiknimyndir sem ég leigði í sjoppunni á Klaustri.

Arndís og Bjargey við Núpsstaði, Lómagnúpur í baksýn. ©2009 Christopher Lund
Arndís og Bjargey við Núpsstaði, Lómagnúpur í baksýn. ©2009 Christopher Lund

Við fórum að Núpsstöðum, skoðuðum bæinn og kirkjuna og tókum nokkrar myndir. Þaðan lá leiðin austur í Skaftafell þar sem við gengum upp að Svartafossi áður en við nestuðum okkur í hinum fallega Lambhaga. Því næst fór ég með þær upp á Svínafellsjökul. Systrunum fannst spennandi að komast alveg að jökuljaðrinum og heyra að hann er “lifandi”. Það brast reglulega í honum og við heyrðum drunur úr fjarska þar sem hann skríður niður bratta hlíðina.

Melgresi á Skeiðarársandi, Öræfjajökull og Hvannadalshnjúkur í baksýn. ©2009 Christopher Lund.
Melgresi á Skeiðarársandi, Öræfjajökull og Hvannadalshnjúkur í baksýn. ©2009 Christopher Lund.
Hauststemning í Skaftafelli. ©2009 Chrisotpher Lund.
Hauststemning í Skaftafelli. ©2009 Chrisotpher Lund.

Ég pæli oft í því hvað það er magnað að geta farið úr bænum og upplifað íslenska náttúru svo gott sem einsamall. Fyrir utan hinn hefðbundna ferðatíma á sumrin eru afar fáir á ferli. Það eru forréttindi sem við skynjum ekki öll. Þetta hljómar kannski eins og ég sé félagsfælinn? Það er ekki málið. Það er bara svo dásamlegt að fá stundum að “eiga” Ísland einn.

Arndís við Lambhaga í Skaftafelli. ©2009 Christopher Lund.

Ég er enn að prófa Nikon D3x vélina hans pabba og tók hana með um helgina. Því meira sem ég nota hana því hrifnari verð ég. Það tekur reyndar nokkurn tíma að stilla hana þannig að hún hegði sér eins og maður vill. En eftir þessa fáu daga er ég farinn að þekkja hana vel að er fljótur að breyta stillingum eftir aðstæðum. Það er eitt sem kom mér töluvert á óvart. Vélin er ekki með hreinsibúnað á skynjaranum líkt og flestar stafrænar SLR vélar í dag. Fyrir vikið sé ég þónokkra rykbletti í myndunum sem hefur fjölgað í takt við fjölda linsuskipta í ferðinni. Þessi hristibúnaður virkar a.m.k. mjög vel á Canon vélunum mínum. Þó að hann geri ekki hreinsun á skynjara óþarfa þá hjálpar það mikið til. Kemur án efa í næstu uppfærslu þar sem nýja D3s er kominn með slíkan búnað.

Við jaðar Svínafellsjökuls. ©2009 Christopher Lund.
Við jaðar Svínafellsjökuls. ©2009 Christopher Lund.

Eitt tek ég sérstaklega eftir sem mun á milli Nikon og Canon. Ljósmæling á TTL uppfyllingarflassi er töluvert nákvæmari á Nikon. Ég nota on-camera TTL flass afar sjaldan á Canon. Það er ekki síst vegna þess að mér leiðist hversu ónákvæmt það er. En á Nikon er það allt annað. Þessi mynd að ofan er gott dæmi um góða virkni á uppfyllingarflassi. Það opnar skuggana vel en sést varla í myndinni sem auka ljós.

Hoppað í heitan pott. ©2009 Christopher Lund.

Annars lék ég mér töluvert með flöss í ferðinni, nokkuð sem ég geri allt of sjaldan. Ég var með eitt Canon EX 580II og Nikon SB-800. Nota svo Pocket Wizard til að fýra þeim af. Það er magnað hvað hægt er að gera með þessum litlu flössum. Sýnir manni að það er ekki alltaf nauðsynlegt að nota stór og dýr ljós eins og t.d. Profoto. Auðvitað er aflið ekki það sama og áreiðanleikinn að sama skapi minni. Á móti kemur að maður er eldsnöggur að setja þau upp og það er miklu auðveldara að koma þeim fyrir á þröngum stöðum.

Ég væri mikið til í að prófa þráðlausa flasskerfið frá Nikon, en SB-900 er með innbyggðum þráðlausum móttökurum. Svo er hægt að nota þessa græju til að fýra flössunum af og til að stilla aflið, sem er náttúrulega algjör snilld.

Systkinin fyrir utan bústaðinn. ©2009 Christopher Lund.
Systkinin fyrir utan bústaðinn. ©2009 Christopher Lund.

Það er ljóst að samkeppnin hefur harðnað töluvert fyrir Canon. Þeir kynntu nýju Canon EOS 1D Mark IV örfáum dögum eftir að Nikon sagði frá D3s. Það er talsverður munur á eðli 12.5 MP full-frame skynjara og svo skynjara á 16MP 1.3x crop vél. Stærð pixlana er aðalatriðið þegar kemur að suði. Meiri upplausn á minni skynjara þýðir auðvitað minni pixlar. Sumir hafa því haft ákveðnar efasemdir um það að nýji ásinn frá Canon geti verið jafn góður og D3s frá Nikon. Canon hefur endurhannað skynjarann frá grunni. Þeir fullyrða að þrátt fyrir að stærð pixlana fari umtalsvert niður, safni nýji skynjarinn meira af ljósi en áður hefur tekist. Sú staðreynd auk enn öflugri úrvinnslu með tveimur Digic 4 örgjörvum þýðir að vélin nær að vera sú “hreinasta” hingað til frá Canon.

Hér eru svo fleiri myndir frá ferðinni sem slideshow.

Sunnudagsbíltúr

Árni í brekku rétt ofan við Tröllháls, norðan við Tröllhálsgil. Í baksýn eru m.a. Lágafell og Sandkluftir. © 2009 Christopher Lund.
Árni í brekku rétt ofan við Tröllháls, norðan við Tröllhálsgil. Í baksýn eru Sandkluftir og Lágafell - auk Lundans auðvitað! © 2009 Christopher Lund.

Á sunnudaginn var fórum við í skemmtilegan bíltúr ásamt þeim Hildi og Árna að Hvalvatni. Upphaf leiðarinnar er uppi á Tröllhálsi af leið sem margir kalla Uxahryggjaleið.

Hvalvatn er 4,1 km², dýpst 180 m og í 378 m hæð yfir sjó. Það er talið annað dýpsta stöðuvatn landsins á eftir Öskjuvatni. Útfall vatnsins er Botnsá, sem rennur til Hvalfjarðar.

Vindblásinn hlíð og snjór ofan við Tröllháls. ©2009 Christopher Lund.
Vindblásinn hlíð og snjór ofan við Tröllháls. ©2009 Christopher Lund.

Það var kominn töluverður snjór, enda fýkur fljótt í skafla í þessari hæð. Við Árni fengum því aðeins að reyna á bílana. Ekki get ég nú sagst vera vanur svona vetrarakstri á jeppum. Það er því kærkomið að prófa sig áfram við svona rjómaaðstæður.

Guðrún Ragna og Ari Carl ofan við Hvalvatn. ©2009 Christopher Lund.
Guðrún Ragna og Ari Carl ofan við Hvalvatn. ©2009 Christopher Lund.

Við vorum með yngstu gríslingana með, þau Guðrúnu Rögnu og Ara Carl. Þetta er tilvalin dagsferð þegar vel viðrar, taka með sér gott nesti og njóta náttúrunnar, í raun örstutt frá bænum.

Hér má skoða þessar myndir og fleiri sem slideshow.

Feðgar á fjöllum

Við fjallið Einhyrning, Eyjafjallajökull í baksýn. ©2009 Christopher Lund.
Við fjallið Einhyrning, Eiríksjökull í baksýn. ©2009 Christopher Lund.

Sunnudaginn var skruppum við pabbi austur á Hvolsvöll. Fórum reyndar fyrst með tjaldvagninn minn í vetrargeymslu að Stóruvöllum og gistum svo á Hótel Hvolsvelli í góðu yfirlæti. Hótelið er stærra en maður reiknar með á Hvolsvelli. Herbergin eru stór og fín og maturinn ekki síðri. Við fengum dýrindis lambafile sem rann ljúflega niður með góðu rauðvíni frá Ástralíu.

Horft yfir í Húsadal frá Fífuhvömmum. Eyjafjallajökull í baksýn. ©2009 Christopher Lund.
Horft yfir í Húsadal frá Fífuhvömmum. Eyjafjallajökull í baksýn. ©2009 Christopher Lund.

Ástæða ferðarinnar var fyrst og fremst að rifja upp gamla tíma. Við feðgar ferðuðumst mikið þegar ég var púki. Pabbi var alltaf að ljósmynda eða selja loftmyndir, nú eða Polariod myndavélar! Ég var því búinn að koma á flesta þéttbýlisstaði landsins löngu fyrir fermingu – og það nokkrum sinnum. Það fór minna fyrir hálendisferðum í þá daga. Þó ég muni reyndar vel eftir ferðum að Sigölduvirkjun. Þá leigði sá gamli jeppa og keyrði alveg eins og brjálæðingur (þannig er það alla vega í minningunni).

Ofan við Markarfljótsgljúfur. Hattafell, Stórkonufell og Mófellshnausar í baksýn. ©2009 Christopher Lund.
Ofan við Markarfljótsgljúfur. Hattafell, Stórkonufell og Mófellshnausar í baksýn. ©2009 Christopher Lund.

Það stóð til að fara Syðra Fjallabak, upp með Fljótshlíðinni og rúlla alla leið í Landmannalaugar. Klára svo með því að fara Landmannaleiðina tilbaka í bæinn með kvöldinu. En við komumst bara rétt áleiðis – eða upp að Markarfljótsgljúfrum. Þar var töluverður snjór og við lentum í smá basli. Þar sem við vorum einbíla vorum við ekki að taka neina sénsa. Það kom þó ekkert að sök, landið skartaði sínu fegursta í frábæru veðri, svo við tókum því rólega og nutum náttúrunnar.

5 pund í dekkjum og Einhyrningur í baksýn. ©2009 Christopher Lund.
5 pund í dekkjum og Einhyrningur í baksýn. ©2009 Christopher Lund.

Það var gaman að komast burt úr borginni og stilla tímann aftur um eins og 25 ár. Nú höfðu hlutverkin aðeins snúist við, þar sem ég var ökumaður og pabbi farþeginn. Takk fyrir ferðina pabbi.

Augnablik við Langasjó

Leikur ljóssins við Langasjó. ©2009 Christopher Lund
Leikur ljóssins við Langasjó. ©2009 Christopher Lund

Sumir dagar eru lengri en aðrir. Fjórir dagar á Hálendi Íslands gefa orku á við þriggja vikna frí.

Við vorum stödd á Ísafirði þegar við tókum ákvörðun um miðjan júlí að skella okkur í þessa ferð með Ástu. Ég var að skoða tölvupóstinn í fyrsta skipti í tvær vikur og þarna var skeyti frá Ástu um aukaferðina á Langasjó.

Uppgufun á Breiðbak. ©2009 Christopher Lund
Uppgufun á Breiðbak. ©2009 Christopher Lund

Ég var ekki lengi að sannfæra Margréti um að þetta væri tilvalin afmælisgjöf fyrir okkur, en það er bara vika á milli daganna okkar í ágúst. Ég sagði Andra og Möggu frá ferðinni og hvatti þau til að slást með í för. Það endaði þannig að við fórum saman í ferðina með elstu börnin okkar, þau Hlyn Snæ og Bjargey.

Morgunjóga á Skjaldmeyjartá við Streðvík. ©2009 Christopher Lund
Morgunjóga á Skjaldmeyjartá við Streðvík. ©2009 Christopher Lund

Það er alltaf lotterí að fara á fjöll. Veðrið er óútreiknanlegt og það finnst ekki öllum spennandi að liggja í tjaldi í 650m hæð yfir sjávarmáli, inn við jökul um miðjan ágúst. En þegar verðlaunin eru af þessum toga finnst mér það lítil áhætta að taka.

Margrét við Langasjó, Fögrufjöll í baksýn. ©2009 Christopher Lund
Margrét við Langasjó, Fögrufjöll í baksýn. ©2009 Christopher Lund

En það er ekki bara áfangastaðurinn sem skiptir máli í svona ferð. Fararstjórn vegur þungt og þar eru þær systur Ásta og Harpa ásamt matráðskonunni Brynhildi fremstar meðal jafningja. Við fórum með Augnabliki upp á Öræfin fyrir austan sumarið 2006. Því vissum við vel að hverju við gengum. Flæðið hjá þeim er magnað, allt rennur ljúflega áfram og hnökralaust. Jóga kvölds og morgna og andlegt nesti fyrir göngurnar gera ferðina að svo miklu meira en bara hálendisleiðangri.

Afmælisveisla við varðeld. ©2009 Christopher Lund
Afmælisveisla við varðeld. ©2009 Christopher Lund

Fyrir ljósmyndara að komast í tæri við fegurð eins og er að finna í nágrenni við Langasjó er auðvitað spennandi. Að fá svo alls konar birtuskilyrði á sama deginum er draumur. Og það er ekki ónýtt að fá afmælissöng við varðeld heldur.

Hér má svo skoða mun fleiri myndir frá þessari frábæru ferð:
Slideshow eða yfirlit.

Vestfirðir, Strandir og Sléttan

Jæja, þá er maður kominn aftur í bæinn eftir rúmlega þriggja vikna ferðalag um Vestfirði, Strandir og Melrakkasléttu.

Lánið lék við okkur fyrir vestan og við vorum veðurteppt í blíðu, aldrei þessu vant. Dag eftir dag vöknuðum við í sól og hita. Við tjölduðum á Laugum í Sælingsdal, Tálknafirði, Núp í Dýrafirði (yfir Holugeitungabú!), Reykjarfirði, Súðavík, Hólmavík, Norðurfirði á Ströndum og á Dæli í Víðidal. Tvær vikur í tjaldvagninum og við vorum orðin vel útilegin.

Síðustu vikuna gistum við innandyra, því fyrir norðan var skítakuldi og rigning, sérstaklega á Mývatni. Við eyddum svo síðustu dögunum í þessari ferð með vinum okkar á Melrakkasléttu, sem er farin að verða fastur áningarstaður á hverju sumri, þökk sé Andra Snæ.

Ferðasagan í heild væri full langur póstur. Ég læt því næga að velja nokkrar myndir frá ferðalaginu, því mynd segir jú meira en þúsund orð. Mynd með myndtexta ennþá meira.

Ég mæli eindregið með því að skoða myndirnar stórar með því að smella á “fullscreen” merkið sem annað frá hægri neðan við myndirnar. Til að fá myndatextann fram er farið með músarbendilinn yfir myndina og þá birtist hann að ofan.

Útilega tvö

Ari Carl og Logi á tjaldstæðinu við Leirubakka. ©2009 Christopher Lund.
Ari Carl og Logi á tjaldstæðinu við Leirubakka. ©2009 Christopher Lund.

Um síðustu helgi fórum við í aðra útilegu sumarsins. Það var þétt umferðin út úr bænum enda frábær spá fyrir helgina. Í Kömbunum skapaðist halarófa sem náði alla leið að Hveragerði. Hringtorgin sem búið er að innleiða svo víða eru ágæt þangað til að umferðin er orðin þung, þá skapa þau flöskuhálsa. En við vorum svo sem ekkert að pirra okkur á því enda vorum við ekki að fara svo langt.

Ferðinni var heitið í Galtalæk. Þar var hins vegar algjörlega ólíft fyrir flugu. Mývatn er bara barnaskapur miðað við þetta! Svolítil synd, því tjaldstæðið í Galtalækjarskógi er með þeim fallegustu á landinu. Við fórum tilbaka að Leirubakka þar sem flugan var ekki eins rosaleg. Við smelltum upp tjaldvögnunum þar á fínum stað ásamt tengdó og skömmu síðar komu vinir okkar Árni og Hildur ásamt börnum.

Landmannalaugar. ©2009 Christopher Lund.
Landmannalaugar. ©2009 Christopher Lund.

Á laugardeginum fórum við inn í Landmannalaugar í blíðskaparveðri. Þar var margt um manninn eins og við má búast á þessum árstíma. Helst eru það þó útlendingar sem tjalda í Landmannalaugum. Æ fleiri Íslendingar í “útilegu” eru háðir rafmagni og öðrum lúxus og því sér maður ekki marga landa sína tjalda þar. Svo er auðvitað ekkert grín að hossast með fellihýsi og hvað þá hjólhýsi á hálendisvegunum!

Brennisteinsalda. ©2009 Christopher Lund.
Brennisteinsalda. ©2009 Christopher Lund.
Ari Carl tekur mynd af Bjargey í Landmannalaugum. ©2009 Christopher Lund.
Ari Carl tekur mynd af Bjargey í Landmannalaugum. ©2009 Christopher Lund.

Við tókum gönguhringinn góða, gengum með Grænagili upp að Brennisteinsöldu og svo niður fram hjá Vondugiljum niður að Laugum. Þetta er auðveld ganga fyrir jafnt börn sem fullorðna. Það er ljóst að við hjónin þurfum að koma aftur seinna í sumar eða haust til þess að eyða helgi við að ganga á þessu svæði, þvílíkur ævintýraheimur!

Arndís með vatnsbyssu í Landmannalaugum. ©2009 Christopher Lund.
Arndís með vatnsbyssu í Landmannalaugum. ©2009 Christopher Lund.
Ljótipollur. ©2009 Christopher Lund.
Ljótipollur. ©2009 Christopher Lund.

Eftir vel heppnaða göngu var ákveðið að grilla og snæða kvöldmat áður en við héldum tilbaka á Leirubakka. Á heimleiðinni fórum við upp að Ljótapolli sem er alltaf gaman, sérstaklega í fallegri kvöldsól. Til að breyta til tókum við Hrauneyjaveginn tilbaka. Hann er sínu leiðinlegri yfirferðar en Landmannaleiðin um Dómadal.

Hoppað útí sundlaug. ©2009 Christopher Lund.
Hoppað útí sundlaug. ©2009 Christopher Lund.

Á sunnudeginum skelltum við okkur í sund í Laugaland. Þar gafst tækifæri til að prófa nýju myndavélina sem ég hafði verslað fyrir ferðina. Þessi er tilvalin fyrir krakkana í sumarfríið.

Eftir sundferðina fóru Hildur og Árni að búa sig til heimferðar en við ætluðum að vera eina nótt í viðbót. Fórum seinnipartinn að skoða tvo áhugaverða staði í nágrenninu, en þá fundum við í bókinni hans Páls Ásgeirs – 101 Ísland – sem ég minntist á um daginn.

Ari skoðar Hellnahellir. ©2009 Christopher Lund.

Fyrst var það stærsti manngerði hellir á landinu; Hellnahellir eða Fjóshlöðuhellir. Hann er grafinn í sandstein og er í heild sinni um 50m langur og um 200 fermetrar að flatarmáli. Margir telja að Papar hafi grafið hellinn fyrir landnám. Víða í hellum á Suðurlandi finnast ristur og krossmörk í hellisveggjum líkt og í þessum. Það er óhætt að mæla með heimsókn í Hellnahelli.

Landréttir í Réttarnesi. ©2009 Christopher Lund.
Landréttir í Réttarnesi. ©2009 Christopher Lund.

Því næst ókum við að Landréttum Í Réttarnesi. Þær eru ekki alveg í alfaraleið, en bókin góða vísaði okkur veginn örugglega. Réttir þessar eru hlaðnar úr grjóti og þar var réttað frá 1660 til 1979. Mjög gaman að koma þarna og skoða þessar fallegu réttir, sem eru svo snilldarlega staðsettar í landinu.

Á veginum inn í Hrafntinnusker. ©2009 Christopher Lund.
Á veginum inn í Hrafntinnusker. ©2009 Christopher Lund.

Á mánudeginum var planið að fara inn í Hrafntinnusker. Það er þó hægara sagt en gert að komast þangað nema á mjög vel búnum jeppum. Við komumst áleiðis á okkar ástkæra Pajero, upp í ca. 1000m hæð, en þar ákvaðum við að stoppa frekar en að festa okkur í snjó. Hringdum í tengdó þegar við vorum komin upp brekkuna til að tékka á þeim. Þau höfðu þá komist í ógöngur þegar þau þurfu að bakka í brattri brekkunni og misst bílinn út af slóðanum. Við héldum því strax tilbaka til bjargar. En áður en ég náði til þeirra var kominn hjálpfús jeppamaður sem á vel búnum bíl sínum kippti þeim upp úr þessu.

Tengdó bjargað úr ógöngum. ©2009 Christopher Lund.
Tengdó bjargað úr ógöngum. ©2009 Christopher Lund.

Við ákvaðum að geyma Hrafntinnusker og fara frekar inn að Landmannahelli og freista þess að renna fyrir fisk. Við Landmannahelli er hægt að kaupa veiðileyfi. Við ákvaðum að prófa Löðmundavatnið frekar en að aka tilbaka að Frostastaðavatni, þó að þar sé meiri veiðivon og meira um stærri fisk.

Við Löðmundarvatn. ©2009 Christopher Lund.
Við Löðmundarvatn. ©2009 Christopher Lund.

Krakkarnir skemmtu sér vel við að veiða, en Arndís var þó þrjóskust við þessa iðju. Í tvígang elti fiskurinn færið alveg upp að landi svo hún var staðráðinn í því að ná í fisk. En hún varð þó að játa sig sigraða að lokum.

Arndís veiðir í Löðmundaravatni. ©2009 Christopher Lund.
Arndís veiðir í Löðmundaravatni. ©2009 Christopher Lund.

Við ókum svo í rólegheitum tilbaka Landmannaleiðina í fallegri kvöldsól. Það var töluvert mistur og svolítið ævintýranleg birta. Skemmtilegri útileguhelgi var nú senn lokið.

Jógaferðamenn á Landmannaleið. ©2009 Christopher Lund.
Jógaferðamenn á Landmannaleið. ©2009 Christopher Lund.
Lost in Iceland rip-off. ©2009 Christoher Lund.
Lost in Iceland rip-off. ©2009 Christoher Lund.

Eftir viku verðum við svo öll komin í sumarfrí og þá er stefnan sett m.a. á Vestfirði. Svo langar okkur að fara norður og helst alla leið úr á Langanes. Get ekki beðið…