Feðgar á ferð

Flippaðir feðgar. ©2009 Christopher Lund
Flippaðir feðgar. ©2009 Christopher Lund

Jæja, þá erum við feðgar komnir heim eftir vel lukkaða reisu til London. Við lögðum í hann snemma á fimmtudagsmorgninum eins og venjan er hér á Fróni. Vorum reyndar svolítið seinir af stað. Ég misreiknaði mig eitthvað varðandi hversu mikinn tíma ég þyrfti þarna um morguninn (gerði ekki ráð fyrir sturtu og rakstri). Það slapp þó alveg, rólegt í Leifstöð. Aðallega Norðmenn þar á ferð, alla vega heyrðist söngurinn í hverju horni.

Syrpan klikkar ekki. ©2009 Christopher Lund
Syrpan klikkar ekki. ©2009 Christopher Lund

Ferðin út gekk bara vel og við lentir á London Gatwick eftir tvo-fjörtíuogfimm. Ég hafði ekki farið um þennan flugvöll áður. Mikið betri en Standsted að mínu mati. Aníta sótti okkur á Austin Mini út á völl. Hún lenti reyndar í massa umferðarteppu og því þurftum við að hinkra. Kom ekki að sök, Ari með glænýja Andrés-syrpu og gamli fékk sér stóran Cappucino á Costa Café.

Tölvufrændur. ©2009 Christopher Lund
Tölvufrændur. ©2009 Christopher Lund

Við vorum komnir í hús um þrjú-leytið og tókum því með ró sem eftir lifði dags. Ari var alveg sáttur, fékk að hafa stóra frænda út af fyrir sig, en Hlynur Smári er yfirleitt umsetinn frændsystkinum sínum þegar stórfjölskyldan hittist.

Risaeðlurnar voru skoðaðar mjöööög vel. ©2009 Christopher Lund
Risaeðlurnar voru skoðaðar mjöööög vel. ©2009 Christopher Lund

Á föstudeginum var haldið í Natural History Museum. Við byrjuðum á því að skoða Risaeðlusýninguna – tvisvar. Fyrst réttsælis og svo á móti straumnum. Gerðum svipað í spendýrahlutanum áður en við bókstaflega þræddum hvern krók og kima í þessu magnaða safni. Talandi um að óverdósa á upplýsingum! Ari Carl valhoppaði um og saug allt í sig eins og svampur. Þvílík orka í ekki stærri búk.

Steinasafnið skoðað á hvolfi. ©2009 Christopher Lund
Steinasafnið skoðað á hvolfi. ©2009 Christopher Lund
Ari og Hlynur í Hyde Park. ©2009 Christopher Lund
Ari og Hlynur í Hyde Park. ©2009 Christopher Lund

Eftir tæpa fjóra tíma í safninu (grínlaust!) hittum við Hlynsa og fengum okkur ekta ítalskan mat í hádeginu. Þarnæst gengum við í gegnum Hyde Park, fengum okkur ís við minnismerki Díönu, sem er gosbrunnur og/eða lækur. Eftir þetta hittum við Anítu á Piccadilly Circus og fengum okkur kvöldverð á Rain Forest Café. Staðurinn er eins og regnskógur, þar inni eru fossar og það koma þrumur og eldingar með látum!

Ari Carl og The Water Bus í baksýn. ©2009 Christopher Lund
Ari Carl og The Water Bus í baksýn. ©2009 Christopher Lund
Aníta og Ari Carl að spjalla á leið til Camden Lock. ©2009 Christopher Lund
Aníta og Ari Carl að spjalla á leið til Camden Lock. ©2009 Christopher Lund

Laugardagar eru skemmtilegir í Camden Town. En áður en við fórum þangað skelltum við okkur í dýragarðinn. Það er nefnilega upplagt að taka The Water Bus frá Maida Vale til Camden Lock, með viðkomu í dýragarðinum. Á markaðnum í Camden er dásamlegur matur á óteljandi básum, ásamt fatnaði og alls konar glyngri auðvitað. Ef þið hafið ekki farið á þennan markað þá er það algjört möst ef förinni er heitið til London. Það voru þreyttir ferðalangar sem fengu sér ís eftir matinn, Ben and Jerry’s að sjálfsögðu.

Borða ís og horfa á sjónvarp... mmmm... ©2009 Christopher Lund
Borða ís og horfa á sjónvarp... mmmm... ©2009 Christopher Lund
London Aquarium. ©2009 Christopher Lund
London Aquarium. ©2009 Christopher Lund

Á sunnudeginum fórum við svo niður á Southbank, í LondonEye og London Aquarium sem er þar rétt hjá. Kemur á óvart hversu stór þetta fiskasafn er. Þar má sjá hákarla, túnfiska, risa-skötur og óendalega margar tegundir af fiskum frá kóralrifunum og Amazon ánni.

LondonEye - or ass? ©2009 Christopher Lund
LondonEye - or ass? ©2009 Christopher Lund

Eftir fiskasafnið fórum við í LondonEye ásamt túristum með stóra rassa. Á Southbank er mikið af götulistamönnum og Ari gaf flestum þeirra smápening. Við snæddum svo á frábærum mexíkóskum stað með Anítu og Hlyn og fórum svo í fyrrumútrásarvíkingadótabúðina Hamley’s þar sem Guttinn fékk að velja sér dót. Ben10 geimverurannsóknarstofutrukkur varð fyrir valinu takk fyrir. Til að kóróna daginn var tekin London Taxi heim, nokkuð sem sá stutti var búinn að bíða eftir að fá að prófa. Stolltið leynir sér ekki á þessari mynd.

London Taxi. ©2009 Christopher Lund
London Taxi. ©2009 Christopher Lund

Fyrr en varði var kominn mánudagur sem var heimferðardagur. Ari Carl sagðist vilja vera sextíu nætur í viðbót. Lái honum hver sem vill. Þegar maður skipuleggur helgarferð út frá áhugasviði 5 ára drengs verður til hrikalega skemmtileg ferð. Ekkert shopping kjaftæði. Bara skoða, vera saman og borða alltaf góðan mat og ís! Ómetanleg ferð fyrir okkur báða.

London Sience Museum. ©2009 Christopher Lund
London Sience Museum. ©2009 Christopher Lund

Flugið var ekki fyrr en hálfníu um kveldið og því nægur tími til spóka sig frekar í London. Við fórum í Science Museum en þar er skemmtileg sýning um breskar uppfinningar fyrir börn. Það eru þeir Wallace og Gromit sem fræða börnin á sinn einstaka hátt. Þrátt fyrir að vera þarna í rúma tvo tíma vorum við engan veginn búnir að skoða nóg. Maður kemur því aftur við í þessu safni seinna!

Frændaknús. ©2009 Christopher Lund
Frændaknús. ©2009 Christopher Lund

Við drifum okkur heim til að knúsa Hlynsa, kláraðum að pakka og svo tókum við neðanjarðarlestina út á Victoria Station, en þaðan fer Gatwick Express. Það var ánægður fimm ára snúður að lita í flugvélinni á leiðinni heim.

Litað í flugvél. ©2009 Christopher Lund
Litað í flugvél. ©2009 Christopher Lund

Fyrir ljósmyndanörrana þá tók ég með mér nýju fimmuna og tvær fastar linsur; 50mm f/1.2L og 35mm f/1.4L.

London kallar!

Natural History Museum í London. ©2006 Christopher Lund
Natural History Museum í London. ©2006 Christopher Lund

Þá er komið að því. CL og ACL smella sér í feðgaferð til London!

Iceland Express auglýsti flugmiðana til London Gatwick nánast gefins um daginn (skattarir fylgdu með, sem betur fer) og ég missti mig um stund og pantaði miða fyrir okkur Ara Carl. Ekkert tilefni annað en að eyða gæðatíma með púkanum og heimsækja Anítu systir og Hlynsa frænda.

Ferðin er eingöngu skipulögð út frá áhugasviði fimm ára drengs: Vísindasafn, Risaeðlur, LondonEye, tveggja hæða strætó, Wallace and Gromit, Dýragarður, dótabúðir, ísbúðir og sitthvað fleira.

Ari er að springa úr spennu. Hefur talið niður samviskusamlega. Köllum hann Herra Dagatal, því á hverjum morgni er krossað yfir á dagatalinu inn í herbergi.

Bless í bili!

565 Hofsós

Sjálfsmynd á Prestsbakka. ©2009 Christopher Lund
Sjálfsmynd á Prestsbakka. ©2009 Christopher Lund

Við fórum norður á Hofsós um páskana. Þetta var æðislegt páskafrí með góðum vinum, skíðaferðum og frábærum mat auðvitað.

Ég ákvað að taka með mér bladdarann í þessa ferð. Ég fæ alltaf filmulosta annað slagið. Það er eitthvað við að skjóta á Hasselblad V-systemið sem engar aðrar vélar ná að gefa mér. Og á þessum hröðu stafrænttilbúiðígær-tímum er ákveðin endurholgun fólgin í því að rölta um með mekanískar filmuvél og skjóta efni, sem er ekki ætlað neinum nema mér sjálfum.

Höfðaströnd við Hofsós. ©2009 Christopher Lund
Höfðaströnd við Hofsós. ©2009 Christopher Lund

Ég fór í tvær stuttar gönguferðir um Hofsós eftir skíðaferðirnar og hlóð andlegu rafhlöðurnar. Afraksturinn er að finna hérna.

Flatey 2006 remastered

Sólbaðaður stigi í Flatey. ©2006 Christopher Lund
Sólbaðaður stigi í Flatey. ©2006 Christopher Lund

Það er í senn blessun og bölvun að tækninni fleygi fram eins hratt og raun ber vitni. Þegar maður ljósmyndar stafrænt í RAW skráarsniði er endalaust hægt að vinna myndir upp á nýtt. Þegar hugbúnaðurinn þróast og býður upp á nýjar úrvinnsluaðferðir er freistandi að endurvinna myndir sem manni þykir vænt um. Ég var í þessu í dag þegar ég ákvað að fara í gegnum myndir frá Flatey teknar vorið 2006.

Þorpið í Flatey. ©2006 Christopher Lund
Þorpið í Flatey. ©2006 Christopher Lund

Ég var nú reyndar ekki búinn að fullvinna þær allar í upphafi. Það er nú meira reglan en undantekningin hjá mér í þessum prívat verkefnum. Ég er t.d. núna að gera átak í að koma Flateyjarmyndum almennilega í hús. Sagði ykkur frá því um daginn að 2004 árgangurinn hafði ekki einu sinni farið í skönnun. Ég er með það og árgang 2008 í vinnslu hér heima á kvöldin. Þetta er filmustöff sem tekur óneitanlega lengri tíma að vinna úr. Samt svooo gaman að skjóta á filmuna inn á milli.

Spur Cola flaska í glugganum í skemmunni hans GPÓ. ©2006 Christopher Lund
Spur Cola í skemmunni hans GPÓ. ©2006 Christopher Lund

En alla vega… þeir sem vilja endurskoða Flateyjarmyndirnar frá 2006 geta gert það hér.

DIM 41

Jazztríóið DIM 41 á æfingu. ©2009 Christopher Lund
Jazztríóið DIM 41 á æfingu. ©2009 Christopher Lund

Í föstudaginn í síðustu viku var ég fluga á vegg á æfingu hjá frábærum tónlistarmönnum. Jazztríóið ber vinnuheitið DIM 41, en þeir æfa nú efni eftir Árna Heiðar Karlsson, sem er arkitektinn af tríóinu. Tríóið skipa: Árni Heiðar Karlsson á píanó, Gunnar Hrafnsson á kontrabassa og Matthías Hemstock á trommur.

Hér má svo finna vefgallery með fleiri myndum frá æfingunni.

Ég mun fylgja þeim eftir næstu mánuði, ljósmynda æfingar, upptökur, tónleika og ferðalög. Þetta var því einungis upphafið á nokkuð stærra verkefni. Ég verð að viðurkenna að ég var pínu stressaður yfir því að ég myndi ekki fíla tónlistina. Jazz er nefnilega ekki það sama og jazz. En ég þarf ekki að hafa frekari áhyggjur af því. Þetta er massaflott tónlist, akkúrat á þeirri línu sem ég fíla.

Það er nauðsynlegt fyrir ljósmyndara að umgangast annað skapandi fólk. Því er ég mjög ánægður og um leið spenntur fyrir þessu verkefni.

Árna kannaðist ég annars við í gegnum sameiginlegan vin okkar Andra Snæ. Við þrír fórum ásamt Freysa að skíða á Snæfellsjökul um Páska fyrir nokkrum árum síðan. Það var truflaður dagur. Fórum tvær ferðir, fyrst með troðaranum upp og svo húkkuðum við far með jeppafólki til að ná annari ferð, gratis!

Skíðað á Snæfellsjökli
Skíðað á Snæfellsjökli © Christopher Lund

Ég er einmitt að fara með Frey og fjölskyldu norður um Páskana. Ekki á Akureyri þó, heldur leigjum við hús á Hofsós og ætlum að skíða í Tindastól. Ég hef ekki ennþá prófað það svæði og hlakka mikið til.

Glöggir lesendur taka kannski eftir nýrri virkni hér á síðunni. Ef smellt er á myndirnar hér að ofan opnast þær stærri og bakgrunnurinn verður dekkri. Dýrari týpan.

Rakadrægur og skuldlaus


Ekkert helv… myntkörfulán. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 50mm f/1.2L

Alltaf hressandi þegar maður þarf að skafa bílrúðuna að innan… Annars er ég alveg skíðahress eftir vel heppnaða Akureyrarferð. Við náðum fimm dögum á skíðum. Hlíðarfjallið sveik ekki, frábært skíðasvæði fyrir fjölskyldufólk.

Ari Carl náði mun betri tökum á sportinu, enda er þarna forláta töfrateppislyfta fyrir púka eins og hann. Að vísu finnst honum skíðaiðkunin bara mátulega spennandi. Sonur minn er meira svona innitýpa. En hann kemst ekki upp með neitt múður.


Ari Carl skíðakappi. Canon EOS 5D Mark II, EF 24-70mm f/2.8L

Þrátt fyrir töluverðan fjölda í fjallinu (sérstaklega um helgina) þá var aldrei mikil biðröð í lyfturnar. Fólk dreifist vel um svæðið svo það er ekki stappað í brekkunum heldur. Það er til fyrirmyndar hversu mikið af starfsfólki er til aðstoðar við lyfturnar og góð upplýsingagjöf um kallkerfi. Akureyringar kunna greinilega að reka skíðasvæði. Ég held að ÍTR gæti lært svolítið af þeim í Hlíðarfjalli.

Verst finnst mér hversu lítið eftirlit er í brekkunum í Bláfjöllum. Svæðið þar er takmarkaðra og því oft ansi þröngt í brekkunum. Það skapast hætta þegar bæði skíða- og brettafólk rennir sér allt of hratt miðað við aðstæður. Ég hef nokkrum sinnum lent í því með börnin mín.

Ég skrifaði þeim í Bláfjöllum tölvupóst varðandi þetta og fékk svar um að þeir ætluðu að skoða málið. Ég hef þó ekki orðið var við eftirlit í sjálfum brekkunum, hvorki fyrr né síðar. Erlendis er fólki umsvifalaust vikið af svæðinu ef það sýnir dómgreindarleysi í brekkunum.

En hættum nú í nöldurhorninu. Það viðrar vel í dag.. og því líklegt að maður skelli sér í aftur í fjöllin!

Helgarferð að Stóra Hofi


Brakandi þurrkur á Stóra Hofi. Canon EOS 5D Mark II, EF 50mm f/1.2L

Helgin var fín. Skruppum austur að Stóra Hofi með góðum vinum. Hlynur og Guðrún buðu okkur Margréti og líka Andra Snæ og hans Margréti. Og púkunum auðvitað. Ég var búinn að plana að taka með gönguskíðin í þessa ferð, en það varð ekkert úr því. Bévítans þíða núna. Ég vona að hann fari ekki að rigna fyrir norðan líka. Við ætlum nefnilega í skíðafrí í næstu viku til Akureyrar, þegar stelpurnar fara í vetrarfrí frá skólanum.


Atli Fannar Hlynsson. Canon EOS 5D Mark II, EF 135mm f/2.0

Atli Fannar er næst nýjastur í Flateyjarfara-hópnum. Samt er hann bara 2ja mánaða. Það er metnaðarfull framleiðsla hjá okkur vinunum.

Elín Freyja Andradóttir. Canon EOS 5D Mark II, EF 135mm f/2.0

Lightroom námskeiðið er annars í fullum gangi. Skemmtilegur hópur sem er óhræddur við að spyrja. Það er mikilvægt. Ef það er ekkert spurt finnst mér allir vera að hugsa um skútur. Það eru tvö önnur námskeið plönuð í mars. Það fylltist strax á þetta og mér skylst á Halldóri (hjá Sense) að það næsta sé að verða fullt. Ef þið hafið áhuga er um að gera að senda honum línu. Nánari upplýsingar hér.

Í kvöld uppfærði ég iLife. Í kjölfarið fann ég nokkur gömul vídeó og fór að skoða. Ég á hrikalega mikið af óklipptu efni. Samt finnst mér ég ekki hafa verið mjög duglegur í vídeódeildinni. Lengi vel var það eiginlega prinsipp hjá mér að skjóta ekki vídeó. En svo eignast maður börn og sér hvað lifandi myndir eru líka mikilvægar. Samt finnst mér ennþá góð ljósmynd áhrifamesti miðilinn. Rétta augnablikið getur sagt meira en 5 mínútur af vídeó.

Kannski er samsuða af ljósmyndum og vídeó það allra besta? Eða ljósmyndir klipptar með hljóði líkt og kvikmynd? Það er að finna margar flottar þannig ljósmyndasýningar hjá Magnum in Motion.

Lightroom föndur kvöldisins


Arndís vetrardama. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 135mm f/2.0L

Þessar myndir var ég að föndra við í Lightroom 2.0 kvöld. Með þessu áframhaldi hætti ég að nota Photoshop fljótlega!

Annars er á planinu að halda ný Lightroom námskeið á nýju ári. Og í þetta sinn ætla ég að gera meira úr ljósmyndunni. Það verður líka nóg af dóti til að prófa; myndavélar (Canon 1Ds Mark III, 1D Mark III, 5D Mark II), linsur (flestar L-linsurnar) og svo verður líka prentað fullt af því sem þátttakendur skjóta á námskeiðinu út úr Lightroom á Canon IPF 5100.


Eliot sólstrandargæi. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 50mm f/1.2L

Áhugasamir geta sent mér línu á chris(at)blog.chris.is og fengið nánari upplýsingar og/eða látið skrá sig á póstlistann.


Ari Carl útilegumaður. Canon EOS 5D, EF 85mm f/1.2L II

Brókaðir bræður


Vel girtir ungir menn skoða fornbíla. © Mats Wibe Lund

Hann Felix vinur minn á afmæli í dag. Felix og ég vorum algjör samloka þegar við vorum pjakkar. Alltaf saman og sumir héldu jafnvel að við værum tvíburabræður. Okkur fannst það sko ekki leiðinlegt.

Sumarið 1981 fórum við ásamt fjölskyldum okkar í reisu um Bandaríkin. Ég man ekki hve löng þessi ferð var í vikum, en í minningunni skipti hún mánuðum. Við ókum um á amerískum bílaleigubílum (rafmagn í rúðum var magnað fyrirbæri fyrir okkur) og gistum á alvöru Mótelum. Alls staðar voru teiknimyndir í imbakassaum frá kl. 6 á morgnanna og á flestum stöðum sundlaug með rennibraut. Sem sagt paradís fyrir gaura eins og okkur.

Ég mátti til með að smella þessum myndum hér inn á síðuna. Það er mikið meira til af sniðugum myndum frá þessari ferð. Ég hef eytt ófáum stundum við að endurupplifa þessa ferð með því að skoða myndaalbúmin heima hjá þeim gömlu. Pabbi var mjög duglegur við að gera vegleg albúm úr ferðalögum fjölskyldunnar. Ég þarf að taka mér hann til fyrirmyndar. Allt of mikið af efninu mínu er ‘fast’ á hörðum diskum. Vel gert myndaalbúm er nefnilega algjör fjársjóður.

Til hamingju með daginn Felix!