Filmusnobb

Eystrahorn

Mig langar að segja ykkur frá tilraun sem ég gerði. Í einni af ferðum mínum um landið voru veðurbrigðin þannig að ég ákvað að vinna þessa mynd frá Eystrahorni í svart/hvítu. Ég notaði eitthvað Lightroom preset sem líkir eftir Kodak Tri-X og póstaði svo myndinni á Facebook.

Svo kom upp einhver púki í mér. Ég skrifaði myndatexta þar sem ég skrökvaði að myndin væri tekin á filmu.  Ég gekk meira að segja svo langt að skrifa hvaða myndavél, linsu, filmu og framkallara ég hafði notað.

Það stóð ekki á viðbrögðunum. Margir voru gríðarlega hrifnir af því að ég væri að skjóta á filmu. Sumir gengu meira að segja svo langt að segja að þetta væri “meira alvöru”. Það voru reyndar tveir vinir mínir sem sáu í gegnum þetta. Þeim fannst skrítið að hafa aldrei séð Nikon FM vélina mína. Eins vissu þeir að ég var nýlega búinn að vera á svæðinu með kúnnana mína. Það var því ómögulegt að ég hafði náð að framkalla og skanna á meðan ég var enn á ferðalagi 🙂

Dyrhólaey

Mér fannst þetta svo skemmtilegt að ég póstaði tveimur öðrum myndum seinna, bara til að sjá hvort kenning mín um filmusnobbið væri á rökum reist. Svo reyndist vera.

Hraundrangi, Öxnadal.

Filmusnobbið er þannig að ljósmynd fær aukið gildi við það eitt að hafa verið skotin á filmu. Stundum virðast meira að segja frekar slappar myndir verða að listaverkum við það eitt að hafa verið skotnar á filmu. Snobbið er einnig í réttu hlutfalli við filmustærð. Medium format er flottara en 35mm – og ef 4×5″ blaðfilma kemur við sögu er myndin nánast samstundis komin í meistaraflokk.

Ert þú filmusnobbari?

Raufarhöfn

Surf and turf at Raufarhöfn, Iceland. (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Stundum kemur það fyrir að ég sest niður við tölvuna að kveldi til að vinna í ákveðnu verkefni, en afvegaleiðist í eitthvað allt annað. Oftar en ekki eru það myndir sem ég var búinn að krukka eitthvað í, en ekki haft tíma eða nennu til að klára. Það er enginn skortur á slíku efni á mínum hörðu diskum.

Sumarið 2009 tók ég svolítið á filmu hér og þar. Ekki fallegt landslag, ekki fjölskyldumyndir, ekki neitt nema bara það sem vakti áhuga minn þær mínútur eða klukkustundir sem ég eyddi á hverjum stað.

Svona ljósmyndun er mín hugleiðsla. Get ekki lýst því, en ég dett í hlutlausan. Hugsa ekki heldur ljósmynda bara. Það fylgir því dásamlegt frelsi að hugsa ekki. Elta bara sjálfan sig án þess að pæla neitt hvert maður er að fara.

Ég veit ekki hvort þessar myndir frá Raufarhöfn sem teknar voru í tveggja tíma hugleiðslu séu ‘góðar’. Mér þykir vænt um þær því þær kippa mér beint í tilfinninguna í hvert sinn sem ég skoða þær. Það finnst mér vera ljósmyndun. Ég held að ef tilfinningin smitast eru myndirnar ‘góðar’.

Götuljósmyndun

Manon bíður eftir ösnum. ©2002 Christopher Lund.

Alvöru götuljósmyndun eða Street Photography er eitthvað sem maður sér ekki mjög oft í dag. Stafræna byltingin í ljósmyndun hefur fært fókusinn mikið yfir á tæki, tól og ekki síst eftirvinnslu í tölvu. Það er vissulega skemmtilegur heimur (það kæm úr hörðustu átt ef ég færi að hrauna yfir stafræna ljósmyndun).

En það er óneitanlega frískandi að skoða góða götuljósmyndun. Þar er höfuð áherslan er á rétta augnablikið, rétta staðsetningu og góða myndbyggingu. Það er bara e-h óútskýranlegaur galdur við góða götuljósmynd.

Sagan af Vivian Maier sem ég uppgvötaði í dag er hreint með ólíkindum. Hún var barnfóstra og áhugaljósmyndari, tók afburða götumyndir sem gefur stóru nöfnunum lítið eftir. Ég er búinn að rúlla í gegnum mynd eftir mynd í kvöld og alltaf koma fleiri og fleiri gullmolar á skjáinn. Þvílíkur fjársjóður!

Hér er umfjöllun um Vivian Maier og John Maloof – manninn sem fann fjársjóðinn fyrir tilviljun.