Pabbi áttræður

Pabbi minn varð áttræður 28. febrúar síðastliðinn. Ég ætlaði að skrifa þessa bloggfærslu á afmælisdeginum hans-  en það er víst betra seint en aldrei.

Pabbi er um margt merkilegur maður. Ungur að árum fékk hann mikinn áhuga á Íslandi. Hann kom hingað fyrst 1954, en hann hafði frétt af möguleika á því að komast með norskum stúdentum að taka þátt í fornleifuppgreftri í Skálholti. Hann skrifaði Kristjáni Eldjárn og tryggði sér plássið. Til að eiga fyrir farinu með strandferðarskipinu seldi hann frímerkjasafnið sitt. Mömmu kynntist hann þó ekki fyrr 1962 í Oslo, þar sem hún stundaði hjúkrunarnám.

Pabbi á tröppunum í Reynihlíð eftir að búið var um búa um brunasárin sem hann hlaut við Námaskarð í ágúst 1956.

Ég man varla eftir pabba á annan hátt en hann væri á kafi í vinnu. Hann hefur alla tíð verið stórhuga og maður framkvæmda. Hann hefur gaman af fólki og á erindi við flesta sem hann hittir. Hann er því fljótur að kynnast fólki og eignast vini og kunningja. Ástríða hans fyrir landi og þjóð féll Íslendingum í geð og hann varð fljótt þjóðþekktur fyrir myndir sínar. Hann rak lengi portett studíó, ljósmyndavöruverslun og framköllunarþjónustu – sem bar heitið Ljósmyndaþjónustan og var til húsa að Laugavegi 178.

Ég er yngstur þriggja systkina. Þegar ég byrjaði að vinna hjá pabba var hann búinn að selja portrett studíóið og verslunina. Ég starfaði því mest við loftmyndirnar og myndasafnið, vann í myrkaherberginu við að stækka myndir og gekk frá í ramma. Pabbi er metnaðarfullur og það var góður skóli fyrir ungan mann að læra fagið undir handleiðslu hans. 

Við fjölskyldan ferðuðumst mikið bæði hér heima og erlendis og standa skíðafríin í Evrópu og Bandaríkjunum upp úr. Við feðgar ferðuðumst líka mikið saman um landið, bæði í sölu- og ljósmyndaferðum. Ég var líklega búinn að heimsækja alla þéttbýlisstaði landsins fyrir tólf ára aldur – og æði margar sveitir að auki. 

Mamma og pabbi með barnabörnin á Spáni í tilefni 70 ára afmæli mömmu.

Pabbi hefur alltaf stutt við bakið á mér í öllu því sem ég hef sýnt áhuga. Þó að honum hafi sjálfsagt þótt vænt um að ég sýndi ljósmyndun áhuga, upplifði ég aldrei neina pressu frá honum um að ég skildi verða ljósmyndari. Þegar ég svo hóf formlegt ljósmyndanám samhliða menntaskólanum var hann minn Meistari og ég sótti einnig framhaldsnám til Noregs og Danmörku. 

Elsku Pabbi. Innilega til hamingju með stórafmælið. Þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið og kennt mér. Ég er stoltur af því að vera sonur þinn og elska þig af öllu hjarta. 

Chrissi

Flottur árangur

Ég er svo stoltur af Bjargey, elstu dóttur minni. Þessi elska vann upplestrarkeppni í skólanum sínum dag. Ég er búinn að fylgjast með henni við undirbúningin undanfarna daga, heyra í henni lesa upphátt fyrir sjálfa sig kvöld eftir kvöld. Í gærkvöldi sagði hún mér að hún kynni orðið textann utanbókar, svo oft var hún búin að lesa í gegnum hann. Bjargey hefur þann frábæra eiginleika að hafa trú á sjálfri sér. Lestur var eitt af því sem hún mátti bæta og nú hefur hún náð þessum frábæra árangri, að vera valin af dómnefnd, til að keppa fyrir hönd skólans í stóru upplestrarkeppninni, sem verður haldin 11. mars. Það er á svona dögum sem ég finnst ég vera ríkasti maður í heimi.

Öskudagur

Ég þarf að játa svolítið. Ég skil ekki öskudag. Þessi dagur er eitthvað svo fáranlegur. Öskudagur er rakinn til kristni og er fyrsti dagur lönguföstu. Við erum búin að afbaka hann í einhvers konar hrekkjavöku! Á hrekkjavöku er verið að þakka fyrir uppskeru og boða komu vetursins. Hrekkjavökubúningarnir tengjast því að mörk heima hinna lifandi og hinna dauðu voru óljós þennan dag (sem er btw 31. október!). Fólk dulbjó sig til að þekkjast ekki og buðu óvættunum mat og drykk til að friðþægja þær.

Ari Carl hrikalega hræðilegur draugur. ©2010 Christopher Lund.

Öskudagur alltaf verið svolítið spes hér á landi. Ég las mig til á vísindavefnum um þróun þeirra siða sem tengjast öskudegi. Þeir hafa þróast í allar áttir í gegnum tíðina. Svo hrekkjavökuvæðing okkar Íslendinga á öskudegi er kannski ekki svo skrítin, í ljósi þess að Ísland hefur lengi haft Bandaríkin sem fyrirmynd?

Það hefði verið svolítið hressandi að skella smá þjóðernisrembing í þetta aftur. Hætta að kaupa einnota búninga á okurverði og fara að sauma öskupoka á ný. Allir krakkar út í vaðmálinu sínu að hengja poka í fólk! Kreisý stuð!

Það voru heimagerðir búningar hér á bæ. Vínberjaklasinn hennar Arndísar var nokkuð ferskur fannst mér. Hér eru fleiri myndir frá gærkvöldi við undirbúning öskudags 2010.

Laufabrauð í Rauðavaði

Laufabrauð í vinnslu. ©2009 Christopher Lund.
Laufabrauð í vinnslu. ©2009 Christopher Lund.

Við fórum í laufabrauðsgerð til Bengó, Þrása og Betu í gær. Allir voru sammála um að laufabrauðið væri sérlega vel heppnað í ár. Það var sérstaklega vel skorið og steiktist jafnt. Það er mikilvægt að pikka vel eftir skurð. Annars verður brauðið bólgið og ljótt við steikingu. Svili er mikill ástríðumaður þegar kemur að laufabrauði. Þegar hann hefur lokið skurði fellur hann í mongó-pikk-trans. Þessi mynd er einmitt af slíkum transi. Annars eru nokkrar fleiri myndir hér.

Laufabrauðsmongótrans. ©2009 Christopher Lund.