Græjutest > Nikon SU-800

Nikon SU-800 þráðlaus sendir.
Nikon SU-800 þráðlaus sendir.

Ég fékk lánaðan Nikon SU-800 þráðlausan sendi fyrir flöss hjá Beco. Líkt og ST-E2 sendirinn frá Canon gerir SU-800 ljósmyndurum kleift að staðsetja flössin burt frá sjálfri myndavélinni og skapa þannig mun athyglsiverðari lýsingu og dýpt.

Ég átti ST-E2 fyrir Canon á sínum tíma, en seldi hann fljótlega þar sem ég var aldrei öruggur hvort hann myndi virka eða ekki. Gallin við þessa senda er að þeir nota innrauða geisla og eru því háðir því að “sjá” flössin til þess að hleypa af. Notkunarsviðið takmarkast mikið við það. Ég var að vona að SU-800 væri að nota aðra tækni en svo er ekki. Mér finnst þó Nikon sendirinn vera nokkuð skárri en bróðir hans frá Canon, en engu að síður náði ég auðveldlega að skapa aðstæður þar sem hann virkaði ekki.

Stjórnun á SU-800 er aftur á móti þægileg og auðvelt að setja upp allt að þrjá “hópa” af flössum sem öll geta haft mismunandi styrk innbyrðis. i-TTL ljósmælingin með þessu kerfi er mjög góð. Á myndinni hér fyrir neðan stillti ég inn +0,7 fyrir flassið á SU-800, valdi mér ljósopið sem ég vildi vinna á vélinni og kerfið sá um rest. Hvert skotið á fætur öðru var rétt lýst og alltaf var blandan með umhverfisljósi rétt eða 2/3 undir flassinu. Það er líka kostur að flassið gefur frá sér píp til að láta vita hvort aflið hafi verið nægilegt og líka þegar það hefur hlaðið sig fyrir næsta skot. Á fullum krafti þarf auðvitað að hinkra svolítið eftir því.

Þetta þráðlausa kerfi frá Nikon leysir ekki öll verkefni. Það er vel nothæft fyrir ákveðnar tökur, sérstaklega þar sem maður reiknar ekki með því að þurfa að setja ljósið langt frá vélinni. Upplýsingar frá Nikon segja að virknin sé bundin við cirka 20m fjarlægð og innrauða augað sjái 78 gráður lárétt og 60 gráður lóðrétt. Það eru frekar þröng horn, en gengur fyrir ákveðna hluti.

Benni í Björnslundi. ©2009 Christopher Lund.
Benni í Björnslundi. ©2009 Christopher Lund.

Hingað til hef ég notað Pocket Wizards Plus II sendana, hvort sem það er með þessum litlu myndavélaflössum eða með stærri studioljósum. Þeir nota útvarpsbylgjur og því ekki háðir því að vera í “sjónlínu” frá hvor öðrum. Þeir styðja hins vegar ekki TTL ljósmælingu á neinn hátt. Það væri draumur að geta sameinað virkni TTL og áreiðanleika útvarpsbylgna Pocket Wizards.

Þeir hjá Pocket Wizard hafa nú þegar búið til slíkar græjur fyrir Canon flössin sem seljast víst eins og heitar lummur í BNA þrátt fyrir frekar hátt verð. Sambærilega græjur eru í vinnslu fyrir Nikon kerfið líka. Mér sýnist þessi lausn vera a.m.k. tvisvar sinnum dýrari – og ef þú notar fleiri en eitt flass þarf að kaupa móttakara fyrir hvert þeirra sem hækkar verðið í takt.

Að geta notað TTL ljósmælinguna er mikill kostur. Oft hefur maður takmarkaðann tíma eða aðstæður bjóða ekki upp á að maður sé að ljósmæla og stilla kraftinn á flössunum fram og tilbaka handvirkt. Ennfremur bjóða bæði Canon og Nikon upp á ofur-hraða sync tíma noti maður flössin þeirra með TTL. Nýja Pocket Wizard lausnin viðheldur þeim möguleika.

Hvað á maður þá að veðja á? Fyrst er að finna út hvort SU-800 mæti þínum þörfum. Það leysir verkefnin með sóma, svo lengi sem þú ferð ekki út fyrir skilgreint notkunarsviðið. Ég gæti vel hugsað mér að eiga SU-800, en ég veit að ég yrði að vera með Pocket Wizard-inn til vara. Kannski verður það úr sögunni þegar nýju græjurnar koma frá PW?