Flateyjartími

 (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Það er kominn Flateyjartími. Hin árvissa Flateyjarferð verður farin næstu helgi. Vinahópurinn minn er svo lánsamur að hafa aðgengi að góðum húsakosti á þessari dásamlegu eyju á Breiðafirði. Börnin okkar eru farin að miða upphaf sumars við þessa ferð. Ekki skrítið, þar sem við höfum nánast alltaf upplifað fádæma veðurblíðu þarna í lok maí.

 (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Í gegnum tíðina hef ég verið nokkuð duglegur að ljósmynda í þessum ferðum. Það eru ekki síst börnin sem eru viðfangsefni, enda er vinahópurinn minn bæði fagur og frjósamur. Ég hef oft spáð í því hvað ég er lánsamur að hafa þessa ástríðu. Vissulega kraumar hún missterkt frá degi til dags. En á stað eins og Flatey er varla hægt annað en að finna sterkt fyrir henni.

 (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Hérna má skoða fleiri myndir úr Flateyjarferð 2010.

 

 

Flateyjardömur

Yo Flatey homeboy! ©2008 Christopher Lund
Yo Flatey homeboy! ©2008 Christopher Lund

Þá er þessi tími ársins runninn upp á ný. Flatey á Breiðafirði kallar. Hópurinn leggur í hann á morgun og verður fram á sunnudag. Ég er að raða í töskuna hérna á vinnustofunni. Held ég hvíli filmuna í ár. Tók bara með mér filmu í fyrra og skaut á Hasselblad. Hér má skoða úrval frá ferðinni í fyrra.

Það er alltaf sama tilhlökkunin að komast út í Flatey. Maður fær bara aldrei nóg af þessum stað!

Blávatni safnað í Flatey. ©2008 Christopher Lund
Blávatni safnað í Flatey. ©2008 Christopher Lund

Flatey 2006 remastered

Sólbaðaður stigi í Flatey. ©2006 Christopher Lund
Sólbaðaður stigi í Flatey. ©2006 Christopher Lund

Það er í senn blessun og bölvun að tækninni fleygi fram eins hratt og raun ber vitni. Þegar maður ljósmyndar stafrænt í RAW skráarsniði er endalaust hægt að vinna myndir upp á nýtt. Þegar hugbúnaðurinn þróast og býður upp á nýjar úrvinnsluaðferðir er freistandi að endurvinna myndir sem manni þykir vænt um. Ég var í þessu í dag þegar ég ákvað að fara í gegnum myndir frá Flatey teknar vorið 2006.

Þorpið í Flatey. ©2006 Christopher Lund
Þorpið í Flatey. ©2006 Christopher Lund

Ég var nú reyndar ekki búinn að fullvinna þær allar í upphafi. Það er nú meira reglan en undantekningin hjá mér í þessum prívat verkefnum. Ég er t.d. núna að gera átak í að koma Flateyjarmyndum almennilega í hús. Sagði ykkur frá því um daginn að 2004 árgangurinn hafði ekki einu sinni farið í skönnun. Ég er með það og árgang 2008 í vinnslu hér heima á kvöldin. Þetta er filmustöff sem tekur óneitanlega lengri tíma að vinna úr. Samt svooo gaman að skjóta á filmuna inn á milli.

Spur Cola flaska í glugganum í skemmunni hans GPÓ. ©2006 Christopher Lund
Spur Cola í skemmunni hans GPÓ. ©2006 Christopher Lund

En alla vega… þeir sem vilja endurskoða Flateyjarmyndirnar frá 2006 geta gert það hér.

Hofsós var það heillin

Drangey í Skagafirði. © Christopher Lund
Drangey í Skagafirði. © Christopher Lund

Þá leggjum við land undir fót og höldum norður á Hofsós með góðum vinum um Páskana. Stefnan er svo að tékka á skíðasvæðinu Tindastól. En að öðru leyti er bara afslöppun og kósíheit. Kannski að maður taki eitthvað af myndum líka?

Þessi hér að ofan er tekin á leið út á Hofsós fyrir mörgum árum. Hasselblad 503CW og 350mm Carl Ziess. Ég er búinn að vera í svolitlum filmugír undanfarið. Aðallega við að skanna og vinna úr eldri myndum. Fann m.a. negatívur frá Flateyjarferð 2004 sem ég hafði aldrei gefið mér tíma í að skanna.

Skeljaskvísur í Flatey. ©2004 Christopher Lund
Skeljaskvísur í Flatey. ©2004 Christopher Lund

Þessi fær því líka að fylgja með af sætum skvísum við gamla samkomuhúsið… sem nú er orðið hluti af glæsilegu Hóteli.

Ég tók bara á filmu í þessari ferð, allt á bladdarann og Fuji NPH 400. Skaut líka vídéo sem bíður úrvinnslu (eins og 95% af vídéo sem ég hef skotið í gegnum tíðina). Ég finn hvernig Flateyjarfirðingurinn er farinn að gera vart við sig!

Gleðilega Páska öll sömul!

Straumlínulagaður tölvupóstur


Pósthúsið í Flatey á Breiðafirði. Hasselblad SWC 903, Fuji NPS 160

Ég gerði svolítið sniðugt um daginn (svona til tilbreytingar).

Líkt og margir er ég með nokkur mismunandi tölvupóstföng. Og líkt og margir á ég fleiri en eina tölvu þar sem ég les og skrifa tölvupóst. Það flækir málin, því stundum lendi ég í því að finna ekki póst þar sem ég sit við ranga tölvu. Ég var því sífellt að passa upp á að svara a.m.k. vinnutengdum tölvupósti alltaf úr sömu tölvunni, sem klikkaði auðvitað margoft (því ég er svoddan trommuheili).

Ég ákvað því að frá og með áramótum skildi ég sameina allt heila klabbið undir Gmail tölvupóstinum. Það þýðir ekki að ég hafi lagt öðrum póstföngum en Gmailinu. Ég læt bara áframsenda allan tölvupóstinn á Gmailið. Gmail býður svo upp á að bæta við fleiri frá-póstföngum og því get ég notað öll tölvupóstföngin á einum stað. Ég þarf ekki sífellt að velta því fyrir mér í hvaða tölvu ég skrifaði póstinn. Röðun póstsins í Gmail í formi samtala er þægileg og ekki skemmir fyrir að þurfa ekki að hafa áhyggjur af afritun eða að stærð pósthólfins.

Hliðræn endurholgun


Endurholgun? Hasselblad 503CW, Planar 80mm f/2.8

Fyrir þá sem trúa á endurholgun þá er ómögulegt að ætla annað en að í einhverju lífi sé maður fugl. Ég meina, hversu margar dýrategundir para sig fyrir lífstíð?

Þá er spurning: Hvar vill maður vera – sem fugl – með sinni heittelskuðu? Í mínu tilfelli er því auðsvarað: Flatey á Breiðafirði. Ég er búinn að koma þangað nógu oft til að átta mig á því að þar er e-h mögnuð frumorka. Orka sem dugar manni næstum út árið, eftir eina langa helgi í lok maí eða byrjun júní.

Og ég trúi því eiginlega að á myndinni hér að ofan hafi ég náð að ramma framtíðina. Þarna er ég og Margrét að tékka á stemmaranum við Ásgarð í Flatey.

Skin og skúrir í Flatey

Flatey
Flatey í lok maí 2008. Hasselblad 503CW, Planar 150mm f/4, Fuji Reala.

Ég ákvað að skella inn tveimur myndum frá Flatey. Bara svona til að sýna fram á það að ég er á lífi og er byrjaður að vinna úr myndunum. Það er óneitanlega meira haft fyrir því að skjóta á filmuna, svo ekki sé minnst á kostnaðinn. Ég fór líklegast með um 30-40 þúsund í filmur og framköllun, og var alls ekki svo grimmur að skjóta (tók 18 filmur 120mm og fjórar 35mm).

Það var gaman að sjá svipinn á börnunum þegar ég mundaði bladdarann. Mörg þeirra virtust varla trúa því að um myndavél væri að ræða. Sérstaklega þegar þau gátu ekki skoðað myndirnar á skjánum!

Sunna við poll
Sunna að vaða í polli. Hasselblad 503CW, Distagon 50mm f/4, Fuji NHG

Það fylgir því e-h sælustraumur að mynda með þessum gæðagripum. Þetta ferningslaga format hefur heillað mig alveg frá því að ég var smá púki og lá yfir svart/hvítu kontöktunum hans pabba hér í denn. En það er líka e-h óútskýranlegur galdur við það að horfa svna ofan í vélina á speglaðan veruleikann (ég nota yfirleitt ekki prisma) og ramma myndefnið inn þannig.

En þetta verður víst að duga í bili… meira seinna…