Kærkomnir endurfundir

Saltvatn skolað af Nikon D3x

Ég stútaði myndavél í sumar. Nikon D3x vélin mín steyptist fram af kletti og ofan í sjó, ásamt Nikkor AF-S 14-24mm f/2.8G og Gitzo þrífót. Svona klaufar eins og ég eru tryggðir upp í rjáfur, en engu að síður þokkalegasta tjón þar sem sjálfsábyrgðin er 15%. Ég hafði strax samband við Beco sem fóru á fullt að útvega mér nýrri vél. Lagerstaða á D3x hefur verið lág um allan heim og því tók tíma að redda vél. Beco lánuðu mér D3x ítrekað í sumar endurgjaldslaust sem er frábær þjónusta. Ég var því frekar aumur að geta ekki gengið frá kaupum þegar vélin kom nokkrum vikum síðar. Tryggingarféð hafði að sjálfsögðu  horfið í reksturinn og ég kaupi ekki svona dýra hluti nema sjá fyrir endan á fjármögnun.

Við tóku vikur án D3x og því lengra sem leið, því líklegra fannst mér að Nikon myndu kynna nýja D800 eða D4. Það voru alls konar sögusagnir í gangi, en ekkert hefur enn bólað á D-SLR uppfærslum. Fyrir síðustu helgi gat ég bara ekki verið án D3x lengur og gekk frá kaupum á nýrri vél. Beco var reyndar búin að selja vélina sem upphaflega var pöntuð fyrir mig, en áttu aðra. Ef maður skoðar lagerstöðu víða um heim, sést að það er mjög lítið til af Nikon D3x og jafnvel líka D3s. Það má því teljast nokkuð magnað að hún skuli vera til á lager hér á Íslandi.

Allar pælingar mínar varðandi að kaup á röngum tíma hurfu um leið og ég byrjaði aftur að skjóta með vélinni á föstudaginn var. Það er bara e-h galdur við D3x. Hún hefur einstakan karakter. Tónasviðið (D-range) er frábært í landslagið og ég hef ekki enn fundið vél sem skilar húðtónum betur. Vissulega væri gaman að fá HD video og hraðari örgjörva svo hún réði við meira en 1.8 ramma á sek þegar skotið er í 14bit. En ég er afar sáttur að vera loks kominn x-inn aftur í töskuna.

Nýja linsan rokkar

Arndís plokkar rafmagnsgítarinn. ©2009 Christopher Lund.

Fyrir rúmum mánuði eignaðist ég nýju 24mm f/1.4L II linsuna frá Canon. Var lengi búin að langa í þessa brennivídd í þessari föstu og hröðu L-línu. Ég prófaði fyrstu kynslóð af henni og þótt hún sé góð þá fannst mér hún vera nokkuð lakari en t.d. 35mm f/1.4L sem ég á líka og er ein af mínum uppáhalds linsum.

Á þessum mánuði hef ég notað linsuna töluvert það er skemst frá því að segja að hún stendur undir væntingum og vel það. Teikningin í henni er falleg, bjögun furðu lítil og bakgrunns-blurið dásamlegt.

Stoppuð niður í f/2.0 eins og á þessari mynd af Arndísi er hún snilld, nær fram öllum smáatriðum og þolir mótljósið vel. Það eru ekki notuð nein ljós við tökuna, hér er eingöngu um dagsljós frá gluggum að ræða. Skotið á 5D Mark II á ISO 800, f/2.0 og 1/80s. Dýptarskerpan er að sjálfsögðu ekki mikil, en það er jú með ráðum gert.

100% crop frá sömu mynd.
100% crop frá sömu mynd.

Það er því óhætt að mæla með þessu gæðagleri, ef ykkur vantar gleiðhornalinsu sem hægt er að nota í mjög döpru ljósi og/eða til að einangra viðfangsefnið frá bakgrunninum.

Myndir ársins og nýjar TS-E frá Canon

Myndir ársins 2008 opnar í­ Gerðarsafni í­ dag kl. 15.00. Vert er að taka það fram að frítt er á sýninguna eins og áður. Hún er alltaf vel sótt, Golli sagði mér í gær að hún væri árlega mest sótta sýning Gerðarsafns. Það kemur ekki á óvart. Þessi ljósmyndasýning er baksýnisspegill þjóðarinnar.

Um að gera að skella sér og mingla við kollegana. Reyndar er frekar vonlaust að skoða sýninguna vel í dag út af mannfjöldanum. Fyrir mitt leyti kemur það ekki að sök. Ég prentaði sýninguna og er því líkast til búinn að skoða hana manna best.


Háskólatorg. Canon EOS 1Ds Mark III, TS-E 24mm f/3.5L

Ég er farinn að verða spenntur fyrir komu nýju Tilt/shift linsanna fá Canon. Sjálfur á ég 24mm og 90mm TS-E sem ég nota mikið. 90mm linsan er skörp og fín, en 24mm linsan mætti vera skarpari, sérstaklega út í hornin. Ég var búinn að spá því að Canon myndi uppfæra víðustu TS-E linsuna, en átti ekki von á því að þeir kæmu með nýja enn víðari.


Sléttuvegur. Canon EOS 1Ds Mark III, TS-E 24mm f/3.5L

Ég reikna fastlega með að uppfæra 24mm TS-E linsuna mína, en er ekki viss um að ég tími að splæsa í þessa 17mm. Það er ekki bara óhagstætt gengi sem spilar inn í þá ákvörðun.

Persónulega finnst mér þessar ultra-víðu linsur ekki eins skemmtilegar. Ég á 16-35mm f/2.8L II sem ég nota m.a. í interior arkitektúr. Mér leiðist hins vegar þegar ég þarf að nota hana mikið á víðasta endanum. Bjögunin er svo svakaleg að ég upplifi mig sem argasta lygalaup þegar myndir af 20fm rými eru farnar líta út eins og 100fm salakynni! Hins vegar veit ég svo sem um hús sem hægt væri að gera mjög skemmtilega hluti með svona 17mm TS-E. Þannig að maður á aldrei að segja aldrei.

Annars ég bara góður. Bísnessinn er nokkuð þéttur, þrátt fyrir allt. Maður kvartar ekki á meðan.

Leitin að fullkomnu töskunni


Ég veit ekki hvað ég hef átt margar ljósmyndatöskur. Þær skipta tugum. Litlar og stórar, axlartöskur, bakpokar, axlartöskur með fartölvuhólfi, bakpokar með fartölvuhólfi – nefndu hana og ég hef líkast til keypt hana! Og það fyndna er að oftast dett ég aftur niður á að nota gömlu Billingham töskuna sem ég keypti í Beco fyrir meira en 15 árum.

Fyrir nokkrum dögum tók ég aðeins til í hrúgunni hér á vinnstofunni og ákvað að selja þær töskur sem væri öruggt að ég notaði ekki meira. Þar á meðal voru tvær stórar: LowePro Stealth Reporter D650AW og Tamrac Cyperpack 8. Báðar töskurnar taka mikið af dóti, tvö hús, slatta af linsum, flass og fartölvu. Hljómar vel í fyrstu, en er eiginlega ávísun á vandræði. Taskan verður allt of þung. Svo þegar svona snillingar eins og ég ákveða að fara úr 15″ MacBook í 17″ MacBook (stútaði 15″ vélinni rétt fyrir jól – efni í annan póst) þá erum við að tala um aaaaaallt of þung!

Í kjölfarið á brunaútsölunni keypti ég svo enn einn pokann um daginn, LowePro Vertex 200AW. Ég var að leita að poka sem tæki tvö hús – ás og fimmu, stóra 70-200mm linsu 3-4 aðrar linsur, flass, pocketwizard’s, ljósmæli og allt smádótið. Pokinn er mjög solid og böndin traust, sérstaklega mittisstrap-ið (eiginlega of massað – tekur fáranlega mikið pláss). Hann getur tekið 15″ fartölvu, get meira að segja troðið 17″ vélinni í hann ef mér er illa við hana. Þessi poki er hugsaður í þeim tilfellum sem ég þarf að vera með mikið með mér og þarf að bera í lengri tíma. Þá er nauðsynlegt að vera með bakpoka til að hlífa bakinu. En hann er ekki eins þægilegur dags daglega og ég hafði vonað. Flottur í ferðalögin hins vegar.

Ég á annan poka sem er mun betri til daglegs brúks. Áður en ég fargaði 15″ MacBook vélinni var ég að nota LowePro FastPack 250 sem er að mörgu leyti frábær poki. Tekur ás eða fimmu með linsu á (svolítið þröngt um ásinn með RRS L-plötu, en sleppur), 2-3 gler í viðbót (þó ekkert lengra en 135mm), fartölvu upp við bakið og svo er sér hólf fyrir ofan myndavélahólfið fyrir hvað sem er. Það er hægt að troða 17″ MacBook vél í fartölvuhólfið en það þarf svolitla lagni til að ná henni út aftur. Þessi poki hentar betur með 15″ MacBook og mjög fínn ef maður vill vera með lágmarks kit með sér + fartölvuna (af hverju í ósköpunum var ég að flækja lífið?).

Ástæðan fyrir því að ég fór í 17″ MacBook er sú hún hefur sama afl og nýju 15″ vélarnar. Ég fékk hana á mun betra verði, enda nýja 17 tomman rétt ókomin. Ég setti 4GB vinnsluminni í hana og örgjörvinn er sá sami og í nýju 15″ vélunum. Skjárinn er mattur, stærri og með betri upplausn, Nýja 17″ vélin er náttúrulega flottust af þessu öllu. En það hefði þýtt a.m.k. 200 þúsund kall í viðbót sem mér finnst orðið fáranlegur prís fyrir fartölvu!

En nú er ég sem sagt kominn hringinn. Setti í Billingham-inn áðan: 1Ds Mark III með 50mm linsu, 5D Mark II hús án linsu, 35mm f/1.4L, 16-35mm f/2.8 L II, 85mm f/1.2L II, 70-200mm f/2.8 IS L, 580 EX flass, sekonic ljósmæli, pocketwizard’s, 2 minniskortaveski, linsupappír- og bursta, lítið maglite ljós, 5/32 hexkey og auðvitað auka rafhlöður. Taskan tekur ekki fartölvu (enda voru þær á stærð við einbýlishús þegar þessi taska var keypt) en ég er líka kominn á það að ef ég vill vera með tvö hús og 3-4 gler með mér þá verður taska með því + fartölvu of þung til að bera með sér alla daga.

Ég er Imelda Marcos ljósmyndataskanna.

Jólin komu snemma í ár


Arndís málar sig. Canon EOS 5D Mark II, EF 50mm f/1.2L

Ég sá eftir því að hafa selt fimmuna mína. Þó að hún væri ekki eins sterkbyggð og ásarnir og ekki með eins öflugt fókuskerfi var hún samt svo frábær. Þegar ég spái í það þá er Canon EOS 5D líkast til bestu myndavélakaup sem ég hef gert. Frábær myndavél fyrir peninginn og stendur enn fyrir sínu.

Það var því alveg klárt að ég myndi fá mér næstu kynslóð af fimmunni þegar hún kæmi. Mig grunar líka að nýja fimman eigi ekki eftir að reynast lakari fjárfesting (hún tvöfaldaðist reyndar í verði frá því að ég pantaði hana og þangað til ég fékk hana í hendur, en það er önnur og leiðinlegri saga.).

Í gærkvöldi voru kjöraðstæður til að reyna nýja gripinn. Stelpurnar mínar voru að leika sér að mála sig og eini ljósgjafinn í þessum myndum er jólasería sem hangir í kringum spegilinn. Myndin af Arndísi hér að ofan er tekin á ISO 3200 og þessar af Bjargey eru teknar á ISO 6400. Fljótt á litið sýnist mér fimman gefa mér sömu gæði á ISO 6400 og Mark III ásarnir skila á ISO 3200. Auk þess get ég pressað hana tvo stopp í viðbót upp að ISO 25600 sem er náttúrlega bara bull! Ég hef reyndar ekki prófað það ennþá, fyrir utan nokkur skot í gær á ISO 12500. Þau voru gróf, en myndu samt alveg ganga í mörgum tilfellum.


Bjargey málar sig. Canon EOS 5D Mark II, EF 50mm f/1.2L


100% crop, þetta er skotið á ISO 6400!

Ég myndaði svo ballettíma hjá Bjargey í dag, flakkaði á milli ISO 800-3200, allt eftir því hvaða linsu ég notaði. Tók saman nokkrar myndir sem má skoða hér. Til að vinna úr þessum skrám í Lightroom þurfti ég að sækja nýjasta Adobe DNG Converter og byrja á því að breyta .CR2 skránum í .dng þar sem Lightroom 2.1 styður ekki hráfælana. Uppfærslan er handað við hornið samkvæmt Adobe.


Ballettími. Canon EOS 5D Mark II, EF 70-200mm f/2.8L IS

Það er óhætt að segja að vélin stendur undir væntingum. Ég á alveg eftir að skoða video möguleikana, en hún getur líka tekið allt að hálftíma full-HD videomyndir. Það opnar nýja möguleika, en ljósmyndarar erlendis eru að færa sig meira inn á kvikmyndsviðið, sérstaklega sumir auglýsingaljósmyndarar sem eru farnir að bjóða viðskiptavinum að slá tvær flugur í einu höggi. Þar eru RED vélarnar ákaflega spennandi og ljóst að framtíðin í þessum geira er mjög áhugaverð!

Besta fjölskylduvélin?


Aratásur. Lomo LC-A. © Margrét Rúnarsdóttir

Ég held því fram að Lomo LC-A sé besta fjölskyldumyndavél sem framleidd hefur verið. Af hverju? Skoðið bara þessar gömlu myndir sem ég rakst á þegar ég var að taka til í tölvunni í kvöld. Þarna hafa flestir fjölskyldumeðlimirnr tekið myndir og mér finnst þetta steinliggja allt saman. Framtíðin er analog. Það er í stíl við vísitölurnar.

Hver þarf photoshop?


Lomodraumur við Hverfisgötu 71. Lomo LC-A+ og tvílýst Fuji filma.

Ég keypti nýja Lomo LC-A+ fyrir nokkru þar sem gamla Lomo vélin mín var hætt að virka. Þessi nýja er reyndar ekki alveg alvöru, linsan er reyndar sú sama, en vélin sjálf er nú framleidd í Kína. Upphaflegu Lomo vélarnar eru rússneskar og eru frábrugðnar að því leyti að ekki er hægt að tvílýsa myndir á eins auðveldan hátt. Á þeim er ennfremur hægt að stilla ljósopið og ljósnæmnisvið ljósmælis er frá ISO 25-400, en á þeirri nýju er það ISO 100-1600. Auk þess er búið að bæta við möguleika við að nota afsmellarasnúru á þeirri nýju. Fyrir þá sem hafa áhuga á að skoða Lomo, þá er vélin til í Hans Petersen á Laugarvegi 178! Þar eru reyndar til margar aðrar vélar eins og Holga ofl.

Ég skrapp svo til Köben um síðustu helgi. Í stað þess að rogast með þunga D-SLR vél ákvað ég að taka bara Lomo með í staðinn. Það var snilld í svona ferð. Ég pósta örugglega myndum inn á galleryið þegar ég er búinn að vinna úr þessu. Ég var aðallega í e-h double og triple exposure pælingum… kannski ekki svo óviðeigandi, svona í takt við Julebryg neysluna!

Kreisý

d3front-001.gifAllt brjálað. Nikon kynnir D3, fyrstu full-frame vélina frá Nikon. Samt “bara” 12 milljón pixlar. Engu að síður frekar öflug vél ef maður skoðar nánar. Nýr CMOS skynjari sem á víst að vera svo gott sem laus við “noise” eða suð. Ljósnæmni frá ISO 200-6400 ásamt sérstakri low stillingu (ISO 100) og svo tveimur high stillingum sem þýðir allt að ISO 25600 (nei þetta er ekki prentvilla). Það er ljóst að þessi vél kemur til með að velgja Canon EOS 1D Mark III undir uggum. Nikon á þó enn eftir að koma með svar við 1Ds MII. Eitthvað slúður hefur heyrst að 15-16 milljón pixla Nikon D3x muni ekki vera allt of langt undan, en það kemur í ljós hvað er til í því.

En allur þessur fókus á megapixlana skiptir minna máli en fólk heldur. Tökum Canon EOS 5D sem dæmi. Ríflega 12.5 milljón pixlar á 24x36mm skynjara. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá get ég varla séð neinn alvöru mun á því að skjóta með henni á móti Canon EOS 1Ds Mark II sem er 16.5 milljón pixlar. Þar sem pixel-þéttleikinn er minni á fimmunni skilar hún hreinni skrám. Því grunar mig að þessi nýji þristur frá Nikon eigi eftir að verða algjör dúndur vél. Algjör snilld fyrir blaðaljósmyndara og “event” ljósmyndara eins og mig. Við feðgar erum með sitt hvort kit-ið og því verður uppfært á báða bóga. Við erum svona “bæði betra” menn. Veljum bara allt dótið!

kjos-veidi.jpg
Laxá í Kjós, Hasselblad X-pan 45mm f/4, Ilford XP2

Svo er allt annað líka brjálað. Ég er upp fyrir haus í myndvinnslu. Brúðkaupin bíða í röðum eftir vinnslu. Svo er ég að leggja lokahönd á úrvinnslu mynda frá veiðiferð sem ég myndaði í byrjun ágúst. Var tvo daga í Kjós að elta veiðimenn. Lítið um fisk, en ég var þó svo heppinn að vera tvisvar á réttum stað þegar laxinn tók. Furðulegt fyrir mig að vera svona heppinn? Hef hingað til verið talinn frekar seinheppinn. Eða er ég kannski bara svona klaufi? Það var alla vega þokkaleg heppni þar sem stangirnar eru tíu (og því 20 veiðimenn) á frekar stóru svæði. Áin var reyndar stútfull af fiski, en það var svo lítið í henni að hann var ekkert að taka. Á meðan veiðimennirnar köstuðu í gríð og erg stökk bæði lax og sjóbirtingur bókstaflega á milli fóta þeirra! Ég hafði mjög gaman af þessu verkefni. Hvernig er annað hægt þegar maður fær greitt fyrir að vera tvo heila daga úti í náttúrunni að leika sér? Ég tók með mér Xpan og skaut nokkrar filmur svart/hvítt, svona til að fá annan vinkill með þessu stafræna.