Laugar að hausti

Þegar veðurspáin var svona góð eins og hún var fyrir síðustu helgi vissi ég að ég yrði að komast inn í Laugar. Ég ætlaði að tjalda, en þar sem það var laust í skála ferðafélagsins ákvað ég að gista frekar þar enda með börnin með mér. Við erum ágætlega græjuð en eigum þó ekki dúnpúka fyrir alla fjölskyldumeðlimi! Það er gaman að koma inn í laugar að hausti. Ferðamennirnir eru á bak og burt enda mesta ferðatímabilið liðið. Sumir forðast Landmannalaugar á sumrin sökum þess að þar er oft ansi þröngt á þingi. Þessa helgina var þó langt frá því fámennt. Bændur eru enn að ná í síðustu eftirlegukindurnar svo það var líf og fjör í skála FÍ.

Við fengum fallega birtu báða dagana, þó að ég hafi náð hlutfallslega fleiri góðum myndum á laugardeginum. Síðdegisbirtan er heit og falleg á þessum árstíma. Morgunbirtan blokkerast af Norðurbarminum svo sólarupprás nær ekki að sleikja Laugahraunið og Brennisteinsöldu líkt og á sumrin. Engu að síður gríðarlega fallegt að vera staddur í hlíðum Bláhnjúks við sólarupprás. Og líka auðveldara að leggja í göngu um sjö leytið frekar en fjögur eins og í sumar!

Á sunnudeginum dóluðum við okkur svo dómadalsleið heim á leið með viðkomu að Eskihlíðarvatni. Lífið er ljúft þegar maður á svona stundir með börnunum sínum. Það eru forréttindi að búa í landi eins og okkar. Vonandi höfum við vit á því að varðveita landið fyrir komandi kynslóðir í stað þess að fórna því fyrir næstu skyndilausn í efnahags- og atvinnumálum.

Feðgar á fjöllum

Við fjallið Einhyrning, Eyjafjallajökull í baksýn. ©2009 Christopher Lund.
Við fjallið Einhyrning, Eiríksjökull í baksýn. ©2009 Christopher Lund.

Sunnudaginn var skruppum við pabbi austur á Hvolsvöll. Fórum reyndar fyrst með tjaldvagninn minn í vetrargeymslu að Stóruvöllum og gistum svo á Hótel Hvolsvelli í góðu yfirlæti. Hótelið er stærra en maður reiknar með á Hvolsvelli. Herbergin eru stór og fín og maturinn ekki síðri. Við fengum dýrindis lambafile sem rann ljúflega niður með góðu rauðvíni frá Ástralíu.

Horft yfir í Húsadal frá Fífuhvömmum. Eyjafjallajökull í baksýn. ©2009 Christopher Lund.
Horft yfir í Húsadal frá Fífuhvömmum. Eyjafjallajökull í baksýn. ©2009 Christopher Lund.

Ástæða ferðarinnar var fyrst og fremst að rifja upp gamla tíma. Við feðgar ferðuðumst mikið þegar ég var púki. Pabbi var alltaf að ljósmynda eða selja loftmyndir, nú eða Polariod myndavélar! Ég var því búinn að koma á flesta þéttbýlisstaði landsins löngu fyrir fermingu – og það nokkrum sinnum. Það fór minna fyrir hálendisferðum í þá daga. Þó ég muni reyndar vel eftir ferðum að Sigölduvirkjun. Þá leigði sá gamli jeppa og keyrði alveg eins og brjálæðingur (þannig er það alla vega í minningunni).

Ofan við Markarfljótsgljúfur. Hattafell, Stórkonufell og Mófellshnausar í baksýn. ©2009 Christopher Lund.
Ofan við Markarfljótsgljúfur. Hattafell, Stórkonufell og Mófellshnausar í baksýn. ©2009 Christopher Lund.

Það stóð til að fara Syðra Fjallabak, upp með Fljótshlíðinni og rúlla alla leið í Landmannalaugar. Klára svo með því að fara Landmannaleiðina tilbaka í bæinn með kvöldinu. En við komumst bara rétt áleiðis – eða upp að Markarfljótsgljúfrum. Þar var töluverður snjór og við lentum í smá basli. Þar sem við vorum einbíla vorum við ekki að taka neina sénsa. Það kom þó ekkert að sök, landið skartaði sínu fegursta í frábæru veðri, svo við tókum því rólega og nutum náttúrunnar.

5 pund í dekkjum og Einhyrningur í baksýn. ©2009 Christopher Lund.
5 pund í dekkjum og Einhyrningur í baksýn. ©2009 Christopher Lund.

Það var gaman að komast burt úr borginni og stilla tímann aftur um eins og 25 ár. Nú höfðu hlutverkin aðeins snúist við, þar sem ég var ökumaður og pabbi farþeginn. Takk fyrir ferðina pabbi.

Augnablik við Langasjó

Leikur ljóssins við Langasjó. ©2009 Christopher Lund
Leikur ljóssins við Langasjó. ©2009 Christopher Lund

Sumir dagar eru lengri en aðrir. Fjórir dagar á Hálendi Íslands gefa orku á við þriggja vikna frí.

Við vorum stödd á Ísafirði þegar við tókum ákvörðun um miðjan júlí að skella okkur í þessa ferð með Ástu. Ég var að skoða tölvupóstinn í fyrsta skipti í tvær vikur og þarna var skeyti frá Ástu um aukaferðina á Langasjó.

Uppgufun á Breiðbak. ©2009 Christopher Lund
Uppgufun á Breiðbak. ©2009 Christopher Lund

Ég var ekki lengi að sannfæra Margréti um að þetta væri tilvalin afmælisgjöf fyrir okkur, en það er bara vika á milli daganna okkar í ágúst. Ég sagði Andra og Möggu frá ferðinni og hvatti þau til að slást með í för. Það endaði þannig að við fórum saman í ferðina með elstu börnin okkar, þau Hlyn Snæ og Bjargey.

Morgunjóga á Skjaldmeyjartá við Streðvík. ©2009 Christopher Lund
Morgunjóga á Skjaldmeyjartá við Streðvík. ©2009 Christopher Lund

Það er alltaf lotterí að fara á fjöll. Veðrið er óútreiknanlegt og það finnst ekki öllum spennandi að liggja í tjaldi í 650m hæð yfir sjávarmáli, inn við jökul um miðjan ágúst. En þegar verðlaunin eru af þessum toga finnst mér það lítil áhætta að taka.

Margrét við Langasjó, Fögrufjöll í baksýn. ©2009 Christopher Lund
Margrét við Langasjó, Fögrufjöll í baksýn. ©2009 Christopher Lund

En það er ekki bara áfangastaðurinn sem skiptir máli í svona ferð. Fararstjórn vegur þungt og þar eru þær systur Ásta og Harpa ásamt matráðskonunni Brynhildi fremstar meðal jafningja. Við fórum með Augnabliki upp á Öræfin fyrir austan sumarið 2006. Því vissum við vel að hverju við gengum. Flæðið hjá þeim er magnað, allt rennur ljúflega áfram og hnökralaust. Jóga kvölds og morgna og andlegt nesti fyrir göngurnar gera ferðina að svo miklu meira en bara hálendisleiðangri.

Afmælisveisla við varðeld. ©2009 Christopher Lund
Afmælisveisla við varðeld. ©2009 Christopher Lund

Fyrir ljósmyndara að komast í tæri við fegurð eins og er að finna í nágrenni við Langasjó er auðvitað spennandi. Að fá svo alls konar birtuskilyrði á sama deginum er draumur. Og það er ekki ónýtt að fá afmælissöng við varðeld heldur.

Hér má svo skoða mun fleiri myndir frá þessari frábæru ferð:
Slideshow eða yfirlit.