Raufarhöfn

Surf and turf at Raufarhöfn, Iceland. (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Stundum kemur það fyrir að ég sest niður við tölvuna að kveldi til að vinna í ákveðnu verkefni, en afvegaleiðist í eitthvað allt annað. Oftar en ekki eru það myndir sem ég var búinn að krukka eitthvað í, en ekki haft tíma eða nennu til að klára. Það er enginn skortur á slíku efni á mínum hörðu diskum.

Sumarið 2009 tók ég svolítið á filmu hér og þar. Ekki fallegt landslag, ekki fjölskyldumyndir, ekki neitt nema bara það sem vakti áhuga minn þær mínútur eða klukkustundir sem ég eyddi á hverjum stað.

Svona ljósmyndun er mín hugleiðsla. Get ekki lýst því, en ég dett í hlutlausan. Hugsa ekki heldur ljósmynda bara. Það fylgir því dásamlegt frelsi að hugsa ekki. Elta bara sjálfan sig án þess að pæla neitt hvert maður er að fara.

Ég veit ekki hvort þessar myndir frá Raufarhöfn sem teknar voru í tveggja tíma hugleiðslu séu ‘góðar’. Mér þykir vænt um þær því þær kippa mér beint í tilfinninguna í hvert sinn sem ég skoða þær. Það finnst mér vera ljósmyndun. Ég held að ef tilfinningin smitast eru myndirnar ‘góðar’.

565 Hofsós

Sjálfsmynd á Prestsbakka. ©2009 Christopher Lund
Sjálfsmynd á Prestsbakka. ©2009 Christopher Lund

Við fórum norður á Hofsós um páskana. Þetta var æðislegt páskafrí með góðum vinum, skíðaferðum og frábærum mat auðvitað.

Ég ákvað að taka með mér bladdarann í þessa ferð. Ég fæ alltaf filmulosta annað slagið. Það er eitthvað við að skjóta á Hasselblad V-systemið sem engar aðrar vélar ná að gefa mér. Og á þessum hröðu stafrænttilbúiðígær-tímum er ákveðin endurholgun fólgin í því að rölta um með mekanískar filmuvél og skjóta efni, sem er ekki ætlað neinum nema mér sjálfum.

Höfðaströnd við Hofsós. ©2009 Christopher Lund
Höfðaströnd við Hofsós. ©2009 Christopher Lund

Ég fór í tvær stuttar gönguferðir um Hofsós eftir skíðaferðirnar og hlóð andlegu rafhlöðurnar. Afraksturinn er að finna hérna.

Hofsós var það heillin

Drangey í Skagafirði. © Christopher Lund
Drangey í Skagafirði. © Christopher Lund

Þá leggjum við land undir fót og höldum norður á Hofsós með góðum vinum um Páskana. Stefnan er svo að tékka á skíðasvæðinu Tindastól. En að öðru leyti er bara afslöppun og kósíheit. Kannski að maður taki eitthvað af myndum líka?

Þessi hér að ofan er tekin á leið út á Hofsós fyrir mörgum árum. Hasselblad 503CW og 350mm Carl Ziess. Ég er búinn að vera í svolitlum filmugír undanfarið. Aðallega við að skanna og vinna úr eldri myndum. Fann m.a. negatívur frá Flateyjarferð 2004 sem ég hafði aldrei gefið mér tíma í að skanna.

Skeljaskvísur í Flatey. ©2004 Christopher Lund
Skeljaskvísur í Flatey. ©2004 Christopher Lund

Þessi fær því líka að fylgja með af sætum skvísum við gamla samkomuhúsið… sem nú er orðið hluti af glæsilegu Hóteli.

Ég tók bara á filmu í þessari ferð, allt á bladdarann og Fuji NPH 400. Skaut líka vídéo sem bíður úrvinnslu (eins og 95% af vídéo sem ég hef skotið í gegnum tíðina). Ég finn hvernig Flateyjarfirðingurinn er farinn að gera vart við sig!

Gleðilega Páska öll sömul!

Jekyll and Hide

kids_playing_piano_1

Ég rakst á þessar myndir sem ég tók í Hraunbænum, á meðan systir mín bjó þar ennþá (við bjuggum þarna síðar). Þarna má sjá Hlyn Smára, uppáhalds-frænda sýna frænkum sínum píanóið sitt. Eftir nokkrar sekúndur var svo kominn upp smá ágreiningur um hver systrana ætti að fá að prófa að spila fyrst.

Það er e-h súrelaískur konstrast á milli systrana á neðri myndinni. Arndís er aaaalveg að missa það á meðan Bjargey virðist sallaróleg með gemsa í höndunum. Skelfingarsvipurinn á frænda er svo sem skiljanlegur.

kids_playing_piano_2

Straumlínulagaður tölvupóstur


Pósthúsið í Flatey á Breiðafirði. Hasselblad SWC 903, Fuji NPS 160

Ég gerði svolítið sniðugt um daginn (svona til tilbreytingar).

Líkt og margir er ég með nokkur mismunandi tölvupóstföng. Og líkt og margir á ég fleiri en eina tölvu þar sem ég les og skrifa tölvupóst. Það flækir málin, því stundum lendi ég í því að finna ekki póst þar sem ég sit við ranga tölvu. Ég var því sífellt að passa upp á að svara a.m.k. vinnutengdum tölvupósti alltaf úr sömu tölvunni, sem klikkaði auðvitað margoft (því ég er svoddan trommuheili).

Ég ákvað því að frá og með áramótum skildi ég sameina allt heila klabbið undir Gmail tölvupóstinum. Það þýðir ekki að ég hafi lagt öðrum póstföngum en Gmailinu. Ég læt bara áframsenda allan tölvupóstinn á Gmailið. Gmail býður svo upp á að bæta við fleiri frá-póstföngum og því get ég notað öll tölvupóstföngin á einum stað. Ég þarf ekki sífellt að velta því fyrir mér í hvaða tölvu ég skrifaði póstinn. Röðun póstsins í Gmail í formi samtala er þægileg og ekki skemmir fyrir að þurfa ekki að hafa áhyggjur af afritun eða að stærð pósthólfins.

Hliðræn endurholgun


Endurholgun? Hasselblad 503CW, Planar 80mm f/2.8

Fyrir þá sem trúa á endurholgun þá er ómögulegt að ætla annað en að í einhverju lífi sé maður fugl. Ég meina, hversu margar dýrategundir para sig fyrir lífstíð?

Þá er spurning: Hvar vill maður vera – sem fugl – með sinni heittelskuðu? Í mínu tilfelli er því auðsvarað: Flatey á Breiðafirði. Ég er búinn að koma þangað nógu oft til að átta mig á því að þar er e-h mögnuð frumorka. Orka sem dugar manni næstum út árið, eftir eina langa helgi í lok maí eða byrjun júní.

Og ég trúi því eiginlega að á myndinni hér að ofan hafi ég náð að ramma framtíðina. Þarna er ég og Margrét að tékka á stemmaranum við Ásgarð í Flatey.

Skin og skúrir í Flatey

Flatey
Flatey í lok maí 2008. Hasselblad 503CW, Planar 150mm f/4, Fuji Reala.

Ég ákvað að skella inn tveimur myndum frá Flatey. Bara svona til að sýna fram á það að ég er á lífi og er byrjaður að vinna úr myndunum. Það er óneitanlega meira haft fyrir því að skjóta á filmuna, svo ekki sé minnst á kostnaðinn. Ég fór líklegast með um 30-40 þúsund í filmur og framköllun, og var alls ekki svo grimmur að skjóta (tók 18 filmur 120mm og fjórar 35mm).

Það var gaman að sjá svipinn á börnunum þegar ég mundaði bladdarann. Mörg þeirra virtust varla trúa því að um myndavél væri að ræða. Sérstaklega þegar þau gátu ekki skoðað myndirnar á skjánum!

Sunna við poll
Sunna að vaða í polli. Hasselblad 503CW, Distagon 50mm f/4, Fuji NHG

Það fylgir því e-h sælustraumur að mynda með þessum gæðagripum. Þetta ferningslaga format hefur heillað mig alveg frá því að ég var smá púki og lá yfir svart/hvítu kontöktunum hans pabba hér í denn. En það er líka e-h óútskýranlegur galdur við það að horfa svna ofan í vélina á speglaðan veruleikann (ég nota yfirleitt ekki prisma) og ramma myndefnið inn þannig.

En þetta verður víst að duga í bili… meira seinna…

Helgarorlof


Orlofsnefnd húsmæðra (litli kassinn). Hasselblad SWC 903, Fuji NPH 400.

Já, orlof var það heillin. Nú leggur maður land og láð undir fót; árleg Flateyjarferð er á dagskrá. Kærkomið frí og samvera með góðum vinum á meðan krakkaskarinn okkar skemmtir sér út í guðsgrænni náttúrunni. Í ár ætla ég að skemmta mér með Hasselblad frænda, nánar tiltekið 503CW, 903 SWC og Xpan, ásamt Carl Zeiss í brennivíddum 50mm, 80mm, 150mm og 250mm. Fékk filmuhroll áðan þegar ég var að pakka niður…

Myndina hér að ofan tók ég einn fallegan febrúardag, rétt í þann mund sem sólin náði að sleikja suðurhliðar húsanna við Hverfisgötu. Orlofsnefnd húsmæðra er nágranni minn á Hverfisgötunni. En hvað gerir Orlofsnefnd húsmæðra? Ef maður skoðar lög um orlof húsmæðra fær maður svar við þeirri spurningu. Ekki eru allir sáttir við þessa orlofsnefnd eins og má sjá hér.

Góðar stundir.

Varstu í fríi?


Ljósaskiptin í Egaliere S-Frakklandi, júlí 2003. Hasselblad 903 SWC, Fuji NPH.

Neibb ég hef ekki verið í fríi… þannig að ég hef enga afsökun fyrir slælega frammistöðu við að uppfæra þessa síðu. Tók reyndar páskafrí eins og flestir landsmenn. Notaði hluta af því til að ganga almennilega frá myndum sem ég tók sumarið 2003 í S-Frakklandi. Já, kannski kominn tími til tæplega 5 árum seinna? Ég var reyndar búinn að útbúa dýrindis albúm sem ég gaf systrum mínum í jólagjöf 2003, ef ég man rétt. En ég átti alltaf eftir að fullklára þetta; skrá myndirnar og koma í framtíðar vistun. Nú er því sem sagt lokið.

Ég ákvað að setja úrval af þessum myndum inn í galleryið, enda er ég heilt yfir frekar sáttur við þessar myndir sem ég tók fyrir bráðum fimm árum síðan. Ég ákvað nefnilega að taka ekki með mér stafræna vél í fríið, þar sem ég var nýlega búinn að kaupa stafræna videovél og fannst það of líkur miðill. Ég tók því Hasselblad 503CW og 903SWC ásamt DV videovélinni. Ég var með svo með 50, 80 og 150mm linsur á 503CW vélina og til að einfalda málin enn frekar tók ég bara með Fuji NPH 220 filmur. 400 ISO negatív eru óvitlaus þegar maður er að ljósmynda í hörðu sólarljósi og eins og þið sjáið ef þið skoðið myndirnar er konstrastinn helv… fínn í þessum myndum, þó ég segi sjálfur frá.

Varðandi myndina hér að ofan. Ef einhver er að vellta því fyrir sér hvernig þessi ljósrák varð til á sundlaugarbakkanum, þá var það Hlynur Smári litli frændi (sem er reyndar orðinn það stór að hann fermist núna í lok maí) sem gekk cirka tvo hringi með vasaljós, á meðan ég hafði lokarann opinn. Myndin er tekin á um það bil 90 sekúndum og f/8 ef ég man rétt. Ekkert photoshop trix í gangi hérna sko!