Brúðkaup fyrir norðan

Ég hef nú ekki haft tíma fyrir mörg brúðkaup í sumar. Ástæðan er sú að ég hef verið að leggja áherslu á ný tímafrek verkefni og svo tók ég mér líka gott þriggja vikna ferðalag um landið með fjölskyldunni . Þann 16. júlí gat ég tvinnað saman ferðalagið við starfið þegar ég myndaði stórskemmtilegt brúðkaup á Húsavík. Katla og Kenneth gengu í það heilaga, en hún er íslensk og hann norskur.

Það var nú heldur svalt fyrir norðan þessa helgina, en veðrið var þó mun betra en spáin hafði gert ráð fyrir. Við sluppum alveg við rigningu og rok að minnsta kosti! Brúðhjónin nýbökuðu létu kuldan ekkert á sig fá og við tókum myndir á þremur stöðum á Húsavík; í lystigarðinum (sem er vel falinn í hjarta bæjarins), niður við höfn og svo út í fjöru fyrir neðan bæinn.

Ég fylgdi þeim eftir allan daginn, frá undirbúningi til lok veislu. Það er ekki svo algengt að ég sé beðinn um að mynda undirbúningin hér heima, virðist bara ekki vera komin mikil hefð fyrir því ennþá. En ég fíla það vel, enda ljósmynda ég brúðkaup í þannig stíl. Það tekur þó vissulega svolítið á að vera á vakt í 12-16 tíma!