Er framtíðin án spegils?

Á Vestfjörðum, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/8 - 1/80s @ ISO 100
Á Vestfjörðum, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/8 – 1/80s @ ISO 100

Ég fékk lánaða Sony A7r hjá Nýherja í viku ferðalag um Vestfirði og Strandir í byrjun júní. Mig langaði að kynnast þessari verðlaunavél betur – í aðstæðum sem ég sá fyrir mér að hún hentaði vel. Stundum kemur sér vel að vera með léttari vél, sem maður grípur í og smellir bara af. Ég ákvað því að nota vélina mest án þrífót, nota auto-ISO og nota eingöngu þessar tvær sony/ziess linsur sem ég fékk lánaðar með vélinni: FE 35mm f/2.8 ZA og FE 55mm f/1.8 ZA.

Eldhraun við sólsetur, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/11 - 1/60s @ ISO 1000
Eldhraun við sólsetur, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/11 – 1/60s @ ISO 1000

Í stuttu máli kom vélin ákaflega vel út. Myndgæðin eru verulega góð, flagan í henni er sú sama í grunninn og í Nikon D800/E, þó að Nikon vinni öðruvísi úr gögnunum. Samt sem áður eru skrárnar keimlíkar Nikon D800/E hvað varðar lita- og tónadýpt. Sony A7r er létt og skemmtileg, húsið er verklegt, liggur vel í hendi og rafræni skoðarinn sá besti sem ég hef notað. Skjárinn er líka góður, nægilega bjartur til að hægt sé að nota hann í sól og frábært að fá histogram og hallamál fram bæði í rafræna skoðaranum og á skjánum. Ljósmælingin var almennt mjög fín, vélin var oftast að negla mælinguna – án þess að sprengja háljósin.

Litla Hlíð við Þingeyri, Sony A7r, FE 55mm f/1.8 ZA, f/1.8 - 1/5000s @ ISO 100
Litla Hlíð við Þingeyri, Sony A7r, FE 55mm f/1.8 ZA, f/1.8 – 1/5000s @ ISO 100

Ziess linsurnar eru virkilega fínar, góð skerpa, litir og mikrokontrast. Fókusinn er þokkalega hraður, þó að hann eigi nú töluvert í land með að ná fókushraða D-SLR. Þannig að A7r er tæpast vélin sem maður grípur í til að ljósmynda mikið action. Ég veit að töluvert af ljósmyndurum hafa fengið sér Sony A7r til að að bæta við D-SLR kitið, ekki síst Canon ljósmyndarar sem vilja hafa möguleika að fá meiri upplausn. Þá notast menn gjarnan við millihringi t.d. frá Metabones til að nota Canon EF linsur.

Lund Rover við Lómagnúp, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/8 - 1/100s @ ISO 100
Lund Rover við Lómagnúp, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/8 – 1/100s @ ISO 100

Sony A7r er frábær vél og góð kaup þar sem verðið á henni er það lægsta sem sést hefur fyrir full-frame 36MP myndavél. Það er því ekki skrítið að hún hefur fengið mjög góðar viðtökur um allan heim. Canon notendur hafa margir stokkið á hana til að hafa möguleika á því að nota bestu Canon glerin á vél sem gefur meiri upplausn en Canon býður upp á. Nikon D800 eigendur eiga kannski svolítið erfiðara með að réttlæta kaupin. Helsti gallinn við hana að það vantar sárlega góðan víðvinkill frá Sony. Jú, vissulega er hægt að nota millihringi og þannig nota gleiðhornalinsur frá Nikon. En heila málið fyrir mér er að fá létta vél, með nettum linsum sem virka fullkomlega með vélinni. Að troða Nikkor gleiðhornalinsum framan á hana með aðstoð millihringja er ekki alveg málið að mínu mati.

Sólarupprás við Arnarfjörð, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/8 - 1/20s @ ISO 100
Sólarupprás við Arnarfjörð, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/8 – 1/20s @ ISO 100

Engu að síður blóðlangar mig í Sony A7r, hún kemur með nýja möguleika og það eitthvað sem heillar mig alltaf. Vélin lætur lítið yfir sér og fólk verður ekki eins hrætt við mann vs. þegar maður mundar D-SLR fyrir framan það. Myndgæðin eru frábær og gæðin sem hún skilar með því allra besta sem gerist á markaðnum í dag. Það er eitthvað mjög heillandi við að hafa svona netta græju með sér og taka snap-shot sem eru samt sem áður í toppgæðum.

Ég get því óhætt mælt með Sony A7r og hvet alla til að kynna sér þennan kostagrip betur.

Fjallabak í sand og ösku

Það var ekki kræsilegt að Fjallabaki á mánudaginn var. Norðaustan 15 m/s þýðir sand- eða öskufok fyrir allan peninginn á þessum slóðum. Farþegarnir mínir voru ljósmyndari frá New York og konan hans. Þrátt fyrir netta ‘Desert Storm’ – stemningu voru þau í skýjunum með túrinn.

Ég arkaði meira að segja með þau inn Grænagil og upp að Brennisteinsöldu. Það var magnað að vera þarna í svona döpru skyggni. Ég hef farið ófáar ferðirnar inn í Laugar í alls konar birtu og veðri. Það virðist alltaf vera hægt að ná e-h með sér heim sem er brúklegt. Ég er alla vega að fíla þessa ramma ágætlega… hvað finnst þér?

Sveitin

Blue Overalls hanging out to dry outside a farm in South Iceland. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Ég fór um helgina í ferð með 66 Norður. Með í för var hópur erlendra blaðamanna, sem var komin til að kynna sér vörur 66 Norður og hvað Ísland hefur að bjóða ferðamönnum – ekki síst þeirra sem stunda útivist. Megin tilgangur ferðarinnar var að ganga á Hvannadalshnúk á laugardeginum. En það var meira á dagskrá en bara Hnúkurinn. Á leiðinni austur var gert stutt stopp í sveitinni, á dæmigerðum íslenskum sveitabæ.

Old farm house in South Iceland. Large green sacks of fertilizer in front of the building. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Ég held að bændur geri sér margir ekki grein fyrir því hversu miklar gersemar þeir eru með í höndunum. Að komast í snertingu við alvöru sveit, sjá gömlu bæina við hlið þeirra nýju og komast í tæri við dýrin, er upplifun sem margir útlendingar hafa ekki tækifæri til í sínu heimalandi.

Rooster and Hens outside a farm in South Iceland. (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Það sem okkur finnst merkilegt er ekki endilega það sem erlendum gestum þykir merkilegt og öfugt. Konan á þessum fallega bæ tók á móti gestunum með opnum örmum og bauð upp á kaffi og meðlæti inn á heimili sínu. Þegar hún sá að ég var að ljósmynda gömlu húsin sagðist hún skammast sín fyrir ástand þeirra. Hún vissi ekki að fólkið heillaðist að nákvæmlega þessu og fannst frábært að fá að sjá hvernig fólk hafði búið áður. Ég sagði henni að sjarminn við staðinn væri ekki síst sá að upplifa söguna svona ljóslifandi. Það sem okkur þykir ljótt getur nefnilega verið gullfallegt í augum annara.